Fimm kankvísar karríer-drottningar!

Fréttir

Viðtöl

Fimm kankvísar karríer-drottningar!

Meðlimir hljómsveitarinnar Heimilistóna eru flestum landsmönnum kunnir, ekki hvað síst fyrir skemmtilega framkomu og litríka búninga. En það er tónlistin sem allt snýst um og það var einmitt ástríða fyrir sömu stefnum og straumum í músíkinni sem leiddi meðlimi hljómsveitarinnar saman.


Léttleikinn er allsráðandi hjá þeim Elvu Ósk Ólafsdóttur og Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur þegar þær ræða við blaðamann um hina fjörugu hljómsveit Heimilistóna. Hljómsveitin sem eitt sinn var gæluverkefni söngþyrstra leikkvenna og hefur nú, í það minnsta, náð landsfrægð.Texti: Erla Gunnarsdóttir, myndir: Ýmsir.


Hljómsveitin Heimilistónar. Frá vinstri: Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ragnhildur Gísladóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir og Vigdís Gunnarsdóttir.Hvernig hófst þetta ævintýri með Heimilistóna?Elva: Heimilistónar voru stofnaðir haustið 1997. Ég var nýkomin heim eftir ársdvöl í Danmörku og hafði látið gamlan draum rætast og tekið nokkra tíma í bassanámi. Löngun mín var að stofna hljómsveit með nokkrum leikkonum og það voru hæg heimatökin því við vorum allar að starfa í Þjóðleikhúsinu á þessum tíma. Bandið varð til og þáverandi þjóðleikhússtjóri var svo frábær að leyfa okkur að æfa þar. Þetta var eiginlega eins og saumaklúbbur fyrst nema það var verið að taka í hljóðfæri en ekki að prjóna. Allt í einu vorum við farnar að spila opinberlega eftir nokkurra vikna æfingar. Þetta gerðist allt mjög hratt og eitt leiddi af öðru.Hvers konar tónlist spilið þið?Elva: Tónlistin sem við spilum í dag er sixtís. Stefnan mótaðist í rólegheitum og þróunin fór í gegnum allskonar skeið. Um tíma sömdum við eingöngu mjög þunga og hádramatíska texta. Það virkaði ekki alveg fyrir okkur. Stíllinn á sjálfsagt eftir að halda áfram að þróast því nú semjum við sjálfar og gefum út disk um jólin.Katla: Við æfum í törnum en í september byrjar ein slík því jóladiskurinn er í smíðum. Við erum komnar með fast æfingarhúsnæði en þau hafa verið af ýmsum toga. Ég held að toppnum hafi verið náð þegar við nýttum kompu á háalofti Borgarleikhússins og þurftum að klöngrast með hljóðfærin eftir ljósabrúm í margra metra hæð yfir stóra sviðinu!Nú hafa verið mannabreytingar hjá ykkur en hvernig ákveðið þið hljóðfæravalið?Elva: Jú, jú, það hafa orðið mannabreytingar á hljómsveitinni. Fyrir þremur árum hætti Halldóra Björnsdóttir og inn komu nýir meðlimir, þær Katla Margrét og Ragga Gísla. Eins og alþjóð veit er Ragnhildur menntuð og framúrskarandi


tónlistarmaður. Katla: Við hinar höfum flestallar einhverja tónlistarmenntun að baki en við skiptumst á hljóðfærum og leikum okkur svolítið með þetta. Elva: Bassinn er mitt hljóðfæri en mér finnst til dæmis rosagaman að spila á trommur.Fyrr á árinu gáfuð þið út diskinn Herra ég get tjúttað, hvernig hefur honum verið tekið?Katla: Við höfum haft nóg að gera í sumar, bæði í bænum og eins úti á landi. Alls staðar er dekrað við okkur, dælt í okkur kampavíni og kræsingum. Útgáfufyrirtækið á bak við okkur heitir SÖGUR en þar eru miklir öðlingsmenn sem hafa komið ýmsu til leiðar. Núna erum við komnar með umboðsmann sem kemur til með að breyta miklu fyrir okkur. Elva: Lögin sem komu út á diskinum okkar Herra ég get tjúttað eru allt þekkt erlend dægurlög sem við snerum yfir á íslensku. Það leynist mikil kaldhæðni í að þýða svona beint en okkur finnst það mjög fyndið. Þegar við semjum sjálfar erum við held ég allar að semja. Við erum auðvitað misflinkar en æfingin skapar meistarann stendur einhvers staðar. Eins og er æfum við ekki mikið. Við æfðum vel fyrir túrinn okkar út á land til að fylgja disknum eftir.


