Dýrin í garðinum

Fréttir

Smásögur

Dýrin í garðinum


Dýrin í garðinumHöfundur: Einar KárasonÉg var eiginlega búinn að draga mig út úr ferðamálabransanum, hafði fengið nóg af því í bili að skipuleggja móttöku útlendinga, en hafði um sinn tekið upp á mína arma stofnun sem ég taldi eiga nokkuð mikla möguleika ef rétt væri á málunum haldið og komið yrði skipulagi á rekstur og kynningarmál; þetta var gamli dýragarðurinn sem kallaðist Sædýrasafnið. Það hafði verið á fallanda fæti um hríð, og ég hélt það þyrfti bara nýjar hugmyndir og ferska vinda til að koma öllu á réttan kjöl. En þegar til kom reyndist erfiðara að koma rekstrinum á lappirnar en ég hafði gert ráð fyrir.


Á blómatíma safnsins höfðu menn fengið þangað ýmsar framandi skepnur til viðbótar við okkar eigin heimskautafánu. Þarna voru til dæmis tvö stæðileg ljón, með mikinn leiða í svipnum, geymd í rimlabúri með steingólfi. Árum saman höfðu þau reynt að grafa sér leið út úr þessu búri með því að krafsa stöðugt í steingólfið með annarri framloppunni, en sem betur fer kunnu þessi ljón ekki að reikna því þá hefðu þau líklega áttað sig á að það tæki margar aldir með þessu móti að sleppa úr prísundinni. En þrautseigja þeirra var óbilandi og vakti með manni sambland aðdáunar og hryggðar, þau kröfsuðu og kröfsuðu, óstöðvandi... Þarna voru sömuleiðis slöngur, hálf slepjulegar, og líka apar, öllu glaðværari skepnur. Við safnið voru auk mín tveir aðrir starfsmenn, stórskrýtnir bræður. Þeir voru fyrir löngu búnir að missa áhugann á safndýrunum höfðu fundið sér önnur meira spennandi; rotturnar sem sátu um fóðurbirgðirnar. Þeir voru svo hugfangnir af því verkefni að kenna rottunum allskyns kúnstir og klæki að oft gleymdu þeir að sinna safndýrunum, og lenti á mér mikil vinna bara við að halda þessum rugludöllum við efnið. Og fyrir vikið lenti líka á mér að standa í allskonar stappi við opinberar stofnanir; ekki bara veitustofnanir, sorphirðuna og Heilbrigðiseftirlitið, heldur líka Dýraverndarráð sem var með stöðugar aðfinnslur.


Reyndar snertu aðfinnslurnar ekki beinlínis sjálf safndýrin, heldur aðallega fæðið sem þau létu ofan í sig. En sum dýranna vildu helst fá lifandi bráð, og höfðum við um hríð alið þau á lifandi kjúklingum. Það voru til dæmis uglurnar. Þær hefðu fremur kosið að svelta í hel en að leggja sér til munns kaldan og dauðan mat. Uglurnar var samt hægt að plata með því að snúa kjúklingana á háls fyrir framan búrin og henda þeim svo volgum inn, og þá létu uglurnar sig hafa það að renna sér á bráðina...


Öðru máli gegndi um slöngurnar. Þær vildu fá að fylgjast lengi með væntanlegum kvöldverði á vappi fyrir framan sig áður þær gleyptu hann í sig, svona ámóta og drykkjumenn sem horfa um hríð ástaraugum og með heimspeki í svipnum á glasið áður en þeir fá sér næsta sopa. Og Dýraverndarráð sagði að þetta væri ómannúðleg meðferð á kjúklingnum, að láta hann kjaga kannski tímunum saman, lamaðan af ótta, fyrir framan slöngurnar, sem sleikja útum ef þær sjá krásir, ein allra skepna, að manninum undanskildum. Og við starfsmennirnir urðum að koma þarna á nóttum og lauma lifandi fiðurfé inn í búrin, og ef við vorum heppnir voru fuglarnir horfnir um morguninn, og engin merki um þá önnur en gúlpur á slöngunni, sem færðist stöðugt neðar og fór smá-rénandi...


Ég var því dauðfeginn þegar hringt var í mig, fræg popphljómsveit, vildi fá mig á fund til ráðgjafar, sjálfur Ringó Starr úr Bítlunum var væntanlegur til landsins og það þurfti að standa fagmannlega að málum við móttöku hans. Ég setti rottutemjarana tvo yfir safnið, allshugar feginn að losna um stund úr þessu rugli.


Ég hitti músíkantana á heimili eins þeirra, þeir sátu hringinn í kringum sófaborð, buðu mér sæti. Við ræddum um heima og geima, mér létti við að finna að þetta voru afslappaðir og alþýðlegir menn, lausir við mont og hroka.


