Taktu burt sjálfselskuna og ekkert mannkyn verður framar til

Fréttir

Vísbending

Taktu burt sjálfselskuna og ekkert mannkyn verður framar til


Taktu burt sjálfselskuna og ekkert mannkyn verður framar tilÍslensk hagfræði frá fyrri öldum. Benedikt Jóhannesson, jólablað Vísbendingar 2002


Nútímamönnum hættir oft við að telja að vísindin séu ný af nálinni. Áður fyrr hafi fyrst og fremst verið til þekking, fróðleikur af ýmsu tagi, en honum hafi ekki verið raðað upp með því skipulegi sem við teljum vísindi nú á dögum. Og auðvitað er þetta rétt að einhverju leyti. En þó er ekkert sem bendir til þess að mannshugurinn hafi þróast með þeim hætti að menn séu greindari nú á dögum en í fornöld. Hins vegar hefur í aldanna rás smám saman safnast upp viska sem auðveldar okkur að skilja hlutina betur með því að raða þeim í skipuleg kerfi. Til hinna nýju vísindagreina teljast viðskipta- og hagfræði. Því fer þó fjarri að fyrr á öldum hafi menn ekki velt fyrir sér ýmsu af því sem nú skiptir meginmáli í hagfræðinni. Hagkerfin voru einfaldari, atvinnugreinarnar fáar og meginviðfangsefnið stundum spurning um líf eða dauða í bókstaflegri merkingu. Í þessari grein verður skyggnst í nokkrar bækur sem Íslendingar skrifuðu fyrr á öldum og vitnað í skrif íslenskra vísindamanna fyrr á öldum um það sem við nú á tímum myndum ef til vill fella undir haglýsingu, en var í raun hagfræði síns tíma. Þessi yfirferð er miklu fremur sýnihorn af því sem menn settu á blað en tæmandi úttekt. Miklu fleiri dæmi mætti tilfæra og vitna í verk annarra manna. Flest sýnishornin eru líka valin til skemmtunar jafnt sem fróðleiks og þurfa ekki endilega að gefa mynd af verkunum í heild.


 


Fyrsta bókin sem skoðuð er Íslandslýsing Odds biskups Einarssonar en það síðasta Auðfræði Arnljóts Ólafssonar. Síðarnefnda ritið er fyrsta íslenska fræðiritið um nútímahagfræði. Það vill svo skemmtilega til að verkin dreifast á fjórar aldir. Rit Odds er skrifað um 1600, Páll Vídalín skrifar um 1700 og Jón Eiríksson um 70 árum síðar, Hannes biskup Finnsson skömmu fyrir aldamótin 1800, Jón Sigurðsson um og eftir miðja 19. öldina og loks kom rit Arnljóts um 1880. Þannig spanna þessi rit saman um 400 ár í íslenskri hagfræði og sex fræðimenn koma við sögu.Lögmæt og innileg ást eða dreggjar almúgans


Á miðöldum Íslandssögunnar sem stundum fyrr og síðar sárnaði Íslendingum mjög þegar útlendingar fóru með fleipur og hindurvitni um landið. Arngrímur lærði ritaði í lok 16. aldar ýmis rit landinu til varnar. Í byrjun þeirra 17. var ritað um landið lítið rit á latínu sem kennt hefur verið Oddi biskup Einarssyni. Oddur segir frá landi og þjóð.


