Bréf frá himnum

Fréttir

Smásögur

Bréf frá himnum

 


Bréf frá himnumeftir Benedikt JóhannessonJesús (þf. Jesúm, þgf. Jesú, ef. Jesú, í ávarpi Jesú; eða nf. Jesús, önnur föll Jesú; eða (sjaldg. ) Jesús, Jesúsar) KK SÉRN * skírnarheiti Krists
Það voru margir á ferli í Bankastrætinu og Jesús þurfti að skáskjóta sér framhjá ungum konum með barnavagna og svifaseinum öldungum. Við Mál og menningu stóðu tveir ungir menn í rykfrökkum og virtust vera að virða fyrir sér nýjustu bækurnar sem stillt hafði verið upp í gluggann, en af því að Jesús þekkti mannlífið vissi hann að þeir voru að spegla sig í rúðunni. „Verðbréfaguttar," hugsaði hann og hristi höfuðið. Hann var svolítið órólegur, hafði fengið óvenjuleg skilaboð um morguninn og vildi flýta sér. En samt var honum mikið í mun að vekja ekki neina athygli. Allt í einu heyrði hann lítið barn kalla: „Mamma, þessi maður er með hamar." Hann hafði gleymt að taka af sér smiðssvuntuna. Hann stoppaði aðeins, sneri frá götunni og byrjaði að losa hnútinn aftan á og smokra af sér svuntunni. Allt í einu var lögð hönd á öxlina á honum og sagt: „Heyrðu, vinur. Við viljum ekki að menn séu að klæða sig úr hérna fyrir framan. Það kemur óorði á staðinn." Jesús, sem þoldi ekki að vera kallaður vinur, ýtti loppunni af öxlinni, leit við og sá slepjulegan mann í teinóttum jakkafötum. Jesús velti því augnablik fyrir sér að gefa honum einn á lúðurinn, en hristi sig síðan, pakkaði saman svuntunni og stakk henni undir hendina. Hvers vegna hafði hann endilega stoppað fyrir framan 22? Komið óorði á staðinn, það var þá.Á móts við Vatnsstíginn fór hann yfir götuna og reyndi að átta sig á aðstæðum. Þetta var Kirkjuhúsið, það var ekki um að villast. Hann átti þá að fara um dyrnar til vinstri samkvæmt skilaboðunum. Af gömlum vana renni hann augum yfir ganginn. Gólfdúkurinn var slitinn, panellinn á veggjunum orpinn, fúkki í loftinu. Stiginn upp var ekki réttur, þrepin greinilega greinilega gerð af laghentum fúskara. Hann hafði átt kollgátuna. Stúlkan í símanum hafði ekki viljað láta hann vita um hvað málið snerist, bað hann að koma á tilteknum tíma, sem var því miður ekki hægt að breyta og allt kæmi ljós þegar hann væri kominn á staðinn. Svona lét fólk sem hélt að það væri merkilegt oft. Aldrei hægt að ræða hlutina í síma. Ekki að hann vildi gera lítið úr starfinu, en hvað ræðir fólk almennt við smið?Hann gekk upp stigann lasna og kom upp á stigapall þar sem við blöstu tvær hurðir, ómerktar. Bak við aðra heyrðist hávær söngur: „Já sólskinsbarn, já sólskinsbarn, guð vill að ég sé honum sólskinsbarn." Það hlýtur að vera hér, hugsaði Jesús og bankaði á dyrnar. Þegar enginn svaraði tók hann í húninn, en það reyndist vera læst. Þá var ekki annað að gera en að athuga hinar dyrnar og þar reyndist auðveldur aðgangur. Inni var miðaldra kona að vefja tyggjógúmmíi um fingurinn á sér og vissi ekki almennilega hvort hún ætti að stinga því upp sig eða henda því, þegar gesturinn kom inn. „Ég er að leita að Biskupsstofu, en hún virðist vera lokuð," sagði Jesús afsakandi. „Nei, hún er hér. Það