-Hvað á ég að geta ráðlagt ykkur? sagði ég svo.


-Ja, þú ert náttúrlega kunnur maður úr ferðamálabransanum og með víðtæka reynslu, sagði hljómsveitarstjórinn; -og það vakti töluverða athygli þegar þú stóðst upp á stóru landkynningarráðstefnunni á Hótel Sögu í fyrra, og varst með vel rökstudda og sundurliðaða gagnrýni á skort á fagmennsku við móttöku frægra útlendinga. Þú nefndir þá sérstaklega heimsókn Elísabetar Bretadrottningar, og reyndar líka páfans. Geturðu aðeins brífað okkur svona um megininntakið í þinni krítík.


Og ég endurtók þarna í stofunni með poppurunum það helsta sem ég hafði drepið á í áðurnefndri gagnrýni. Hélt mig aðallega við dæmið um Bretadrottningu. Þar er á ferð kona, umvafin lífvörðum, sem fer um allan heim, og allar hennar ferðir verða að fylgja breskri nákvæmni, í tíma jafnt sem siðum og háttum. Það þýði ekkert fyrir okkur að taka á móti svoleiðis fólki, með svona íslenskum moðreyk, og "það reddast" viðhorfinu.


-Og hvað fór helst úrskeiðis? sögðu poppararnir.


-Ja, ég nefni sem dæmi heimsókn drottningarinnar til Þingvalla. Hún fór austur á bíl, en það var löngu búið að tilkynna að hluti af lífvörðum hennar færi á undan í þyrlu. Samt hafði enginn gert ráðstafanir til að útbúa lendingarstað fyrir þyrluna, sem var náttúrlega skandall... Svo að þeir sveima þarna yfir Þingvallabænum og kirkjunni, og skima eftir lendingarstaðnum sem er yfirleitt merktur, tildæmis á húsþök eða þyrlupalla á skipum, sem hringur með krossi inní. Jæja, svo reka þeir augun í þannig merki, hring með krossi, við hliðina á sjálfri kirkjunni. En þá verður voða pat hjá móttökunefndinni, því að þetta er ekki þyrlupallur, heldur sjálfur Þjóðargrafreiturinn. Og sóknarpresturinn þarna, sem er líka staðarhaldari, hann æðir út í grafreit í ofboðsfáti og veifar höndunum fyrir ofan höfuðið, til að bægja þyrlunni frá.


-Sem voru mistök? spurðu poppararnir.


-Ja, mistök? Að veifa höndunum á þennan hátt er líka alþjóðlegt tákn úr flugbransanum, rétt einsog hringurinn með krossinum, og merkir að lending sé heimiluð. Og þyrlan hlunkaði sér beint niður á grafir þjóðskáldanna.


-En það var ekki allt búið enn?


-Nei, einsog ég segi, Bretar eru þekktir fyrir nákvæmni, Fíleas Fogg úr Umhverfis jörðina á áttatíu dögum er þeirra maður, alltaf á slaginu! Og Beta átti ekkert að stoppa, bara sjá þingstaðinn gamla og kannski gróðurssetja eitt tré. En presturinn var nú samt búinn að fá leyfi til að kynna fyrir henni kirkjuna með fáeinum orðum, sú heimsókn átti að taka fimm mínútur, ekki augnabliki lengur! En staðarhaldarinn var kannski svona skekinn eftir þetta atvik með þyrluna, auk þess sem hann er ekki beinlínis kunnur fyrir að vera gagnorður, og hann malaði og malaði. Á meðan beið Beta Bretadrottning, í popplínkápunni, og með frúarveskið. En lífverðirnir voru ekki eins þolinmóðir, þeim er uppálagt að grípa inní ef einhver virðir ekki tímaáætlanir, og þegar guðsmaðurinn var búinn að mala í tæpan klukkutíma var með naumindum að íslenskum lögreglu- og embættismönnum tókst að afstýra því að lífverðirnir ryddust inn í kirkjuna til að skjóta prestinn.


-Það er semsé þetta, sögðu poppararnir; -aðalatriðið að klikka hvergi á nákvæmri tímaáætlun.


-Já, sagði ég, -en það er náttúrlega fleira en það. Útlendingar hafa gjarnan sínar reglur og sínar venjur, og við verðum að læra að stilla okkur inn á þær. Einsog Bretadrottning, úrþví við erum farnir að taka dæmi úr hennar heimsókn; hún hélt veislu hér fyrir öll fyrirmenni landsins. Og það er siður, margra alda gamall, að þjóðhöfðingi Breta komi síðastur í svoleiðis veislur. Allir eiga semsé að vera mættir tímanlega og sestir við sín borð þegjandi og í ákveðnum stellingum, og þá loks er gefið merki, og dyr opnast fyrir miðju salarins, og drottningin gengur síðust í salinn og allir aðrir standa upp.