Fólksfjölgun skipti lykilmáli í landinu. Lýkur Oddur almennt á landsmenn lofsorði og segir um hjónabandið: "En að sama skapi sem velfestir Íslendinga eru gæddir lofsverðri sjálfstjórn, þá hygg ég líka að hvergi sé hin lögmæta ást millum hjóna heitari og innilegri en á Íslandi. ... Og svo er frjósemi sumra mæðra mikil, að þær fæða 20 eða jafnvel 30 börn, að ég tali nú ekki um sjálfa feðurna, sem í öðru eða þriðja hjónabandi geta miklu fleiri. En einmitt vegna þessa fólksfjölda, sem nú fyllir Ísland, er þar ótölulegur fjöldi beiningamanna, sem draga fram lífið í látlausri vanhirðu og óþrifnaði, örbirgð og smán. Þeir hafa hvorki spjarir utan á sig né neitt sem þarf til viðhalds lífinu nema það sem þeir sárbiðja sér með því að knýja á einar dyr af öðrum, enda eru þeir, þar eð þeir hafa vanist þessari fjöldabeiningamennsku frá blautu barnsbeini, að langmestu leyti fráhverfir vinnu, dáðlausir, latir og sinnulausir. Þannig eru hinir, sem betur eru settir og án afláts eru knúnir til hjálpar upp á skjólleysi og beiningar slíks fjölda, undirlagir mikilli örtröð, svo að þessi farandlýður og dreggjar almúgans má með sanni kallast það farg, sem mæðir á jörð vorri og sú vá sem steðjar að staðfestu vorri. Annars ættu yfirvöld að beita valdi sínu og reka svona menn upp úr dáðleysinu og sinnuleysinu til nytsamlegrar vinnu og hreint og beint banna letingjunum og iðjuleysingjunum fæði og klæði eftir fyrirmælum Páls postula." Það er athyglisvert að Oddur sér enga þversögn í því að hallmæla beiningamönnunum í sama orðinu og hann hrósar landsmönnum almennt. Hann talar svo um hættuna af sjúkdómum sem fylgir þessum fátæka lýð og skort á sjúkrahúsum. Næstir betlurum telur Oddur að komi vesælir leiguliðar sem hafi á leigu kofaræksni til að búa í og nokkrar kýr og ásauði.  Örbirgð siðleysisins hvetji suma til ónytjungsskapar og ills hátternis. Útlendingar tali um illa meðferð á börnum á Íslandi en "sýna sjálfir sinn eigin óþverraskap og mannúðarleysi með því að þeir allt að því keppast um að kaupa snotur hundagrey á Íslandi, fást varla til að taka að sér börn."


Sumir eiga nokkrar eignir, sumpart fyrir elju, sumpart fengnar að erfðum. "Og svo mikið er hið efnalega ójafnræði að um leið og sumir eiga varla upp í nös á ketti, eins og máltækið segir, eiga aðrir auk fjölda stórgripa og fjár víðlendar jarðir og ágætlega hýst stórbýli. ... Voru sumir þessara manna áður fyrr líka hylltir sem aðalsmenn og báru sérstök skjaldamerki, enda komnir af bestu og tignustu ættum Norðmanna. En þó að nú á dögum sú til hjá oss örugg niðjatöl ætta þessara, þá eru þeir nú lítils metnir af flestum, vegna þess að nálega allt, sem til er á Íslandi af fasteignum, lenti annaðhvort í fárra manna höndum, og það manna af lágum stigum, eða rann í fjárhirslur konungs."Sama verð um aldir alda