Hópurinn samanstendur af fimm drottningum, karríer-konum sem allar eru á fullu í alls konar vinnum þannig að oft reynist erfitt að ná okkur saman til að spila. Það breytir svosem ekki miklu fyrirokkur, þess meira fjör er þegar við náum loks saman. Við gætum verið að spila miklu meira ef við vildum, ef við værum ekki alltaf svona uppteknar. Þetta er fínt eins og þetta er og við njótum hverrar sekúndu þegar við hittumst.Hafið þið ekki lent í skemmtilegum atvikum á tónlistarferlinum?Elva: Þau eru nokkur en við vorum til dæmis að spila í afmælisveislu í sumar og skiptum um hljóðfæri eftir eitthvert lagið. Katla sest við trommurnar og spyr mig af hverju þessi kápa liggi ofan á trommunum. Ég man ég svaraði henni að ég hefði ekki hugmynd um það, nema hvað, svo byrjar lagið og það heyrist óvenjulágt í trommunum, eiginlega bara ekkert svo mér er litið á Kötlu sem djöflast á trommunum en kápan liggur þar ennþá kyrr og óhreyfð.


Við náðum að tala um þetta eftir lagið og þá kom ástæðan í ljós. Vigga hafði verið á trommunum í laginu á undan og verið kalt á fótleggjunum svo hún lagði yfir þá kápuna. Svo þegar við skiptum um hljóðfæri, gleymdi Vigga að taka með sér kápuna og lagði hana svona frá sér. Aumingja Katla hélt að kápan væri þarna til að dempa trommurnar svo hún lét að sjálfögðu bara vaða.Katla: Jú, við höfum heldur betur lent í skondnum atvikum, á sviði sem og utan sviðs. Eitt sinn slitnaði bassastrengur hjá Elvu Ósk í Stapanum í Keflavík. Hún var ekki með neinn aukastreng og við sátum í bakherberginu í miklum vangaveltum. Pásan orðin helst til löng og við að reyna að finna út hvort hægt væri að spila á þrjá strengi. Það gekk ekki upp svo sá slitni var þræddur upp og þannig var spilað eftir hlé. Ekki var það nú hljóð sem sagði sex og við hálfskömmustulegar það sem eftir lifði.Þannig að það er greinilega ýmislegt óvænt sem getur gerst?Elva: Já, það má nú segja og það finnst okkur bara skemmtilegt. Við eigum aðdáendur á öllum aldri og það er svo gaman. Stúdíóvinnan á Herra ég get tjúttað var frábær því upptökustjórinn Gunni Árna er besti vinur okkar og oftast kallaður sjötti heimilistónninn af okkur stelpunum. Það fylgir þessum stelpum svo mikil gleði að ég gæti talið endalaust upp fyndin og eftirminnileg atvik. Katla: Ég er alveg sammála Elvu í því, Heimilistónar eru ein stór skemmtun frá A til Ö.Hvaða þýðingu hefur það fyrir ykkur að vera í hljómsveitinni?Katla:  Það er rosalega gaman í þessari hljómsveit og þetta samstarf veitir mikla lífsfyllingu fyrir mig. Við erum allar góðar vinkonur og höfum upplifað ótrúlega hluti í þessu samstarfi.Elva: Það hefur mikla þýðingu fyrir mig að vera í Heimilistónum. Við erum miklar vinkonur og fáum mikið út úr því að hittast. Við gerum bara það sem okkur finnst skemmtilegt. Andinn er mjög jákvæður og það er alltaf fjör og mikil


gleði í kringum okkur, sem sagt BARA jákvætt. Svo er líka svo gott að kúpla frá dramatíkinni í leiklistinni og geta fengið útrás í tónlist og hlátri.


 


 


 

More News

Pages