Forleikur

Fréttir

Smásögur

Forleikur


Forleikur Engin smá saga eftir Benedikt Jóhannesson.Úr Baldursbrám, afmælisriti Baldurs Hafstaðs 50 ára, útgefandi KHÍ 1998. Ég vil ekki eyða miklu plássi í smáatriði en ég held að sagan sem ég ætla að segja geti orðið undanfari stórkostlegra breytinga á sögunni, mannkynssögunni, menningarsögunni. Auðvitað gæti þetta virst vera eintómt rugl, en ég varð fyrir nokkru sem flestum gæti virst stórkostleg persónuleg ógæfa, og það hélt ég lengi sjálfur, en virðist ætla að breytast í vendipunkt í tímans rás. Þótt ég hafi ekki mikinn mátt, þá verð ég að lýsa undursamlegum atburðum sem fyrir mig hafa komið. Þannig geta aðrir kannski skilið það sem ég einn veit núna. Það verður að hafa það þótt orðfærið sé ekki alltaf sem best, tíminn er naumur og kraftarnir litlir. Seinna reyni ég að setja þetta fram með þeim hætti sem efnið á skilið. En nafnið - Forleikur - er ekki valið út í loftið því ég er í raun að skrifa forleik að stórkostlegu verki, sem ég freistast til þess að kalla Alheimssinfóníu, þótt það hljómi væmið.
 Hvar á að byrja? Á slysinu, ógæfunni, sem hefur heldur betur breyst í andhverfu sína? Nei, ég byrja seinna, það eru til skýrslur lögreglu, hjálparsveitar og spítalans um alla ytri atburði. Ég verð að einbeita mér að því sem enginn veit nema ég sjálfur.
 Ég missti úr langan kafla. Ég veit ekki hversu langan, en langur var hann. Fyrsta meðvitaða heilastarfsemin var eins og slæmur draumur. Ekki martröð heldur draumur manns með sótthita. Ég gekk um herbergi og komst ekki áfram, ók um göturnar án þess að finna áfangastað og vissi ég ekki hvert ég var að fara og til hvers. Ég heyrði hljóð en það var ekkert vit í því sem ég heyrði. Hversu lengi varði þetta? Það er heldur ekki gott að segja. Tímaskynið hverfur með rænunni. Við vitum að það er morgunn af því að sólin rís, í hádeginu eru fréttir í útvarpinu og kvöldin eru kvöld vegna þess að þá er maður kominn heim úr vinnunni, stundum að minnsta kosti. En ef skynfærin virka ekki þá er ekki gott að segja hvað tímanum líður.
 En smám saman urðu draumarnir - hugsunin ætti ég kannski að segja, því hvar eru mörkin - ljúfari. Ég sigldi á bátum um dimmblá vötn, renndi mér á skíðum niður fannhvítar hlíðar og hlustaði á hjómfagra tónlist í fegurstu höllum heimsins.  Þetta var, og er, stórkostlegt en svo mjög sem við þráum munað, hvíld, hið ljúfa líf, þá verður það leiðigjarnt ef ekkert fútt er inn á milli. Og það var einmitt þá sem ég fór að ranka við mér, ef hægt er að nota þau orð um það sem gerðist. Ég fór að hugsa og fyrsta hugsunin var: Mér leiðist. En svo fór ég að velta því fyrir mér hvar ég væri. Ég veit ekki hvort það kemur fyrir aðra að vera sofandi og vita að þá er að dreyma og vakna en vera þó ennþá sofandi. Draumur í draumi. En þegar brotin fóru að raðast saman í huga mér þá fannst mér eins og einmitt þannig væri ástatt fyrir mér núna. Aðdragandinn að slysinu birtist mér í brotum sem mér tókst smám saman að raða saman. Var hann kannski draumur og ég myndi vakna í mjúka rúminu heima? Nei, í drauma vantar oft eitthvað, og jafnvel þó  að mann dreymi sama drauminn tvisvar þá er hann ekki alveg eins. Þessi saga breyttist hins vegar ekkert. Kannski væri það fróðlegt að bera mína útgáfu saman við frásögn annarra, en í fyllingu tímans verður eflaust tekin skýrsla af mér líka. Ég held því mínu striki.
