Kristján Jóhannsson óperusöngvari um ævistarfið: Hjarta mitt slær fyrir sönginn

Fréttir

Viðtöl

Kristján Jóhannsson óperusöngvari um ævistarfið: Hjarta mitt slær fyrir sönginn


Kristján Jóhannsson óperusöngvari slær ekki slöku við frekar en fyrri daginn  og hefur í nógu að snúast í kringum sönginn. Hér ræðir hann við Erlu Gunnarsdóttur um söngkennsluna, samskiptin við Vatíkanið, óperuumhverfið á Íslandi, matarást, rósina í hnappagatinu og skandalinn á Scala.Texti: Erla Gunnarsdóttir, Myndir: Úr einkasafni.Hvaða verkefni eru efst á baugi hjá þér um þessar mundir? Fyrir hvaða óperuhús ert þú að vinna núna?


- Ég er bókaður fram til sumarsins 2008 við hin ýmsu verkefni. Öll eru þau ólík en mjög spennandi. Í sumar fer ég í tónleikaferð með San Biago-kórnum þar sem við troðum upp á einum átta tónleikum á Lombardia-svæðinu og endum ferðina í Romano-leikhúsinu í Verona. Í júní held ég tónleika með fílharmóníusveitinni á Scala í borginni Brescia og í haust syng ég óperuna Wozzeck eftir Alban Berg, í Róm.  Þú vinnur við söngkennslu fyrir fólk sem er útskrifað. Er kennsla að vinda upp á sig hjá þér?


- Já, þetta hefur undið skemmtilega upp á sig en kennslan hjá mér felst í „perfezionamento di canto“, sem má þýða sem kennsla í að samhæfa tækni, túlkun og ekki síst tjáningu. Hópurinn minn er alltaf að stækka og núna er ég með tíu nemendur sem ég hef valið sjálfur og sem ég tel eiga góða framtíðarmöguleika. Það má segja að kennslan hafi byrjað hjá mér óvart, fyrir nokkrum árum, þegar ég var beðinn um að vera  með „masterclass“ í sumum óperuhúsunum þar sem ég var að syngja en þá var ég beðinn um að segja ungum söngvurum til.   Hvaðan koma nemendur þínir?


- Ég er með fólk alls staðar að úr Evrópu, meðal annars frá Finnlandi, Englandi, Ítalíu og fimm eru frá Íslandi en það er sérstaklega ánægjulegt að vera með samlanda sína. Það hefur komið mér skemmtilega á óvart hvað kennslan hefur gefið mér mikið en ég verð að viðurkenna að það eru forréttindi að geta valið nemendur sjálfur. Kennslan veldur því einnig að ég er raunverulega syngjandi alla daga og þá með nemendum mínum en mér finnst þeir halda mér ungum og hressum í anda. Segja má að kennslan og nemendur mínir, sem eru allir á besta aldri, 23-33 ára, haldi mér í formi bæði andlega og líkamlega og ekki síst listrænt.  Hvernig er aðstaðan heima hjá þér fyrir söngkennsluna?


- Ég hef mjög góða aðstöðu heima við en þar er ég með tveggja herbergja stúdíó með sérinngangi og þar hef ég flygilinn minn, nótur og allt sem ég þarfnast til kennslunnar. Ég er með framúrskarandi samstarfsmann, Matteo Falloni, en hann er mjög fær á sínu sviði, hvort heldur sem tónskáld, píanóleikari, undirleikari eða „opera-coach“. Samstarf okkar hófst þegar mig vantaði undirleikara og „opera-coach“ fyrir nokkrum árum og ég var að læra nýja óperu. Með okkur tókst mikil vinátta og afskaplega gott samstarf og hef ég lært allar óperur síðan með honum. Einnig samdi tónskáldið Matteo eitt af fallegri lögunum á síðustu plötunni minni. Matteo spilar undir hjá mér í kennslunni og þar er mikill fengur að honum því hann er mikill tungumálamaður og talar mjög góða frönsku og þýsku og er vel að sér í ítölskum, þýskum og frönskum óperustíl sem er mjög mikilvægt fyrir „opera-coach“. Óperustíll er breytilegur, eftir því hvort sunginn er Mozart, Verdi eða Puccini. Allar óperur og öll tónskáld eiga sinn lit og sína þyngd í tónlistinni og síðan eru textarnir einnig mismunandi dramatískir þannig að það er mikilvægt að hafa kunnáttumann á þessu sviði.    Þú vannst nýlega að því að setja upp söngdeild fyrir Vatíkanið. Hvernig gekk það verkefni og hvernig er að vinna fyrir erkiklerkana?