Oddur segir frá viðskiptum og þar kemur fram að verðbólga var engin í viðskiptum innanlands og lögmálin um framboð og eftirspurn honum lítt að skapi. Vöruskipti voru viðtekinn verslunarmáli og skortur á málmum til myntsláttu: "Hér að framan hef ég nú rætt stuttlega um hina gagnkvæmu góðgerðarsemi og vinsamlegu samskipti Íslendinga og sér í legi um gestrisni þeirra. Er nú rétt að segja nokkuð frá verslun þeirra og viðskiptum, bæði sín á milli og við aðra, og mun af því sjást, hve fráhverft þetta fólk er svikum, prettum og falsi. En þeir viðhafa almennt í kaupum og sölum hina ævafornu viðskiptaaðferð, sem sé að skipt á einum hlut fyrir annan. Það að auki halda þeir alltaf í heiðri einu og sama verði á öllum hlutum. Þannig selst hjá oss í dag pund af smjöri, fiski, mjöli o.s.frv., eða alin af dúk, vaðmáli, líni eða hvers konar annarrar álna- og þyngdarvöru á ekki meira en fyrir 100 eða jafnvel 200 árum og meira. Og ekki seljast heldur nautgripir, sauðfé, hestar, geitur né nokkuð annað, svo ég viti, fyrir meira ú, hvernig sem árar. Skal ósagt látið, hvort að þessu leyti beri að telja íslandinga meiri hrakfallabálka en aðrar þjóðir, eða kannski staðfastari, réttsýnni og áreiðanlegri. En að þessu leyti eru þeir fastheldnir við forna siði. Aftur á móti breyta erlendir kaupmenn þráfaldlega verðgildi vöru sinnar og selja við mismunandi verði og sem langrum verra er, margsvíkja hana. Hafa alloft heyrst sárar kvartanir íslandinga undan þessu, enda var það samkomulag þeirra og erlendra kaupmanna, að yfirleitt allar vörur sem fluttar eru til eyjarinnar og frá henni skyldu um alla framtíð seljast við því verði, sem þær voru upphaflega metnar á og skráðar í almenna taxta. Annars reiknar alþýða manna alls ekki í neinum silfur- eða eirpeningum og var því fyrrum fundin upp sú aðferð að reikna innlendar vörur og útlendar í fiskum og álnum. Ef einhver vill þannig kaupa alin af dúk eða líni, tunnu af járni eða eitthvað annað, þá spurði hann um verð vörunnar með því að grennslast um hver marga fiska þetta eða hitt kosti, ef hann skipti við útendinga, en ef við innlenda er að eiga er langtum algengara að  tala um alin og er þá ekki átt við alin af einhverjum dúk, sem nú tíðkast, heldur alin af einhvers konar óvönduðu vaðmáli, sem forðum daga er sagt að hafi verið óvandvirknislega gert úr heimafenginn ull á Íslandi eða í Noregi. Ennfremur tíðkast önnur heiti í viðskiptum Íslendinga, þegar um meir verðgildi er að ræða, svo sem eyrir, mörk og hundrað. ... Reyndar er sagt að einhvern tíma til forna hafi verið í notkun á Íslandi smá peningar úr leðri, sem örlítill silfurnagi var rekinn í gegnum. En þeir eru nú hvergi til hjá oss og ekki fyrirfinnst heldur nein önnur mynt meðal hins efnaminni almennings. Aftur á móti tíðkast nokkuð meðal hinna efnaðri ýmsir silfurpeningar og Jóakimsdalir, einkum hjá þeim sem fá klaustur og önnur embætti eða sýslur. ... Kannski mætti þó ráða bót á þessum myntskorti, ef Íslendingar þekktu og næðu til þeirra málma sem Ísland er einmitt talið auðugt af." Talar Oddur svo um járnkennt efni sem menn hafi nefnt rauða, en hann sé þeim eiginleikum gæddur að ef hans er leitað þar sem gnægð er af honum einn daginn finnst hann ekki daginn eftir og kenni menn þetta táli og prettum fjallvætta sem almennt eru taldir leynast í slíkum málmæðum og gera mönnum sjónhverfingar.  Skyldutilfinning þrælanna


Í lok 17. aldar samdi Páll Vídalín lögmaður bók um viðreisn Íslands þar sem hann segir frá atvinnuvegunum frá upphafi Íslands byggðar og fram á sína daga. Um 70 árum síðar eða árið 1768 endursemur Jón Eiríksson ritið, en Jón náði lengst Íslendinga í embættismannastiga Dana og gegndi ýmsum áhrifastöðum í Kaupmannahöfn. Hörmungar miklar og hallæri höfðu hrjáð landsmenn á 17. öldinni og ekki bætti um betur á þeirri 18. þannig að margt átti jafnvel eða betur við þegar ritið var endursamið. Beiningamennirnir sem höfðu valdið Oddi biskupi svo miklum áhyggjum voru nú orðnir svo margir, að Páll óttaðist að öreigafjöldinn ógnaði bjargræði þjóðarinnar og innan skamms verði allir jafn blásnauðir því að ómögulegt sé, að hinir fáu góðbændur fái risið undir þörfum heimila sinna og neyð fjöldans.  Válynd veður, flóð, ísar og eldar eyða heilum byggðum og þeir sem eftir lifa hafa ekki nóg að bíta og brenna. Athyglisvert er að þrátt fyrir allt þetta rekur Páll meginorsakir hins slæma ásigkomulags landsins til "vankunnáttu forfeðra vorra í að koma skipan á þjóðfélag sitt." Valdsmenn og lög þyrfti til þess að koma skikk á málin. "En hér kom fleira til. Kristnin sem lögtekin var árið 1000, hnekkti bæði valdi og auði höfðingjanna, því að með henni var þrælahald afnumið, en um leið hvarf þakklátssemi og skyldutilfinning þrælanna. Leysingjarnir litu á frelsið sem réttindi sín, sem þeir ættu ekki húsbændum sínum að þakka heldur sjálfum sér, og það leystu þá undan þýlyndi fortíðarinnar. En svona er mannleg náttúra. Hinir lægra settu öfunda þá æðri og líta á allt, sem gæti verið þeim til lítilsvirðingar sem ávinning fyrir sig og leita jafnframt hvers tækisfæris til að sýna þeim fyrirlitningu. Sárafáir líta á sig sem skuldbundna yfirboðurum, því að flestum þykir skyldan hvimleið byrði sem þeir fagna að geta varpað af sér." Kemur þarna kannski í ljós óánægja embættismannsins með sína samtíð, þrátt fyrir að hann segist skrifa um gullöld Íslendinga?Vonin um ágóða knýr menn áfram