 Umheimurinn var mér lokuð bók. Það sama má segja um líkamann. Dags daglega er það svo hversdagslegt að skynja umhverfið að við hugsum ekki um það nema helst að það valdi okkur óþægindum. Hávaði, vont lykt, sársauki. Jú auðvitað er hitt til líka en hugsaðu nú bara með þér lesandi góður, varst þú nokkuð að hugsa um hvernig þér líður. Fannstu hvað þér er illt í bakinu, heyrðirðu suðið í lampanum, varstu að hugsa um skýið sem kemur yfir hægra augað á þér eftir að þú blikkar? Sem betur fer ekki segirðu, en hvað ef þú fyndir ekki neitt - og ég meina alls ekki neitt. Myrkur, þögn, engin tilfinning, ekkert bragð. Reyndar engin augu, engin eyru, enginn munnur. Það var ekki neitt. Auðvitað lá beinast við að álykta að ég væri á sjúkrahúsi. En þar finnur maður sótthreinsilykt, lútsterkur þvottalögur, daunill lyf. Það var sama hvað ég reyndi, ég fann enga lykt heldur.
 Það eina sem ég hafði var hugsunin. Og það er sko alls ekki svo lítið. Nú hef ég ekki meiri krafta í bili en næst segi frá stórkostlegri uppgötvun.
 Dagur 2
 Ég áttaði mig allt í einu á því, að ég veit ekkert hvaða dagur er, reyndar er nótt núna, en ég veit ekki einu sinni hvort það er einn dagur síðan síðast. Sem ég lá þarna svo einangraður sem hugsast gat, ekki bara frá umhverfinu heldur líka frá sjálfum mér. Sykursætu draumarnir voru orðnir leiðigjarnir og mér var farið að detta í hug hvort ég væri kominn til himna. Er manni vorkunn, engar tilfinningar, einn unaður stöðugt? Þið vitið það náttúrlega ekki, en ég get sagt ykkur það að ef himnaríki er svona, þá er það stórlega ofmetið. Almennilegt fólk verður að hafa eitthvað við að kljást. Svo ég fór athuga hvort öll rökhugsun væri frá mér farin í þessari unaðsládeyðu. Á hverju byrjar maður svo ef maður vill vita hvort maður getur hugsað? Ekki segja tveir plús tveir, það er svo hryllilega lágkúrulegt. Ég var heldur skárri, tólf sinnum tólf eru hundrað fjörutíu og ... (skyldi hann hafa það? hugsar þú, en þú veist ekkert á hvaða leið ég var) ... fjórir. Auðvitað. Eitt gross. Þetta lærði maður á sínum tíma þótt ég hafi aldrei síðan rekist á neitt sem hefur verið selt í þessari einingu sem sérhvert íslenskt barn varð að læra um á eftirstríðsárunum. Ég fór í gegnum nokkur fleiri reikningsdæmi en engin sérstaklega frásagnarverð. Ég var alltaf þokkalegur í hugarreikningi og ég hafði greinilega engu tapað þar. Þar er að vísu svolítið svindl að svara spurningum sem maður spyr sjálfur, en það var ekki öðrum spyrjendum til að dreifa.
 Þá er að prófa nokkur kvæði. Nú er frost á Fróni rann ljúflega hjá en þar hefur maður auðvitað lagið við að styðjast. Hvað með Ísland farsældar frón? Jú það gat ég línu fyrir línu. Ég mundi meira að segja skilin milli blaðsíðna í gömlu skólaljóðunum. Völuspá? Nú halda menn auðvitað að ég sé að skrökva, en það var ekki bara að ég færi með hvert einasta erindi, ég mundi líka orðskýringar. Hvað kunni ég fleira? Hugurinn hvarf til Passíusálmanna, en það hefur auðvitað enginn lesið þá nema fólkið sem les þá í útvarpið til þess að sýna hvað það er góðir upplesarar og eitthvert manntetur sem les þá í Hallgrímskirkju til þess að pína sig og aðra á föstudaginn langa, rétt eins og vitstola menn á Filipseyjum lát negla sig upp á kross til þess að lokka að túrista. En það er ekki að orðlengja það að ég fór með þá viðstöðulaust, hvern einn og einasta. Æ hættu nú að skrökva, keraldið er fullt svo útaf flóir, hugsarðu með þér, lesandi góður. Og það hugsaði ég einmitt líka og vatt mér aftur í væmnisvelludraumana.