- Það kom þannig til að ég söng nokkrum sinnum um jól og páska fyrir Vatíkanið og það þó að ég sé mótmælandatrúar en ekki kaþólskur. Þar kynntist ég skólastjóranum við söngdeild Vatíkansins og í gegnum umboðsmann í Róm var ég beðinn um að hlusta á nokkra nemendur. 


Úr varð að ég var vetrarpart að kenna þar en það verður að segjast eins og er að það tók mig skamman tíma að uppgötva að þau skilyrði sem mér stóðu til boða á endanum áttiu ekki vel við mig. Ég var kominn með yfir 30 nemendur og gat ekki um frjálst höfuð strokið. Það stefndi í að fjölskyldan hefði þurft að flytja niður til Rómar en það kom ekki til greina, eftir vandlega athugun. Ég átti góð samskipti við forsvarsmenn söngdeildarinnar og skildi í góðu við þá. Þetta er mjög sérstakt umhverfi, þetta er einn elsti tónlistarskóli veraldar, um 500 ára gamall og þar af leiðandi afskaplega íhaldssamur eins og Vatíkanið er í rauninni allt og þetta var bæði ógleymanleg og óborganleg reynsla sem ég mun búa lengi að.  Hefur samstarfið við Vatíkanið gert þig að trúuðum manni?


- Ég er trúaður maður og hef alltaf verið, vera mín þarna breytti engu um það. Ég var í heilan vetur innan um presta og ungpresta sem voru að læra að syngja og tóna, flest  alla daga, og þar af leiðandi hugsaði ég kannski meira og oftar um drottin minn en ég er vanur dags daglega. Hjartalagið gagnvart honum breyttist þó ekki neitt. Okkur fjölskyldunni hlotnaðist sá heiður að hitta Jóhannes Pál páfa, en það var ein af stóru ógleymanlegu stundunum í lífinu. Hann var heilagur maður, fannst okkur öllum eftir á.   Hversu bjarta telur þú framtíð óperusöngs á Íslandi vera á meðan tilfinnanlega vantar gott óperuhús?


- Þetta er afskaplega margþætt og erfið spurning vegna þess að ég álít að út af fyrir sig leysi það ekki nema hluta af vandanum að byggja, kaupa eða stækka þau hús sem fyrir eru, til að fá glæsilegra óperuhús. Menningarþjóð eins og Íslendingar, sem er að byggja stórt tónlistarhús, sem gerir ekki ráð fyrir neinum söng- eða óperuflutningi, á að hlúa líka að sönglistinni. Það eru til tvö stór atvinnuleikhús á Íslandi og urmull af öðrum minni, á meðan óperur eru fluttar í gömlu bíói. Það segir meira en mörg orð. 


Það er ekki hægt að setja upp nema örfáar óperur þarna því hljómsveitargryfjan er of lítil og sama er upp á teningnum bæði í Þjóðleikhúsinu og hjá Leikfélaginu. Þannig að það er ekki hægt að setja upp fulla hljómsveit fyrir Verdi-óperur, Puccini eða Wagner í neinu af núverandi leikhúsum borgarinnar. Það er talað um að óperuáhugi fari dvínandi á Íslandi, þá spyr ég hvers vegna? Við höfum sjaldan átt jafnmarga söngvara og núna. Ég held að við þurfum að líta í mörg horn og spá vel í hlutina, að reka óperuhús er ekki auðvelt, kannski er þetta fyrst og fremst spurning um stjórnun og hvernig verkefna- og söngvaravali er háttað.


