Jarðbundnir og skemmtilegir rokkarar

Fréttir

Viðtöl

Jarðbundnir og skemmtilegir rokkarar


Ský yfirheyrir meðlimi Brain PoliceViðtal: Lízella. Myndir: Geir Ólafsson og úr einkasafniHljómsveitin Brain Police hélt sína fyrstu tónleika þann 12. nóvember 1998 og síðan þá hefur sveitin tekið ýmsum breytingum, þá helst mannabreytingum, en það sem breyttist ekki var að spila gott rokk fyrir áheyrendur sína.Jónbi trommuleikari segir dagsetninguna reyndar hafa upphaflega komið til þegar hljómsveitin hafði æft í þrjá mánuði og þann 12. nóvember 1998 hélt Jónbi einmitt upp á 22ja ára afmælið sitt og því var dagurinn valinn til að hefja spilamennsku.Tæpum níu árum síðar er hljómsveitin enn að og heldur meira að segja enn tryggð við þennan nóvemberdag því félagarnir reyna yfirleitt að halda afmælistónleika þá, a.m.k. annað hvert ár. En hverjir eru Brain Police og hvert stefnir sveitin?Fyrri spurningunni er tiltölulega auðsvarað; í dag eru það þeir Jón Björn Ríkharðsson (aldrei kallaður annað en Jónbi og verður kallaður svo hér eftir) sem sér um trommuleik, Hörður Stefánsson (Höddi) spilar á bassa, Búi Bendtsen spilar á gítar og Jens Ólafsson þenur raddböndin.Þeir koma allstaðar að af landinu; Jónbi er alinn upp á Dalvík, Höddi fæddist á Húsavík en fluttist ungur að aldri til Garðabæjar, Búi er af Seltjarnarnesinu en Jenni frá Akureyri. Í raun og veru má segja að Brain Police, eða forveri hennar, Vírskífa, hafi „fæðst“ í Myllunni, en þar unnu þeir Jónbi og Höddi saman við bakstur og sameiginlegur áhugi þeirra á tónlist varð ljós. Vinnufélagi þeirra þar, Vagn Leví Sigurðsson, sá um söng hjá Vírskífu og síðar Brain Police. Stuttu síðar flutti Gunnlaugur Lárusson, æskuvinur Jónba, til Reykjavíkur og saman stofnuðu þeir Gunnlaugur, Jónbi og Höddi Brain Police, og buðu Vagni Leví, í kjölfarið, að vera með.Í dag eru Jónbi og Höddi einu upprunalegu meðlimir sveitarinnar. Vínilplötuhefð dró dilk á eftir sérJónbi: „Nokkrum árum síðar, í kringum 2002, vantaði okkur söngvara og ég var staddur í heimsókn hjá gömlum vini á Akureyri.Þetta kvöld vorum við með okkar reglulega vínylkvöld þar sem ég og Móði vinur minn hittum aðra félaga okkar en þetta var hefð hjá okkur að koma saman og hlusta á vínylplötur eftir kúnstarinnar reglum.En þar sem okkur vantaði plötuspilara akkúrat þetta kvöld þá leyfðum við öðrum félaga að slást í hópinn og hann tók með sér vin sinn sem reyndist vera Jenni. Við Jenni þekktumst ekkert þá en náðum vel saman þetta kvöld og í kjölfarið buðum við honum í Brain Police.“„Nokkrum árum eftir þetta hætti upprunalegi gítarleikarinn okkar og við hófum leit að nýjum en leitin reyndist frekar stutt.Við vissum af Búa þar sem við höfðum spilað nokkrum sinnum með hljómsveitinni hans, Manhattan, og buðum honum að taka stöðu gítarleikara Brain Police sem hann og þáði.“ Hafið þið lært á hljóðfæri?Jónbi: „Ég hef farið á eitt námskeið í trommuleik, annars er ég sjálflærður. Það gæti verið gaman að læra á gítar í framtíðinni.“Búi: „Ég fór á eitt námskeið hjá honum Birni Thoroddsen hérna í dentíð sem var nokkuð gott.“ Jenni: „Ég er algjörlega sjálflærður á gítar og söng en maður getur alltaf á sig blómum bætt!“ Eruð þið í vinnu eða skóla meðfram spilamennsku og upptökum?Jónbi: „Allir erum við að vinna meðfram spilamennsku enda erum við allir fjölskyldumenn og ekki duga tekjurnar sem fást fyrir spilamennsku til að sjá fyrir fjölskyldunni því tekjur Brain Police eru ekki upp á marga fiska.Það er mjög erfitt og kostnaðarsamt að reka rokkhljómsveit á Íslandi því markaðurinn er svo lítill.