 Ég prófaði þetta aftur þegar ég var búinn að fá nóg af hinum ljúfa draumi. Og það er eins satt og ég er hér að ég kunni öll möguleg og ómöguleg ljóð afturábak og áfram. Hvernig veit ég að ég var að fara rétt með? Jú ég var alveg viss, en því til sönnunar hef ég skrifað nokkur ljóð í hina kompuna mína. Það er þá hægðarleikur að bera þau saman við rétta útgáfu. En þetta var svosem ekki neitt. Ég áttaði mig semsé strax á því að ég var kominn í samband við aðra stöð í heilanum en við tengjumst daglega. Það er sagt að við festum okkur allt í minni sem nokkurn tíma kemur okkur fyrir sjónir. Og það stendur heima. Einhverntíma fletti ég Passíusálmunum og velti því fyrir mér hvað þeir væru asnalegir og afspyrnuleiðinlegir. Ég hef kannski haft bókina fimm mínútur í höndunum, en það var nóg. Ég man hvert einasta orð. Flestir hafa heyrt um þetta fyrirbæri og í kvikmyndum og framtíðarsögum er fólk sem flettir bókum á örskotsstundu og man allt sem í þeim er. En þetta virkar ekki þannig. Ég reyndi einu sinni þegar mér leiddist mjög mikið að fara með símaskrána en ég mundi hana ekki. Öll símanúmer sem ég hef hringt í kann ég, svæðisnúmer í útlöndum, póstnúmer á hverju krummaskuði. En maður verður að hafa séð orðin eða táknin, það er ekki nóg að fletta bara.
 Þetta var svolítið skemmtilegt. Með því að hafa alla mannkynssöguna í kollinum eins og opna bók - opna alls staðar í senn meira að segja - þá skilur maður miklu betur hvað gerðist raunverulega og hvernig. Það er ekki tími fyrir útúrdúra, ég læt þess bara getið að Kennedy fyrirfór sér í raun. Geggjun? Auðvitað skaut hann sig ekki sjálfur, en maður sem var haldinn óslökkvandi þrá að skrá nafn sitt á spjöld sögunnar en hafði hæfileika á við músarindil – hvaða aðferð var betri en að láta ráða  sig af dögum fyrir framan þúsundir manna, nánast í beinni útsendingu?
 Útúrdúrar, en engu að síður afþreying fyrir þann sem getur ekkert gert nema hugsað. Ég tefldi svolítið í gamla daga og heilu skákbækurnar lukust upp fyrir mér. Skákþættir úr dagblöðum sem ég hef alltaf farið yfir á hundavaði voru mér allir greyptir í minni. Grunaði þig, lesandi góður, að úrslitin í skákeinvígjum Garys Kasparoffs og IBM tölvunnar Deep Blue væru fyrirfram ákveðin? Þar hafðirðu rétt fyrir þér og það var meira að segja hægt að sjá það með því að skoða fyrstu leikina hvort myndi vinna hverja skák um sig. Úrslitin eru sett fram á tiltölulega einföldu dulmáli í tiltölulega fáum leikjum. Ætti tölvan að vinna sást leikjaröð á d-línu, e-línu, aftur e-línu og loks peðsleikur; DEEP. Þegar heimsmeistaranum var ætlaður sigur var kódinn: g-lína, a-lína og hrókur (rook á ensku) hreyfður. Þannig var skammstafað GAR. Mér fannst þetta svolítið snubbótt, því af hverju ekki Y líka? En einmitt spurningin leiddi mig að svarinu. Á ensku er ypsilon borið fram why, en why er spurning. Í skák er slakur leikur táknaður með spurningamerki. Og viti menn, þannig er þetta líka: g-lína, a-lína og hrókur og svo afleikur; GARY. Þetta getur hver maður staðreynt sjálfur.
 Nú er ég orðinn þreyttur en næst kemur það sem öllu skiptir.
 Dagur 3
 Ég var búinn að segja frá nokkrum þrautum sem þessir undarlegu og nýuppgötvuðu hæfileikar mínir hjálpuðu mér að leysa. Dægradvöl er ágæt, en hún skiptir ekki sköpum í lífinu. Mig langaði til þess að gera eitthvað sem máli skiptir, eitthvað sem myndi skrá nafn mitt á spjöld sögunnar. Við erum öll svolítið hégómleg og ég er engin undantekning. Þetta er þó ekki hreinn hégómi því manni ber beinlínis skylda til þess að nýta slíka hæfileika í þágu mannkyns.