-Og feiluðu menn á þessu? sagði leiðtogi popparanna.


-Svona líka. Allt gekk vel, menn sátu þegjandi, svo opnuðust dyrnar og hún gekk inn, dyrnar lokuðust og allir stóðu upp. En hún er ekki komin nema nokkur skref inn eftir gólfinu þegar hurðin er rifin upp á nýjan leik, að baki hennar, og sjálfur forsætisráðherra Íslands kemur skransandi inn, með úfinn makkann, og segir yfir allan salinn: -Fyrirgefiði hvað ég kem seint!***Og Ringó Starr kom svo hingað tveimur vikum síðar, einsog menn vita. Ég held að þessi heimsókn slagverksleikarans knáa frá Liverpool sé flestum í fersku minni... Hann kom til að heimsækja útihátíð á Austurlandi, og þetta er náttúrlega í eina skiptið sem einhver Bítlanna hefur heiðrað okkur Íslendinga með nærveru sinni; um þessa heimsókn var samið vinsælt dægurlag, og flestir landsmanna hafa séð sjónvarpsupptöku af því þegar Ringó sté á stokk og lék eitt lag með íslenskum kollegum sínum. Ég tók virkan þátt í að undirbúa heimsókn hans, og ég held að ég sé ekkert að hrósa sjálfum mér úr hófi fram þótt ég minni á þá staðreynd að allar tímaáætlanir stóðust fyllilega, allt gekk smurt; hann þurfti hvergi að hangsa, honum var ekki íþyngt með sveitamennskunni í okkur. Að vísu eru hirðsiðir og tímaplön dægurtónlistarmanna ekki einsog tíðkast hjá heimafólki í Buckinghamhöll, og það einfaldar töluvert málin. Hinsvegar hafa svona menn einsog Ringó vanist engu nema fínasta lúxus heimsins í áratugi, frá því þeir komust á fullorðinsár, og við sem stóðum að móttöku hans vorum allir á einu máli um að við yrðum að kunna að bjóða honum það besta sem til er í mat og drykk hér á landi; heimsfrægum listamönnum sem dvalið hafa á öllum fínustu hótelum heims býður maður ekki uppá fitugan þjóðvegasjoppuborgara með kámugri kokteilsósu, einsog hverjum öðrum gleðigjafa af Suðurnesjum. Aðeins það fínasta sem töfrað verður út úr íslensku eldhúsi skyldi heimsfrægur maðurinn fá...


Hann lenti með konu sinni í Reykjavík, bæði voru þau klædd loðpelsum einsog heimskautafarar, þarna um hásumarið... En þau voru drifin beint inní aðra flugvél sem beið þeirra og voru komin klukkustund seinna á útihátíðina austur í Hallormsstað, þarsem veðrið og náttúran skörtuðu sínu fegursta, ekki vantaði það. Þegar austur kom var búið að dúka borð fyrir unaðslegan dinner, frægustu kokkar landsins höfðu þar vélað um, og þeir voru sammála um að engar krásir úr nægtarborði íslenskrar náttúru jöfnuðust á við humarinn úr hafinu í kringum landið, tæru og hreinu. Og þar komu nú kannski helstu vonbrigðin sem tengdust heimsókn hans, því að þegar humarinn, sem sóttur hafði verið ferskur og lifandi með flugvél til Hornafjarðar, var borinn á borð fyrir heiðursgestinn, þá brosti hann kurteislega og sagði:


-Ég ét aldrei neitt sem skríður.


Nú, hann át svosem vel samt sem áður, gerði sér að góðu þann alþýðlega kost sem starfsfólkinu hafði verið búinn, en samt voru þetta okkur í móttökunefndinni mikil vonbrigði. Svo við vildum sýna honum einhver önnur merki þess að við kynnum að taka á móti heimsborgurum, og spurðum hvað honum þætti gott að drekka; kampavín, viskí, koníak?... Og hann kveikti strax á koníaki, -koníak er fínt! sagði hann. Og nú var úr vöndu að ráða; einn af róturunum var með flösku af einhverjum þriggja stjörnu rudda, en ekki ætluðum við að bjóða heimsfrægum manninum uppá það. Svo við hringdum í fínasta hótelið í Reykjavík, til hans Skúla á Holtinu, hann var frægur fyrir vínkjallarann sinn. Og Skúli reyndist eiga nokkrar fínar flöskur, meðal annars napóleonskoníak frá liðinni öld sem hann hafði keypt á uppboði í London, og þetta fengum við hann til að senda okkur með flugvél. Og hann lét sérstakan þjón fylgja með, vínþjón af Holtinu sem kunni að gera grein fyrir svona dýrmæti, og tæpum tveimur tímum síðar var flugvélin lent og þjónninn kominn á staðinn.


