Íslensk fegurð í útlöndum

Fréttir

Viðtöl

Íslensk fegurð í útlöndum

Fyrirsætustarfinu fylgir mikill ævintýraljómi og þær eru margar fyrirsæturnar sem dreymir um að vinna úti í hinum stóra heimi. Hópur íslenskra stúlkna upplifir nú þann draum fyrir tilstilli fyrir­sætuskrifstofunnar Eskimo.Texti: Svava Jónsdóttir, Myndir: Ýmsir.Tinna Bergsdóttir: Að velja og hafna  


Tinnu Bergsdóttur bauðst að taka þátt í fyrirsætukeppninni Face North fyrir tveimur árum. Hún sigraði og fór í framhaldi af því til New York þar sem hún vann í nokkra mánuði. „Ég fór svo til Indlands þar sem ég vann fyrir Levis og Walls. Þá fór ég til Tókýó þar sem ég vann við varalitaaugýsingu fyrir Nivea. Þá hafa myndir birst af mér í tímaritum á borð við Elle og Cosmopolitan.“


Tinna er nýflutt til London og starfar á vegum umboðsskrifstofunnar Premier Models.


Tinna segir að það markverðasta á ferlinum til þessa sé Levis-verkefnið sem hún vann við á Indlandi. „Unnið var að því út um allt land og myndir birtust í fjölda blaða.“ Tinna segist hafa þroskast mikið á þeim tveimur árum sem hún hefur starfað sem fyrirsæta. „Ég hef komið á staði sem mig hefði aldrei dreymt um að koma til, ég hef kynnst æðislegu fólki og bestu vinir mínir eru þeir sem ég hef hitt í gegnum starfið. Ég sé núna að ég get staðið á eigin fótum.“


Þegar Tinna er spurð hvað starfið taki frá henni bendir hún á að hún hafi misst af ýmsu svo sem afmælum hér heima. „Maður verður að velja og hafna vegna þess að maður getur bara verið í þessu starfi í nokkur ár.“ „Ferill Tinnu byrjaði í Indlandi og hefur hún verið þar í tæp tvö ár enda á hún kærasta þar sem er frægasta karlfyrirsæta þar í landi. Þar hefur hún starfað nærri því upp á hvern einasta dag í myndatökum og sýningum. Hún hefur prýtt blaðsíður Elle og Marie Claire. Tinna er svo indæl að mann langar til að faðma hana í hvert skipti sem maður sér hana. Hún fór nýverið til London og mun starfa í Evrópu næstu mánuði. Það er nokkuð ljóst að ferill Tinnu verður langur og góður ef hún kýs að halda áfram á þessari braut.“ Andrea Brabin hjá Eskimo.Heiða Rún Sigurðardóttir: Prinsessa  og páfuglar


Heiða Rún Sigurðardóttir hefur unnið við ýmiss konar auglýsingar á Indlandi og leikið í tónlistarmyndböndum. Myndir af henni hafa birst í indversku útgáfunum af Cosmopolitan, Marie Claire, Elle og Verve Magazine. Hún er nýflutt til London þar sem hún starfar sem fyrirsæta auk þess sem hún hefur sótt um inngöngu í leiklistarskóla.


„Góð fyrirsæta þarf að vera með góðan líkama, góða húð og heilbrigt hár og tennur. Hvað varðar persónuleikann er ekki verra ef hún kemur vel fyrir en sjálfstraust og þolinmæði er nauðsynleg.“


Heiða Rún segir að það neikvæða við starfið sé að stundum finni hún fyrir óþolinmæði og sjálfstraustið minnki sem leiðir til þess að hún fær ranghugmyndir um sjálfa sig og aðra. „Það getur leitt mann inn í óraunveruleikann sem virðist bara eiga sér stað í þessum bransa. Maður verður bara að muna hver maður er, hvað er mikilvægt, halda í það sem maður veit að skiptir máli og muna að í lok dagsins er þetta bara vinna.“


Starfið getur verið ævintýralegt. Heiða Rún segir það eftirminnilegasta vera þegar hún fór einu sinni til Tælands til að taka upp auglýsingu með frægum, indverskum leikara. „Við fórum til Phuket sem er gullfallegur staður þar í landi. Þar sem ég var að leika í auglýsingu með þessari Bollywood-stjörnu, vorum við á fimm stjörnu hóteli í fimm daga þar sem var einkaströnd og allur mögulegur lúxus sem hægt er að hugsa sér. En það var ekki það besta. Tökustaðurinn var nefnilega á eyju sem heitir Maya Beach þar sem kvikmyndin The Beach var tekin. Við vorum þar við myndatökur í tvo daga og þetta er ótrúlegasti staður sem ég hef séð.“


Eftir þessa ferð fór Heiða Rún einhverju sinni með fleirum íslenskum stelpum frá Eskimo í sex daga siglingu með skemmtiferðaskipi um Indlandshaf þar sem teknar voru myndir á fallegri eyju fyrir dagatal. Íbúar voru um 50 og Heiða Rún segir að sandurinn hafi verið hvítari en hveiti og vatnið kristalstært.