 Margir hafa heyrt um stærðfræðireglu sem kallast síðasta setning Fermats. Hún er auðskilin, jafnvel þeim sem aðeins hafa lært barnaskólastærðfræði. Regla Pýþagórasar fjallar um hliðar í rétthyrndum þríhyrningi og segir a2 + b2 = c2  þar sem a, b og c eru hliðarlengdirnar. Fermat þessi segir frá því ekki sé hægt að finna neinar heiltölulausnir á jöfnunni an + bn = cn ef n er stærra en tveir. Á þessu sagðist hann árið 1677 hafa fundið dásamlega sönnun sem ekki komist fyrir á spássíunni þar sem hann hripaði regluna niður. Skemmst er frá því að segja að færustu stærðfræðingar heims hafa glímt við það í 300 ár að sanna þessa reglu án árangurs, þangað til einhver stærðfræðingur náði að sýna fram á þetta í löngu máli árið 1995 og varð reyndar að finna upp einhver ósköp af stærðfræði í leiðinni. Þetta var náttúrlega ekki sönnun Fermats, því ekki gat hann notað stærðfræði sem ekki var til á hans tíma. Ég gleymdi víst að segja frá því að ég las svolítið í stærðfræði á sínum tíma, er meira að segja með svolítið háskólapróf í þeirri grein, þótt ég áttaði mig fljótlega á því að ég væri ekki til stórafreka á því sviði. Ég hef ekki lesið þessa nýju sönnun, enda hefði ég ekki skilið hana þá. Þarna var ég þó kominn með viðeigandi viðfangsefni. Ég einbeitti mér að setningu Fermats og sá jafnframt fyrir mér allt sem ég hafði lesið í hefðbundinni rúmfræði og talnafræði. Það liggur við að ég skammist mín fyrir að segja það, því það virðist vera sjálfumgleði en ég var ekki mjög lengi að detta niður á sönnun sem var ekki nema 30 til 40 línur. Ég margyfirfór aðferðina til þess að sannreyna að í henni væru engar gloppur, því margir hafa sagst hafa leyst vandann, en svo verið afhjúpaðir sem loddarar. Sönnunin er pottþétt, án nokkurs vafa. Á henni var þó einn hængur. Ég varð að styðjast við hjálparreglu sem Fermat getur varla hafa þekkt því hún kemur ekki fram fyrr en í ritum Eulers um hundrað árum eftir að Fermat dó. Víst var ég ánægður með mig, en þó vantaði svolítið upp á, því mig langaði til þess að finna upprunalegu sönnunina, því ég hef aldrei verið trúaður á að Fermat væri slíkur hrekkjalómur að búa til þessa þraut til þess að stríða kollegum sínum. Ég ákvað að byrja upp á nýtt. Þurrkaði minnið út og fékk mér smá sæludraum. Svo hlóð ég inn einni stærðfræðireglunni eftir aðra og gætti þess að halda mig aðeins við grunnhugmyndir. Bíddu nú við ... Ef maður setur upp rúmfræðilíkan er alltaf hægt að lækka töluna n um einn og með endurtekningu kemur maður því hæglega niður í þrjá, en þar er hægt að sanna regluna á einfaldan og auðskilinn hátt. ... Þetta kann að virðast latína fyrir þeim sem ekki hafa mikla stærðfræðiþekkingu, en sönnunin er sett fram á formlegu stærðfræðitáknmáli í minniskompunni, sjö línur, segi og skrifa sjö línur, og við bætist lítil  skýringamynd. Að gamni mínu kalla ég þessa sönnun: Punktinn á eftir síðustu setningu Fermats!