taka allir feil. Það er einhver lögfræðingur sem leigir þarna á móti og til þess að fara í taugarnar á okkur setur hann á disk með væmnum barnakórum sem hann hefur einhvers staðar tekið upp og spilar þetta svo á fullu allan daginn. Djöfuls ónæði." Konan roðnaði og ákvað að stinga tyggjóinu upp í sig eins og hún gæti með því móti tekið aftur blótsyrðið. „Þú hlýtur að vera Jesús. Ég áttaði mig ekki á því strax. Þú ert allt öðruvísi en ég hafði ímyndað mér. Maður heyrði svo oft talað um þig sem barn." Svo bætti hún við eins og til þess að móðga ekki gestinn: „Og heyrir svo sem enn." Jesús reyndi að brosa góðlega: „Ég rakaði af mér skeggið fyrir nokkrum árum og svo þegar hárið fór að þynnast ákvað ég að stytta það líka." En það var rétt. Jesús vissi vel að hann vakti ekki áhuga fólks eins og í gamla daga. Sic transit gloria mundi.
„Þeir eiga von á þér. Gjörðu svo vel." Áður en Jesús gat spurt hverjir „þeir" væru var konan búin að ýta honum inn í næsta herbergi. En Jesús var alls ekki kominn í venjulega skrifstofu heldur stóð hann í sal sem var eins og lítil kapella. Til beggja handa voru útskornir viðarveggir sem á héngu helgimyndir, laglegir krossar og styttur af postulunum. Fyrir endanum var altari með stórri töflu og stórri ljósmynd af krossfestingunni. Jesús sá ekki betur en Esjan og Akrafjall væru í baksýn. Þrír menn stóðu fyrir altarinu í ljósum kuflum og höfðu mítur á höfði. Úr horninu heyrðust fjórar konur syngja þýðan söng. „Óttastu eigi," sagði maðurinn í miðið. Jesús færði sig nær og sá þá að hann kannaðist við svipinn á mönnunum. Sá sem stóð í miðjunni var sjálfur biskupinn og á hvora hönd voru gömlu biskuparnir tveir. Jesús hafði reyndar minnt að þeir væru löngu dánir, en þetta var vísbending um að svo væri ekki. Allt í einu datt honum í hug að þetta væri sjónhverfing og leit snöggt við. En á bak við hann var veggur með sama móti og hinir og hvergi dyraop að sjá. Nú var Jesús kominn alveg að biskupunum þremur og gat virt þá fyrir sér. Sá yngsti var með þennan áunna, góðlega svip sem landsmenn þekktu frá stórhátíðum, hægra megin var forveri hans, rauðhærður, kringluleitur maður sem hafði holdarfar eins og hann hefði alltaf haft meiri áhuga á sjálfum sér en guði almáttugum. Vinstra megin var svo forni biskupinn, beinaber og svolítið tryllingslegur til augnanna, hefði getað minnt á Jóhannes skírara á efri árum.„Þetta er af Valhúsahæðinni," sagði yngsti biskupinn til skýringar þegar hann sá að Jesús starði á altaristöfluna. Hann bandaði hendinni til söngkvennanna sem hurfu. „Þakka þér fyrir að koma til okkar. Mig hefur alltaf langað til að hitta þig." Jesús varð eitt spurningamerki. „Ég veit að þér er margt til lista lagt, þú ert sannkallaður fjöllistamaður." Jesús reyndi að sýnast hógvær með óræðri höfuðhreyfingu. „Þú ert Jesús Hannes Kristinsson er það ekki," heldur biskup áfram. „Jesús H. Krist …" reyndi Jesús að leiðrétta, en biskupinn hélt áfram. „Segðu mér Hannes, þér er sama þó að ég kalli þig Hannes er það ekki, vinur?" og þó að svipur Jesúsar bæri það glögglega með sér að honum