Evrópusambandið

Fréttir

Vísbending

Evrópusambandið

Evrópusambandið hefur verið á dagskrá margra hér á landi undanfarnar vikur. Afstaða manna til sambandsins virðist oftar en ekki vera þvert á flokkslínur og stuðningur við aðild kemur oft úr óvæntri átt. Formaður Byggðastofnunar sagði til dæmis um daginn frá því að byggðamál væru í mun betra farvegi innan Evrópusambandsins en hér á landi. Landbúnaðarráðherra segir hins vegar frá því í Degi að Evrópusambandið sé "klúbbur hinni ríku" og mætti því fljótu bragði telja að eftirsóknarvert væri að komast í slíkan klúbb en sú mun ekki vera skoðun ráðherrans.


Margt af því sem sagt er um Evrópusambandsaðild, bæði með og á móti, ber vott um það að þekking á sambandinu er alls ekki nægilega mikil meðal þeirra sem um málið fjalla. Síðastliðið vor kom mjög vönduð skýrsla um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi frá Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra. Það vekur athygli að ráðherrann hefur í kjölfar skýrslunnar orðið mun jákvæðari í garð umræðunnar um ESB en áður, en hann sat á sínum tíma hjá þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var samþykktur á Alþingi. Í skýrslu ráðherrans er fjallað mjög ítarlega um hina ýmsu þætti í Evrópusambandinu annars vegar og Evrópska efnahagssvæðinu hins vegar. Ekki leynir sér að hvergi hefur verið kastað til skýrslunnar höndum, en hins vegar er á henni sá galli að hún er mjög löng, 331 blaðsíða alls, og því hafa færri komist yfir að lesa hana en skyldi. Það væri mjög þarft að semja styttri útgáfu þar sem dregin væru fram ýmis aðalatriði í stuttu máli. Hér á eftir verður þess freistað að benda á nokkur atriði sem fjallað er um í skýrslunni og varða þau mál sem einkum hefur verið rætt um sem hagsmunamál Íslendinga. Stórir hlutar af umfjölluninni eru teknir beint úr skýrslunni.Efnahagslegt og pólitískt samstarf


Grundvallarmunur er á Evrópusambandinu og fríverslunarbandalaginu EFTA. Það fyrrnefnda er pólitískt samband þar sem einstakar stofnanir hafa völd til þess að taka ákvarðanir sem einstök ríki eru bundin af. Það sem meira er að ef lög einstakar aðildarríkja brjóta í bóga við Evrópurétt gengur hann framar lands lögum. Miklu máli skiptir að öll ríki fylgi sömu leikreglum og ekkert ríki beiti annað yfirgangi.  EFTA er hins vegar bandalag sem ætlað er að efla verslun milli aðildarríkja. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þurfti að samræma mjög ólík sjónarmið og brúa réttarkerfi sem eru ólík og við fyrstu sýn illsættanleg. Í upphafi var samstarfið milli tveggja allstórra bandalaga, þótt auðvitað væri ESB miklu stærra. Eftir að Svíþjóð, Austurríki og Finnland gengu í Evrópusambandið og Sviss ákvað að standa utan EES hefur dregið úr vægi þess samnings pólitískt séð, þótt hann hafi sama gildi og áður og frá sjónarhóli Íslendinga hafi flest markmið hans náðst. Kostir hans eru meðal annars þeir að hér á landi hefur frjálslegri og nútímalegri löggjöf náð mun hraðar lagagildi en búast hefði mátt við ella.


Íslendingar hafa hins vegar sætt sig illa við að þurfa að beygja sig undir vald ESB í ýmsum málum og ber þar sjávarútvegsmál hæst. Landbúnaður og sjávarútvegur eru innan Evrópusambandsins ekki taldar vera alvöru atvinnugreinar í þeim skilningi að þær eigi að standa undir sér sjálfar. Miklir styrkir renna til greinanna, einkum landbúnaðar. Með þessu móti er dregið úr hvata til hagræðingar innan greinanna og leiðir því beinlínis til langtíma veikingar á greinunum, þótt markmiðið sé þveröfugt það er að styrkja þessar greinar sem oft skipa stóran sess í atvinnu í afskiptum og fámennum byggðalögum. Í skýrslunni er bent á að í Evrópusambandinu sé lögð rík áhersla á menningarlega og sérstöðu og þjóðfélagslegt hlutverk landbúnaðar og ætti sú afstaða að falla mörgum þeim vel í geð sem lagst hafa gegn ESB hér á landi, en kannanir benda til þess að andstaða við sambandið sé meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.


