Kapítalismi á víkingaöld?

Fréttir

Vísbending

Kapítalismi á víkingaöld?


Kapítalismi á víkingaöld?Það er ein af grundvallarkenningum kapítalismans eða auðhyggjunnar að vilji einstaklingsins til þess að auðgast sjálfur sé heildinni hagstætt. Meðan menn auðgast ekki beinlínis með óheiðarlegum hætti þá er eigingirni holl. Jafnframt gefa menn sér að mannskepnan sé yfirleitt eigingjörn og því séu allar aðstæður til þess að uppbygging haldi áfram, heildinni til góða. Kenningar af þessu tagi litu fyrst dagsins ljós fyrir rúmlega 200 árum þegar Adam Smith setti fram rit sitt um Auðlegð þjóðanna. En sagan kennir okkur líka að mannseðlið breytist ekki svo glatt og því er fróðlegt að huga að því hvað hugsað var um þessi mál á íslensku fyrir um það bil þúsund árum. Víða mætti leita fanga til þess að sjá viðhorf forfeðra okkar til auðs og vinnu, en í þessari grein verður látið nægja að líta á tvo ævaforna kvæðabálka, Völuspá og Hávamál. Þessi ljóð komast að ýmsu leyti nær því en margar aðrar bókmenntir frá þeim tíma að vera fræðileg umfjöllun, þó svo að vissulega sé augljósri skáldsögu fléttað inn í Völuspá. Hún er þó sköpunarsaga jarðarinnar úr heiðni og því vísindi síns tíma. Hávamál er að mestu safn af heilræðum og djúpri visku um mannkindina.Völuspá – Vituð ér enn – eða hvað?


Völuspá segir fyrst frá því þegar ekkert var til:


Ár var alda,


það er ekki var,


var-a sandur né sær


né svalar unnir;


jörð fannst ava


né upphiminn,


gap var ginnunga,


en gras hvergi.


Úr þessari auðn verður jörð, sól og grænar grundir. Þessi saga er kannski eitt það fyrsta sem sýnir að hægt er að búa til eitthvað eftirsóknarvert úr engu. Sköpunarsaga biblíunnar er svipuð og einmitt þess vegna er það hjákátlegt þegar biskup landsins segir að þegar einn græðir hljóti annar að tapa. Hver tapaði þegar jörðin varð til? En það er útúrdúr. Æsir taka til við að byggja upp og í sjöundu vísu Völuspár segir frá því að æsir „auð smíðuðu, tangir skópu og tól gerðu.“ Vel kann að vera að hér sé auður í merkingunni skartgripir, en höfundurinn gerir sér þó grein fyrir því að hægt er að smíða auð. Enn þann dag í dag telja margir að ekki sé hægt að smíða auð heldur verði menn að nýta sér afurðir náttúrunnar. Þess vegna voru hinir „þjóðlegu atvinnuvegir“, landbúnaður og sjávarútvegur, taldir öðrum merkilegri hér á landi. En æsir vissu betur og meðan þeir sinntu iðnum og uppbyggingu þá tefldu þeir í túni, teitir (glaðir) og var vettergis (einskis) vant úr gulli. Gleggri lýsingu á gildi vinnu og samstarfs er vart að finna. En skyndilega verða sólskin svört og stríð skellur á sem endar með því að sígur fold í mar (sjó). En eftir heimsendinn rís jörðin aftur úr ægi og æsir finna undursamlegar gullnar töflur á ný. Og þar munu dyggvar dróttir (menn) byggja og um aldurdaga (ævinlega) yndis njóta. Þrátt fyrir gereyðileggingu stríðsins hefur höfundur trú á því að menn geti byggt upp á ný og njóta lífsins um alla daga. Höfundur Völuspár leggur ekki upp úr einstaklinghyggjunni en hann efast ekki um gildi vinnunnar og að menn skapi auð.Hávamál – Bú er betra þótt lítið sé


Hávamál koma víða við í lífsspeki en þó eru nokkur megin stef sem rakin eru í mörgum erindum . Hár sá er Hávamál eru kennd við er sjálfur Óðinn, vitrastur goða, en hann flytur boðskapinn. Í fyrstu eru mönnum lagðar almennar lífsreglur, þeir skuli gæta sín á óvinum og öðrum hættum því vits er þörf þeim sem víða ratar. Þekkingin er mikilvæg og menn eiga að fylgjast vel með því sem fyrir augu ber og spyrja fregna. Ekki skulu menn neyta áfengis í óhófi og reyndar telur höfundur hóf best í öllu. Ljúfur verður leiður ef lengi situr. Hávamál brýna fyrir mönnum hófsemi því gráðugur halur (maður) etur sér til aldurtrega (dauða) nema hann gæti skynsemi og mætti þar læra af dýrum sem kunna sér magamál.


