Kugelmass málið

Fréttir

Smásögur

Kugelmass málið

Kugelmass máliðúr Side Effects, eftir Woody AllenKugelmass, prófessor í heimspekideild City College, var óhamingjusamlega giftur öðru sinni. Konan hans, Daphne Kugelmass, var algjör auli. Hann átti líka tvo syni, sem voru algjör dauðyfli, með fyrri konu sinni, Flo, og var að drukkna í meðlagsgreiðslum.„Hvernig átti ég að vita að allt yrði svona ömurlegt?“ vældi Kugelmass við sálfræðinginn sinn dag nokkurn. „Daphne lofaði svo góðu. Hvernig átti maður að vita að hún ætti eftir að missa taumhald á sér og tútna út eins og sundbolti? Hún átti líka aura, sem er svo sem ekki eitt og sér ástæða til þess að giftast einhverjum, en það spillti ekki eins og ástatt var fyrir mér. Veistu við hvað ég á?“Kugelmass var nauðasköllóttur og loðinn eins og bjarndýr, en hann var gæddur sál.„Ég verð að hitta nýja konu,“ hélt hann áfram. „Ég verð að eiga ástarævintýri. Það getur vel verið að ég líti ekki þannig út en ég þarf á rómantík að halda. Ég þarf mýkt, ég þarf daður. Ég er ekki yngjast, þannig að áður en það er of seint langar mig til þess að elskast í Feneyjum, reita af mér brandara á veitingahúsinu 21 og skiptast á augngotum yfir rauðvíni og kertaljósi. Skilurðu hvað ég er að fara?“Dr. Mandel reisti sig í stólnum og sagði: „Ástarævintýri leysir engan vanda. Þú ert raunveruleikafirrtur. Vandamálin eru miklu dýpri en þetta.“„Þetta framhjáhald má ekki heldur fara hátt“ sagði Kugelmass. „Ég hef ekki efni á öðrum skilnaði. Daphne myndi alveg mergsjúga mig.“„Heyrðu, Kugelmass ... “„En það má ekki vera nein í háskólanum af því Daphne vinnur þar líka. Ekki það að það sé nein í kennarahópnum sem er eitthvað til að hrópa húrra fyrir, en stúdínurnar ...“„Heyrðu mig nú, Kugelmass ... “„Hjálpaðu mér. Mig dreymdi draum í nótt. Ég var að ganga yfir engi með matarkörfu sem á stóð: Tækifæri. Og þá sá ég að það var gat á körfunni.“„Kugelmass, það versta sem þú getur gert er að láta til skarar skríða. Þú verður að láta þér nægja að segja mér frá tilfinningum þínum og svo getum við greint þær saman. Þú ert búinn að vera í meðferð nógu lengi til þess að vita að það er engin skyndilækning til. Ég er líka bara sálfræðingur, ekki töframaður.“„Kannski ég þurfi þá á töframanni að halda,“ sagði Kugelmass um leið og hann reis upp úr stólnum. Og þar með var sálfræðimeðferðinni hans lokið.Hálfum mánuði seinna, þegar Kugelmass og Daphne héngu í íbúðinni sinni eins og tvær gamlar mublur, hringdi síminn.„Ég skal svara“, sagði Kugelmass. „Halló.“„Kugelmass?“ sagði röddin í símanum. „Kugelmass, þetta er Persky.“„Hver?“„Persky. Eða ætti ég að segja Persky hinn mikli?“„Ha?“„Ég heyri að þú sért að leita út um allan bæ að töframanni til þess að galdra fram smá spennu í lífið. Er það ekki rétt?“„Uss,“ hvíslaði Kugelmass. „Ekki leggja á. Hvaðan ertu að hringja Persky?“Strax eftir hádegi daginn eftir gekk Kugelmass upp á þriðja stigapall í hrörlegri blokk í Bushwick hluta Brooklyn. Hann rýndi inn í myrkrið á ganginum og fann þá dyrnar sem hann var að leita að og hringdi dyrabjöllunni. „Þessu á ég eftir að sjá eftir,“ hugsaði hann með sjálfum sér.Augnabliki síðar heilsaði lágvaxinn, mjósleginn og fölleitur maður honum.