"Fjármenn hrepptu fögnuð þann"

Fréttir

Vísbending

"Fjármenn hrepptu fögnuð þann"

Grein úr jólablaði Vísbendingar 1999 eftir Benedikt Jóhannesson


Bráðum koma blessuð jólin, börn og kaupmenn hlakka til. En það er ekki víst að jólahaldið sé þeim sem borga brúsann jafnmikið fagnaðarefni, því víst er víða kosta jólin drjúgan skilding. En hversu mikill er kostnaðurinn þegar upp er staðið? Í ljós kemur að svarið við þeirri spurningu er alls ekki einfalt. Hér á eftir verður til gamans skoðað hvernig meta má reikninginn eftir jólahátíðina. Í ljós kemur að nefna má tölur allt frá níu til sextán milljarða króna fyrir þjóðarbúið í heild. Útgjöld heimilanna eru að meðaltali um 100 þúsund krónur vegna hátíðanna.Hvað eru jól?


Menn eru ekki á eitt sáttir um hvað telja skuli til jólanna. Hér er ekki átt við það að jólin séu í raun gömul ljósaskiptahátíð úr heiðnum sið heldur einungis hvenær þau byrja og enda. Fyrir nokkrum árum var hérlendis hent gaman að Bandaríkjamönnum sem voru farnir að draga fram skraut í búðir seint í október og voru jafnvel með sérstakar jólabúðir opnar allt árið. Nú standa Íslendingar jafnfætis þeim að þessu leyti. Hér verður þó látið nægja að telja sérstakt tilstand frá byrjun desember og allt fram að þrettándanum með kostnaði heimilanna við jólin. En auðvitað fellur einhver kostnaður til fyrir desember, til dæmis hjá forsjálum ferðalöngum sem kaupa jólaskraut og gjafir á ferðum sínum erlendis. Það er enginn vafi að sá kostnaður sem flestir telja fyrst til er við jólagjafirnar. Einnig muna menn mat, jólakort, skreytingar og jólatré, jóladagatöl og ýmislegt smálegt. En það er vissulega fleira sem kemur til, meðal annars ferðalög innanlands og milli landa, jólahlaðborð á aðventu, margir gera sér glaðan dag á Þorláksmessu, að ógleymdum áramótunum með flugeldum og kampavíni. Það er því ljóst að víða fellur til kostnaður vegna jólanna.

En flestallir gleyma þeim kostnaðarlið sem stærstur er, en það eru tapaðar vinnustundir. Sumir atvinnurekendur taka svo djúpt í árinni að desember sé allur meira og minna glataður vinnumánuður vegna þess að starfsmenn séu með hugann annars staðar. Það er full mikið sagt, en engu að síður er lítill vafi að bæði lögboðnir frídagar og ýmisleg frí sem menn taka sér til útréttinga fyrir jólin skerða talsvert þann tíma sem annars væri ætlaður til vinnu.Hvernig á að nálgast kostnaðinn?


Hér voru farnar þrjár leiðir. Í fyrsta lagi að reyna að nálgast útgjöldin með beinum hætti, þ.e. áætla kostnaðinn við hvern lið. Önnur leið og öllu vísindalegri var að styðjast við neyslukönnun Hagstofunnar frá árinu 1995 (en þar kemur fram neysla eftir ársfjórðungum) og áætla hvaða þættir væru einkum vegna jóla. Í þriðja lagi var skoðuð velta greiðslukortafyrirtækja eftir mánuðum og metið hve mikið hún eykst í desember. Svo vel vill til að allar þrjár aðferðirnar gáfu svipaða niðurstöðu. Það bendir til þess að hún sé ekki fjarri lagi.

Vinnutapið er metið á mun einfaldari hátt. Einfaldlega er sett fram hverjar séu líkurnar á því að frídagarnir lendi á virkum degi (5/7) og svo gert ráð fyrir ákveðnu vinnutapi vegna útréttinga og annars.Úr buddunni fara níu til tíu milljarðar


Jólagjafirnar eru aðaltilhlökkunarefnið hjá flestum þeim yngri en mikill munur er á því hve mikið einstaklingar gefa. Almennt talað fær yngri kynslóðin fleiri gjafir en þeir eldri, en þær eru að jafnaði ódýrari. Sumir gefa litlar, heimatilbúnar gjafir meðan aðrir hika ekki við að gefa vélsleða eða sportbíl. Meðalhófið er vandratað og meðaltalið vandfundið, en hér er gert ráð fyrir 20 þúsund króna kostnaði á mann að meðaltali. Menn geta svo gert sér leik að því á komandi jólum að reikna hvort þeir hafi fengið jólagjafir sem nái þessari tölu.