“ Aðspurðir við hvað þeir vinna segjast þeir helst vilja eiga einkalíf utan tónlistarinnar og nefna því ekki meir um maka og börn til að gefa þeim það „nafnleysi“ sem mökum og börnum annarra og „ófrægra“ er í raun sjálfgefið.Ég get ekki orða bundist og dáist að strákunum fyrir hversu heilir þeir eru hvað þetta varðar. Við erum orðin svo vön öllum söngvurum, gítarleikurum, ættingjum þeirra, börnum, bílum og íbúðum á forsíðunni á Séð og heyrt að þetta var alveg ný reynsla fyrir mig sem blaðamann!Hljómsveit sem vill ekki ota sínu einkalífi ofan í lesendur! Nýtt og ferskt! Hvernig gengur ykkur að sameina störf ykkar, hljómsveit og einkalíf? „Það gengur mjög vel að sameina þetta allt saman. Við erum allir í góðri vinnu og yfirmenn okkar  eru mjög skilningsríkir á allt þetta hljómsveitarstúss og styðja okkur í að eltast við frægð og frama. Einnig má taka fram að allir eigum við góðar og skilningsríkar konur og fjölskyldur almennt.“ Með aðstoð Frank ZappaHvernig kom nafn hljómsveitarinnar til?„Nafnið Brain Police er komið frá meistara Frank Zappa. Það var þannig að þegar við vorum að leita að nafni tókum við eftir því að ein af okkar uppáhaldshljómsveitum, Monster Magnet, hafði tekið nafn sitt frá Zappa og okkur datt í hug að gera slíkt hið sama.Þannig er að á fyrstu plötu Zappa sem heitir „Freak out“ er lag sem heitir „Return of the son of Monster Magnet“ og einnig lag sem heitir „Who are the Brain Police“ og við ákváðum bara að svara þeirri spurningu.Í rauninni kom aldrei neitt annað nafn til greina, allavega ekkert sem er eftirminnilegt.“  Aðspurðir hvar þeir hafa spilað erlendis svara þeir: „Haustið 2005 fórum við í okkar fyrstu tónleikaferð erlendis og spiluðum á tónleikum í Þýskalandi og Svíþjóð.Síðan endurtókum við ferð okkar til Þýskalands haustið 2006 og spiluðum í nokkrum borgum, meðal annars Berlín, Köln og Chemnitz, sem hét áður Karl Marxstadt, svo eitthvað sé nefnt.“ Hverjar eru helstu fyrirmyndir ykkar í tónlist?Jónbi: „Mínar fyrirmyndir eru svo margar en til að nefna eitthvað þá eru það tveir trommarar, Ian Paice úr Deep Purple og John Bonham úr Led Zeppelin.“Höddi: „Það er af svo mörgu að taka en ég nefni Scott Reeder og Jaco Pastorius“.Búi: „Ég lít mikið upp til Jimmy Page og Josh Homme er í mikklu uppáhaldi.“ Jenni: „Fyrirmyndir mínar eru John Garcia, Chris Cornell og Mike Patton.“ Þegar ég spyr um fyrirmynd í einkalífinu verður Höddi einn til svars: „Þar sem ég er gamall kraftlyftingamaður þá nefni ég að sjálfsögðu Jón Pál Sigmarsson sem er goðsögn og var það í rauninni einnig í lifanda lífi.“ Eigið þið eitthvert uppáhaldslag með Brain Police?„Ég held að við getum allir sagt að lögin okkar eru svo frábær að það er ekki hægt að velja eitthvert eitt úr! En yfirleitt er það „nýja“ lagið sem er skemmtilegast  að spila þá og þegar því það er nýjast.“ Lýðræðið ræður ríkjum við lagavalHvernig semur ykkur að semja lög og texta og velja og hafna lögum til að setja á diska? Eruð þið farnir að huga að næstu plötu?„Lögin semjum við allir saman og Jenni hefur séð um textana að mestu leyti. Þetta er allt samið á æfingum og hefur það gengið bara nokkuð vel hingað til.Þegar kemur svo að því að velja lög á plötur, eða bara að gera prógramm fyrir tónleika, þá er það lýðræðið sem ræður ríkjum; allir hafa eitt atkvæði og meirihlutinn ræður.“ Þegar ég spyr þá í hvaða hljómsveitum - fyrir utan Brain Police - þeir hafi verið dynur á mér urmullinn allur af sérkennilegum nöfnum.Jónbi: „Ég hef verið í Beyglunni, Uxorius, Tombstone, Neistum, Utopiu, Granfaloon og Vírskífu.