 Allt þetta hugarflug rændi mig aldrei vitundinni um hver ég væri eða að ég yrði að reyna að ná sambandi við umheiminn. En til þess varð ég einhvern veginn að kveikja á skynfærunum. Ég gerði mér grein fyrir því að líklega væri ég búinn að ná sambandi við þann hluta heilans sem okkur tekst ekki að stjórna eða fá boð frá undir venjulegum kringumstæðum. Ég varð að reyna að finna leið tilbaka í gömlu gráu sellurnar sem við notum dags daglega. Ég notaði geysilega hugarorku og ég held samlíking við námugröft sé einna nærtækust. Ég ruddi mér braut í einhverjar áttir, örlítið í hvert skipti, án þess að vita hvert ég átti að fara eða hvers ég væri að leita. Allt í einu heyrði ég suð. Það var svo lágt að enginn hefði tekið eftir því í eðlilegu ástandi. Fyrir mér var það bylting. Ég losnaði allt í einu úr þagnarhjúpnum sem hafði einangrað mig algerlega. Þetta var bara byrjunin. Suðið varð venjulegt hljóð og eftir svolítinn tíma heyrði ég raddir. Hvílíkur léttir. Svo var guði fyrir að þakka að ég var alls ekki í himnaríki heldur þvert á móti á spítala, sem mig hafði raunar alltaf grunað. Hjúkrunarkonur, læknar, sjúkraliðar, gangastúlkur, ættingjar, erfingjar, jú ég gat ekki kvartað undan því að ekki væri líf í kringum mig. „Hann er gersamlega máttlaus, ef hjartað slægi hægar væri það stopp, en líkaminn visnar samt ekki. Það eru engin viðbrögð við ljósi, stungum eða lykt, en samt er heilalínuritið stöðugt á fullu. Það er helst að maður sjái eitthvað þessu líkt hjá skákmanni í tímaþröng.“ Þetta var greinilega læknirinn. Eins og hann sagði þá gat ég ekki sýnt nein viðbrögð á yfirborðinu, en mér létti óneitanlega. Meðan menn sæju að heilinn væri í gangi þá yrði lífinu haldið í mér.
 Þegar enginn var að tala heyrði ég öðru hvoru hljóð sem ég giskaði að væri í tólum sem héldu mér á lífi, en hafði satt að segja ekki hugmynd um hvernig því væri fyrir komið. En þótt hljóðið væri eini tengiliðurinn við umheiminn varð það satt að segja fljótt leiðigjarnt og ég fór að hugsa til þess að leysa nýjar þrautir. Það var ekki hlaupið að því. Mér var lífsins ómögulegt að ráðast á nokkur ný vandamál. Ég ætlaði að fletta upp í Passíusálmunum í huganum, en það var mér lífsins ómögulegt, ég kunni ekkert í þeim, fremur en fyrir slysið. Ég mundi hins vegar lausnirnar á þrautunum sem ég hafði þegar leyst, til dæmis sönnunina á setningu Fermats. Var ég búinn að tapa þessum yfirskilvitlegu hæfileikum? Vonbrigðin voru hræðileg og ég fór í mók. Þegar ég rankaði aftur við mér flugu hugmyndir í þúsundavís fram og aftur um kollinn á mér og mér fannst heimurinn sem opin bók. En ég heyrði ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég var kominn aftur heim.
 Dagur 4
 Auðvitað er það asnalegt að ég sé að númera kaflana eftir dögum, því þeir lýsa ekki einum degi hver um sig. Þetta eru bara skiptin sem ég vakna til þess að skrifa. Aftur þar sem frá var horfið. Ég þorði ekki að feta mig aftur í hlustunarstöðvarnar fyrr en ég hefði reynt að nýta mér þessa dásamlegu sköpunargáfu frekar. Og það tókst svo sannarlega. Þegar ég var lítill lærði ég á píanó. Ekki mikið, lærði að lesa nótur og var látinn glamra svolítið á skalana þangað til allir voru orðnir vitlausir. Svo hætti ég í píanótímum eftir barnaskólann, en get (eða gat að minnsta kosti) glamrað einhverja slagara á öðru glasi. Reyndar var ég píndur til þess að spila í lúðrasveit vegna þess að ég kunni nótur, en fólk þusti yfirleitt af götunum þegar ég þeytti lúðurinn. Ég fór svosem í gegnum mitt rokkskeið og meira að segja smá djassgeggjun. Seinna fékk ég áhuga á klassískri tónlist. Diskasafnið er ekkert til þess að skammast sín fyrir, píanókonsertar, sinfóníur og óperur, ég hef hlustað á býsna margt þó ég segi sjálfur frá. Og nú datt mér sem sé í hug að reyna að búa til lag. Satt að segja var það næstum of létt til þess að það sé frásagnarvert. Lögin hreinlega flæddu um hugann. Ég var