Vefst Íslendingum tunga um tönn í viðskiptum?

Fréttir

Vísbending

Vefst Íslendingum tunga um tönn í viðskiptum?

Það er einn galli á umræðu um íslensku, að þegar menn hætta sér út fyrir hinn þrönga ramma sem þjóðin hefur sjálf sett sér um ástkæra, ylhýra málið þá eiga þeir á hættu að kalla yfir sig reiði sjálfskipaðra málverndarmanna. Og það sem meira er, þessir ágætu aðilar vilja ekki bara vernda málið sjálft heldur líka vernda þjóðina fyrir umræðum um íslenskuna. Tungumál almennt og þar með talin íslenska eru fyrst og fremst tæki til þess að menn geti átt samskipti hver við annan. Ritmálið og nú á síðustu áratugum hljóð- og myndaupptökur verða líka til þess að löngu liðnir menn geta miðlað okkur af visku og fróðleik, þó að eðli málsins samkvæmt getum við (flest amk) ekki haft aftur samband við þá. Einmitt vegna þess að tungumálið er notað til samskipta er mikilvægt að það fylgi ákveðnum reglum. Með því móti að báðir tali sama mál er okkur alveg ljóst hvað viðmælandi okkar meinar og hann skilur okkur með sama hætti. Auðvitað er það alls ekki nauðsynlegt að menn tali nákvæmlega eftir reglunum. Við skiljum börn sem tala rangt og hafa lítinn orðaforða og eins getum við gert okkur skiljanleg á erlendri grund þó að við séum aðeins með undirstöðukunnáttu í máli innfæddra. Til þess að menn skilji hver annan er vilji oft allt sem þarf.


 


Áður en vikið er að meginefni þessa erindis er rétt að árétta að viðskipti eru ekki ný af nálinni hér á landi heldur jafngömul byggð.


Þá riðu hetjur um héruð og skrautbúin skip fyrir landi


flutu með fríðasta lið, færandi varninginn heim


sagði Jónas þegar hann vildi lýsa gullöld Íslendinga á þjóðveldistíma. Ekki hefur varningurinn verið gefins enda eru mörg dæmi um frásagnir af ýmiss konar viðskiptum í Íslendingasögum þó svo að þau hverfi yfirleitt í skuggann af vopnaskaki og vígaferlum. Á okkar öld er þessu öfugt farið. Viðskiptaátök eru blásin út með stríðsletri í blöðum meðan handalögmál og ódæðisverk hér á landi hverfa oftast í smáfréttum á innsíðum. En það var útúrdúr.


Gaman er að lesa Íslandslýsingu þá er kennd hefur verið við Odd biskup Einarsson og rituð er í upphafi 17. aldar: "[Þ]jóðtungu Íslendinga, [hef] ég drepið á að framan [en hún hefur] haldist óskert og óspillt öldum saman allt fram á þennan dag. Og enda þótt útlendingum finnist ofboð naumlega taka því að hafa hana í neinum hámælum, því sérhver óþekkt tunga, sem borin er saman við einhverja þekkta, er vanalega talin ósiðuð, þá hef ég samt sýnt fram á það hér að framan, að sennilegt sé, að þessi tunga sé, sakir óspilltrar forneskju sinnar, ein úr hópi allra höfuðtungna." Og síðar segir: "Ekki var heldur ætlunin að fjölyrða um auðgi og frjósemi þessarar tungu, svo auðvelt sem er að sýna fram á það, því einu og sama orðtakinu eða orðatiltækinu má í íslensku umbreyta með margvíslegu móti, og er það ekki síst á færi þeirra, sem handgengnir eru hinni fornu smekkvísi í máli, sem næg verksummerki sjást um í handritum. Er þetta að þakka geysilegum fjölda samheita og undraverðri fjölbreytni í óeiginlegum merkingum orða og talshátta, svo að ef tekið er nákvæmt tillit til orð- og setningarskipunar, verður mál vort alls ekki talið óheflað eða losaralegt. Og þar sem ekki er vafi á, að sérhverri tungu, jafnvel hinni auðugustu, eru nokkurn veginn afskömmtuð orð, sem ná hvert yfir sína ákveðnu hluti, þar sem með þessari eða hinni þjóðinni hefur margt aldrei heyrst, sem annars staðar er daglegt brauð, þá er það ekkert einsdæmi, að á íslensku skortir orð um fjölmarga hluti. Finna fyrst og fremst þeir fyrir þessum skorti, sem í skólum vorum takast á hendur að útskýra skáld og mælskumenn, en af því að iðulega koma þar fyrir nöfn á erlendum og óþekktum grösum, jurtum, runnum, trjám og dýrum, verða þeir að nota almenn heiti um ákveðna einstaklinga eða jafnvel sætta sig við erlendar útleggingar ."