Hróðugir tilkynntum við Ringó að nú væri koníakið hans komið, og þjónninn tók stór útskorin kristalsglös úr fórum sínum, botnfyllti þau og bar fyrir hjónin með stuttri kynningu á sögu þessara veiga, stóð svo teinréttur með hallandi flöskuna; hún var græn og rykfallin og miðinn litverpur og trosnaður. Ringó var augljóslega glaður að fá koníakið, en þó var einsog hann saknaði einhvers, og eftir nokkra bið leit hann í kringum sig, sneri sér svo að næsta manni og sagði:


-Og hvar er svo kókið til að blanda með?


Að öðru leyti gekk þetta allt einsog í sögu einsog ég hef áður getið um; þau hjónin flugu heim morguninn eftir; það eina sem eitthvað fór úrskeiðis var kannski þegar hann var á leiðinni á svið seinna um kvöldið, en hann sýndi það lítillæti að vilja koma fram með íslenskum kollegum sínum einsog menn vita. Hljómsveitarpallur útihátíðarinnar var í skógarrjóðrinu í Atlavík og mikill manngrúi þar í kring og flestir drukknir, og ekki hættandi á að láta alheimsstjörnu labba í gegnum þvöguna. Svo að við sóttum bíl uppað dyrum og laumuðum Ringó í baksætið og ókum að hljómsveitarpallinum; á honum voru dyr baksviðs og ekki nema fáeinir metrar þangað frá þeim stað þarsem bíllinn nam staðar. Og þegar enginn virtist í augsýn átti að vera óhætt að láta trommarann skjótast þarna á milli án teljandi vandræða...


En samt fór það nú svo að einn fullur náungi náði af honum tali. Sá hafði brugðið sér bakvið tré til að pissa, en þegar hann var búinn að ljúka sér af og var með glöðum og drukknum handtökum að brasa við að renna upp klaufinni, sá hann snarast út úr bíl mann sem hann þóttist nú aldeilis kannast við. Og hann rak upp fagnaðarvein, og áður en nokkur náði að átta sig var hann kominn með trommarann í fangið og kyssti hann vota kossa á báða vanga. Ringó er fremur smávaxinn einsog menn vita, en hinn glaðværi útihátíðargestur var hinsvegar stórvaxinn maður í svellþykkri lopapeysu og með langstaðna skeggbrodda, og þegar hann hafði knúsað popparann um hríð veinaði hann hamingjusamur:


-Þú kenndir mér smíði á Eiðum!***Þegar ég kom aftur á Sædýrasafnið voru aparnir búnir að temja sér nýjar kúnstir. Þeir lærðu fyrir löngu að sníkja góðgæti af gestum og gangandi, og gerðu það reyndar á mjög skemmtilegan og sjarmerandi hátt, sem erfitt var að standast; þeir horfðu á mann þessum glettnu augum sínum, klöppuðu einu sinni saman lófunum og réttu svo fram höndina út á milli rimlanna. Og það voru margir sem ekki stóðust þetta, heldur þreifuðu í vasa sína, fundu karamellu eða sleikibrjóstsykur og hentu til þeirra; það voru svona tveir metrar á milli apabúrsins og rekkverks sem hindraði að gestir færu of nærri þeim. Og það var frábærlega fyndið að sjá af hve mikilli fimi og gleði aparnir gripu það sem hent var til þeirra; rifu svo bréfið utanaf og gæddu sér á namminu, með smjatti og gleðiópum. En þeir voru semsé komnir með nýtt tilbrigði við þennan leik, ekki eins heillandi. Nú var háttur þeirra að klappa einu sinni saman lófum, og rétta svo fram aðra höndina; en ef menn hentu engu nammi til þeirra þá urðu aparnir reiðir, brugðu hendinni undir rassinn, skitu í lófann og grýttu í gestina. Og aparnir voru þrælhittnir, það máttu þeir eiga... Og þegar ég sá þetta rann það skyndilega upp fyrir mér hvað það var sem Ringó sagði, eða það sem mér fannst hann segja þegar hann var að kveðja og sneri sér við í flugvélardyrunum:


-Bye bye suckers!


Eða mér finnst einsog hann hafi sagt það. Ég er samt ekki viss....Britist áður í jólablaði Vísbendingar 1998

More News

Smásögur

Fallega fólkið

eftir Benedikt Jóhannesson I. Jennifer: Finnst þér ég vera rangeyg? Brad: Ha? J: Joey sagði alltaf...

Smásögur

Bréf frá himnum

eftir Benedikt Jóhannesson Það voru margir á ferli í Bankastrætinu og Jesús þurfti að skáskjóta sér...

Smásögur

Forleikur

Engin smá saga eftir Benedikt Jóhannesson. Ég vil ekki eyða miklu plássi í smáatriði en ég held að...