fljótur að sjá í huganum skemmtilegar hljómsetningar og lék mér að því að útflúra laglínurnar með alls kyns dúllum. Það sem mér fannst skrítnast var að um leið og ég samdi laglínuna sá ég fyrir mér útsetningu fyrir píanó í nótnabók, vinstri og hægri hönd. Og þó ég hafi aldrei velt hljóðfæraskipan almennt fyrir mér uppgötvaði ég að ég gat gert það sama fyrir önnur hljóðfæri. Það var ekki bara að ég „heyrði“ heila hljómsveit spila, -ég sá allar útsetningar fyrir mér! Kannski kann ég ekki alveg öll tónskriftartákn, en ég veit að ég get sett heil verk fram á skiljanlegan hátt. Og hvernig veit ég það, spyrja menn kannski. Jú, ég hef gert það. Þegar maður fær svona einstaka hæfileika, þá má ekki spandera þeim á einhverja slagara eða diskóglamur. Ég er búinn að semja alvöru verk, og þá meina ég alvöru verk. Auðvitað fá orð aldrei lýst hljómlist, en þó get ég sagt frá uppbyggingunni. Ég sé flutning fyrir mér í stórum hljómleikasal, kannski Metropolitan. Sviðið er tómt, klætt tjöldum til beggja hliða. salurinn myrkvaður. Það heyrist fótatak, taktvisst fótatak, og söngvari kemur inn á sviðið, heldur göngutakti og raular lágum rómi, líflega laglínu sem gæti verið úr dægurlagi. Kontrabassi kemur inn, í sama takti. Eitt hljóðfærið af öðru bætist við en hljómsveitin sést ekki. Jafnvel þótt heil sinfóníuhljómsveit sé komin inn í stefið heyrist fótatakið í bakgrunni. Tjöldin lyftast og hljómsveitin birtist. Fyrsti kaflinn er tólf mínútur og þrátt fyrir að ég beiti brellum, erfiðum hljómum, nýstárlegum röddum, þá er verkið allt ein ljúf melódía sem grípur mann við fyrstu hlustun. Annar kafli er hraður, sterkur, svo sterkur að ég leik mér að því að setja upp eins konar einvígi milli tveggja píanóa. Og hvort vinnur? Það er nú svo, að í lokin er eins og þau gefist bæði upp örþreytt og flautan vinnur sigur í hröðum, glæsilegum kafla. Þriðji kafli hægur, ljúfur sópransöngur, rómantísk sumarstemming. Endalokin? Veik kvenrödd byrjar vinstra megin á sviðinu og magnast meðan fleiri bætast við og hljómurinn flæðir yfir sviðið, tjöldin lyftast og við sjáum mörg hundruð manna kór. Karlaraddir bætast við og þeir sem hafa heyrt alvöru uppfærslu af níundu sinfóníunni munu telja að hún sé eins og byrjendaverk. Samsvörunin milli kvenradda og strengja, karlaradda og blásturs er upplifun. Í lok þessa þáttar deyja kvenraddirnar, fiðlurnar, bumburnar og hornin út og karlakórinn dempast, frá miðju til hægri þar sem hann er við að deyja út, endasöngvarinn gengur fram á sviðið meðan hljómsveit og kór hverfa bakvið tjöldin. Við heyrum fótatakið þegar hann raular laglínuna og hverfur út af sviðinu.
 Þetta er allt í bókinni. Raddsetningar, effektar, hver einasta rödd, hvert einasta hljóðfæri. Þjappað letur, en læsilegt þó. Þetta er unaðslegt líf.
 5. skipti
 Hvernig fór ég að skrifa í kompuna spyrja menn? Hvaðan komu þessar bækur? Eðlilegar spurningar sem eiga sér ekki flókin svör. Smám saman lærði ég að kveikja á skynfærunum, einu af öðru, en þótt ég gæti núna fylgst með öllu í kringum mig ef ég vildi, þá vildi ég ekki láta neinn vita af ótta við að hæfileikinn hyrfi. Þetta horn ætlaði ég mér að teyga í botn. Einn daginn gleymdi lítil frænka mín sem var látin sitja hjá mér skólatöskunni sinni á rúminu. Ég sá að hjúkrunarfólkið lét töskuna liggja, rétt eins ég og rúmið mitt væru ekki merkilegri en borð eða stóll. Nú gat ég hreyft hendurnar svolítið og kíkti í töskuna og fann pennaveski og tvær tómar stílabækur. Þetta var einstakt tækifæri. Ég greip bækurnar og ritföngin og faldi undir dýnunni. Taskan var svo sótt daginn eftir og ef krakkaræfillinn hefur uppgötvað hvarfið hefur örugglega engan grunað mig, lífvana hrúgald, um gripdeildir. Þið þekkið söguna síðan. Ég færi „afrekin“ í stærri bókina, frásögnin fer í þessa. En nú hef ég ákveðið að skrifa bara stutta kafla í þessa og einbeita mér að hinni, til þess að forða verðmætum frá glötum.