Kannski ættum við að líta um öxl því undanfarna áratugi hafa verið settar upp óperusýningar með glæsibrag sem gengu fyrir fullum húsum bæði vel og lengi.


Á Íslandi er markaðurinn að vísu lítill og þar af leiðandi hætta á að sömu söngvarar syngi mikið og lengi en eins og ég sagði hér á undan, þá er til afskaplega stór hópur af ungum söngvurum í dag, svo það ætti ekki að vera vandamálið. Það er hins vegar sorglegt að sú ákvörðun hafi verið tekin að aðskilja tónlistarfólk með nýja tónlistarhúsinu í Reykjavík. Alls staðar annars staðar virðast tónlistarmenn geta starfað saman í sátt og bróðerni. Lokaorð mín í þessu máli eru þau að auðvitað er það forgangsmál fyrir okkur söngvara að fá viðunandi aðstöðu og auðvitað helst almennilegt óperuhús svo að það verði raunverulega hægt að setja upp óperur á Íslandi skammlaust. En það leysir ekki að öllu leyti þá kreppu sem fyrir er núna!   


Í hlutverki Cavaradossi, úr Tosca eftir Puccini, á Metropolitan Opera New York.Hverjir eru að þínu mati efnilegustu óperusöngvararnir á Íslandi um þessar mundir?


- Ég er búinn að búa í 30 ár á Ítalíu og þekki ekki alla yngstu söngvarana á Íslandi í dag. Einnig er ég hlutdrægur því ég er sjálfur með efnilega íslenska söngvara í kennslunni minni.   Þú varst mjög ósáttur við umfjöllun hérlendis þegar óperusöngvarinn Robert Alagna var púaður niður af áhorfendum á Scala í desember síðastliðnum. Hvernig stóð á því?  


- Ósáttur og ósáttur. Flestallir óperusöngvarar vita að áheyrendur á Scala eru afskaplega kröfuharðir, þess vegna er það svo mikilvægt fyrir söngvara að syngja í þessu gamla virta húsi og komast klakklaust frá því. Þetta er nokkurs konar „manndómsprufa“! Það breytir engu hver söngvarinn er, né hvaðan hann kemur, ef hann syngur vel er hann hylltur, ef viðkomandi syngur ekki sitt „repertoire“ eða syngur illa, þá er hann púaður. Staðreynd! 


Áheyrendur og áhorfendur Scala-óperunnar taka sig mjög alvarlega, þeir telja sig hina einu sönnu óperuaðdáendur og eru ekki ginnkeyptir fyrir neinu. Í flestum öðrum ítölskum óperuhúsum er „clac“; þetta er yfirleitt óperuáhugafólk, sem situr á efstu svölum en efstu svalirnar er kallaðar „loggione“ á ítölsku og þeir sem þar sitja „loggionisti“. Ég hef kynnst „loggionisti“ í flestum þeim húsum sem ég hef sungið í og nokkrum þeirra persónulega. Þetta eru yfirleitt hinar bestu manneskjur sem hafa ódrepandi tónlistar- og leikhúsáhuga og hafa í flestum tilfellum heyrt helstu óperusöngvara sögunnar syngja oftar en einu sinni. Og ég held að flestallir sem hafa sungið í óperuhúsunum hérna á Ítalíu beri nærri ótakmarkaða virðingu fyrir „loggionisti“, því ef söngvari syngur vel og er þeim til geðs þá klappar enginn meira en þeir. En þeir eru fyrstir til að púa á viðkomandi söngvara ef hann syngur illa því þeir eru mjög samkvæmir sjálfum sér! Ég held að ég geti fullyrt að þetta fólk í „klappliðinu“ er upp til hópa hið besta fólk sem ber óperumenninguna mjög fyrir brjósti og það er til staðar í flestum stærri óperuhúsum í Evrópu. Engin manneskja og enn síður söngvari getur leyft sér að sýna „loggionisti“ vanvirðingu eða móðga þá og aðra leikhúsgesti, eins og gert var í þessu tilfelli! Þú hefur sungið í um 73 mismunandi óperum sem er meira en flestir aðrir óperusöngvarar hafa gert. Hver eru þín uppáhaldshlutverk?