„Ég hef einnig fengið að gista í gömlum höllum á Norður-Indlandi sem voru byggðar á 16. öld en hótelkeðjur reka þar hótel í dag. Í einni þeirra bjó áttræð prinsessa ennþá í svítunni sinni. Fílar og páfuglar voru í hallargarðinum.“„Heiða er „litla“ stelpan okkar. Þótt hún sé ekki lítil þá hefur hún fylgt Eskimo í mörg ár. Hún byrjaði mjög ung að leika í auglýsingum hérlendis en árið 2005 fór hún til Indlands sem ein af okkar fyrstu fyrisætum. Þar tók hún ríkan þátt í uppbyggingu Eskimo í Indlandi. Skrefin voru ekki alltaf auðveld en hún varð ástfangin af Indlandi. Heiða er dansari að mennt og hefur það auðveldað henni skrefin í Bollywood. Í dag má sjá veggspjöld og myndir af Heiðu úti um allt Indland. Það er aldrei dauður tími þegar maður er í kringum Heiðu. Hún er eins og stormsveipur.“ Andrea Brabin hjá Eskimo.Matthildur Lind Matthíasdóttir: Mílanó, París og London


Það var Andrea Brabin hjá Eskimo sem uppgötvaði Matthildi Lind Matthíasdóttur ef svo má að orði komast. Þá fór boltinn að rúlla og hefur ekki stöðvast síðan. Matthildur hefur unnið í Mílanó, París og London hjá umboðsskrifstofunum Women í Mílanó, Karin models í París og Models 1 í London þar sem hún starfar í dag. Þar tók hún nýlega þátt í tískuvikunni sem haldin var í borginni.


Myndir af Matthildi hafa birst í ýmsum tímaritum svo sem Grazia á Ítalíu og í frönsku tímaritunum Tresor, 20 Ans, Lush og Flavor. Aðspurð um hvað hún telji vera markverðast á ferlinum segir Matthildur: „Þegar ég vann hjá Roberto Cavalli.“ Hún segir að til að ná langt þurfi fyrirsæta að hafa sjálfstraust, vera skipulögð og sjálfstæð og auðvitað búa yfir sjarma. „Þetta starf gefur mér aukið sjálfstraust. Þá kynnist ég nýju fólki og tungumálum.“„Matta er algjör nagli og kvartar aldrei. Hún hefur verið hjá Eskimo frá því hún var 14 ára en fór ekki til starfa erlendis á okkar vegum fyrr en hún er orðin 17 ára. Matta lætur fara lítið fyrir sér og er afar fagmannleg í starfi. Hún hefur starfað í Evrópu í átta mánuði samfleytt.“ Andrea Brabin hjá Eskimo.Sigríður Hrönn Guðmundsdóttir: Bollywood-myndir og verðlaunasæti


Sigríður Hrönn Guðmundsdóttir vinnur á vegum Eskimo á Indlandi en hún hefur starfað sem fyrirsæta í um átta ár með góðum hléum. Hún vann til að mynda um árabil á Spáni hjá einni af bestu umboðsskrifstofunum þar í landi, Group.


Starf hennar í dag felst aðallega í myndatökum á Indlandi fyrir vörulista og auglýsingar í blöð auk þess sem hún leikur mikið í sjónvarpsauglýsingum. Þá hefur Sigríður Hrönn leikið í indverskum kvikmyndum. Hún bendir á að efnahagskerfið þar í landi hafi opnast mikið fyrir erlend fyrirtæki á undanförnum árum og að miklar og hraðar breytingar séu á tískumarkaðnum.


„Ég er búin að vera ótrúlega heppin með vinnu á Indlandi. Ég ætlaði að vera hérna í einn til tvo mánuði og fara svo í bakpokaferðalag um Asíu. Ég endaði svo á því að vinna næstum því daglega með bestu ljósmyndurum, stílistum og leikstjórum Indlands. Auk þess er ég búin að vera í helstu tískutímaritum á Indlandi svo sem Cosmopolitan, Verve, L’Officiel, Elle og Marie Claire. Það hafa birst viðtöl við mig í öllum helstu dagblöðum í Bombay og ég er nánast stöðugt í sjónvarpinu þar sem ég hef verið í auglýsingum sem eru mikið sýndar. Fólk þekkir mig úti á götu og ég er mikið beðin um eiginhandaráritanir í verslunarmiðstöðvum.“ 


Sigríður Hrönn hefur leikið í tveimur Bollywood-myndum og í annarri lék hún aðalhlutverkið. Nokkrir frægir indverskir leikarar léku í henni auk bresku leikkonunnar Michelle Collins, sem leikið hefur í East Enders.