„Ert þú Persky hinn mikli?“„Hinn mikli Persky. Viltu te?“„Nei, ég vil ástarævintýri, ég vil tónlist. Ég vil ást og fegurð.“„En semsé ekki te? Stórmerkilegt. Allt í lagi, fáðu þér sæti.“Persky fór inn í bakherbergi og Kugelmass heyrði að kössum og húsgögnum var ýtt til og frá. Persky birtist aftur og ýtti á undan sér stórum hlut á ískrandi hjólaskautahjólum. Hann tók nokkra gamla silkivasaklúta sem lágu ofan á hlutnum og blés ryk af toppnum. Þetta var illa lakkaður, kínverskur skápur af ódýrari gerðinni að því er virtist.„Persky,“ sagði Kugelmass , „hvaða pretti stundar þú?“„Taktu nú vel eftir,“ sagði Persky. „Þetta er skemmtileg brella. Ég bjó þetta til fyrir skemmtikvöld hjá Musterisriddurunum í fyrra, en fundurinn féll niður. Farðu inn í skápinn.“„Hvers vegna? Til þess að þú getir stungið sverðum í hann eða hvað?“„Sérðu einhver sverð?“Kugelmass gretti sig og fór nöldrandi inn í skápinn. Hann komst ekki hjá því að taka eftir því að tveir ljótir gervidemantar voru límdir á viðinn beint fyrir framan andlitið á honum. „Ef þetta er brandari ... ,“ sagði hann.„Sér er nú hver brandarinn. Mergurinn málsins er þessi: Ef ég hendi einhverri bók inn í skápinn með þér, loka dyrunum og banka þrisvar á þær, þá ertu kominn inn í bókina.“Kugelmass setti upp vantrúarsvip.„Þetta er dagsatt,“ sagði Persky. „Tíu fingur upp til Guðs. Og þetta gildir ekki bara um skáldsögur. Líka smásögur, leikrit, ljóð. Þú getur hitt hvaða konu sem mestu ritsnillingar veraldar hafa búið til. Hverja sem þig hefur dreymt um. Þú mátt vera eins lengi og þú vilt með alvöru dömu. Þegar þú hefur fengið nóg þá skaltu kalla og ég sé um að þú komist hingað aftur á augabragði.“„Persky, ertu einhvers konar göngudeildarsjúklingur?“„Ég er að segja þér að þetta er dagsatt,“ sagði Persky.Kugelmass efaðist enn. „Þú ert að segja mér - að þessi væmni, heimasmíðaði kassi geti farið með mig í svona ferð eins og þú ert að lýsa.“„Fyrir tuttugu bleðla.“Kugelmass dró fram veskið. „Þessu trúi ég ekki nema ég taki á því,“ sagði hann.Persky tróð peningunum í buxnavasann og sneri sér að bókaskápnum. „Og hverja langar þig svo til að hitta? Systur Carrie? Hester Prynne? Ófelíu? Kannski einhverja eftir Saul Bellow? Heyrðu, hvað segirðu um Temple Drake? En hún yrði líklega púl fyrir mann á þínum aldri.“„Franska. Ég vil komast í samband við franska ástkonu.“„Nönu?“„Ég vil ekki þurfa að borga fyrir það.“„Hvað um Natösju úr Stríði og friði?“„Ég sagði franska. Nú veit ég. Hvað um Emmu Bovary? Hún virðist alveg fullkomin.“„Gjörðu svo vel Kugelmass. Kallaðu í mig þegar þú hefur fengið nóg.“ Persky henti inn pappírskilju af skáldsögu Flauberts.„Ertu viss um að þetta sé hættulaust?“ spurði Kugelmass þegar Persky byrjaði að halla aftur skáphurðunum.„Hættulaust? Er nokkuð hættulaust í þessari vitskertu veröld?“ Persky bankaði þrisvar á skápinn og opnaði svo dyrnar.Kugelmass var horfinn. Á sömu stundu birtist hann í svefnherberginu í húsi Karls og Emmu Bovary í Yonville. Fyrir framan hann stóð falleg kona og braut saman þvott. Ég trúi þessu ekki, hugsaði Kugelmass, og horfði á töfrandi fagra konu læknisins. Þetta er með ólíkindum. Ég er hérna. Þetta er hún.Emma sneri sér undrandi við. „Guð minn góður hvað mér brá,“ sagði hún. „Hver ert þú?