- Ég á í rauninni mörg uppáhaldshlutverk en eins og ég hef sagt oft áður þá er það hlutverk sem ég er að vinna við og sinna hverju sinni sem er mér kærkomnast. Mér er skylda að virða og elska það hlutverk sem ég er að syngja í það og það skiptið. Verdi er mitt uppáhaldstónskáld en ég hef sungið 19 af óperum hans og þær eru margar góðar og glæsilegar. Verdi var algjör meistari sem tónsmiður en hann skrifaði óperurnar sínar með raddirnar í forgrunni, þannig að það er einstaklega gott að syngja Verdi-óperurnar. Hann kemur sér fljótt að efninu og söguþráðurinn er yfirleitt stuttur og einfaldur. Verdi var fyrst og fremst almúgatónskáld því hann náði bæði til tónlistarmanna jafnt sem verkamanna á götum úti, bæði á sínum tíma og svo er einnig í dag. Aríurnar hans og dúettarnir eru öllum sem unna óperutónlist hjartnæmar og um leið grípandi.    Hvaða ópera er þér minnisstæðust?


- Ég hef sungið 73 óperur eins og áður sagði þannig að það er af mörgu að taka. Þó held ég að í minningunni sé það „Grímudansleikur“ eftir Verdi, sem ég söng í Metropolitan-óperunni í New York, sem stendur upp úr. Ekki síst vegna þess að James Levine, hljómsveitarstjóri í Metropolitan, stjórnaði þessum sýningum og hann náði fram hjá mér hljóðum sem ég hélt að ég ætti ekki til, bæði í mýkt og tilfinningu. Annars hefur það verið mitt mottó alla tíð að gera mitt besta í hverju hlutverki sem ég hef sungið og gefa mig allan. Ein af stærstu stundunum á mínum ferli var að sjálfsögðu frumraun mín á Scala í Mílanó, árið 1988, en þá söng ég í „I Due Foscari“. Þetta var stór stund, ég var ekki bara að „debútera“ á Scala, ég var líka að „debútera“ undir stjórn hins virta Maestro Gavazzeni sem tók mig þarna undir sinn verndarvæng! Og Scala er bara Scala og þarna var ég kominn, íslenskur stráklingur að norðan og mér fannst eins og ég gæti fundið lyktina af öllum þessum stórstjörnum sem þarna höfðu verið á ferð á undan mér. Þetta var mjög sérstakt augnablik. Þetta eru með stærstu atburðunum sem ég man eftir.   


Cavaradossi, Tosca eftir Puccini, í Teatro dell'Opera Roma.Þú hefur verið sagður skilgreina þig núna sem dramatískan tenór - það er tenór í frekar þungum óperum. Hvers vegna hefur þú lagt áherslu á þessa hlið söngsins?


- Það getur enginn lagt áherslu á raddtegund sína því hún er til staðar frá náttúrunnar hendi. Þannig má segja að ég hafi verið dramatískur tenór frá upphafi. Því þegar ég var sem ungur maður að byrja að syngja kom fljótlega í ljós að bæði raddlega sem líkamlega var ég dramatískur. Einnig hefur skapferlið áhrif þannig að þessir þrír þættir hafa örlagaáhrif um lit og notkun raddarinnar, svo mín örlög voru því strax ráðin.   Sigurður Demetz uppgötvaði þig sem söngvara á Akureyri og hvatti þig til að fara í nám til Ítalíu. Hvaða góðu ráð gaf hann þér í veganesti?


- Fyrst vil ég segja: blessuð sé minning hans. Hann leiddi mig inn á rétta braut en eins og allir vita þá eru fyrstu skrefin mjög áríðandi. 