Einn helsti gallinn á við núverandi stöðu Íslendinga gagnvart ESB er sá að stjórnvöld geta ekki haft bein áhrif á ákvarðanir sem skipta miklu, vegna þess að æðstu stjórnstig ESB eru lokuð Íslendingum. Þetta hefur þann ókost að ef mál sem afgreidd hafa verið innan Evrópusambandsins eru óaðgengileg EFTA löndunum þá þarf annaðhvort að semja um sérstaka aðlögun að þeim eða undanþágu eða hafna þeim. Með slíkri höfnun taka menn áhættu á því að einhver hluti viðauka við EES-samninginn verði felldur niður. Fram til þessa hefur raunin þó ekki verið sú að þetta hafi valdið Íslendingum sérstökum vandræðum.Kostnaður við samstarfið


Um það er ekki deilt að Evrópusambandið og stofnanir þess munu leggja auknar byrðar á Íslendinga frá því sem nú er. Í skýrslunni er það metið svo að kostnaður á hvert mannsbarn hér á landi geti numið um 33 þúsund krónum eða um 9 milljörðum króna alls. Hækkunin frá því sem nú er vegna EES-samningsins gæti numið um 8 milljörðum króna. Í þessu sambandi er þó ekki tekið tillit  til þess að styrkja yrði nokkur ráðuneyti og stjórnsýslustofnanir hér á landi til þess að sinna nýjum verkefnum. Sérstaklega þyrfti að auka við starfslið forsætisráðuneytisins en það er fremur fámennt hér á landi og utanríkisráðuneytisins. Líklega þyrfti einnig að fjölga sendiráðum í Evrópu. Ekki er gott að meta þá kostnaðaraukningu til fjár sem af þessu hlytist en einn milljarður virðist ekki vera glannaleg ágiskun. Vegna þess hve rík þjóð Íslendingar eru miðað við aðrar Evrópuþjóðir myndi minna fjármagn koma hingað til lands en frá landinu færi. Í skýrslunni er talið líklegt að til baka rynnu um fimm milljarðar í formi styrkja vegna byggðastefnu, mest til landbúnaðar. Gera yrði ráð fyrir því að einhverjum útgjöldum yrði létt af ríkissjóði vegna þessa, en líklega yrði styrkjakerfið með öðrum hætti en nú er. Íslendingar styrkja til dæmis sjávarútveg ekki beint, þó að sjómannaafláttur á sköttum sé vissulega óbeinn stuðningur. Almennt talað hafa Íslendingar lagst gegn því að sjávarútvegur sé styrktur og því myndu þeir varla taka við styrkjum til slíkra fyrirtækja, ef samræmi á að haldast í stefnunni í þessu efni.


Þjóðin hefur þegar náð stórum hluta af efnahaglegum ávinningi við Evrópusamstarfið með EES-samningnum. Líklegast myndu áhrif á einstaka mál geta orðið þjóðinni til góðs fjárhagslega þegar til skemmri tíma er litið. Í skýrslunni kemur þó oft fram að stjórnmálamenn í Evrópu láti oft skammtímahagsmuni ganga fyrir langtímaávinningi. Ekki er ólíklegt að íslenskir stjórnmálamenn kynnu að falla í sama pytt þannig að jafnvel þarna leynast hættur. Þó verður að telja það líklegt að íslenskir stjórnmálamenn myndu gæta þess eftir fremsta megni að ekki yrði á landið hallað og að þeir gætu dregið úr hættu á því að ákvæði sem kæmu Íslendingum sérlega illa kæmust inn í ákvarðanir sambandsins.


Tollar innan Evrópusambandsins falla niður en hins vegar eru sameiginlegir tollar gagnvart öðrum þjóðum í sumum tilvikum hærri en nú eru hér á landi. Íslendingar hafa gert margvíslega samninga við aðrar þjóðir um viðskipti, en vafalaust dregur fámenni þjóðarinnar úr áhuga margra á því að gera gagnkvæma samninga. Að þessu leyti er Íslendingum styrkur að samstarfinu.Sjávarútvegsstefnan


Sjávarútvegur er ekki stór hluti af hagkerfi Evrópusambandsríkja og með stækkun sambandsins mun vægi hans minnka enn. Ótti marga við ESB felst aðallega í sjávarútvegsstefnunni og þá þremur atriðum: Útlendingar myndu hópast á fiskveiðiskipum inn í fiskveiðilögsöguna, Íslendingar réðu ekki heildarkvóta og fiskveiðistefnu og útlendingar gætu keypt hluti í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Af skýrslunni má ráða að ótti við þessi atriði hafi verið magnaður óþarflega mikið upp þótt ekki sé rétt að láta eins og allt verði óbreytt ef Ísland gengi í ESB.


