Markaskorarinn Margét Lára

Fréttir

Viðtöl

Markaskorarinn Margét Lára


Margrét Lára Viðarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, var svo sannarlega á skotskónum síðastliðið sumar með félagsliði sínu Val. Hún jafnaði og bætti um betur rúmlega 20 ára markamet og var þar að auki kosin besti leikmaður kvennadeildarinnar. Í lokahófi Knattspyrnusambands Íslands í haust kom Margrét Lára, sá og sigraði þegar hún var kosin besti leikmaður Landsbankadeildar kvenna og var verðlaunuð fyrir markamet sitt.Nú hefur atvinnumennskan hjá þýska liðinu FCR 2001 Duisburg tekið við þar sem Margrét Lára nýtir krafta sína samhliða námi. En hún stefnir hærra og er hógværðin uppmáluð þegar velgengni hennar ber á góma.Hvar ólst þú upp? – Ég er frá Vestmannaeyjum þar sem ég ólst upp. Ég flutti til Reykjavíkur 18 ára gömul og fór í Val auk þess sem ég fór í Menntaskólann í Kópavogi en áður hafði ég stundað nám við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum.Hvenær byrjaðir þú að sparka bolta? – Ég held ég sé eitt af þeim börnum sem fæddist með boltann á tánum. Pabbi var í fótbolta og sömuleiðis tveir eldri bræður mínir þannig að ég smitaðist fljótt af þeim. Ég byrjaði að æfa fimm ára gömul, fyrst með strákum en síðan með stelpum ári seinna. Með stelpunum byrjaði ég í 5. flokki þar sem enginn 6. eða 7. flokkur var til. Því voru stelpurnar flestar miklu eldri en ég og ég lærði ýmislegt af þeim. Það var góður skóli. Kom aldrei neitt annað en fótbolti til greina? – Jú, jú, ég var í frjálsum, handbolta og síðan í dansi í þrjú ár. Fótboltinn og handboltinn skipuðu alltaf stærstan sess í mínu lífi og ég spilaði alltaf með eldri stelpum í báðum greinunum. Þegar ég var komin í unglingalandsliðin í báðum greinunum varð ég að hætta því þetta var orðið of mikið fyrir mig. Ég valdi fótboltann eftir mikla umhugsun og sé ekki eftir því í dag.Nú ertu orðin atvinnumaður ung að árum, hvernig er það? – Ég kom hingað til Þýskalands í haust og spila með liði sem heitir FCR 2001 Duisburg. Sem stendur erum við í öðru sæti í þýsku Bundesligunni og það sem af er hefur mér gengið vel. Þetta víkkar sjóndeildarhring minn sem knattspyrnukonu og það er ómetanlegt tækifæri að geta stundað íþróttina allt árið um kring. En ertu þá ekki orðin rík á atvinnumennskunni? – Ég myndi segja að ég sé ekki alveg „hreinn“ atvinnumaður þar sem peningarnir í kvennaboltanum eru því miður ekki eins miklir og hjá körlunum. Ég get stundað nám án þess að taka námslán en ég verð enginn milljónamæringur á að vera hérna. Ég fer í þýskunám fljótlega en síðan stefni ég á að fara í fjarnám í haust frá Íþróttakennara­skólanum á Laugarvatni eða frá Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ.Hvað stefnirðu á sem knattspyrnukona?  – Ég er ekki búin að ná öllum mínum markmiðum sem knattspyrnu­kona þó að ég sé búin að ná einhverjum. Ég er aðeins tvítug og á vonandi allmörg ár eftir í þessu enn. Stefnan er að vinna hægt að því að verða betri leikmaður því það tekur tíma að aðlagast nýjum aðstæðum. Ég stefni á að komast sem lengst hvort sem það er í Þýska­landi, á Norðurlöndunum eða í Bandaríkjunum. Tíminn verður bara að leiða það í ljós hvernig ferillinn verður en ég hef nægan tíma til að bæta mig. Einnig stefni ég á að komast á stórmót með landsliðinu og það er nokkuð sem ég ætla að ná, það er alveg öruggt!Á hvaða hátt telur þú þig geta náð markmiðum þínum? – Maður þarf fyrst og fremst að hafa sjálfsaga. Einnig tel ég mjög mikilvægt að hugsa vel um sig bæði varðandi mataræði og svefnvenjur. Maður þarf að hafa metnað og að vera tilbúin að fórna hlutum fyrir íþróttina sína. Sjálfstraust skiptir máli, sem og trú á að geta náð árangri. Mér finnst líka skipta gríðarlega miklu máli að æfa vel aukalega og að hafa hæfileika á því sviði sem maður er að þjálfa sig í.Hvert er minnisstæðasta atvikið frá ferlinum? – Ég á nokkur sem ég get ekki gert upp á milli. Það er náttúrlega síðasta sumar með Val þar sem við unnum bikar- og Íslandsmeistaratitil. Einnig var ég valin besti leikmaður deildarinnar og var markahæst. Síðan þykir mér rosalega vænt um það þegar ég varð bikarmeistari með mínu gamla liði ÍBV en það var fyrsti titill ÍBV í meistaraflokki kvenna. Síðan mun ég aldrei gleyma fyrsta A-landsleiknum þar sem ég skoraði með minni fyrstu snertingu. Það var ótrúlegt augnablik á ferlinum.Hvernig finnst þér staða íslenskrar kvennaknattspyrnu vera í dag? – Mér finnst hún vera á mikilli uppleið. Það eru að koma margir efnilegir leikmenn úr yngri flokkum sem gerir boltann betri. Breiddin er að verða mjög góð í yngri flokkunum en það er eitthvað sem ekki var áður. Þó má alltaf gera betur. Við stelpurnar leggjum hart að okkur til að komast langt og auðvitað vildum við geta gert fótboltann einan að atvinnu okkar eins og strákarnir en ég held að það eigi eftir að gerast í framtíðinni. Kvennaknattspyrna er ung íþrótt og á bara eftir að fara upp á við.Snýst lífið eingöngu um fótbolta hjá þér? – Nei, ég myndi ekki segja það en auðvitað tekur fótboltinn mikinn tíma hjá mér. Ég á nokkur áhugamál utan fótboltans. Mér finnst rosalega gaman að ferðast og vera með vinum mínum. Einnig fer ég einstaka sinnum að skemmta mér og finnst það mjög skemmtilegt. Þó eyði ég miklum tíma í íþróttina, enda verða íþróttir lífsstíll og vinna eftir því sem maður eldist.Hver eru framtíðaráform þín? – Ég stefni að því að spila í frábæru liði svo lengi sem ég hef gaman af. Ég ætla á stórmót með landsliðinu. Einnig stefni ég að því að klára íþróttafræðina og íþróttasálfræðina og vinna við það þegar ferlinum lýkur. Mig langar að eiga heima á Íslandi í framtíðinni. Gæti verið að það yrði í Vestmannaeyjum með góðum manni og fullt af börnum, hver veit?More News

Pages