“ Hún talaði í sama fína málið og var á þýðingunni.Þetta er algjört rothögg hugsaði hann með sér. Svo þegar hann áttaði sig á því að hún var að tala við hann sagði hann: „Afsakaðu. Ég heiti Sidney Kugelmass. Ég er við City College. Prófessor í heimspekideild. City College, New York. Í norðurhlutanum. Ég - æ hver fjárinn!“Emma Bovary brosti eins og daðurdrós og sagði: „Má bjóða þér í glas? Léttvín kannski?“Hún er unaðsleg, hugsaði Kugelmass. En sú andstaða við fornaldareðluna sem svaf í sama rúmi og hann! Hann fékk skyndilega löngun til þess að umvefja þessa draumadís örmum, segja henni að hún væri einmitt sú kona sem hann hefði dreymt um allt sitt líf.„Já léttvín væri fínt,“ sagði hann hásum rómi. „Hvítt. Nei, rautt. Nei, hvítt. Hafðu það hvítt.“„Karl verður að heiman allan daginn,“ sagði Emma og röddin gaf alls kyns hluti í skyn.Eftir að þau höfðu bergt á víninu fóru þau út að ganga í dásamlegri, franskri sveitasælu. „Mig hefur alltaf dreymt um að einhver dularfullur maður birtist og bjargaði mér úr þessari tilbreytingarlausu og heimskulegu veröld hér í fásinninu,“ sagði Emma og þrýsti hönd hans. Þau gengu fram hjá lítilli kirkju. „Þú ert í svo fallegum fötum,“ muldraði hún. „Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt hér um slóðir. Þau eru svo ... svo nýtískuleg.“„Þetta er kallað sportklæðnaður,“ sagði hann rómantískur. „Þau voru á útsölu.“ Allt í einu kyssti hann hana. Næsta klukkutímann lágu þau undir tré og hvísluðust á og skiptust á mjög þýðingarmiklum augngotum. Þá reis Kugelmass á fætur. Hann mundi allt í einu eftir því að hann þurfti að hitta Daphne í Bloomingdale búðinni. „Ég verð að fara,“ sagði hann við hana. „En hafðu engar áhyggjur, ég kem aftur.“„Ég vona það,“ svaraði Emma.Hann faðmaði hana ástríðufullur að sér og þau gengu saman aftur að húsinu. Hann hélt lófunum utan um andlitið á Emmu, kyssti hana aftur og kallaði: „Jæja Persky, ég þarf að vera í Bloomingdale klukkan klukkan hálffjögur.“Það heyrðist hvellur og Kugelmass var kominn til baka til Brooklyn.„Og var ég svo að ljúga,“ sagði Persky sigri hrósandi.„Heyrðu Persky, ég er að verða of seinn að hitta fangavörðinn niður á Lexington stræti, en hvenær get ég farið aftur? Á morgun?“„Mín er ánægjan. Komdu bara með tuttugukall. Og nefndu þetta ekki við neinn.“„Auðvitað. Hver er síminn í fréttaskotinu?“Kugelmass náði í leigubíl og þaut af stað í bæinn. Hjartað í honum dansaði. Ég er ástfanginn, hugsaði hann, ég á dásamlegt leyndarmál. Það sem hann áttaði sig ekki á var að á þessu augnabliki voru nemendur í fyrirlestrasölum víða um land að spyrja kennarana sína: „Hver er þessi persóna á blaðsíðu 100? Sköllóttur gyðingur sem er að kyssa Madam Bovary?“ Kennari í Sioux Falls í Suður-Dakóta andvarpaði og hugsaði: Guð minn góður, þessir krakkar, hassistar og sýruhausar. Hvað þeim dettur í hug.Daphne Kugelmass var í baðtækjadeildinni í Bloomingdale þegar Kugelmass kom lafmóður. „Hvar hefurðu verið?“ hreytti hún út úr sér. „Klukkan er hálffimm.“„Ég lenti í umferðarteppu,“ sagði Kugelmass. 