væri ekki sama, hægði það ekkert á biskupnum. Segðu mér Hannes, hvernig fékkst þú þetta óvenjulega nafn sem okkur er öllum svo kært, en Íslendingum ekki tamt að bera, ekki einu sinni bera sér í munn?"Og Jesús varð enn einu sinni að rekja söguna af föður sínum sem hafði verið stundakennari í Fjölbrautaskóla þegar hann heyrði einn af vinnufélögunum kalla: „Hafið þið séð Jesús?" og rétt á eftir „Ég er búinn að finna hann." Pabbinn hélt hinn væri vitlaus þangað til að í ljós kom að Jesús var spænskukennari, upprunninn í Madrid. „Þá ákvað pabbi að vera ennþá fyndnari og láta son sinn heita Júdas, en þegar ég fæddist neitaði mamma og ég endaði sem Jesús Hannes. Hannes í höfuðið á afa. Nefndur en ekki skírður. Pabbi hafði mjög sérstaka kímnigáfu."Biskupinn brosti eins hann hélt að væri vinalegt og sagði: „Þetta var sannarlega áhugaverð saga Hannes minn, en það er ekki þess vegna sem við kölluðum á þig hingað. Ástæðan er sú að mér hefur borist bréf þar sem þú kemur við sögu." Fjárinn, hugsaði Jesús og stamaði: „Ég ætlaði að segja henni að ég væri giftur fyrir, en það var bara sparimerkjagifting, svo …" Biskup bandaði frá sér: „Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða að minnsta kosti settar í frysti, en þetta er allt öðruvísi bréf." Hann ræskti sig. „Þannig er, að öðru hvoru berast okkur bréf sem eru mjög sérstök. Bréf sem ekki er hægt að snúa aftur til sendanda. Bréf af himnum ofan." Jesús vissi ekkert hvað hann átti að halda: „Flugpóstur?" sagði hann til þess að segja eitthvað. Það varð vandræðaleg þögn og svo fór sá gamli að hlæja. Hægt og varlega til þess að byrja með en ágerðist svo þangað til ískraði í honum. Hinir hlógu líka, en kannski meira af kurteisi við öldunginn en kátínu. „Já, líklega áttu kollgátuna," segir biskup meðan sá gamli þurrkaði tárin af kinnunum og Rauður leit út eins og hann væri enn að reyna að skilja brandarann. „En þessi bréf eru alveg sérstök eins og ég sagði. Skilaboð frá DAS köllum við þau, frá Drottni almáttugum sjálfum. Oftast er þetta ekki merkilegt, Maríubænir og hugmyndir að nýjum sálmum, en stundum koma meiriháttar skilaboð." Jesús horfði skilningssljór á biskupana. „Kemur þetta þá frá páfanum?" sagði hann til þess að hljóma eins og hann væri með á nótunum. „Nei, nei, nei," sagði nú sá gamli óðamála og nú fannst þeim kringluleita rétti tíminn til þess að hlæja hæðnishlátri. „Hannes minn. Það er skiljanlegt að þér finnist þetta flókið, en bréfin eru beint frá almættinu, Guði, föður vorum á himnum, sjálfum höfuðpaurnum, stjórnarformanni alheimsins. Við köllum þau sunnudagabréfin og þau falla af himnum ofan í Jerúsalem. Þau eru ekki á vitorði almennings, prestar, jafnvel prófastar hafa ekki hugmynd um þau. En þeirra sem fá biskupsvígslu bíður innsiglað bréf frá DAS. Þar eru almennar leiðbeingar um hvernig maður á að haga sér biskupslega, en þar eru líka spásagnir um atvik verða á biskupsferlinum. Sitt af hverju tagi; veðurspár, dauðsföll, lottótölur og stríð." Allt í einu varð sá kringluleiti enn líkari tungli í fyllingu. „Hvað segirðu? Kemur þetta