Ekki er það til fyrirmyndar að hreykja sér því ósnotur (heimskur) maður þykist allt vita. En gildi vináttunnar er seint ofmetið.


Vin sínum


skal maður vinur vera


og gjalda gjöf við gjöf.


Vísa eftir vísu rekur gildi vináttunnar og hættuna af óvinunum. En loks kemur að mikilvægi þess að vera sjálfum sér nógur:


Bú er betra,


þótt lítið sé


halur er heima hver;


blóðugt er hjarta,


þeim er biðja skal


sér í mál hvert matar.


Sá sem á bú, þótt lítið sé, er sinn eigin herra. Einstaklingshyggjan var vissulega til að fornu og til hennar er hvatt. Enda þekkir sögumaður engan þann sem er svo gjafmildur að hann ætlaðist ekki til launa fyrir gjafir eða að leið séu laun. En ekki er hvatt til sparnaðar því eigi menn fé skyldu þeir ekki þörf þola, það er líða skort.


En orðið auðugur keur ekki fyrir fyrr en því er lýst hvernig gæfan snerist þegar sögurmaður fór einn saman og varð villur vega; en auðugur þóttist er hann annan fann því maður er manns gaman. Hinn sanni auður felst ekki í peningum heldur góðum félaga. Þessi vísindi eiga ekki síður við nú á tímum en alltaf verða menn að uppgötva þau upp á nýtt. En þó að menn eigi að deila með öðrum því sem þeir eiga er óþarfi að gera það í óhófi því oft kaupir sér í litlu lof. Meðalhófið er í flestu best að mati höfundar. Ríki sitt skyldi ráðsnotra (hygginn) hver í hófi hafa.


Bandaríkjamenn vina oft í Benjamín Franlín sem sagði: Early to bed and early to rise makes tha man healthy, wealthy and wise. Hávamál segja mörgum öldum áður:


Ár skal rísa,


sá er á yrkjendur fáa,


og ganga síns verka á vit.


Margt um dvelur,


þann er um morgun sefur.


Hálfur er auður und hvötum.


Sá sem á fáa vinnumenn á að fara snemma á fætur á vit verka sinna. Hálfur auðurinn er undir því kominn að vera röskur.


Höfundur veit vel að menn sækjast eftir auð, en margt fleira veitir sælu.


Sumur er af sonum sæll,


sumur af frændum,


sumur af fé ærnu,


sumur af verkum vel.


Mestu skiptir að halda lífi en minnu þótt menn séu ekki alheilir því haltur ríður hrossi, hjörð rekur handar vanur, daufur vegur og dugir.


Hér er ekki litið niður á menn þó þeir gangi ekki heilir til skógar því að þeir geta gert margvíslegt gagn.


En að endingu segir að auðurinn einn gerir menn ekki mikla heldur þvert á móti: Margur verður af aurum api.Niðurstaða


Af þessu tveimur merku kvæðum má ráða að margt af því sem nú er grundvallarhugsjón einstaklingsfrelsis hafi verið höfundum þessara bálka vel kunnugt. Of djúpt er í árinni tekið að segja að þau lýsi kapítalisma, því markaðir voru ekki í þeirri merkingu sem við nú leggjum í það orð, en hins vegar var heldur ekki til það sem nú veldur mestu óhagræði, millifærslur af ýmsu tagi. Höft voru að sjálfsögðu talsverð vegna þess hve samgöngur voru erfiðar og hvergi er í þessum kvæðum hvatt til verslunar.


Í hnotskurn er hægt að fullyrða að speki Hávamála um dugnað, vináttu, visku og meðalhóf sé gott vegarnesti hverjum þeim sem hyggst halda út í viðskiptalífið. Loks verða menn ekki menn að meiri með því að gera lítið úr öðrum. Menn eiga að verða sjálfs síns herrar en jafnframt hjálpa þeim sem er hjálpar þörf. Alls ekki er víst að þetta hafi verið almennt viðhorf en þó, þá jafnt sem nú, viðhorf viturra manna.

More News

Vísbending

Vís­bending

Vís­bending , tímarit um viðskipti og efnahagsmál er gefin út vikulega og árið 2004 komu út 51 tölu...

Pages