Eyddi klukkustund í ritstörfin

Fréttir

Viðtöl

Eyddi klukkustund í ritstörfin


Viðtal: Lízella. Myndir: Geir ÓlafssonSú bók - eða öllu heldur örbók - sem kom hvað mest á óvart í jólabókaflóðinu var fyrsta ævisaga Óttars Martins Norðfjörð, Hannes - Nóttin er blá, mamma.Þar, á fjórum blaðsíðum, fer Óttar yfir fyrsta æviskeið Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Sú bók reyndist vera fjórða mest selda bók ársins hjá Máli og menningu og Eymundsson. Áður hefur Óttar gefið út Barnagælur (skáldsögu sem kom út 2005) og nokkrar ljóðabækur hjá Nýhil.Best er þó að byrja á byrjuninni, en ekki hvað - og forvitnast um Óttar Martin:Hann er fæddur í Reykjavík, í lok janúar árið 1980, sonur arkitektahjónanna Sverris Norðfjörð og Alenu F. Anderlovu. Móðir hans er upphaflega tékknesk en er íslenskur ríkisborgari í dag:„Þegar ég var krakki talaði ég tékknesku og íslensku fram að fimm ára aldri en eftir því sem mamma kunni meira í íslenskunni fór ég að detta út úr tékkneskunni. Ég skil þó mikið í tékknesku, hún talar við mig á tékknesku og ég svara á íslensku. Ég á foreldrum mínum mikið að þakka sem rithöfundur, bæði hvað varðar tækifæri og innblástur.“ Hvaða nám hefurðu stundað?„Ég er með BA- og MA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands. Auk þess hef ég stundað nám við Myndlistarskólann í Reykjavík og tungumálanám í Heidelberg, Nice og Sevilla. Þar að auki bjó ég um tíma í Köben svo ég kann nokkuð í þó nokkrum tungumálum!“Fyrir utan skriftir vann Óttar sem ritstjóri Menningarblaðs DV og vann einnig dágóðan tíma við Háskóla Íslands fyrir ólíka prófessora. Hann segir þó skemmtilegast hafa verið að baka pizzur á Eldsmiðjunni.  Hefurðu alltaf fylgst með Hannesi Hólmsteini?„Í svolitla stund. Viðhorf hans til heimsins varð mér þó ljóslifandi þegar hann hélt fyrirlestur í námskeiði sem ég sótti í MH árið 1997, stjórnmálafræði 103. Mig minnir að ein stelpa hafi gengið út.“  Hver var kveikjan að bókinni?„Ég held að bækur eigi sér margar kveikjur, sem renna loks saman og mynda hugmynd að einni bók. Kveikjurnar að þessari bók voru ýmsar, til dæmis allt grínið og hysterian sem fylgir jólabókaflóðinu, ákvörðun Hannesar að skrifa ævisögu um Halldór Laxness þrátt fyrir andstöðu fjölskyldu Laxness, hversu stofnanabundnar hugmyndir fólks eru orðnar um fyrirbæri eins og ævisögur, skáldsögur og ljóðabækur - fólk er með fyrirfram hugmyndir um hvernig þær eiga að líta út og það fer í taugarnar á mér. Þetta var nú það sem gerjaðist í höfðinu á mér áður en ég skrifaði Hannes - Nóttin er blá, mamma.“ Hvað eru mörg bindi eftir?„Tvö, „Hólmsteinn“ og „Gissurarson“!!“ Hannes sagði í viðtali að þú hefðir ekki skrifað ævisöguna í samráði við hann en var engu að síður sáttur við framtakið. Áttirðu von á því?„Bæði og. Ég hafði heyrt útundan mér að hann væri húmoristi og tæki þessu hugsanlega bara vel. Hann sagði reyndar í öðru viðtali síðar að bókin væru húmorslaus og að þess vegna hefði hann ekki húmor fyrir henni. Ég veit því ekki alveg hvar hann stendur með þetta allt saman.“ Gafstu Hannesi bók?„Að sjálfsögðu, sendi honum eitt fyrsta eintakið, áritað og allt.“ Ertu með aðra í sigtinu sem þig langar að skrifa um?„Svona örævisögu? Já, eftir að ég sá hversu vel þetta féll í fólk þá hef ég nú verið að fikra mig áfram, leita að nýjum fórnarlömbum. Er reyndar nú þegar búinn að skrifa aðra, um kærustuna mína sem hún fékk í jólagjöf. Gjöfin féll vel í kramið hjá henni!“Hann segir tímann sem fór í vinnuna við bókina um Hannes hafa verið um klukkustund en því er ekki að neita að húmor rithöfundarins fer ekki framhjá manni við lesturinn.Finnst þér sjálfum mikilvægt að sjá húmor höfundar í þeim bókum sem þú lest?„Já, ef bókin er á annað borð hugsuð sem grín eða glettin. Ég geri samt enga kröfu til bóka að þær séu fyndnar, mér finnst alveg jafngaman að lesa Sjón og Hallgrím Helgason.“ Þú lést allan ágóða af bókinni renna til Mæðrastyrksnefndar, sem er aðdáunarvert framtak. Fannst þér erfitt að finna líknarfélag eða góðgerðarsamtök til að láta ágóðann renna til?„Nei, alls ekki. Hugmyndin um að gefa peninginn kom upphaflega frá vinkonu minni og fyrst þetta var jólabók þótti mér tilvalið að velja Mæðrastyrksnefnd, enda eru hún áberandi fyrir jólin. Þær taka við öllu frá öllum og voru því ánægðir með styrkinn.“Endanleg upphæð sem mun renna til Mæðrastyrksnefndar er ekki enn komin í ljós en það ætti að skýrast þegar fer að líða á febrúarmánuð. Óttar segist hlakka til að gefa nefndinni peningana sem safnast hefur. Ætlarðu að styrkja önnur góðgerðarsamtök með næstu bókum eða fara að starfa sem rithöfundur í fullu starfi?„Ég á enn eftir að ákveða það, mig grunar þó að ég muni gefa einhverjum góðgerðarsamtökum peninginn en greiða mér lágmarkslaun fyrir vinnuna, enda reyndist vinnan við þetta fyrsta bindi miklu meiri en ég hafði gert ráð fyrir.“ Hvernig sér þessi ungi, greindi og bráðfyndni upprennandi rithöfundur framtíðina fyrir sér?„Maður heldur bara áfram að skrifa og reyna láta sér detta í hug sniðug viðfangsefni sem hrista aðeins upp í heiminum, enda þykja mér þannig bækur skemmtilegastar - sem brúa það bil að vera skemmtilegar aflestrar en vekja fólk þó vonandi til smáumhugsunar.“ 


More News

Pages