í stóru brúnu, ómerktu umslagi, innsiglað? Hver skrambinn, ég hélt þetta væri eitthvað frá Ríkisendurskoðun og henti því." Hinir tveir biskuparnir litu hvor á annan og ranghvolfdu í sér augunum.Biskup hélt áfram: „Nú er svo komið, Hannes minn, að í einu bréfana er talað um þig, spásögn, hrakspá verð ég að segja, sem við vildum láta þig vita af." Nú fannst Jesúsi allt í einu eins og hann minnkaði og þessi þrír menn væru dómarar. „Hrakspá? Dey ég?" sagði hann svo. „Eitt sinn skal hver deyja, Hannes minn, en þó bréfið sé ekki alveg nákvæmt, þá er erfitt að skilja það öðruvísi en að þú eigir stutt eftir." Jesús stóð þögull á gólfinu sem honum fannst bylgjast undir fótum sér. „Hvað get ég gert? Hvernig kem ég í veg fyrir þetta?" Nú steig biskup fram og lagði höndina á öxl Jesúsar. „Vilja Guðs fær ekkert breytt. Því til sanninda skal ég segja þér þessa sögu. Í einu bréfinu stóð að stór bíll ylti á Hellisheiði tiltekinn dag og bílstjóri og farþegar dæju drottni sínum samstundis. Ég hugsaði með mér að þetta væri ekki réttlátt og fékk Vegagerðina, Veðurstofuna, Umferðarráð, samgönguráðuneytið, lögregluna, alla sem nöfnum tjáir að nefna til þess að loka heiðinni í heilan sólarhring. Ég varð að segja að mig hefði dreymt fyrir teiknum af himnum. Það fór ekki einn einasti bíll á heiðina heilan sólarhring og ég var þarna sjálfur allan tímann. Auðvitað sáust engin teikn svo ég varð að impróvísera undir miðnættið og segjast hafa fyllst heilögum anda. Sem ég ek í bæinn og þykist hafa gert góða för kveiki ég á útvarpinu. Er þá ekki fyrsta frétt að fólksflutningabíll hafi oltið á Hellisheiði eystri og með honum farist allir sem í honum voru. Drottinn lætur ekki snúa á sig."Jesús varð niðurlútur. „Hvað get ég þá gert? Hvenær kemur kallið?" Hann vissi ekki hvað gera skyldi og lagði svuntuna sem hann var enn með í höndunum á gólfið og settist á hana. Nú setti biskupinn aftur upp góðlega svipinn og dró upp bréf undan hempunni. Hann renndi fingrinum niður eftir því og staðnæmdist við miðja blaðsíðu, leit svo upp og sagði við Jesús: „Það hefur ekki farið framhjá mér að það er langt síðan þú hefur komið fram. Reyndar ætti ég kannski að orða það svo, að ég hef tekið eftir því að þú ætlar að koma fram á laugardaginn kemur eftir langt hlé. Þetta vissi ég reyndar vel því að í bréfinu stendur orðrétt: Jesús reynir endurkomu laugardaginn 17. maí. Vekur lítinn áhuga, verður miður sín, hverfur og sést aldrei aftur. Og af því að ég veit að þú notar listamannsnafnið Jesús, Hannes minn, vildi ég segja þér af þessu. Þú getur þá notað tímann fram að helgi til þess að ganga frá fjármálum, leggja börnunum lífsreglurnar og taka til í bílskúrnum. Svona það sem maður gerir þegar þannig stendur á."„Ég heiti Jesús," byrjaði hann en kom orðunum varla upp. Herbergið sem rétt áður virtist vera heill salur var allt í einu orðið miklu minna og veggirnir virtust þrengja sér í áttina til hans. Samt var eins og orð biskupsins bærust til hans langt úr fjarska. Jesús heyrði bara slitrur. „Eigi má sköpum renna … vilji guðs … fáum engu breytt."