Það sem hann brýndi fyrir mér fyrst og fremst er tvennt; í fyrsta lagi sjálfsagi og í öðru lagi sjálfsgagnrýni. Ég er mjög sjálfsgagnrýninn og vinnusamur en þetta tvennt hef ég tekið upp eftir mínum gamla læriföður í minni kennslu og brýni óspart fyrir ungum söngvurum og nemendum mínum. Það að verða óperusöngvari og að vera óperusöngvari er vinna alla daga og tekur í raun engan endi því maður verður aldrei ánægður sjálfur.   Þú ert af söngfólki kominn á Akureyri. Hvernig hvatti faðir þinn þig til dáða í söngnum?


- Hann náði sem betur fer að hlusta á mig nokkrum sinnum, meðal annars í tveimur óperuhúsum erlendis. Í seinna skiptið var ég að syngja í Glasgow en hann andaðist í byrjun heimferðar sinnar frá mér þá. Annars hvatti hann pabbi mig áfram með tárum sínum þegar honum fannst ég syngja vel og leyndi ekki ánægju sinni þegar ég naut velgengni.   Hvenær steigst þú fyrst á svið og söngst fyrir áhorfendur?


- Það var með pabba gamla á Akureyri þegar ég var átta ára gamall. Hann var kallaður Jói Konn (Jóhann Konráðsson). Þetta var á annan í jólum og við sungum saman og hvor í sínu lagi, bæði jólalög og sálma, og vorum með tvo harmonikkuleikara með okkur. Ég man að ég söng Heims um ból aleinn og það var mikill skjálfti í mér þá stundina. Það má segja að ég hafi verið sísyngjandi upp frá þeirri stundu og ég fór í kór Barnaskóla Akureyrar hjá Birgi Helgasyni en þar var mikið sungið og glatt á hjalla. Um 12-13 ára aldurinn datt botninn úr söngáhuganum hjá mér en ég hélt síðan áfram þar sem frá var horfið um tvítugt og er ekkert á leiðinni að hætta.   Þú ert sagður mikill bílaáhugamaður. Hvaða bíl hefur þú haldið mest upp á í gegnum tíðina?


- Uppáhaldsbíllinn minn er Mercedes Benz CL600 en ég átti þann bíl óvenjulengi. Annars kann ég mjög vel við núverandi bílinn minn, Range Rover, en hann tekur ekki sess Benzins þótt hann sé góður.  Ég fylgist með bílaíþróttum og talsvert með Formúlunni. Ég hef farið á bílasýningar í Genf og Zürich og á Grand Show í Bologna sem er á hverju hausti.


Ég fylgist með nýjungum og nýjum bílum. Þar sem ég er núna að mennta börnin mín hugsa ég minna um að kaupa mér bíla en áhugann vantar ekki.    Þú dáir auðvitað ítalska matargerð og ert sagður mikill matgæðingur.Hver er þinn uppáhaldsréttur og þitt  uppáhaldsrauðvín?


- Það er án efa skelfiskpasta og helst ef ég geri það sjálfur. Ég elda jafnt á við konuna mína og mjög gjarnan þegar vinir og kunningjar koma í heimsókn. Það hefur róandi áhrif á mig og mér líður vel þegar ég elda. Ég er óhræddur að prófa ný hráefni og reyna við nýja rétti og geri því sjaldan sama réttinn tvisvar. Ég leik mér gjarnan með krydd og að smakka mig áfram en ég lít aldrei í mataruppskriftarbók. Ég var í matreiðslu í gagganum á Akureyri á sínum tíma og þar fékk maður grunninn, lærði um hluti sem skildu sig og skildu sig ekki en þar tel ég mig hafa hlotið þann lágmarksgrunn sem ég bý enn að. Ég nota lítið smjör og sjaldan rjóma en þess meira af góðum olíum og mikið af hvítvíni og rauðvíni. 