Margt á því sem þarna kemur fram á eftir að koma síðar við sögu í erindi mínu. Hér leynir það sér ekki að verið er að tala um tungu sem ber af öðrum þó að niðurlagið stingi reyndar í stúf við hitt og alls ekki í samræmi við orð Einars Benediktssonar:


Ég skildi að orð er á Íslandi til,


um allt sem er hugsað á jörðu.


Það sem helst skyggir á þessa ágætu lofrullu um ágæti íslenskunnar er að hún var samin á latínu og hér lesið úr íslenskri þýðingu á ritinu Qualiscunque descriptio Islandiae.


Fyrsta heilsteypta fræðirit um viðskipta- og hagfræði á íslensku er ekki skrifað fyrr en tæplega 300 árum síðar þegar Arnljótur Ólafsson gaf út Auðfræði sína. Mig langar líka til þess að vitna til þessarar merku bókar áður en lengra er haldið: "Vér mennirnir skiptum öllum fróðleik í tilteknar og afmarkaðar fræðigreinir, bæði sem höfundar og lesendur. En þó nú svo verði að vera, þá megum vér eigi missa sjónar á því, að sérhver fræðigrein er nátengd annarri, svo sem tölur á sama bandi, sem steinar á sama sörvi, sem hlekkir í sömu festi, því annars verður allt sundurlaust, dettur í smámola, kubbast í eintóma spotta. Vér eigum að lýsa hverri fræðigrein eigi eingöngu sér og breiða út blöð hennar fyrir almennings sjónir, heldur eigum vér og að sýna, hvernig hún sprettur út úr hinu mikla fróðleikstré, þessum Ask Yggdrasils, er stendur æ yfir Mímisbrunni, sýna ljóslega, hvaðan hún hefur lífsvökva sinn, til hvers hún ber blöð og blóm, og umfram allt, að hún felur líf sitt í fræknappi sínum einmitt til frjóvgunar mannlegs anda og til heillaríks þroska og ávaxtar mannlegrar gæfu ." Það leynir sér ekki að þessi nemandi hefur ekki sífellt verið að steyta hnefann framan í Sveinbjörn Egilsson.