Laugardagurinn var runninn upp. Jesús hafði aldrei lifað aðra eins hörmungarviku. Börnin urðu hrædd við hann þegar hann lagði hendina á öxlina á þeim til þess að gefa þeim góð ráð. Lögfræðingurinn hafði sagt honum að það tæki langan tíma að gera erfðaskrá og þá yrði líka einhver að votta að hann væri heill á geði. Jesúsi líkaði ekki hvernig lögfræðingurinn hafði horft í augun á honum þegar hann sagði þetta. Einhvern veginn virtist það líka hafa kvisast út að hann ætlaði að láta sig hverfa að loknum tónleikunum, þannig að Íþróttahöllin krafðist þess að hann greiddi leiguna fyrirfram. „Svona eru reglurnar," sagði forstöðumaðurinn, „ég bara sem þær, það er þitt að fara eftir þeim." Og Jesús tæmdi bankabókina sem hann hafði annara hugsað sér að færi í jarðarförina. Hann byrjaði að fara gegnum skrifborðið sitt en eina leiðin til þess að minnka óreiðuna virtist vera að leggja eld að öllu draslinu. Honum féllust hendur.Hann var kominn inn í Höll klukkutíma áður en dagskráin átti að hefjast. Leikmunirnir sem hann hafði eytt vikum í að búa til höfðu allir verið settir fremst á sviðið. Hann hafði enga rænu á að stilla þeim rétt upp, þannig að þeir voru nákvæmlega eins og sendibílstjórinn hafði gengið frá þeim. Enda skipti það engu máli hvernig þeir voru settir upp fyrst enginn kæmi. Jesús sat aftast á sviðinu og grét. Svona myndi þetta þá enda. Hann var búinn að taka ákvörðun. Við hliðina á honum lá vélbyssa og fullur kassi af flugeldum. Þau myndu að minnsta kosti sjá það í blöðunum hvernig hann færi.Skyndilega sló klukka. Hávær djúp slög heyrðust úr kassa, nákvæmlega eins og hann hafði ákveðið. Þegar síðasta höggið var dáið út heyrðist djúp rödd segja í hátalarakerfinu: „Stund sannleikans er runnin upp." Jesús reyndi að stíga á fætur, skjögraði og studdi sig við vélbyssuna. Hann fálmaði eftir eldspýtu, kveikti og henti henni að kassanum. Ósjálfrátt hörfaði hann aftur á bak, en hugsaði svo: „Hverju skiptir það?" Hann lokaði augunum andartak, en sýnin sem blasti við þegar hann opnaði þau aftur kom honum í opna skjöldu. Í stað þess að kassinn tættist í loft upp, heyrðust nokkrir smellir og út í salinn streymdi stjörnuregn í öllum regnbogans litum. „Andskotinn, jafnvel á grafarbakkanum mistekst mér allt." Jesús greip vélbyssuna, sneri sér að leikmununum og kúlnahríðin hófst. Kassar, myndastyttur, hátalarar, málaðar leikmyndir tættust upp og reykur fyllti sviðið. Svitinn spratt út og sótið og tætlurnar sem rigndi yfir sviðið settust á hann. Síðasta kúlan þaut út úr byssukjaftinum og svo fór í höfuðið á brúðu sem leit út eins og Jóhannes Páll páfi. Hausinn lyftist af og úr búknum heyrðist söngur: „Sólskinsbarn, já sólskinsbarn. Það vil ég vera fyrir hann."Úr loftinu fyrir miðju sviði hékk kaðalstigi og þó að Jesús sæi varla út úr augunum tókst honum að finna reipin. Hann ætlaði að klifra upp eins langt og hann gæti og stökkva niður. Hinn endanlegi gerningur. Krafturinn var minni en í gamla daga en samt tókst honum að vega sig upp, eitt þrep af öðru. Brunalyktin fyllti vitin en reykurinn var að þynnast. Hann var kominn upp í 15 metra hæð og sér til ánægju heyrði hann í sírenum. Þetta vakti þá einhverja athygli eftir allt. Ókennilegur niður fyllti hlustirnar. Jesús beit á jaxlinn og taldi upp að þremur. Hann kyngdi og taldi aftur, nú upp að fimm. Nú var komið að því og hann reyndi að greina hvaða hávaði þetta var, þungur og reglubundinn og eins og hann myndaði taktfast: Ökk, ökk, ökk. Hann opnaði augun í síðasta sinn og leit yfir salinn. Svona leit þá niðurlægingin mikla út. Salurinn var þakinn ösku og tætlum úr sviðsmunum. -Og fullur af fólki.- Jesús lokaði augunum aftur og nuddaði þau. Sjónhverfing dauðans, eða hvað? En það var ekki um að villast. Höllin var full af fólki sem klappaði taktfast og kallaði: Stökktu, stökktu, stökktu. Jesús trúði ekki því sem hann sá. Enn gat hann fyllt stærsta hús landsins af aðdáendum. Bréf frá guði, einmitt. Hann breiddi út faðminn yfir salinn og lét sig detta. Salurinn trylltist.