Markmið yfirlýstrar stefnu ESB eru svipuð því sem Íslendingar vilja það er að vernda beri fiskistofna með ýmsum reglum, þeirra á meðal ákvæðum um hámarksafla. Aflamarkið er þó ekki ákveðið af hverju ríki fyrir sig heldur sameiginlega fyrir allt sambandið. Líklegt er talið að varðandi staðbundna stofna hér við land myndu Íslendingar áfram sitja einir að fiskimiðunum. Varðandi flökkustofna myndu erlend ríki hins vegar fá að veiða hluta af sínum stofnum innan íslenskrar lögsögu. Á ári hverju eru tillögur um heildarafla fyrir almanaksárið bornar upp á fundi sjávarútvegsráðherra ESB. Líklegt er að á þessum fundum myndi ráðgjöf Íslendinga vega mjög þungt, en þeir hefðu ekki endanlegan ákvörðunarrétt. Starfsreglur geta breyst og jafnvel þótt ekkert bendi til þess nú að sambandið myndi reyna að klekkja á Íslendingu í þessu efni þá er ekki hægt að treysta því að aðstæður gætu ekki breyst í framtíðinni þannig að hallað yrði á Íslendinga eða óhagstæðar ákvarðanir teknar að dómi íslenskra aðila.


Varðandi síðasta málið, fjárfestingar útlendinga í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum þá hafa menn réttilega bent á að það sýni mikinn tvískinnung að banna þær meðan Íslendingar geta auðveldlega keypt erlend útgerðarfyrirtæki, meðal annars innan ESB. Jafnframt hafa forystumenn margar stórra sjávarútvegsfyrirtækja lýst yfir stuðningi við það að þetta bann yrði fellt úr gildi. Vera kann að þetta ákvæði verði látið gilda áfram þar til ákvörðun hefur verið tekin um auðlindagjald, en sumum finnst skömminni skárra að Íslendingar fái "gjafakvóta" en útlendingar. Mjög ólíklegt er talið að þetta ákvæði fengi að gilda áfram ef Ísland yrði aðili að ESB.


Munur er á verndarstefnunni kemur fram á ýmsum sviðum. Íslendingar banna brottkast smáfisks meðan í Evrópu ríkjum er óheimilt að koma með slíkan afla að landi. Hugsunin er sú að menn varist að veiða fisk sem þeir þurfi að henda.


Einn galli við ESB-aðild er sá að þá ættu útgerðir og fiskvinnsla í sumum tilvikum rétt á styrkjum úr sjóðum sambandsins. Slíkir styrkir eru andstæðir þeirri skynsamlegu stefnu stjórnvalda hér á landi að leita eigi hámarkshagræðis í greininni. Því yrðu þessir styrkir skref aftur á bak fyrir Íslendinga. Landbúnaðarstefnan


Landbúnaður yrði líklega sú grein sem yrði fyrir mestum áhrifum ef Íslendingar ganga í ESB. Talið er að hefðbundnum landbúnaði geti gengið allvel, það er sauðfjárbúskap, mjólkurframleiðslu og jafnvel nautgriparækt, en þessar greinar myndu njóta umhverfis- og  harðbýlisstyrkja. Enginn stuðningur myndi hins vegar fást til svínakjöts- kjúklinga og eggjaframleiðslu. Matvælaiðnaður myndi jafnframt eiga undir högg að sækja gagnvart frjálsum innflutningi landbúnaðarvara. Hugsanleg yrðu veittar undanþágur vegna sjúkdómaáhættu, en eins og kunnugt er hefur henni einnig verið beitt hér sem markaðsvernd.


Það er nær einróma álit allra þeirra sem fjalla um landbúnaðarstefnu ESB að hún sé afar óskynsamleg frá því sjónarmiði að leita skuli hámarkshagræðis í framleiðslu og viðskiptum þjóða á milli. Hún leiddi til þess að framleiðsla í landbúnaði jókst að meðaltali um 2% á ári allt til ársins 1988 meðan neyslan jókst aðeins um 0,5%. Á síðari árum hefur stefnunni verið breytt til þess að draga úr slíku misvægi, en engu að síður nefnir skýrslan dæmi um bætur hafi runnið til bænda vegna skaða sem þeir urðu aldrei fyrir.