Hafa ber í huga að maturinn er aldrei betri en hráefnið og gæðin sem maður notar í hann. Uppi á Íslandi nær matarást mín til kvenfólksins í fjölskyldunni en þær, þessar elskur, elda alltaf og bjóða mér í fiskibollur þegar ég kem heim en góðar fiskibollur og glæný steikt ýsa slá flestu við.  


Já, uppáhaldsrauðvínið mitt! Hér er mikið af úrvalsvínum og ég fer gjarnan og kaupi beint frá vínframleiðendunum. Mér finnst gaman að smakka ný vín, þannig að ég reyni að versla sem víðast. Ef ég ætla að dekra við mig fæ ég mér kannski gott Amarone eða góðan Pino Nero með nautasteikinni en það eru hvorttveggja góð vín, þar sem gæði og verð fara saman.   Þú segist vera að mennta börnin þín núna, hvað nema þau og hvað gerið þið fölskyldan saman í frístundum?


- Ég á tvo syni og eina dóttur með Sigurjónu sem búa hér á Ítalíu. Sverrir er 20 ára og lærir sviðslistir í Listaháskóla í Brescia. Víkingur er 18 ára og er í menntaskóla á listabraut en Rannveig er níu ára og er í barnaskóla. Ekkert barna minna hefur enn farið í sönginn en það eru ekki öll kurl komin til grafar!


Þegar við eigum frí reynum við að skreppa á skíði yfir veturinn en á sumrin finnst okkur gaman að leika okkur á vatninu á bátnum okkar. Ekki er heldur amalegt að fara í veiði eða sumarbústað heima á Fróni en við erum mjög hefðbundin, myndi ég segja. Hver er stóri munurinn á Ítölum og Íslendingum, hinum heitu og köldu? Eða er munurinn á þjóðunum kannski ekki svo mikill?


- Ítalskir vinir mínir segja mig vera heitari en nokkurn Ítala, en ég tel mig góðan og gildan Íslending.   Hefðir þú getað náð jafnmiklum árangri ef þú hefðir búið annars staðar?


- Sú ákvörðun að flytja til Ítalíu, til að fullnema mig í söngnum, var ekki tekin úr lausu lofti. Staðreyndin er sú að 70 prósent af þeim óperum sem fara oftast á svið eru sungnar á ítölsku. Ég sérmenntaði mig í ítölskum söngstíl; „lirico dramatico“ og „verismo“, vegna þess að báðir þessir söngstílar henta bæði rödd minni og skapferli mínu. Hvað hefði gerst EF, er alltaf erfitt að svara en það kom sér vel fyrir mig að búa hérna á sínum tíma og gerir enn. 


Hins vegar hefði mér kannski gengið betur á mínum framaferli EF ég hefði verið Ítali því Ítalir hlúa mjög vel að sínum listamönnum. En þarna kemur aftur þetta EF.... Óperusöngur er hluti af ítalska menningararfinum sem í dag er líka orðinn stór hluti af ítalska ferðaiðnaðinum og það verður að viðurkennast að staðreyndin er sú að ef valið stendur um Ítala eða útlending í hlutverk, þá stendur oftast Ítalinn betur að vígi og það er eðlilegt. Á móti kemur að það er ekki laust við að ég hafi stundum öfundað ítalska kollega mína og þá ekki síst fyrir þau hlunnindi sem þeir njóta frá sinni þjóð og ráðamönnum. Ég sjálfur er mjög stoltur af þeirri staðreynd að ég er sá útlendingur sem hefur sungið oftast og í flestum helstu óperuhúsum hérlendis (Ítalía) síðustu 30 árin. Mér er engin launung á því að við þessir erlendu söngvarar verðum að syngja betur en Ítalir til að jafna leikinn. Blessuð náttúran er bara svona og eflaust myndum við gera slíkt hið sama.  


Með „mömmu“, Fanney Oddgeirsdóttur, eftir debutt á Englandi í Dorsett, þar sem hann söng Don Carlo í samnefndri óperu Verdis.Hvenær varstu bestur sem söngvari?