 6.
 Þetta er stórkostlegt. Fræðakverið er að fyllast af alls kyns uppgötvunum, smáum og stórum. Ég hef fundið lækningu við alnæmisveirunni. Hún er sáraeinföld þegar búið er að setja hana fram. Í stað þess að veiran lami ónæmiskerfið þá er hún blekkt með stökkbreytingu til þess að halda að hún eigi að ráðast á aðskotahluti í líkamanum. Með því móti ráðast stökkbreyttu veirurnar ekki bara á venjulegar HIV-veirur heldur líka á bakteríur, æxli og svo framvegis. Hjá þeim sem eru svo „heppnir“ að vera með veiruna og fá mína meðferð heyrir krabbi sögunni til. Stökkbreytta veiran sér um hann. Hún nær líka að endurnýja ónýtar frumur sem nýjar, þannig að fólk eldist nánast ekki lengur. Kannski vilja menn þetta ekki, eilíf æska er kannski ekkert sérstök ef hún er eilíf, en þá finnur maður aðra lausn á því.
 Þrjótandi auðlindir? Ekki lengur vandamál. Einföld efnabreyting vinnur orku úr grasi, einföldu grænu grasi, þurru heyi þess vegna. Það er sannarlega sjálfbær þróun þegar dráttarvélarnar vinna orku úr töðunni þegar þær renna yfir túnin. Lausn fyrir bíla er líka í stílabókinni. Allar formúlur í samþjöppuðu formi á sínum stað. Hugmynd fyrir húshitun hafði ég líka, en það var áður en ég fann upp veðurjafnarann, sem miðlar eyðimerkurhitum til kaldra klaka. Bull? Þetta var líka sagt um sólmiðjukenninguna.
 7. 
Andskotinn. Djöfuls helvítis andskotans djöfulsins helvíti. Í gærkvöldi voru sjúkraliðanemar að æfa sig á að búa um mig, aumingjann, líkamninginn, líklega næsta skref við dúkkuna í skólarúminu. Allt í einu segist önnur sjá stílabók á gólfinu. Hentu henni segir hin, sem hún og gerði. Beint í ruslafötu úti í horni í herberginu. Djöfullinn! Það er ekki búið að tæma hana enn, en ég kemst ekki á fætur. Stelpufíflið rak sig líka í slönguna sem setur sykurvatnið í æð hjá mér og losaði hana og ég er of máttvana. Ég var farinn að ganga á nóttunni þegar enginn sá en nú kemst ég ekki á fætur. Eina leiðin til þess að bjarga bókinni frá glötun er að láta vita af mér. Ég veit að það er áhætta, kannski get ég aldrei snúið aftur en ég má ekki tapa þessari bók. Málið er bara að ég get ekki stunið upp hljóði. Mátturinn þverr og ég verð að láta vita af mér með því að skilja þessa bók eftir opna. Ekki fela hana undir dýnunni. Þú sem lest þetta verður að koma mér til hjálpar og sérstaklega bjarga alheimssinfóníunni, því annars líða ár þangað til ...
ég missi þráðinn, en umfram allt ekki tæma ruslafötuna í stofunni, setjið strax sykurvatn í gang aftur hjá ...
Strax og ekki tæma ...
Afhent dánarbúi NÞ, 25.3.98.
fannst við rúm hins látna.
Persónulegir munir. Ókannað


More News

Smásögur

Fallega fólkið

eftir Benedikt Jóhannesson I. Jennifer: Finnst þér ég vera rangeyg? Brad: Ha? J: Joey sagði alltaf...

Smásögur

Bréf frá himnum

eftir Benedikt Jóhannesson Það voru margir á ferli í Bankastrætinu og Jesús þurfti að skáskjóta sér...