Kugelmass heimsótti Persky næsta dag og eftir nokkrar mínútur var hann horfinn á vængjum töfranna til Yonville. Emma gat ekki leynt því hvað hún var spennt að sjá hann. Þau eyddu löngum stundum saman, hlógu og töluðu um fortíðina hjá hvoru um sig. Áður en Kugelmass fór elskuðust þau. „Ó guð, ég er að gera það með Madam Bovary!“ hvíslaði Kugelmass að sjálfum sér. „Ég sem féll í fyrsta enskuáfanga í háskóla.“Mánuðirnir liðu og Kugelmass kom oft til Perskys. Með honum og Emmu Bovary þróaðist náið og ástríðuþrungið samband. „Gættu þess að ég komist alltaf inn í bókina fyrir blaðsíðu 120,“ sagði Kugelmass við töframanninn dag nokkurn. „Ég verð alltaf að hitta hana áður en hún kemst í samband við þennan Rodolphe náunga.“„Af hverju,“ spurði Persky. „Geturðu ekki slegið honum við?“„Slegið honum við. Hann er hreinræktaður aðalsmaður. Þessir náungar hafa ekkert betra að gera en að daðra og ríða hestum. Í mínum augum er hann eins og þessir væmnu náungar sem maður sér í tískublöðum. Með tilgerðarlega hárgreiðslu. En henni finnst hann frábær.“„Og manninn hennar grunar ekkert?“„Hann er ekki í réttri deild. Hann er lítilfjörlegur sjúkraliði sem hefur krækt sér í dansfífl. Hann er kominn í háttinn klukkan tíu þegar hún er að setja á sig dansskóna. Jæja, sé þig á eftir.“Og einu sinni enn fór Kugelmass inn í skápinn og var þegar í stað staddur á búgarði Bovary í Yonville. „Hvernig hefurðu það, sætabrauðið mitt,“ sagði hann við Emmu.„Ó Kugelmass,“ stundi Emma. „Það sem ég þarf að búa við. Í kvöldmatnum í gær sofnaði Hr. Áhugaverður í miðjum ábætinum. Ég var að tala um tískuhús og ballett og allt í einu heyrði ég hrotur.“„Allt í lagi ástin mín. Ég er kominn,“ sagði Kugelmass og faðmaði hana um leið. Ég á þetta skilið, hugsaði hann þegar hann fann lyktina af frönsku ilmvatninu og rak nefið á kaf í hárið á henni. Ég hef þjáðst nóg. Ég er búinn að borga nógu mörgum sálfræðingum. Ég var búinn að leita þar til ég var orðinn uppgefinn. Hún er ung og fullvaxta, og hér er ég, nokkrum blaðsíðum á eftir Leon og rétt á undan Rodolphe. Með því að koma inn í rétta kafla hef ég stjórn á öllu.Það má ekki fara milli mála að Emma var alveg jafn hamingjusöm og Kugelmass. Hana hafði hungrað í spennu og sögur hans af lífinu á Broadway, hraðskreiðum bílum og stjörnum úr kvikmyndum og sjónvarpi heilluðu hina ungu, frönsku fegurðardís.„Segðu mér aftur frá O.J. Simpson,“ sagði hún þá um kvöldið meðan hún og Kugelmass spássersuðu framhjá kirkju Bournisien ábóta.„Hvað get ég sagt? Maðurinn er stórkostlegur. Hann setur alls kyns hlaupamet. Hvílíkar hreyfingar. Þeir ná honum aldrei.“„Og óskarsverðlaunin?“ spurði Emma og horfði á hann með löngunarfullum augum. „Ég gæfi hvað sem er fyrir að vinna óskar.“„Fyrst þyrftir þú að fá tilnefningu.“„Ég veit það. Þú varst búinn að útskýra það. En ég er viss um að ég get leikið. Auðvitað yrði ég að fara á eitt eða tvö námskeið. Kannski hjá Strasberg. Ef ég hefði rétta umboðsmanninn - .“„Sjáum til, sjáum til. Ég skal tala við Persky.“Þegar hann var kominn heilu og höldnu til baka í íbúð Perskys um kvöldið setti Kugelmass fram hugmyndina um að Emma heimsækti hann í stórborgina.„Lof mér að hugsa um það,“ sagði Persky. „Kannski ég geti það. Undarlegri hlutir hafa gerst.“ En auðvitað datt hvorugum neinn þeirra í hug. 