Víða í ritinu kemur fram að of lítil verslun við umheiminn varð landsmönnum fjötur um fót. "Sagan sýnir ljóslega, að á sama hátt og fátækt og sú niðurlæging, sem atvinnuvegirnir eru komnir í, hófst samtímis því sem Íslendingar lögðu niður verslun og siglingar." Einokunin varð þar síst til að bæta um. Mikið vantaði aaf vörum en allt of mikið af öðrum. "Má þar fremur öðru nefna þau kynstur af tóbaki og brennivíni, sem ekki er einungis gagnslaust heldur skaðlegt í fyllsta máta."


Athyglisverður kafli sýnir að á Íslandi áttuðu menn sig á kostum þess að menn ættu ágóðavon löngu fyrir daga Adams Smiths: "Alla útlendinga hefir skort það, sem hefði getað reynst sterkasta hvötin til að sinna velferðarmálum landsins, en það er vonin um að slíkt mætti bæta þeirra eigin hag. Þeir sú í upphafi að allur þungi viðreisnarstarfsins kæmi til að hvíla á þeim meðan þeir þjónuðu í starfi. Á hinn bóginn var þeim ljóst, að konur þeirra og börn myndu, að þeim látnum, dveljast erlendis, þar sem allar eignir þeirra voru og hefðu jafnlítið tjón af vandamálum Íslands og hagnað af umbótum í því efni. Óttinn við erfiðið gat því nægt til að fæla þá frá að gera nokkurt átak eða það sem fyrirhöfn fylgdi, þegar ekki gat valdið þeim tjóni, að þeir væru aðgerðarlausir en engin von um ágóða knúði þá áfram." Bókvitið verður í askana látið


Jón Eiríksson víkur að því að utanfarir Íslendinga til forna hafi verið landinu til sæmdar. Þær færðu landinu auðæfi, bæði af verslun, víkingaferðum og dýrmætum gjöfum, en ekki síður fróðleik um hætti annarra þjóða, sem þeir sem fóru utan nutu í daglegri umgengni. En þeir benda á að námið í Kaupmannahöfn hafi verið fábreytilegt og mest snúið að guðfræði, latneskri málfræði og sögu. Þau fræði sem lúta að viðreisn atvinnuveganna hafi orðið útundan. "Mjög fáir Íslendingar hafa lagt stund á stærðfræðivísindi og þeir hafa sest að erlendis.  Sárafáir hafa stundað náttúruvísindi, læknisfræði eða þær vísindagreinar, sem þar tilheyra og næstum enginn hefur kynnt sér það sem menntaðar þjóðir hafa þróað með sér í tækni- eða búvísindum, t.d. akur- eða garðyrkju, skógrækt, iðnaði verslun eða þessháttar. ... Kennsla í stjórnvísindum og hagfræði hefir verið algerlega ófullnægjandi eða engin til skamms tíma. En nú er byrjað að iðka þau fræði og opinber kennsla í þeim tekin upp. En fátæktin hefir alltaf verið íslenskum námsmönnum fjötur um fót, svo að þeim hefir ekki gefist tími til að dveljast svo lengi erlendis, að þeir gætu kynnt sér þessa hluti, án þess að vanrækja hið eiginlega háskólanám sitt." Þessi orð voru í fullu gildi allt fram á 20. öldina.Ríkt land, fátæk þjóð


Höfundar telja að öll efni standi til þess að Ísland sé eyja auðlegðar. Margt er í bókinni spádómlega sagt: "Hver skyldi ætla annað en stærsta eyland Evrópu næst á eftir Stóra Bretlandi, færði landsherra sínum  mikinn hagnað? Úr hafinu umhverfis þetta eyland hefir verið aflað margra milljóna virði og það liggur svo vel við hinum arðvænlegu hvalveiðum, að árlega sækir þangað fjöldi manna til slíkra veiða. Hver skyldi trúa öðru en að slíkt land færði föður sinum álitlegar tekjur, eða að minnsta kosti gæti það undir sérstökum kringumstæðum lagt fram drjúgan skerf til nauðsynja ríkjanna. En hver sanngjarn maður hlýtur að viðurkenna hið gagnstæða."