Áður en skilist er við Arnljót að sinni vil ég lesa stuttan kafla úr dæmisögu hans um það hvernig löngunin, framfarafýsnin og sjálfselskan verður hreyfiafl hlutanna: "En unglingurinn var nú búinn að sjá hlutverk mannsins og ætlunarverk hans hér í heimi. hann fyrirleit nú eigi lengur sjálfan sig né skaparans verk. Hann vissi nú gjörla að löngunin aflvana var eigi nóg, heldur að hann átti jafnframt að safna hug og dug, þekking og kunnáttu, trúleik og réttleik, í einu orði sagt, verða sjálfur frjáls, og þá mundi hann með iðni og sparsemi fá safnað réttfengnum auði, er einn gefur sæla nautn og er sigursælt verkfæri í hugrakkri hendi til að vinna að framför og farsæld mannsins sjálfs og mannfélagsins. Öll hugbleyði var nú farin úr brjósti hans, og með henni öll leiðindi og óánægja, eymd og kúgun, því sú hugsun getur aldrei fengið rúm í frjálsu og hugstóru brjósti, að láta nokkru sinni bugast af eymdinni eður kúgast af mönnunum. Unglingurinn eltist, varð menntaður dugandismaður og kom aldrei til hugar að flýja ættjörð sína, því hann vissi vel, að Ísland var landa frjálsast meðan landið byggðu frjálsir menn, og svo mundi það jafnan verða. " Arnljótur leit svo á að hér á landi yrði engin byggð ef ekki væri frelsi í viðskiptum. Og þó að það þurfi ekki svo að vera, þá hygg ég þó að allir Íslendingar geri ráð fyrir því að búseta hér á landi og íslensk tunga séu samofin. Því getum við framlengt niðurstöðu Arnljóts þannig:  Frjáls viðskipti eru forsenda þess að íslensk tunga lifi.


En ætli það gagnstæða gildi? Hefur íslensk tunga líka gildi fyrir viðskiptin? Skoðum þetta stuttlega. Jafnvel þar sem við kunnum ekkert í máli heimamanna getum við yfirleitt bjargað okkur. Stundum grípum við til annars máls sem við kunnum slangur í og viðmælendur okkar líka. Í Finnlandi grípa menn til skandinavískublendings,  í Austur-Evrópu gengur þýskan víða en flestir Íslendingar grípa eflaust fyrst til enskunnar, jafnvel í Danmörku þar sem við höfum lært mál innfæddra árum saman. Það er reyndar kostulegt að sjá Íslendinga tala ensku í Kína eða á Spáni þar sem augljóst er að sá sem rætt er við skilur ekki orð í málinu. Sumir beita þá þeirri aðferð að tala hægar og hærra, þeim sem fyrir verða til lítils skilningsauka. Einum man ég eftir sem reyndi frönskuna yfirleitt á þeim alþýðumönnum pólskum sem ekki skildu ensku. Sjálfur hef ég oftast notað íslensku við slík tækifæri, t.d. í búðum eða á veitingastöðum. Hingað til hefur þessi samskiptaaðferð gengið ágætlega, því þó að viðmælendur hafi í raun ekki skilið eitt einast orð, þá kemst merkingin með einhverju móti til skila. Þessi reynsla mín gæti því bent til þess að tungumálakunnátta væri alls ekki nauðsynleg til þess að eiga viðskipti. En því fer þó fjarri að mér detti í hug að halda því fram að með þessari aðferð geti menn náð langt þó að með henni geti maður keypt sér minjagripi eða fatnað. Samskiptin yrðu fljótlega býsna fábrotin, ef tungumál sem báðir tala vantaði.


Flest viðskipti eru að sjálfsögðu mun flóknari en prútt um mexíkóskar styttur eða kínverskar myndir. Ætli menn að stofna til umfangsmikilla viðskipta er það beinlínis nauðsynlegt að notað sé nákvæmt orðalag og þá auðvitað á máli sem báðir skilja. Flestir Íslendingar átta sig vel á því að vegna þess hve fámenn þjóðin er og lengst af afskipt eru ekki margir útlendingar sem tala okkar mál. Þess vegna verðum við að sætta okkur við að ekki sé talað á okkar móðurmáli í samskiptum okkar við útlendinga. Einhvern tíma þurfti ég að eiga viðræður við Norðmenn. Sá sem kom fyrstur á fundinn spurði glaðhlakkalega hvaða mál við ættum að tala á fundinum: "Skal vil snakke gammel-norsk?" og fékk um hæl svar frá félaga mínum: "Nej,  gammel-norsk gaar ikke, men i Island kan vi godt lide gammel-dansk." Niðurstaðan varð reyndar sú að töluð var enska. Það kann að vekja upp þá spurningu hvers vegna við töluðum ekki dönsku eða skandinavísku (sem er einhvers konar hrognamál sem Íslendingar telja sér trú um að allir Norðurlandabúar skilji án þess að við þurfum að fylgja nokkrum reglum um framburð eða málfræði). Flestir svara spurningunni þannig að best sé að tala ensku sem sé móðurmál hvorugs og samningsaðilar því á jafnréttisgrunni í viðræðunum. Þetta eru svo sem ekki slæm rök, þó að í raun sé ástæðan kannski óþarfa feimni Íslendinga við að tala önnur útlend mál en ensku. Meira að segja í viðskiptum við Færeyinga, en þar getum við þó oftast skilið þeirra ritmál og þeir okkar, notum við oft önnur tungumál í samningum. Ástæðan er væntanlega sú að sá munur sem þó er á málunum gæti valdið afdrifaríkum misskilningi.