„Hvert í fjáranum ferðu alltaf?“ gelti Daphne Kugelmass að eiginmanni sínum þegar hann kom heim seint þetta kvöld. „Ertu kominn með viðhald einhvers staðar?“„Já auðvitað, ég er einmitt sú manngerð,“ svaraði Kugelmass þreytulega. „Ég var með Leonard Popkin. Við vorum að tala um samyrkjubúskap í Póllandi. Þú þekkir Popkin. Hann er með þetta á heilanum.“„Jæja, en þú ert búinn að vera mjög skrýtinn undanfarið,“ sagði Daphne. „Fjarlægur. Gleymdu bara ekki afmælisdegi pabba. Á laugardaginn.“„Einmitt, einmitt,“ sagði Kugelmass og stefndi á baðherbergið.„Öll fjölskyldan mín verður þar. Við hittum tvíburana. Og Hamish frænda. Þú ættir að vera kurteisari við Hamish frænda - hann kann vel við þig.“„Einmitt, tvíburarnir,“ sagði Kugelmass um leið og hann hallaði dyrunum að baðherberginu og lokaði um leið á rödd konunnar sinnar. Hann lagðist upp að hurðinni og andaði djúpt að sér. Hann sagði við sjálfan sig að eftir örfáa klukkutíma yrði hann kominn aftur til Yonville og yrði með ástvinu sinni. Og ef allt færi vel myndi hann taka Emmu til baka með sér.Klukkan fimmtán mínútur yfir þrjú daginn eftir galdraði Persky aftur. Kugelmass birtist hjá Emmu, brosandi og ákafur. Þau eyddu nokkrum tímum í Yonville með Binet og fóru svo aftur í hestvagn Bovary fjölskyldunnar. Samkvæmt leiðbeiningum Perskys héldu þau fast utan um hvort annað, lokuðu augunum og töldu upp að tíu. Þegar þau opnuðu augun aftur var vagninn að keyra upp að hliðardyrum á Plaza hótelinu, þar sem Kugelmass hafði í bjartsýni sinni tekið frá herbergi fyrr um daginn.„Þetta er dásamlegt! Þetta er einmitt eins og mig dreymdi um,“ sagði Emma þar sem hún sveif himinlifandi um hótelherbergið og horfði á borgina út um gluggann. „Þarna er F.A.O. Schwarz. En hvar er Miðgarðurinn? Ó þarna er hann, ég sé hann. Hann er guðdómlegur.“Á rúminu voru bögglar frá Halston og Saint Laurent búðunum. Emma tók upp pakka og hélt svörtum flauelsbuxum upp að fullkomnum líkamanum.„Buxnadressið er frá Ralph Lauren,“ útskýrði Kugelmass. „Þú lítur út eins og milljón í því. Svona molinn minn, nú vil ég koss.“„Ég hef aldrei verið svona hamingjusöm!“ Emma stóð á öndinni fyrir framan gluggann. „Förum út á lífið. Ég vil sjá söngleik og Guggenheim safnið og þennan Jack Nicholson náunga sem þú ert alltaf að tala um. Er verið að sýna einhverja ræmu með honum?“„Ég skil þetta ekki,“ sagði prófessor við Stanford háskóla. „Fyrst birtist einhver undarlegur náungi sem heitir Kugelmass og nú er hún horfin úr bókinni. Þetta er líklega gæðastimpillinn á sígildu verki, maður getur lesið það þúsund sinnum og alltaf fundið eitthvað nýtt.“ 
