Var með á hreinu að ég gæti ekki sungið

Fréttir

Viðtöl

Var með á hreinu að ég gæti ekki sungið


Texti: Lízella. Myndir: Páll Kjartansson.


Það kann að hljóma ótrúlega að stúlkan sem kölluð er Lay Low og er bjartasta von íslenskrar tónlistar, skuli hafa eytt bernskuárunum í að læra að dansa eins og Michael Jackson, haldið upp á Take That á gelgjuskeiðinu og hafði ekki trú á því að hún gæti orðið góð söngkona. Í dag þekkjum við hana sem Lay Low með kassagítarinn og einn meðlima Benny Crespos Gang og Michael Jackson sporin eru fyrir löngu gleymd.

Þegar ég spyr Lovísu hvernig sviðsnafnið Lay Low hefði orðið til, svarar hún því til að hún og vinkona hennar hafi dottið niður á þetta nafn þegar hún var að velta fyrir sér að taka sér sviðsnafn. Aðspurð hvort nafnið komi til vegna þess að hún vilji ekki láta mikið fyrir sér fara segir hún svo ekki vera. Ég held áfram að spyrja hana út í nöfn; hún heitir Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir svo ég spyr hvers vegna ekkert föðurnafn fylgi:


„Pabbi minn er ættaður frá Sri Lanka, en er fæddur og uppalinn í Bretlandi. Eftirnafnið hans er Ganeshalingam og þar af leiðandi fannst mér einfaldlega auðveldara að kenna mig við mömmu þó við pabbi séum mjög náin.“


Aðspurð hvort hún hafi verið músíkölsk sem barn, segist hún hafa verið eins og flest önnur börn með tónlist; hún byrjaði að læra á blokkflautu, síðar á píanó sem hún lærði á í fimm ár. Síðan færði hún sig yfir á rafmagnsbassa og bassa og að lokum á kassagítarinn sem hún er þekkt fyrir í dag. Um sönginn segir hún: „Ég var alveg viss um að ég gæti ekki sungið og þorði ekki að reyna það fyrr en eftir tvítugt. Ég hafði verið í kór Laugarnesskóla í smátíma en fannst ég ekki vera nein söngkona.“


Lay Low á mörg systkin, bæði hálfsystkin og stjúpsystur. Eina samfeðra hálfsystur, tvö sammæðra systkin og að auki eina stjúpsystur. Alvöru íslensk fjölskylda! „Systkini mín sem eru sammæðra eru að læra á gítar og á píanó. Það er ljóst að tónlistin er mikil í báðum ættum.


Eftirlætistónlistarfólk hennar á gelgjuskeiðinu voru Whitney Houston og Take That, auk fyrrnefnds Michaels Jacksons og danssporanna hans.


Í dag segist hún halda upp á alls kyns tónlist, t.d. gamla kántrýtónlist, en segist samt ekki vera alæta á tónlist: „Það er fullt af tónlist sem ég hef enga lyst á!“


Langaði þig alltaf að vinna við tónlist?


„Þetta er nú að vissu leyti draumur að rætast óvænt hjá mér. Ég þorði aldrei beint að trúa því að ég gæti unnið við tónlist. En það hefur tekist upp á síðkastið, sem er rosafínt.


Þegar hún er ekki að syngja, semja og spila tónlist sjálf vinnur hún við að selja hana. Lay Low vinnur í Skífunni á Laugaveginum. Þegar ég spyr hana hvort fólk verði vandræðalegt við að biðja hana um að finna diskinn með henni sjálfri segir hún að sé jafnmisjafnt og kúnnarnir eru margir. Sumum virðist finnast þetta hálfvandræðalegt en svo er fólk líka ófeimið við að biðja hana um að árita diskinn sem það var að kaupa. Hún segist hafa gaman að þessu og finnist þetta sjarmerandi fylgifiskur velgengninnar.


Lay Low var fengin til að sjá um tónlistina í leikritinu Ökutímar eftir Paula Vogel sem María Reyndal leikstýrði: „Ég fékk það hlutverk að sjá um tónlistina í leikritinu og að lokum fór það svo að ég var fengin til að spila og syngja „live“ á hverri sýningu. Ég var haldin miklum sviðsskrekk fyrst en hann skánaði aðeins, þótt hann hyrfi ekki alveg.“Hvaðan færðu innblástur?


„Hann fæ ég héðan og þaðan. Ýmist frá fjölskyldu og vinum; sögum og atvikum. Lífinu sjálfu.“


Aðspurð hvaða söngvara eða söngkonu hún myndi helst vilja líkjast segir hún:


„Ég vil ekki líkjast neinum sérstaklega. Það tónlistarfólk sem mér finnst vera flott finnst mér vera það flott að það er ekki séns að ég gæti líkst því. Á maður ekki bara að reyna að líkjast sjálfum sér? En líklega líkist maður fullt af fólki og það er allt í lagi! Nú hlusta ég t.d svolítið á Jolie Holland. Ég var að fá plötuspilarann minn í lag og ég hlusta núna mikið á gamlar plötur og nýt þess í botn.“Ertu orðin „heimsfræg“ á Íslandi? Verðurðu vör við að fólk horfi á þig úti á götu og sé að reyna að koma fyrir sig hvar það hefur séð þig áður?


„Það eru allir frægir á Íslandi. Það er nóg að mæta einu sinni í Kastljósið og þá kannast einhver við mann.“


Þegar ég spyr hana hvort hún verði fyrir einhverju áreiti, t.d. á skemmtistöðum eða símaöt, svarar hún:


„Nei nei, ekkert til að tala um. Það er ekkert áreiti, frekar það að ég lendi oftar í spjalli við ókunnugt fólk, sem er nú bara fínt og gott. Ég held ég hafi aldrei fengið símaat.“


Lay Low giftist ung en er nú skilin og vinnur með fyrrverandi manninum sínum, Magnúsi Öder, í hljómsveitinni Benny Crespo‘s Gang: „Sú hljómsveit er að verða þriggja ára, ég kom fljótlega inn í samstarfið og spila á hljómborð og gítar auk þess sem ég syng aðeins. Ég kann jafn vel við mig í hljómsveitinnni og í sólóferlinum. Tónlistin með Benny Crespos Gang er ólík því sem ég er að gera á sólóferlinum og það er bara fínt.“


Hún vill helst halda einkalífinu fyrir sig en segir að til að vinna með fyrrverandi maka sínum sé best að góð vinátta haldist:


„Ég hugsa ekki um hann sem fyrrverandi maka heldur bara sem góðan vin sem er gaman að vinna með. Það er alltaf gaman að geta unnið eitthvað með vinum sínum.“


Aðspurð hvort hún sé á lausu segir hún svo vera og að draumamakinn sé – eins og hjá flestum öðrum „einlægur, traustur og heiðarlegur.“


Framtíðardraumarnir eru jarðbundnir eins og svo margt hjá þessari hæfileikaríku ungu konu: „Vera hamingjusöm og sátt, hvar og hvernig sem ég er.“

More News

Pages