Seinni hluti verksins fjallar um sértækar umbætur. Fyrst ber að nefna kynbætur á embættismannastétt sem felist í því að amtmaður leitaði sér kvonfangs "úr heldri manna stétt Kaupmannahafnar." Af öðrum umbótum má nefna bætta verkkunnáttu, akuryrkju og stofnun kaupstaða. Þar yrðu skólar svo sem reikni- og stýrimannaskóli, kennd skíðaíþrótt, vega- og brúargerð og margt fleira. "Í bænum myndu margir vandræðagripir og lítils nýtir menn breytast í dugandi borgara og raunverulega fjölga þjóðinni og bæta efnahag hennar því að upp kæmu nýjar atvinnugreinar og hinar eldri yrðu betur stundaðar, bæði með því að auka framleiðsluna, bæta vinnubrögð við hana og greiða þannig fyrir sölu hennar." Þetta er ekki sveitarómantík Hriflu-Jónasar, heldur talar hér maður sem reyndist ótrúlega sannspár um þróun landsins.Mannfækkun af hallærum


Hannes biskup Finnsson skrifaði merka bók í lok 18. aldar eða skömmu eftir að Jón Eiríksson skrifar aðra útgáfu af Viðreisn Íslands. Í Mannfækkun af hallærum fjallar hann um það með vísindalegri nákvæmni hvernig þjóðin varð fyrir hverju áfallinu á fætur öðru og dregur af því lærdóm. Margir hafa talið að Hannes og Jón Eiríksson hafi með verkum sínum lagt grunn að ýmsum  rannsóknum Jóns Sigurðssonar. Ekki verður staldrað lengi við rit Hannesar, en upphaf bókarinnar er eftirminnilegt: "Drepsótt, stríð og dýrtíð eru kallaðir þeir snörpustu vendir í Guðs hendi, af hvörjum Davíð konúngur átti forðum kost á að velja einn. ... Á nærverandi tíðum er stríð orðið vægara en drepsótt, einkum meðal vel siðaðra þjóða, því það deyðir nú eigi kvinnur og börn eins og í fyrndinni, heldur skilur úngviðið eftir, þar sem drepsóttin slær niður menn og kvinnur, únga og gamla." Lýsir svo Hannes hverri óáran annarri verri og vitnar í annála til þess að segja hve margir hafi fallið frá. Þó segi það ekki alla sögu því að margir hafi verið svo illa farnir sem þó hafi lifað að skaðinn sé mun meiri en dánartölur segi til um. Vitnar hann í því sambandi til þess hve brennivínið eyðileggi líf miklu fleiri manna en það veldur bana. Sum árin hafi óáran verið svo mikil að menn hafi jafnvel lagst svo lágt að eta hrossakjöt. "Það var segin saga að hrossakjötsætur vóru þeir fyrstu sem á þessum hallærisárum í harðrétti útaf dóu. Orsökin var augljós, að af því þessi nautn var almennilega álitin óheiðvirð, þóttust þeir er hana brúkuðu, eigi skyldugir til, vóru eigi heldur svo vandir að breytni sinni, að þeir vildu brúka sómaaðferð og sparneytni í þessari matartekju, heldur átu sumir sjálfdauð og úldin hræ." Það er athyglisvert að hjá Hannesi kveður við annan tón en í eldri ritum þar sem menn hafa áhyggjur af því að fólksmergðin valdi flökkulýð.Almúginn er alls staðar skammsýnn