Elskendurnir áttu sælustundir saman alla helgina. Kugelmass hafði sagt Daphne að hann yrði á ráðstefnu í Boston og kæmi aftur á mánudeginum. Hann og Emma nutu hverrar stundar. Þau fóru í bíó, fengu sér kvöldmat í Kínahverfinu, voru tvo tíma á diskóteki og horfðu á bíómynd í sjónvarpinu þegar þau voru komin í rúmið. Þau sváfu fram að hádegi á sunnudeginum, fóru í Soho og störðu á fræga fólkið í Elaine næturklúbbnum. Þau fengu sér kavíar og kampavín á herberginu um kvöldið og töluðu saman fram undir morgun. Þegar þau voru í leigubílnum sama morgun á leið í íbúðina til Perskys hugsaði Kugelmass með sér: Þetta var span en vel þess virði. Ég get ekki tekið hana hingað of oft, en það verður hrífandi tilbreyting frá Yonville að gera þetta öðru hvoru.Heima hjá Persky fór Emma inn í skápinn, raðaði fatabögglunum snyrtilega í kringum sig og kyssti Kugelmass innilega. „Næst hittumst við heima hjá mér,“ sagði hún og deplaði augunum. Persky bankaði þrisvar á skápinn. Ekkert gerðist.„Humm,“ sagði Persky og klóraði sér í hausnum. Hann bankaði aftur og enn gerðist ekkert. „Það hlýtur eitthvað að vera að,“ muldraði hann.„Persky, þú ert að grínast!“ hrópaði Kugelmass. „Hvernig getur verið að þetta virki ekki?“„Rólegur, rólegur. Ertu enn í skápnum Emma?“„Já.“Persky barði aftur - nú svolítið fastar en áður.„Ég er hérna ennþá Persky.“„Ég veit það, vina mín. Vertu róleg.“„Persky, við verðum að koma henni til baka.“ hvíslaði Kugelmass. „Ég er giftur maður og ég þarf að vera kominn í kennslu eftir þrjá tíma. Ég er ekki tilbúinn í neitt nema varfærnislegt ástarævintýri núna.“„Ég skil þetta ekki,“ tuldraði Persky. „Þetta er svo áreiðanleg, lítil brella.“En hann gat ekkert gert. „Þetta tekur smástund,“ sagði hann við Kugelmass. „Ég þarf að taka hann í sundur. Ég hringi í þig seinna.“Kugelmass bögglaði Emmu inn í leigubíl og fór með hana aftur á Plaza hótelið. Hann rétt komst til þess að kenna. Hann var í símanum allan daginn, til skiptis við Persky og ástmey sína. Töframaðurinn sagði honum að það gæti tekið nokkra daga áður en hann kæmist til botns í vandanum.„Hvernig var ráðstefnan?“ spurði Daphne hann um kvöldið.„Ágæt, ágæt,“ sagði hann um leið og hann kveikti í filternum á sígarettunni.„Hvað er að? Þú ert ein taugahrúga.“„Ég? Hah, en sú þvæla. Ég er eins rólegur og sjór í logni. Ég ætla bara að fara út að ganga.“ Hann smeygði sér út um dyrnar, tók leigubíl og hentist á Plaza hótelið.„Þetta gengur ekki,“ sagði Emma. „Karl mun sakna mín.“„Treystu mér, dúllan mín,“ sagði Kugelmass. Hann var fölur og sveittur. Hann kyssti hana aftur, hljóp að lyftunum, öskraði á Persky í gegnum símann í anddyrinu á Plaza hótelinu og komst heim rétt fyrir miðnætti.„Popkin segir að verð á byggi hafi ekki verið svona stöðugt í Krakov síðan 1971,“ sagði hann við Daphne og brosti dauflega um leið og hann skreið upp í rúmið. 