Ég er þá kominn að þeirri niðurstöðu að ekki tjói að berja höfðinu við steininn. Íslenska verði ekki samskiptamál landa á milli í viðskiptum í fyrirsjáanlegri framtíð. Því er það alveg augljóst að þeir sem ætla sér að eiga viðskipti við útlönd verða að kunna góð skil á erlendum málum og þeim líklegast fleiri en einu.


En hvert er gildi íslenskrar tungu í viðskiptum ef hún er gagnslítil í skiptum við útlendinga. Jú, þó að Íslendingar séu vissulega miklir viðskiptajöfrar og drjúgir í samskiptum við útlönd þá er obbi okkar viðskipta engu að síður innanlands. Hér á landi eru nú þegar erlendir menn í fullu starfi, menn sem kunna sáralítið eða ekkert í íslensku. Þetta á bæði við um verkamenn í alíslenskum fiskvinnsluhúsum og forstjóra í fyrirtækjum í eigu útlendinga. Það sannar að kleift er vinna á Íslandi og eiga viðskipti við Íslendinga hérlendis án þess að tala okkar göfuga mál. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr kemur sú spurning upp hvort íslenskan sé ekki óþörf í viðskiptum innan lands sem utan.


Við vitum að viðskipti eiga menn um heim allan og af því sést að íslenskan er ekkert skilyrði fyrir því að menn geti stundað kaupskap. Spurningin sem nærtækari er og skiptir okkur máli. Er íslenska skilyrði fyrir því að viðskipti séu stunduð hér á landi?


Á viðskiptaþingi vorið 2001 setti Frosti Bergsson fram þá hugmynd að rétt væri að Íslendingar yrðu tvítyngdir. Íslenskan yrði að vísu fyrsta mál en enskukennsla yrði efld þannig að í raun yrðu menn jafnvígir á bæði málin. Alþjóðasamskipti og viðskipti væru nú orðin svo mikilvæg að það gæti háð þjóðinni, ef hún yrði ekki jafnvíg á ensku og íslensku. En þessi aukna enskumenntun kallar á fórnir. Frosti segir: "Við þurfum einfaldlega að fara í gegnum ákveðna greiningu til þess að komast að því hvað það er sem við viljum virkilega standa vörð um í menningu okkar og leggja áherslu á það." Tillaga Frosta féll í grýttan jarðveg hjá Sölva Sveinssyni sem sagði: " Enska er ónýtt mál á Íslandi fyrir Íslendinga! Rétt eins og þýzka, franska og spænska. Við getum ekki talað saman af sömu nákvæmni um daginn og veginn á útlenzku! Við búum hér og málið hentar okkur." Ekki er ég viss um að þessar röksemdir Sölva vegi þungt, en hitt er ljóst að svo náið sambýli tveggja tungna hefði varanleg áhrif á íslensku. Reynsla úr nýlendum Englendinga eða frá Sovétríkjunum bendir þó ekki til þess að jafnvel mikill og náinn samgangur ýti þjóðtungum til hliðar á einum mannsaldri. En dropinn holar steininn og smám saman lagast smærra tungumálið að því stærra. Öfugt verður það örugglega ekki. Margir hafa furðað sig á því að ekki sé meira um írsk áhrif á íslensku því að hér hafi á víkingatímum verið margt írskra þræla. Það væri fróðlegt að vita hvort pólskra áhrifa væri farið að gæta í máli fólks í fámennum sjávarplássum hér á landi þar sem Pólverjar eru orðnir allstór hluti íbúa. Á ákveðnum svæðum í fyrrum nýlendum Breta tala menn ensku allan daginn í viðskiptum sín á milli en koma svo heim að kvöldi og tala sitt móðurmál og alls ekki allir sama málið. Ástæðan er þó eflaust sú að enskan er tækið sem tengir menn saman sem tala ólík mál fremur en að hún hafi yfirburði sem samskiptatæki. Hér á landi höfum við þegar slíkt tæki sem tengir þjóðina saman.