“Höddi: „Ég var í Danske Död, Two Mules og Vírskífu.“ Jenni: „Ég hef verið í Fudd, Gimp, Toy Machine og Hot Damn.“Búi: „Hjá mér eru það Fídel og Manhattan.“ Af ofannefndu svari má sjá að tónlistin er þeim hjartans mál og þeir taka undir þegar ég spyr hvort þá hafi alltaf langað til að starfa sem tónlistarmenn. Er eitthvað annað sem þeir gætu hugsað sér að starfa við ef tónlistarinnar nyti ekki lengur við?Jónbi: „Ég myndi vilja starfrækja mitt eigið bakarí eða kaffihús.“Höddi: „Ég vil vinna við eitthvað tengt tónlist, það er svo einfalt!“ Búi: „Þar sem ég er útvarpsmaður, þá held ég að ég myndi bara vinna við það.“Jenni: „Tónlist er það eina sem mig langar til að vinna við.“ Gekk ekki nógu vel að fá þá til að ímynda sér framtíðina án tónlistar ... En hvað með áhugamálin - og bannað að nefna tónlist! Við vitum að hún er einna efst á blaði!„Það er ýmislegt, allir eigum við mismunandi áhugamál eins og t.d. golf, mótorhjól, snjóbretti og fótbolta þannig það er reynt að sinna þeim. Síðan er náttúrlega reynt að eyða eins miklum tíma með fjölskyldunni eins og maður getur.“ Næst eru þeir beðnir um að segja frá fyndinni eða skrítinni uppákomu sem hefur átt sér stað, hvort sem er við æfingar, tónleikahald eða upptökur. Það stendur ekki á svörunum:„Það var eitt sinn sem við vorum að spila á stað sem hét HM Café á Selfossi. Upphitunarbandið var búið að ljúka sér af og við stigum á stokk.Við rennum í fyrsta lag og þegar við erum komnir svona 20 sekúndur inn í lagið, þá fer rafmagnið af! Við stöndum uppi á sviði og skiljum ekki neitt; Vertinn á staðnum stekkur til og slær inn rafmagnið - nú, við byrjum aftur á sama lagi og aftur slær rafmagnið út. Aftur kemur það þó á en viti menn, í þriðja skiftið þá slær út.Þegar hér er komið sögu erum við orðnir ansi pirraðir og prófum að byrja á öðru lagi þegar vertinn er búinn að slá inn, í þetta skiptið náum við að komast inn í mitt lag og erum orðnir nokkuð vongóðir að allt sé komið í lag þegar slær út í fjórða skiptið.Allt verður brjálað og Jónbi rýkur inn í eldhús og neitar að spila meira. Eftir miklar vangaveltur og samninga-viðræður við trommarann er brugðið á það ráð að fá lánaðan rafal hjá slökkviliðinu.Rafallinn, sem gengur fyrir bensíni, er settur fyrir utan staðinn og rafmagnið tengt í hann og við náðum að klára tónleikana með glæsibrag. Ég held að við allir höfum gefið alveg extra mikið í restina af þessu giggi, til að losa um smáspennu sem hafði myndast út af þessu veseni öllu.Einnig má nefna fyndið atvik þegar Arnar félagi okkar prumpaði við upptökur á lokalagi plötunnar Electric Fungus sem við létum standa eftir. Þannig að ef þú hlustar vel undir lokin á plötunni þá heyrirðu nokkuð óvænt.“ Lokaspurningin: Hvað er á döfinni?„Það sem er á döfinni hjá okkur á þessu ári er að fylgja eftir okkar fjórðu breiðskífu sem ber heitið „Beyond the Wasteland“ og kom út síðastliðið haust.Við reiknum við með að taka nokkrar ferðir í kringum landið og spila á sem flestum stöðum. Einnig stendur til að skreppa aftur til Þýskalands í sumar og spila á tónlistarhátíð þar.Svo er á teikniborðinu Evróputúr sem við ætlum að fara í september, það verður líklega 2-3 vikna túr em við förum með öðru erlendu bandi en ég get ekki sagt meira frá því að svo stöddu.Að lokum reikna ég með að Brain Police byrji að vinna að sinni fimmtu breiðskífu í byrjun næsta árs.“ Þetta eru væntanlega lokaorð sem ylja Brain Police aðdáendum um hjartarætur!

More News

Pages