Hannes segir oft frá því að fátækir séu veikastir fyrir. Menn eigi að útrýma fátæktinni en ekki fátæklingunum. "Það er til lítils að lækna áfallna fátækt, nema undir eins sé komið í veg fyrir þá áfallandi. Við uppsprettu skal á stemma, en eigi að ósi; svo kostar miklu minna að hjálpa fátækum fyrst, þá þeir komast á knén til falls, en reisa þá á fætur, eftir að þeir eru dottnir um koll. ... Almúgi er allstaðar í heiminum skammsýnn og sér, þegar almennings gagn á að metast, lítið fram í veginn fyrir sig. Allsstaðar eru fátækir, sem af sjálfs rammleik geta eigi útstaðið uppákomandi bágindi. Séu þeir þá eigi studdir, tapast lífið eður að minnsta kosti heilbrigðin." Hannes telur að fátækir eigi að minnsta kosti að vera snyrtilegir og endar rit sitt með þessum hætti: "Þrifalegt má vera þótt fátækt sé. ... Verði mér andmælt að tötrar hljóti að sýna armæðuna, þá svara ég að það er andans örbirgð einúngis um að kenna, ef ekki má svo mál blygðunarsama, hreinlega, meðaumkunarverða fátækt,  að hún sé eigi undir eins óþrifa- og viðbjóðsleg, því það má að minnsta kosti heimtast, að slík mynd bjóði eigi verri þokka af sér en hver önnur íslensk förukind."Óttumst ekki útlendinga


Jón Sigurðsson ritaði um flest framfaramál á Íslandi um sína daga og árið 1843 skrifaði hann ítarlega ritgerð um nauðsyn þess að gefa verslunina frjálsa. Hann talar um það hversu bagalegt það sé að allur útflutningur fari í gegnum Danmörku og því komi útlendir menn ekki til Íslands til þess að kaupa vöruna. En hann bendir líka á það með kaldhæðni, að verslunaránauðin sé ekki einungis óhagfelld Íslendingum heldur kvarti danskir kaupmenn líka sáran undan því að tapa á versluninni: "Þessu trúa nú sumir ekki, ef til vill, en það er ekki óeðlilegt, þó svo fari, því verslunarfjöturinn er kaupmönnum eins ónotalegur eins og landsmönnum, þegar á allt er litið; en hversu sem þessu er nú varið, þá er það auðséð, hversu hræðilega hart kaupmenn væri leiknir að ota þeim þannig fram í háskann og ofurselja þó, þar sem ráðir er beint fyrir hendi: að sleppa versluninni lausri og sjá hversu færi."


En á dögum Jóns Sigurðssonar var það viðhorf uppi, ekki síður en nú, að útlendingar væru þjóðinni hættulegir í atvinnurekstri: Það munu enn sumir óttast, að útlendir menn muni setjast í átvinnuvegu landsmanna, þá sem ábatamestir eru, og bera Íslandínga sjálfa ofurliða, að því hinir sé ötulli og auðugri. En þessu er ekki að kvíað, því fyrst er ekki svo mjög að óttast, að aðsókn að landinu verði meiri en þarfir þess og verslunarmegin leyfa, og því næst er landir ekki svo vel rómað í öðrum löndum, að menn muni gjörast til að flytjast þángað í sveitum. Þessvegna er ekki að óttast, að aðsókn til landsins verði óðari en svo, sem svarar framförum þess, og þá er landsmönnum innan handar að hafa jafnan yfirráðin, en þökk þætti þeim vera á að njóta styrks annarra og læra af þeim, það sem þeim má til góðs verða og landinu, og á þennan hátt er líkt metið í öðrum löndum. Þegar borin verður umhyggja fyrir, að Íslendíngar nái menntun og kunnáttu í hverri stétt sem þeim er ætluð, eins og fyrr hefir verið drepið á, þá er ekki að kvíða, að þeir muni ekki geta átt þátt í sérhverju fyrirtæki og komist jafnfætis hinum útlendu, því enginn hefir enn frýjað þeim vits og gáfna, þó þeir hafi verið grunaðir um gæsku þá, sem réttu nafni heitir gúnguskapur, og afskiptaleysi um hag sjálfra sín og landsins."Að tjóðra menn með staupinu