Ég vék að því að hér á landi eru allmargir útlendingar við störf. Þegar haldin eru þjóðamót úti á landi koma þar saman einstaklingar sem tala tugi tungumála sem móðurmál Ljóðlínur Einars Ben: "orð er á Íslandi til, um allt sem er hugsað á jörðu" eru örugglega nær sanni núna en nokkru sinni fyrr. Einar segir nefnilega "á Íslandi" en ekki "á íslensku". En það væri líka rétt að aldrei hafa fleiri orð verið til á íslensku um hugtök í fjölmörgum fræðigreinum og hefur okkur þar farið fram síðan á dögum Odds biskups Einarssonar. En víkjum aftur að útlendingunum. Í nokkrum tilvikum sitja erlendir menn í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Það mun heyra til undantekninga að þeir læri íslensku heldur ætlast þeir til að sér sé sýnd sú virðing að enska sé töluð á fundum þar sem þeir eru staddir. Ég hef sjálfur reynslu af því að sitja í stjórn fyrirtækis með erlendum mönnum og jafnvel þó að flestir stjórnarmenn hafi búið erlendis um lengri eða skemmri tíma og verið ágætlega mælandi á ensku þá kom það engu að síður oft fyrir að mönnum vafðist tunga um tönn þegar tala þurfti um sérhæfð hugtök. Allt gekk þetta þó slysalaust, en það væri rangt að segja að slíkir fundir gengju jafn greiðlega fyrir sig og þar sem allir tala sitt móðurmál.


Nú þegar er það svo að samningar um ýmis efni sem menn eiga sín á milli hér á landi eru á ensku. Þetta er algengt þegar menn eru að kaupa hugbúnað sem upprunninn er erlendis en um þetta eru miklu fleiri dæmi, til dæmis í skipakaupum eða tryggingum þar sem menn undirrita langa staðlaða samninga á ensku. Eflaust er þetta gert í hagræðingarskyni því að gert er ráð fyrir að bæði kaupendur og seljendur geri sér glögga grein fyrir samningsákvæðum. Á þessu sviði er líklegt að umfang ensku eigi eftir að vaxa hér á landi. Hvergi hef ég heyrt að þessir samningar á ensku hafi orðið til þess að kunnátta eða færni í íslensku hafi minnkað.


Kennsla í viðskiptafræði hér á landi styðst yfirleitt við enskar bækur og í sumum tilvikum er jafnvel kennt á ensku. Auðvitað verður þetta til þess að nemendur verða líka að tileinka sér íslensku heitin. En þetta á við um flestar fræðigreinar og reyndar hafa flestir fræðimenn á öllum sviðum dvalist lengri eða skemmri tíma við nám og störf erlendis. Samneyti við útlendinga er ekki svo hættulegt tungunni eitt og sér. Það sjáum við á höfuðskáldunum Jónasi, Stefáni G. og Einari Ben. Hættan felst ekki í því að vel upplýstir menn hafi mikið samneyti við útlendinga heldur þvert á móti í því að meðvitundin hverfi og  útlenskan læðist inn í málið án þess að við verðum hennar vör.