Frjáls innflutningur á landbúnaðarvörum myndi óneitanlega koma íslenskum neytendum til góða því að verðlag í Evrópusambandinu á landbúnaðarafurðum er almennt mun lægra en hér á landi. Að vísu hefur verðlækkun í Svíþjóð og Finnlandi orðið minni en fyrirfram var búist við. en þar var verð eitthvað farið að lækka áður en löndin urðu fullgildir ESB aðilar. Afar líklegt er að styrkir ESB til íslensks landbúnaðar yrðu notaðir til óhagkvæmra fjárfestinga en ódýrar erlendar afurðir yrðu til þess að framleiðsla hér á landi minnkaði. Óhagkvæmnin ykist því enn við íslenskan landbúnað.Hvað vinnst með aðild?


Hér að framan hefur verið farið yfir nokkur þau mál sem helst má ætla að hafi áhrif á það hvort Íslendingar vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki. Með aðild mælir það að þá geti Íslendingar haft miklu virkari áhrif á ákvarðanatöku á öllum stigum málsins. Rökin með aðild eru þau sömu og rökin fyrir þátttöku í pólitík almennt, þannig geta menn haft áhrif á ákvarðanatökuna á öllum stigum málsins. Auðvitað eru Íslendingar fáir og vægi þeirra mun minna en stórþjóða en með samvinnu við vinveittar nágrannaþjóðir gætu þeir áorkað mun meiru en nú. Með EES-samninginn geta Íslendingar lent í þeirri stöðu að verða að taka við ákvörðunum sem þeir eru ósáttir við eða tapa öðrum réttindum með því að hafna óaðgengilegum hlutum. Erfitt er að setja á slíkt verðmiða en þessi þátttaka er Íslendingum örugglega nokkurs virði.


Líkur eru á því að útgjöld Íslendinga til Evrópusambandsins gætu í upphafi numið nær 8 milljörðum króna en líkur benda til þess að hingað til lands kynnu að renna um 5 milljarðar á móti. Það yrði þá í formi styrkja til landbúnaðar, samgangna og sjávarútvegs slíkir styrkir yrðu í engu samræmi við þá stefnu að atvinnugreinar ættu að standa undir sér sjálfar. Landbúnaður kynni að lenda í vandræðum vegna þess að innflutningur yrði frjáls frá ESB, en neytendur og þar með þjóðfélagið í heild myndu hagnast. Hagstæðast væri fyrir Íslendinga að semja um það að vera utan styrkjakerfis ESB í landbúnaði og sjávarútvegi en semja á móti um lægra gjald til sambandsins. Það er þó alls óvíst að slíkir samningar tækjust.


Í sjávarútveginum gæti núverandi kerfi líklega haldið sér að stærstum hluta og ekki er ólíklegt að þær breytingar sem nú eru umræddar vegna tillagna Auðlindanefndar gætu komist til framkvæmda. Aðalmunurinn yrði sá að ákvarðanir um heildarafla yrðu formlega teknar af Evrópusambandinu en ekki af íslenskum ráðherra eins og nú er. Þrátt fyrir að líklega myndi íslensk ráðgjöf vega þar mjög þungt þá er engin trygging fyrir því að ekki yrðu teknar ákvarðanir sem stönguðust á við hagsmuni Íslendinga. Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi yrðu eflaust leyfðar.


Skýrsluhöfundar telja að evran muni hafa mjög víðtæk áhrif og það verði fyrst með henni sem innri markaðurinn geti að fullu uppfyllt þær væntingar sem til hans voru gerðar í upphafi. Verðskráning í einum gjaldmiðli um alla álfu og greiður aðgangur að verðupplýsingum gegnum Netið mun auka samkeppni og erfitt verður að halda uppi verðmun sem nú tíðkast milli landa. Opinber útboð munu í framtíðinni ná til alls Evrópusvæðisins. Skatta og kjarasamanburður verður auðveldari og líklegt að samræmi milli landa á þeim sviðum verði meira en áður. Talið er víst að vextir verði lægri hjá þeim Evrópuþjóðum sem verða innan evrusvæðisins en hinum. Auðvitað má hugsa sér að Ísland gæti orðið aðili að evrunni með samningum við ESB, en það er alls ekki víst að slíkt tækist. Við það að taka upp evruna myndu mörg störf sparast í bankakerfinu hér á landi jafnt sem erlendis.

More News

Vísbending

Vís­bending

Vís­bending , tímarit um viðskipti og efnahagsmál er gefin út vikulega og árið 2004 komu út 51 tölu...

Pages