Það voru liðnar margar vikur frá endurkomunni og Jesús var kominn heim aftur. Hann hafði ekki þurft að vera nema nokkra daga á spítalanum. Hreinn óþarfi ef ekki hafði verið þetta slökkviliðsmannsfífl. Hann hafði beitt gamalkunnu bragði, slöngufallinu, þar sem hann hlykkjaðist niður stigann, í stað þess að falla í frjálsu falli. Hann átti ekki nema þrjá metra eftir þegar slökkviliðið var komið að stiganum, greip í hann og Jesús féll eins og trjádrumbur. Slæm bylta var allt og sumt, en áhorfendur voru frá sér numdir þegar hann var borinn út í sjúkrabörum. Mogginn hafði sagt frá atburðinum á baksíðu: Áhorfendur vitni að stysta og eftirminnilegasta gjörningi fjöllistamannsins Jesúsar. Óður múgur í gleðivímu veldur vargöld í höfuðborginni. Það var verra með að hann var fluttur beint úr spítalanum á Hraunið. Forsetinn skarst í leikinn og náðaði hann. Helvítis fíflið. Þetta hafði verið frábær endir á gerningnum.Og nú lá hann semsagt í sófanum heima hjá sér og las mánaðarskammt af Mogganum. Börnin trufluðu hann ekki, þau voru stolt af því að pabbi þeirra var hættur að vera skrítinn og orðinn svalur eins og í gamla daga. Jesús festi illa hugann við efnið. Mogginn eldist ekkert mjög vel. Allt í einu rak hann augun í litla klausu sem augljóslega var sett sem uppfyllingarefni með tilkynningum um fundi og messur.
Misheppnaður „frelsari"Hópur úr kaþólskum sértrúarhópi lét þau boð út ganga að laugardaginn 17. maí síðastliðinn myndi frelsarinn sjálfur snúa aftur og ávarpa mannfjöldann, lækna líkþráa, blinda og lama menn á stærsta íþróttavelli Rio de Janero. Hafði trúflokkurinn auglýst þennan atburð vandlega í blöðum, á netinu og með veggspjöldum um alla borgina. Endurkoman átti ekki að geta farið fram hjá neinum. Þegar til kastanna kom reyndust fáir hafa látið tælast af þessum einstæða viðburði. Einn örfárra blaðamanna á staðnum sagði svo frá að eldstólpi hefði komið af himni. Þegar hann slökknaði stóð þar maður í hvítum kirtli, bjartur yfirlitum, með sítt hár og vel snyrt skegg. Honum var í fyrstu vel tekið en þegar hann hvatti viðstadda til þess að iðrast synda sinna og gera yfirbót fækkaði óðum á þunnskipuðum áhorfendapöllum. Þegar í ljós kom að vatn sem menn höfðu keypt í góðri trú var í raun hvítvín, sauð þó upp úr og lýðurinn gerði hróp að „frelsaranum." Steig hann þá aftur upp til himna með þeim orðum að Drottinn ætti að fyrirgefa áhorfendum því þeir vissu ekki hvað þeir gerðu. Var það mál manna að atburðurinn hefði valdið miklum vonbrigðum. AP.
Jesús lagði frá sér blaðið, lygndi aftur augunum og fékk sér lúr.

More News

Smásögur

Fallega fólkið

eftir Benedikt Jóhannesson I. Jennifer: Finnst þér ég vera rangeyg? Brad: Ha? J: Joey sagði alltaf...

Smásögur

Forleikur

Engin smá saga eftir Benedikt Jóhannesson. Ég vil ekki eyða miklu plássi í smáatriði en ég held að...