Fyrir nokkrum árum skrifaði ég fræðilega grein um það hvaða efnahagsáhrif það hefði fyrir Íslendinga að tala sérstakt mál í stað þess að tala ensku. Greinin nefndist: "Hvað kostar að tala íslensku?" Þannig vildi til af tilviljun að hún vakti nokkra athygli á alþjóðavettvangi og barst frásögn af henni hingað til lands, eftir að sagt var frá helstu niðurstöðum í ritinu Economist. En þó að greinin sé öllum aðgengileg voru samt sem áður fáir sem höfðu fyrir því að lesa hana, en margir tóku því illa að einhver velti slíku fyrir sér. Gömul kona sagði í Velvakanda að menn sem skrifuðu svona yrðu í útlöndum dæmdir fyrir landráð og menntamálaráðherra sagði: " Nú sjáum við líka, að talnaspekingar setjast niður við að reikna það út, hvað megi spara með því að hætta að nota íslensku. Vona ég, að við verðum aldrei svo fátæk andlega eða veraldlega, að við teljum hag okkar best borgið með því að leggja móðurmálið til hliðar. "


Nú var þetta reyndar alls ekki svo heldur sagði þvert á móti í upphafi greinarinnar: "Hvað kostar að tala íslensku? Þetta er dæmalaust óskammfeilin spurning sem margir telja eflaust að mönnum ætti helst aldrei að koma í hug, hvað þá setja fram í grein. En samt sem áður er spurningin áleitin því ef svar við henni finnst þá fæst allgóð hugmynd um það hvaða verði Íslendingar eru að kaupa það að vera sjálfstætt samfélag með sérstakan menningararf. Hann er þjóðinni mikils virði og til þess að varðveita hann færa menn fórnir. Hér á eftir verður fjallað um það hverju þjóðin kostar til með því að tala íslensku og hvaða tungumál önnur koma til greina. Með þessu móti geta menn betur metið hvort íslensk menning hefur fengist á kostakjörum eða hvort þjóðin er kannski að greiða hana allt of dýru verði. Það er svo líka áhugavert að velta því fyrir sér hvort íslenskt mál er undirstaða sjálfstæðis landsins. Sé svo kann íslenskan að hafa sérstakt hagrænt gildi, því margir telja að sjálfstæð þjóð leggi harðar að sér en sú sem er undir erlendum herrum. " Niðurstaðan var sú að kostnaðurinn, eða verðmæti tungunnar ef þannig væri á málið litið, væri um 4% af þjóðarframleiðslu. Undir lok greinarinnar segir: " Það er erfitt að meta menningu til fjár en um það verður ekki deilt að hún er mikils virði. Í þessari grein er skrifað um þann árangur sem næðist, ef þjóðin tæki þá meðvituðu ákvörðun að hætta að tala íslensku og þykir eflaust sumum margt mælt af gáleysi. En hvað ef það gerist án þess að nokkur ætli sér það? Margar erlendar þjóðir blanda enskum orðum í sitt mál óhikað. Þessa gætir nokkuð hér á landi, en þó er málvernd sterkari hér en víða annars staðar. Enskra áhrifa gætir í orðaröð og í orðatiltækjum. Þessi þróun spillir íslenskunni án þess að bæta enskukunnáttu. " Greinin var sem sé alls ekki skrifuð til þess að leggja til að við tækjum upp ensku í stað íslensku. Ekki frekar en að grein sem ég skrifaði um kostnaðinn við að halda jól á Íslandi hefði það að markmiði að Íslendingar legðu af jólahald. Þetta hefðu allir hæglega getað kynnt sér með því að lesa greinina en gefa sér ekki fyrirfram efni hennar.