Jólamaturinn er tilhlökkunarefni margra allt árið og ekki að efa að flestir vanda betur til hans en flestra máltíða ársins. En menn borða hvort sem jól eru eða ekki þannig að hér er aðeins metinn kostnaðaraukinn af jólamáltíðunum. Ef gert er ráð fyrir sex hátíðamálsverðum (sem dreifast eftir smekk) og kostnaðarauka upp á eitt þúsund krónur við hverja þá fást sex þúsund krónur á mann. Þeim sem fara tvisvar í jólahlaðborð finnst talan eflaust lág, en á móti kemur að margir fara hvergi og börn borða minna en fullorðnir.

Jólakort eru metin á hundrað krónur stykkið með frímerki og reiknað með að hver fjölskylda sendi  20 kort. Skreytingar endast yfirleitt í nokkurn tíma en jólatré og greinar kaupa flestir árlega, auk þess sem flestir bæta eflaust einhverju skrauti við á hverju ári. Hér er gert ráð fyrir fimm þúsund krónum á hvert heimili. Reikna má með jóladagatölum á þúsund krónur fyrir öll börn undir 13 ára auk þess sem gera má ráð fyrir öðru eins í gjafir í skóinn. Jólaball fyrir barn og fullorðinn kostar nálægt þúsund krónum.

Þó að margir vilji láta svo sem jólin séu hátíð án áfengis og þannig sé það víða þá sýna tölurnar að í kringum hátíðarnar eru áfengisinnkaup mun meiri en á öðrum tímum ársins. Neyslukönnun Hagstofunnar sýnir að áfengisinnkaup eru langmest á fjórða ársfjórðungi. Gera má ráð fyrir að það sé ekki síst vegna áramóta og jóla. Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR er salan í desember um það bil tvöföld á við meðalmánuð. Alls má áætla viðbótarsöluna tæplega 900 milljónir króna og þar af er um fjórðungur á veitingahúsum.

Flugeldar lífga upp á áramótin og verða sífellt margbreytilegri og glæsilegri. Hér er reiknað með fimm þúsund króna kostnaði á hvert heimili.

Hér að framan er reynt að telja upp flest það sem verður að kostnaðarauka á jólum. Sumir sakna eflaust einhvers. Dýrar áramóta- og nýársveislur hafa orðið vinsælar á undanförnum árum. Þó eru þær vart nógu almennar til þess að kostnaðurinn af þeim sé slíkur að hann breyti heildarmyndinni svo nokkru nemi.

Þegar allt þetta er reiknað saman sést í meðfylgjandi töflu að útlagður kostnaður við jólahaldið er 9,4 milljarðar á þjóðina í heild en það eru rétt rúmlega 100 þúsund krónur á hvert heimili landsins.Aðrar leiðir að sama marki


Hér að framan er reynt að nálgast kostnaðinn með beinum hætti, þ.e. telja til alla þá útgjaldaliði sem heimili verða fyrir og leggja saman. Ef skoðuð er könnun Hagstofunnar frá 1995 sem fyrr er til vitnað og taldir saman þeir liðir sem einkum má telja að til falli vegna jóla og áramóta fæst kostnaður sem nemur alls 91 þúsundum á hvert heimili eða 8,5 milljarðar fært til núgildandi verðlags. Færa má að því rök að vegna kaupmáttarauka ætti að hækka töluna enn meira, jafnframt því sem gera má ráð fyrir því að menn verði gjafmildari í góðæri en ella. Niðurstaðan er þá 109 þúsund krónur á heimili (10,1 milljarður alls) eða heldur hærri tala en fékkst hér að framan.

Seðlabankinn gefur út tölur um greiðslumiðlun mánaðarlega. Þar er hægt að sjá hver útgjaldaaukinn varð í desember og janúar (en hluti af kreditkortaveltunni fer yfir í janúar) síðastliðnum og sést þá að hann hafi verið um 9,1 milljarður umfram meðalmánuð. Framan af ári 1999 hefur velta kortafyrirtækjanna hækkað um 19% sem gefur um 10,7 milljarða fyrir yfirstandandi ár. Þessi tala er ekki "hrein" því að einhver útgjöld vegna fyrirtækja kunna að vera inni í henni auk þess sem ekki nota allir greiðslukort.