- Konan mín segir að ég sé alltaf bestur, hvort sem var í dag eða í gær eða fyrir 20 árum. Þetta er smekksatriði, röddin mín hefur þroskast og breyst og ég syng öðruvísi í dag en fyrir fimm eða tíu árum, enda sæki ég öðruvísi í verkefnaval núna, með tilliti til þroska raddarinnar minnar.  Hver er besti óperusöngvari sögunnar?


- Hann er skrýtinn þessi heimur í dag, menn og konur vilja gjarnan álykta að sá listamaður sem fjallað er mest um í fjölmiðlum sé álitinn bestur. Frá mínum bæjardyrum séð hefur enginn ennþá slegið Caruso út. Enn þann dag í dag, eftir 100 ár, er það Caruso sem gefur mér mest þegar ég hlusta og þrátt fyrir vankanta á upptökunum þá heyrir maður hvernig hjarta hans slær.   Hvaða þýðingu hefur það að vera Íslendingur í óperunni?


- Í hreinskilni sagt, þá hefur það ekki breytt neinu til eða frá fyrir mig í mínum starfsframa. Annað sem ég hef fundið fyrir er samkennd og stolt frá löndum mínum, sem ekki má gera lítið úr. Það segir sig sjálft að það skiptir máli að koma frá stórum óperuþjóðum sem eiga stór óperuhús þar sem listamennirnir eiga heimangengt, það hljóta að vera algjör forréttindi. Ég er handhafi íslensku Fálkaorðunnar og einnig var mér veittur lykill númer eitt að Akureyrarbæ fyrir nokkrum árum og þykir mér mjög vænt um hvorttveggja. Ég er handhafi Ítalska Riddarakrossins og einnig heiðursorðu svæðisins hér þar sem við búum, svo er ég einn af opinberum „sendiherrum“ Gardavatnsins, þannig að ég get ekki verið annað en stoltur.  Sumir hafa líkt starfi óperusöngvarans við einstaklings­íþrótt og óperusöngvara við afreksmenn íþrótta, finnst þér sú lýsing passa að einhverju leyti?


- Nei, ekki myndi ég vilja segja það. Íþróttamaður keppir og vinnur ef hann er bestur, í söngnum er maður ekki að keppa við neinn því það er auðvitað alltaf smekksatriði hvers og eins, hver syngur best! Hvernig er síðan ráðið í hlutverk í óperunum er svo allt annað mál.  Saknar þú einhvern tíma meiri stuðnings frá Íslandi sem hefði auðveldað þér að ná samningum erlendis; til dæmis við útgáfufyrirtæki?


- Að sjálfsögðu, ef ég á að vera hreinskilinn. Margir kollegar mínir eru styrktir af stórfyrirtækjum þeirra eigin þjóða, jafnvel til að syngja ákveðin hlutverk í stórum óperuhúsum, við gerð og útgáfu geisladiska og þannig má lengi telja. 


En ég get á hinn bóginn ekki kvartað vegna skorts á mórölskum stuðningi frá minni þjóð því ég held að fáir listamenn hafi fundið og fengið jafnmikinn stuðning frá samlöndum sínum eins og ég. 


Þegar ég þreytti frumraun mína á Scala og svo seinna í Metropolitan-óperunni, þá komu fullar vélar frá Íslandi til að hylla mig. Einhver sagði mér að þegar ég söng í fyrsta sinn á Metropolitan árið 1991 hefðu hátt í þúsund Íslendingar flogið til New York til að styðja mig. Miðað við höfðatölu myndi það þýða að 180 þúsund manns hefðu komið að hylla Pavarotti! Geri aðrar þjóðir betur og miðað við það er ég hamingjusamasti maður í heimi. 


Starfsmenn Stöðvar 2 festu bæði þessi debút mín á filmu og eftir Metropolitan-debútið héldu þeir mér glæsilega veislu í Central Park. Hjarta mitt slær fyrir Íslendinga og ég finn að hjörtu stórs hluta þjóðarinnar slá fyrir mig.   