Það er enginn vafi á því að nauðsynlegt er að efla íslenskukunnáttu landsmanna og sér í lagi þeirra sem fást við viðskipti. Virðing fyrir þeim sem talar rangt, fer með málvillur eða talar með hreim eða enskuskotið er minni en hinum sem talar og ritar fagurt og rökrétt mál. Fyrir allnokkrum árum var maður úr viðskiptalífinu kosinn á Alþingi og eins og svo mörgum öðrum sem komast að var honum daginn eftir kjördag efst í huga þakklæti. Hann sagði í viðtali við sjónvarpið: "Ég vill þakka þessum og svo vill ég þakka hinum." Ég vil þakka guði fyrir að þessi maður er ekki lengur á þingi.


Meirihluti viðskiptafræðinga (sem og allra Íslendinga) er þágufallssjúkur. Fyrir nokkru heyrði ég lækni flytja fyrirlestur um rekstur, skörulegan og skýran og þótti mér mikið til koma. Það eina sem þó situr eftir af fróðlegu erindi var niðurlag síðustu glærunnar. "Læknum vantar ..." og ekki man ég framhaldið, en hitt varð mér ljóst, að lækna og viðskiptafræðinga vantar tilfinnanlega tilsögn í málfræði. Við getum þó huggað okkur við að hann sagði ekki "læknirum vantar."


Íslenskan er fagurt tæki í höndum þeirra sem kunna vel með hana að fara. Hún opnar okkur dyr að sögunni, að bókmenntaheimi og menningu sem glatast ef tungan glatast. Ég hef haft gaman af því að heyra viðbrögð manna við fyrirtæki sem ég kom nýverið að því að stofna, Haukþingi. Nafnið, sem sótt er í minningarljóð Jónasar Hallgrímssonar um Bjarna Thorarensen, hefur orðið til þess að ljóðið hefur að undanförnu verið prentað og lesið í fjölmiðlum og ég hef í kjölfarið heyrt á tal manna um rómantísku stefnuna og deilur um hana á 19. öld. Svona getur eitt orð, vakið úr gleymsku, enn í dag vakið áhuga fjölda manns á menningararfinum. Slíkt væri ómögulegt ef ekki væri íslenskan. Gjaldið sem ég reiknaði um kostnað við íslenskuna samsvarar um 12 þúsund króna gjaldi á meðalfjölskyldu á mánuði. Mér finnst það ekki hátt gjald fyrir að geta lesið Eddukvæði og Arnljót Ólafsson mér til skemmtunar og upplyftingar. Það vill svo til að þetta er svipuð fjárhæð og það kostar að vera áskrifandi að öllum dagblöðum og sjónvarpsstöðvum hér á landi. En það verður aldrei svo að þjóðin ákveði einn góðan veðurdag að hætta að tala íslensku og taka upp ensku hennar í stað. Ég hef heldur enga trú á því að íslensk fyrirtæki fari almennt að taka upp ensku í samskiptum sín á milli. Íslendingar geta eflt virðingu fyrir viðskiptum með því að efla kennslu í íslensku í háskóladeildum. Þeim  peningum væri vel varið, því að færni í móðurmálinu fer saman við skýra hugsun.


Ég ætla að enda þetta spjall á tilvitnun í Arnljót Ólafsson úr Auðfræði hans: "En löngunin er einmitt sporinn, keyrið, svipan á vilja mannsins og vit. Vér lærum fyrr eða síðar, að oss ríður á hug og dug, áræði, framtakssemi og framkvæmd, á viti, þekking og kunnáttu. Vér lærum og seint eða snemma, að kapp er bezt með forsjá og fyrirhyggju, hófsemi og stilling, nægjusemi og sjálfsafneitun. Það er og unnið, að vér lærum að nota betur og betur krafta vora, til að útvega oss úr nægtabúri náttúrugæðanna æ fleiri og fleiri fullnægingar handa þörfum vorum. Lærum í einu orði sagt, að halda stöðugt áleiðis á framfaravegi menningarinnar. "

More News

Vísbending

Vís­bending

Vís­bending , tímarit um viðskipti og efnahagsmál er gefin út vikulega og árið 2004 komu út 51 tölu...

Pages