Svona leið öll vikan.Á föstudagskvöld sagði Kugelmass Daphne að það væri önnur ráðstefna sem hann yrði að fara á, núna í Sýrakúsu. Hann flýtti sér á Plaza hótelið en önnur helgin var ekkert svipuð þeirri fyrstu. „Annað hvort kemur þú mér inn í söguna eða giftist mér, “ sagði Emma við Kugelmass. „Í millitíðinni ætla ég að fá mér vinnu eða fara á námskeið því það er ömurlegt að horfa á sjónvarpið allan daginn.“„Fínt. Við þurfum á peningunum að halda,“ sagði Kugelmass. „Þú eyðir tvöfaldri þyngd þinni í herbergisþjónustu.“„Ég hitti leikhússtjóra úr litlu leikhúsi í Miðgarði í gær og hann sagði að ég gæti verið rétta manneskjan í stykki sem hann er að setja upp.“„Hvaða trúður var það?“ spurði Kugelmass.„Hann er enginn trúður. Hann er tilfinninganæmur, góður og sætur. Hann heitir Jeff eitthvað og hefur verið tilnefndur til Tony leikritaverðlaunanna.“Seinna þennan dag kom Kugelmass drukkinn til Perskys.„Slappaðu af,“ sagði Persky við hann. „Þú færð hjartaáfall.“„Slappa af. Maðurinn segir mér að slappa af. Ég er með skáldsagnapersónu á hótelherbergi og ég held að konan mín láti einkasnuðrara elta mig.“„Svona, svona. Við vitum að það er ekki allt í lagi.“ Persky skreið undir skápinn og fór að lemja á eitthvað með löngum skiptilykli.„Ég er eins og villidýr,“ hélt Kugelmass áfram. „Ég laumast um bæinn og við Emma erum búin að fá meira en nóg hvort af öðru. Svo ekki sé minnst á hótelreikninginn sem er farinn að vera á stærð við fjárlögin.“„Hvað á ég að gera? Svona er töfraveröldin,“ sagði Persky. „Þetta eru allt tilbrigði.“„Sér eru nú hver tilbrigðin. Ég helli lindarvatni og sælkeramat upp í þessa mýslu, allt ofan á fullan fataskápinn, þar á ofan er hún gengin í áhugaleikhús og þarf á atvinnuljósmyndara að halda. Og þar að auki, Persky minn góður, er Fivish Kopkind prófessor, sem kennir samanburðarbókmenntir og hefur alltaf verið afbrýðisamur út í mig, búinn að átta sig á því að ég sé persónan sem kemur öðru hvoru fyrir í bók Flauberts. Hann er búinn að hóta því að fara til Daphne. Ég sé líf mitt fyrir mér í rúst, meðlagsgreiðslur og fangelsi. Konan mín ýtir mér út í betl fyrir að halda framhjá með Madam Bovary.“„Hvað viltu að ég segi? Ég er að reyna að laga þetta dag og nótt. En ég get ekki hjálpað þér með kvíðatilfinninguna. Ég er töframaður, ekki sálfræðingur.“Sunnudag eftir hádegi var Emma búin að læsa sig inni á baði og neitaði að svara þótt Kugelmass grátbæði hana. Hann horfði út um gluggann og velti því fyrir sér hvort hann ætti að stytta sér aldur. Ansans vandræði að þetta er ein af neðri hæðunum, hugsaði hann. Annars hefði ég látið verða af því. Ef ég flýði til Evrópu og byrjaði nýtt líf ... Kannski ég gæti selt Herald Tribune eins og litlu stelpurnar voru vanar að gera.Síminn hringdi. Kugelmass lyfti tólinu vélrænt upp að eyranu.„Komdu með hana hingað,“ sagði Persky. „Ég held ég sé búinn að leysa vandann.