Sem Dick Johnson úr La Faniculla del West, Puccini - sem var sýnd í Teatro Massimo í Palermo.Mikið er undir heilsunni komið,  þegar menn hafa gert milljónasamninga og eru búnir að leggja út í kostnað vegna þjálfunar, ferðalaga og uppihalds. Er þá ekki mikil pressa á að syngja hvernig svo sem menn eru upplagðir? Eru veikindi ekki algengt tekjutap?


- Auðvitað. Heiðarlegur listamaður með eðlilega sjálfsvirðingu syngur helst ekki veikur. Ef söngvari er með mikilvæga samninga framundan, þá hagar hann sér í samræmi við það og fer ekki að synda berrassaður í vatninu, eða fara á skíði eða til Íslands að veiða og ná sér í kvef. Ef  söngvari syngur illa fyrirkallaður oftar en einu sinni, þá er baráttan það hörð að viðkomandi á það á hættu að verða þurrkaður út af „sakramentinu“.


Ég hef einu sinni lent í að syngja veikur en annars er ég heilsuhraustur og hef sjaldan þurft að fresta sýningum eða tónleikum. Í þetta eina skipti sem ég söng veikur þá var ég að syngja Aidu heima á Íslandi, á Listahátíð í Laugardalshöll fyrir um fimm þúsund manns. Ég varð að syngja því það var enginn annar tenór til vara og það var löngu búið að koma þessu á koppinn, þannig að ég hamraði mig í gegnum þetta. Þetta var mjög erfitt en ég vona að ég hafi komist skammlaust frá þessu. Það er ákveðið máltæki til meðal söngvara sem segir eitthvað á þá leið að maður ætti alltaf að syngja veikur því einbeitingin er aldrei meiri en þá. Svo verður maður að nota þá tækni sem maður á til fulls og fyrir vikið þá syngur maður sennilega aldrei betur. Með einbeitingu, reynslu og kunnáttu eru manni flestir vegir færir.   Notar þú ákveðnar upphitunaræfingar, æfir þú þig daglega, hver er rútínan fyrir sýningar, hvernig metur þú hvort þú ert í góðu dagsformi?


- Eftir að ég byrjaði í kennslunni syng ég í rauninni alla daga og ef eitthvað er kannski stundum fullmikið eða upp í fimm tíma á dag. Söngur er ástríða og eftir fimm tíma líður mér stundum eins og nýfæddum. Kennslan verður til þess að æfingarnar verða ekki leiðinlegar og ég er í staðinn í toppformi alla daga. 


Fyrir sýningar reyni ég að sofa vel svo ég sé vel úthvíldur líkamlega og andlega. Ég borða alltaf léttan og kjarngóðan mat tveimur til þremur tímum fyrir sýningu þannig að krafturinn sé góður þegar ég er kominn upp á svið. Þá mæli ég með góðum diski af pasta því það er svo fljótmelt.   Gætir þú hugsað þér að verða óperustjóri á Íslandi á eftir Bjarna Daníelssyni sem nú verður sveitarstjóri Skaftár­hrepps?


- Þú segir nokkuð, maður veit aldrei, það er enginn öfundsverður af því embætti.   Gætir þú séð þig gegna hlutverki á vegum íslenska ríkis­ins til þess að efla óperu á Íslandi eða til að ráðleggja óperusöngvurum og nýta þau góðu tengsl sem þú hefur ungum söngvurum til framdráttar?


- Ætli ég yrði ekki bara bæði glaður og stoltur ef sú staða kæmi upp, að ég væri beðinn um að miðla af þekkingu minni og nota þau tengsl sem ég hef eignast á áratugalöngum ferli mínum. Ég hef reynt í öll þessi ár að vera Íslandi til sóma og bera hróður þjóðar minnar hvert sem ég hef farið. Þekkingu á ég mikla eftir 30 ár og tengsl á ég góð, þannig að eflaust á ég mjög veglegan og stóran sarp.

More News

Pages