Loks má geta þess að Samtök verslunar og þjónustu birtu um það tölur fyrir jólin að jólainnkaup Íslendinga í ár yrðu um 7,3 milljarðar króna. Þessi tala var byggð á því að færa norskt neyslumynstur yfir á Ísland. Þar er einnig leitt getum að því að þessi tala kunni að vera fulllág fyrir Ísland þar sem Norðmenn séu aðhaldssamari en Íslendingar. Athugunin hér að framan bendir til þess að svo sé.Vinnutap


Frídagar kringum jólin eru eftirfarandi: Hálfur aðfangadagur, jóladagur, annar í jólum, hálfur gamlársdagur og nýársdagur. Auk þess gefa sumir vinnustaðir frí annað hvort á gamlárs- eða aðfangadag og fólk er oft laust við dagana fyrir jól. Sumir taka sér eitthvert frí milli jóla og nýárs. Loks eru mætingar 2. janúar stundum ekki sem skyldi vegna óvenjulegra veikinda. Frídagarnir eru fjórir og "óregluleg" frí má meta til a.m.k. tveggja frídaga. En lögboðnir frídagar lenda stundum á helgum eins og nú þegar eru atvinnurekendajól, aðeins tveir hálfir frídagar. Að jafnaði falla helgar og frídagarnir aðeins saman í tveimur tilvikum af sjö. Miðað við átta tíma vinnudag fæst að tapaðar stundir á frídögunum eru 32·5/7 " 23. Bætum við 16 vinnustundum vegna útréttinga og annars og fáum 39 stundir. Ef kostnaður á tapaða vinnustund er eitt þúsund krónur og á vinnumarkaði eru 155 þúsund manns er heildartapið 6,1 milljarður króna.

Það kemur því í ljós að heildarkostnaðurinn við glataðar vinnustundir er býsna hár og slagar upp í útlagðan kostnað við jólin. Þetta kann að koma mörgum á óvart.Hvert fara peningarnir?


Hér á undan var vikið að því að sumir kaupa veglegar jólagjafir. En þeir sem gefa hrærivélar, húsgögn eða myndbandstæki, að ekki sé minnst á ökutæki, eru í raun og veru ekki að gefa jólagjafir í venjulegum skilningi heldur miklu fremur að beina útgjöldum sem voru hvort sem er inni á áætlun inn á jólin. Sama má segja um föt og hluta af þeim bókum og öðrum gjöfum sem menn skiptast á. Börn þurfa leikföng og jól eru tilvalið tækifæri til þess að gefa þau.

Enda sýnir neyslukönnun Hagstofunnar að mjög dregur úr útgjöldum á flestum sviðum á 1. ársfjórðungi, þ.e. strax eftir jólin. Meira að segja matarinnkaup minnka, væntanlega vegna þess að menn halda í við sig í mat eftir hátíðarnar. Við kostnaðinn hér á undan mætti kannski bæta útgjöldum til líkamsræktar eftir áramót þegar menn reyna að ná aftur af sér jólakílóunum. En ef skoðað er hve menn spara við sig fyrstu mánuði ársins verður að álykta að mikill hluti jólaeyðslunnar sé í raun aðeins nauðsynleg útgjöld sem sett eru á jólin öðrum tímum fremur. Með því að leggja neyslukönnunina til grundvallar fæst að með því að draga frá sparnað á mánuðunum eftir jólin fæst að viðbótarkostnaðurinn er í raun aðeins um 30 þúsund á heimili.


Ekki má gleyma því að jólin eru búhnykkur fyrir ríkið, en það fær rúmlega einn fimmta af útgjöldum til jólanna í sinn hlut í virðisaukaskatti og í gegnum áfengisgjald. Geir Haarde getur því brosað breitt um jólin því hann fær um tvo milljarða í ríkiskassann vegna jólanna.


Þeir sem tapa eru atvinnurekendur því að reikningurinn til þeirra er um 6,1 milljarður króna. En jafnvel þar er ekki allt sem sýnist. Jólin koma í svartasta skammdeginu þegar mönnum er ekki vanþörf á upplyftingu. Með hvíldinni og jólagleðinni er líklegt að starfsþrek aukist í mánuðunum þar á eftir sem víða krefjast mikilla átaka. Annars er hætt við að krafturinn og afköst yrðu minni en ella. Því má örugglega lækka þann hluta reikningsins eitthvað líka. Þegar allt kemur til alls er því ljóst að þó að vissulega safnist mikil útgjöld fyrir kringum jólin þá er stór hluti þeirra það sem kalla má eðlilegan kostnað. Og svo má ekki gleyma því hve öllum er nauðsyn að gleðjast og því mikilvægt að það verði "ákaflega gaman þá."

 

More News

Vísbending

Vís­bending

Vís­bending , tímarit um viðskipti og efnahagsmál er gefin út vikulega og árið 2004 komu út 51 tölu...

Pages