“Hjarta Kugelmass tók kipp. „Er þér alvara?“ spurði hann. „Ertu búinn að laga þetta?“„Það var eitthvað að gírkassanum. Drífðu þig.“„Persky, þú ert séní. Við verðum komin eftir augnablik. Minna en augnablik.“Elskendurnir hröðuðu sér til íbúðar töframannsins aftur og Emma Bovary steig á ný upp í skápinn með bögglana sína. Í þetta sinn var enginn koss. Persky lokaði dyrunum, andaði djúpt að sér, og bankaði þrisvar á kassann. Það heyrðist hughreystandi hvellur og þegar Persky kíkti inn var skápurinn tómur. Madam Bovary var aftur komin í skáldsöguna sína. Kugelmass andvarpaði hátt og þrýsti hönd töframannsins fast.„Því er lokið,“ sagði hann. „Ég hef lært mína lexíu. Ég held aldrei framhjá aftur, það sver ég.“ Hann kreisti hönd Perskys aftur og hugsaði með sér að hann ætti að senda honum hálsbindi. 
Þremur vikum síðar, seint á fögrum vordegi, svaraði Persky dyrabjöllunni. Það var Kugelmass, kindarlegur á svip.„Allt í lagi Kugelmass,“ sagði töframaðurinn. „Hvert er ferðinni heitið núna?“„Bara í þetta eina skipti,“ sagði Kugelmass. „Það er svo fallegt veður og ég verð ekkert yngri. Heyrðu, hefurðu lesið Kvörtun Portnoys? Manstu eftir apanum?“„Verðið er tuttugu og fimm dalir núna af því að framfærslukostnaðurinn hefur hækkað, en ég læt þig fá eina ókeypis ferð af því að ég er búinn að valda þér svo miklum vandræðum.“„Þú ert eðalmenni,“ sagði Kugelmass og greiddi þessi fáu hár sem eftir voru um leið og hann steig inn í skápinn aftur. „Heldurðu að þetta virki núna?“„Ég vona það. En ég hef ekki prófað það mikið síðan við lentum í öllum þessum óþægindum.“„Kynlíf og rómantík,“ sagði Kugelmass innan úr skápnum. „Það sem við leggjum á okkur fyrir fallegt andlit.“Perksy henti inn eintaki af Kvörtun Portnoys og bankaði þrisvar á kassann. Í þetta skipti heyrðist ekki smellur heldur dauf sprenging og í kjölfar hennar snark og neistaflug. Persky stökk aftur á bak, fékk hjartaáfall og datt niður dauður. Það kviknaði í skápnum og loks brann húsið til kaldra kola.Kugelmass, sem vissi ekkert um þessar hamfarir, átti við næg vandamál að etja sjálfur. Hann var alls ekki  í Kvörtun Portnoys eða reyndar neinni annarri skáldsögu ef út í það er farið. Hann hafði lent í gamalli kennslubók, Upprifjun á spænsku, og átti fótum fjör að launa, þar sem hann hljóp yfir eyðilegt og grýtt svæði á undan orðinu tener (að vera) - stórri, loðinni, óreglulegri sögn - sem elti hann á löngum, mjóum leggjum.

More News

Smásögur

Fallega fólkið

eftir Benedikt Jóhannesson I. Jennifer: Finnst þér ég vera rangeyg? Brad: Ha? J: Joey sagði alltaf...

Smásögur

Bréf frá himnum

eftir Benedikt Jóhannesson Það voru margir á ferli í Bankastrætinu og Jesús þurfti að skáskjóta sér...

Smásögur

Forleikur

Engin smá saga eftir Benedikt Jóhannesson. Ég vil ekki eyða miklu plássi í smáatriði en ég held að...