Tæplega 30 árum síðar var verslunarfrelsið komið í höfn, en ennþá var lítið af versluninni í höndum Íslendinga. Jóni sveið þetta og sá þá leið vænsta að menn stofnuðu með sér verslunarfélög, enda voru þegar uppi tilburðir til þess. Hann skrifaði þá ritgerðina Um verslun og verslunarsamtök. Hann byrjar á þessum orðum: "Menn hafa eftir hinum nafnfræga ráðgjafa Loðvíks Filips Frakkakonúngs, Guizot, að hann hafi eitt sinn sagt á þíngi: Eg hefi tvennt mér hugfast: annað er það að láta ekki svo mjög að vilja og áliti landsmanna minna, að eg þrælbindi mig við það; en á hinn bóginn vil eg ekki heldur meta þeirra vilja og álit svo lítils, að eg forsmái það." Jón telur að valdsherra í Danmörku hafi aðeins fyrri hluta þessarar kenningar í heiðri. "Vér sögðum, að verslunin hjá oss nú sé alveg á voru eigin valdi, því hver einn geti nú verslað hvar hann vilji, og þurfi engan að spyrja um leyfi til þess. Þetta er nú öldúngis satt í sjálfu sér, en hér fer eins og Frankín sagði, að 'letin tekur af oss tvöfaldan skatt, óþarfakaupin þrefaldan og heimskan fjórfaldan.' Og þessa skatta geta hvorki lögin né yfirvöldin lækkað né tekið af."


Erlendir kaupmenn ákveði einhliða verð á bæði innlendri vöru sem þeir kaupa og þeirri sem þeir selja. Þeir "prútti" um verð og bjóði svo "uppbót" á lága verðið. Íslendingar verði að láta sér niðurstöðuna vel líka. Og Jón skilur vel hættuna af því að menn séu festir í ákveðin viðskipti með óeðlilegum hætti. Hann nefnir fyrst skuldir og uppbætur en segir svo: "Til eru enn nokkrar fleiri verslunarkrækjur sem sumir festast á, og má þar til nefna eina, að sumir af helstu bændum fá fast árgjald af kaupmanni til að versla við hann ævilángt; aðrir mega eiga von á nokkrum "krínglóttum" í vasann þegjandi til kaupbætis. Þar fara engar sögur af því, og það er hvorki verðhækkun né uppbót. Pelagjafirnar og staupagjafirnar eru fremur handa alþýðunni, og engin niðurlæging getur verið sárgrætilegri en að sjá þann auðmýktar- og ófrelsissvip, sem menn setja upp, þegar menn biðja um "í staupinu" við búðarborðin og sóma þar heimum tímum saman iðjulausir til að sníkja sér út hálfpela eða brauðköku."Enginn er verri blóðsuga en Íslendingar


Jón mælir með því að Íslendingar stofni með sér verslunarsamtök og segir frá harkalegum viðbrögðum Höpfners kaupmanns á Akureyri. Vitnar hann þar í frásögn Tryggva Gunnarssonar: "Fyrir nokkrum árum var Höpfner fátækur maður og umkomulítill; nú þykist hann geta staðið jafnréttur þó hann fleygi fram nokkrum tugum þúsunda til að eyðileggja félag vort; Hvaðan hefur hann fé þetta? Einúngis frá oss Íslendingum! Það er þá vort fé eða fé frá oss, er hann ætlar að hafa til þess að koma í veg fyrir framför vora og til að eyðileggja hina skynsamlegustu og eðlilegustu tilraun til viðreisnar, því það má vera fyrir oss sem hverja aðra þjóð hið fyrsta og nauðsynlegasta til framfara, að vér eigum sjálfir þátt í vorri eigin verslun."


Jón áttar sig á því að einokunin er ekki betri þó að Íslendingar haldi um stjórn verslunarinnar: "Vér verðum enn að fara nokkrum orðum um þann ótta, sem sumir þykjast hafa, að ef verslunarfélögin yrðu drottnandi, þá myndu þau einoka verslunina miklu verr en nokkur kaupmaður nú, því oft heyra menn það á Íslandi, að enginn sé verri blóðsuga á löndum sínum í kaupum og sölum heldur en Íslendingar, þeir sem gefi sig að verslun. ... Það gæti menn einnig hugsað sér, að hlutabréfin lenti í fárra manna höndum og þeir vildi ekki hleypa öðrum mönnum í félag með sér, heldur legði alla verslunina undir sig." Þó að ýmsum kynni að þykja að hér hefði Jón komist spámannlega að orði, þá er hann sjálfur á því að þessi hætta sé lítil. Sýni menn tilburði til þess að misnota vald sitt þá verði tekið á móti með stofnun nýrra félaga. Það má líka til sanns vegar færa að slíkt hafi einmitt gerst á Íslandi.Maðurinn frjáls og friðhelgur