„Það var gaman að fá í fyrra 2. verðlaun á Indlandi sem „most successful model of the year“ en enginn útlendingur hefur unnið þessi verðlaun.“


Þegar Sigríður Hrönn er spurð hvað fyrirsæta þurfi að hafa til að ná langt segir hún: „Ég held að það skipti miklu máli að þekkja markaðinn og vinna með það sem maður hefur. Það er líka mikilvægt að vera sterkur karakter og láta ekki fólk vaða yfir sig án þess þó að vera með stæla. Það er nauðsynlegt að þola að vera einn og fjarri fjölskyldu og vinum. Þær stelpur sem ná langt í þessum bransa virðast líka vera með sjálfstraust sem tengist ekki bara útlitinu, þær eru meðvitaðar um kosti sína og hæfileika. Þær stelpur sem treysta bara á útlitið missa fljótt allt sjálfstraust og þar með metnað þar sem í þessum bransa er sífellt verið að gagnrýna á einn eða annan hátt hvernig maður lítur út.“„Sigriður Hrönn er ein þeirra fyrir­sætna okkar sem notið hefur hvað mestrar velgengni á Indlandi. Sigga, eins og hún er kölluð, er klár og alltaf hress en þessir eiginleikar vega mikið í Indlandi og auðvitað alls staðar. Hún hefur ekki þessa fullkomnu hæð sem yfirleitt er óskað eftir í fyrirsætuheiminum en persónusjarmi hennar hefur bætt fyrir það. Hún hefur einnig mikla leikhæfileika og hefur leikið í tveimur bíómyndum. Sigga hefur ákveðinn „celebrity status“ á Indlandi og er iðulega stoppuð á förnum vegi til að gefa eiginhandaráritanir.“ Andrea Brabin hjá Eskimo.Edda Björk Pétursdóttir: Lætur námið ganga fyrir


Ásta og Kristín Ásta hjá Eskimo stoppuðu mig úti á götu fyrir átta árum, eða þegar ég var í 9. bekk, og spurðu mig hvort ég hefði áhuga á fyrirsætustörfum. Ég var mjög feimin á þessum tíma og hafði aldrei hugsað út í að verða fyrirsæta. Ég ákvað nokkrum vikum síðar að slá til og sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun. Ég hugsa að ég hafi farið út í þetta af forvitni.“


Edda Björk fékk fljótlega gott verkefni fyrir danska tímaritið Eurowoman. Sumarið eftir 9. bekk hélt Edda Björk með móður sinni til New York þar sem hún vann sem fyrirsæta. „Það var ógleymanleg ferð. Ég man að mamma fór alltaf með mér en ég mátti aldrei vera ein og við skemmtum okkur konunglega. Ég og mamma erum svo góðar vinkonur og náum svo vel saman.“„ Edda Björk vann næstu sumur í New York.


„Mér fannst alltaf mikilvægt að fara aftur í skólann þótt það hafi verið stundum freistandi að vera áfram út af skemmtilegum tilboðum. Ég er samt mjög ánægð með það í dag að hafa látið skólann ganga fyrir.“


Þegar Edda Björk fór að vinna í New York í fyrsta skipti var hún á skrá hjá módelskrifstofunni Metropolitan en fór fljótlega á skrá hjá módelskrifstofunni Click. „Það kom fyrir að ég hélt til annarra landa til þess að fara í myndatökur og fór ég til dæmis til Ítalíu, Englands og Þýskalands.“


Edda Björk útskrifaðist frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ árið 2004. Þá var hún hætt að starfa sem fyrirsæta og ætlaði ekkert að fara út í það aftur. „Harald, bókarinn minn í New York, var staddur á Íslandi og langaði til að hitta mig og foreldra mína til þess að tilkynna að hann vildi fá mig aftur út. Þá var ég búin að hugsa um að fara í ljósmyndanám en ákvað að vera í New York í eitt ár. Eftir það hóf ég nám í félagsfræði við Háskóla Íslands.“


Edda Björk vinnur sem fyrirsæta samhliða náminu. Hún var í jólafríinu í Mumbai á Indlandi þar sem Eskimo er með útibú. Þar vann hún aðallega í tengslum við tímarit og sjónvarpsauglýsingar. „Mér finnst svolítið erfitt að hætta alveg. Það er gaman að ferðast og fá tækifæri til að vinna út um allan heim. Ég hef eignast frábæra vini í gegnum þetta starf og þar sem ég ætlaði alltaf að verða ljósmyndari er gaman að hafa unnið með svona mörgum góðum ljósmyndurum.“„Framaferill Eddu Bjarkar í fyrirsætustarfinu fór fljótt af stað. Hún byrjaði strax að vinna með bestu tímaritum og ljósmyndurum í heimi. Námið hefur þó alltaf gengið fyrir hjá henni enda eldklár stelpa. Edda er algjör ljúflingur og mjög jákvæð. Hún er fyrsta ljóshærða fyrsætan sem fer til starfa í Indlandi á vegum Eskimo – Indverjar hafa eingöngu notað dökkhærðar fyrirsætur - og það hefur verið ánægjulegt að sjá hversu vel henni gengur.“ Andrea Brabin hjá Eskimo.


More News

Pages