Arnljótur prestur Ólafsson skrifaði fyrsta eiginlega hagfræðiritið, Auðfræði. Auðfræðin kom út í fyrsta sinn árið 1880. Hún er glæsilega skrifað rit sem byggir bæði á erlendum kennisetningum og vangaveltum Arnljóts sjálfs.  Hluti af bókinni er fræðileg frásögn, hluti í dæmisöguformi og loks samræður að hætti heimspekinga fornaldar. Í formála segist hann skipta "þjóðmegunarfræðinni" í auðfræði, sem nú á dögum myndi kallast hagfræði og félagsfræði, sem spannar flest þau svið sem viðskiptafræðin fjallar um nú. Í upphafi skilgreinir Arnljótur verkefnið: "Auðfræðin lýsir mannlegum þörfum, hún sýnir oss, hvernig náttúran með gjöfum sínum og gæðum, og hvernig maðurinn með athöfnum sínum og erfiðismunum megnar best að fullnægja þörfum sínum, og hún bendir oss á, hvernig maðurinn fái náð því aðalmarkmiði sínu hér í heimi: að lifa sæll og vera drottinn jarðarinnar." Arnljótur byrjar á að skýra grundvallatriði í auðfræðinni: Maðurinn þarf að vera frjáls. "Þess ber vel að gæta, að þörf og nauðsyn er á, að lögin og landstjórnin sé einmitt svo löguð, að maðurinn hafi sem best tækifæri og fullt frelsi til að neyta allra krafta þeirra, andlegra sem líkamlegra, er skaparinn hefir gefið honum, sér og öðrum til heilla og hamíngju, en engum til skaða né skapraunar, og til að njóta gæða þeirra óhindraður, er náttúran lætur öllum í té, svo og allra þeirra ávaxta og fjármuna, er hann hefur aflað sér með hönd sinni og huga. Maðurinn þarf, í einu orði sagt, að vera frjáls og friðhelgur."Kostir sem prýða mættu unga athafnamenn


Síðar eru nefndar hinar helstu auðfræðilegu manndyggðir: "Iðjusemi, dugnaður og framkvæmdarsemi, hirðusemi, nýtni og sparsemi, hreinlæti, þrifnaður og reglusemi, gætni, varhygð og varfærni, stillíng, hófsemi og sjálfstjórn, áreiðanleiki, skilvísi og réttskiftni, sanngirni, réttlæti og sannleiksást, mannúð, kurteisi og látprýði, mannlyndi, gagnsemdarlöngun og sómatilfinníng." En þeir sem stjórna þurfa að hafa eftirtalda kosti til að bera: "Framtakssemi, fyrirhyggju og eftirlitssemi, framsýni, útsjón og stjórnsemi." Að lokninni þessari upptalningu segir "Það er satt, að auðfræðin kennir mönnum hagsýni og hagsmunasemi, og sýnir þeim, að auðurinn sé ómissandi þjónn mannlegra framfara og þjóðmenningar. Það er og satt, að hún telur sjálfselskuna gefna og meðskaðaða manninum, en einmitt gefna honum til viðhalds og verndunar, til vegs og sóma. Sjálfselskan er og vinnur hið sama starf hjá manninum, sem þýngdaraflið. Eður miðsóknaraflið og aðdráttaraflið hjá hlutunum. Taktu þýngdina frá hlutunum og enginn hlutur, enginn hnöttur, ekkert sólkerfi verður framat til; taktu sjálfselskuna frá manninum og enginn maður, engin þjóð, ekkert mannkyn verður framar til."


Og með þessum orðum Arnljóts Ólafssonar ljúkum við tilvitnunum í  verk frumherjanna í íslenskri hagfræði.Sumt breytist aldrei


Í þessari grein hefur verið vitnað í verk margra af frumherjum í íslenskri hagfræði. Allir eru þeir hámenntaðir menn og stóðu löndum sínum framar á þessu sviði sem mörgum öðrum. Fleiri hefði mátt nefna til sögunnar, til dæmis Eggert Ólafsson og Skúla Magnússon, fógeta. Hver um sig skrifar eftir tíðaranda síns tíma. En þó að margt sjáum við að sé beinlínis barnalegt miðað við það sem við vitum nú, þá er hitt miklu fleira sem á eins vel við í dag eins þegar það var skrifað fyrir mörgum öldum. Vandamálin voru önnur en mannleg náttúra, sjálfselskan, sú sama.


 

More News

Vísbending

Vís­bending

Vís­bending , tímarit um viðskipti og efnahagsmál er gefin út vikulega og árið 2004 komu út 51 tölu...

Pages