Sigurvegarar Múskíktilrauna 2008: Agent Fresco

Fréttir

Viðtöl

Sigurvegarar Múskíktilrauna 2008: Agent Fresco

Músíktilraunir voru fyrst haldnar í Tónabæ árið 1982. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og margar af vinsælustu hljómsveitum landsins hafa þreytt frumraun sína á því sviði. Það nægir að nefna Dúkkulísurnar, Greifana, Maus, Botnleðju, Mínus og nú síðast Jakobínarínu til að undirstrika hversu mikil áhrif Músíktilraunir hafa haft á tónlistarsmekk landans.


Sigurvegarar Músíktilrauna í ár kalla sig Agent Fresco og segja söguna á bak við nafnið vera algjört trúnaðarmál. Agent Fresco samanstendur af Arnóri Dan Arnarsyni, 22 ára, sem sér um söng, Þórarni Guðnasyni, 19 ára, sem spilar á gítar, Borgþóri Jónssyni, 18 ára, sem spilar á bassa, og Hrafnkeli Erni Guðjónssyni, 18 ára, sem spilar á trommur. (Þórarinn og Hrafnkell eru ávallt kallaðir Tóti og Keli og verða hér eftir kallaðir þeim nöfnum).


Borgþór, Keli og Tóti kynntust þegar þeir voru við nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð og Arnóri kynntust þeir svo síðar í Tónlistarskóla FÍH þar sem þeir eru allir við nám. Strákarnir eru greinilega miklir vinir enda mikið um hlátursköst og einkahúmor þegar viðtalið fór fram.Texti: Lízella, mynd: Mbl.


Ég byrja á að spyrja þá hvernig kom til að þeir hafi tekið þátt í Músíktilraunum:


Borgþór: „Við Tóti og Keli vorum búnir að ákveða að taka þátt í Músíktilraunum og vorum byrjaðir á lagasmíðum fyrir þær þegar við ákváðum að hafa söngvara með.”


Keli: „Við Borgþór þekktum Arnór úr atburðastjórnunaráfanganum sem við vorum með honum í og fannst hann nógu geðveikur og sætur fyrir hljómsveitina!”


Þegar þeir eru beðnir um að lýsa tónlist hljómsveitarinnar segja þeir spurninguna vera nokkuð klisjukennda og kalla á klisjukennt svar: „Við vitum það ekki alveg en okkur hefur verið lýst sem öllu frá dauðadjass til fönkskotins rokks.”Hvernig er áheyrendahópur ykkar?


Arnór: „Vonandi eins fjölbreyttur og hægt er. Fólk sem kann að meta líflega tónleika og eins fólk sem hefur gaman að fjölbreyttri tónsmíð. Annars er svolítið erfitt að svara þessu þar sem við vitum það ekki alveg sjálfir!”Þegar þið tókuð þátt í undanúrslitum Músíktilrauna, voruð þið þá orðnir sviðsvanir?


„Nei, þetta voru fyrstu tónleikarnir okkar sem Agent Fresco en við höfum allir haft nokkra reynslu af því að spila fyrir áheyrendur. Arnór hefur talsverða reynslu úr leiklistarhópum og fyrrum hljómsveitum úti í Danmörku og hinir hafa reynslu úr hinum ýmsu listahópum innan Reykjavíkur.”Fáið þið sviðsskrekk?


Tóti: „Nei, við verðum aðallega spenntir bara. Adrenalínið flæðir og okkur líður eins og við gætum sigrað heiminn.”Hverjir eru helstu áhrifavaldar ykkar í tónlist?


Tóti: „Helstu áhrifavaldar á minn tónlistarsmekk eru math-rokk, rokk, djass, popp, fönk og raftónlist.”


Borgþór: „Hjá mér er það nördametal og blu-pop”.


Keli: „Öll tónlist hefur áhrif á mig og mína sál.”


Arnór: „Ég er mjög sammála Tóta, en kannski hefur klassíkin meiri áhrif á mig en hann.”


Strákarnir vinna meðfram tónlistinni; Tóti kennir á gítar, Keli er liðsmanneskja fyrir dreng með sérþarfir og Borgþór spilar einstaka sinnum dinnertónlist í hinum ýmsu veislum ásamt öðrum félögum sínum. Arnór vinnur hjá AÞ Þrifum og hjá Hilton Reykjavik Nordica sem þjónn í helgarstarfi. En hvað myndu þeir vinna við ef þeir gætu ekki starfað við tónlist?


Tóti: „Ég held ég myndi setja stefnuna á forsetann! Nei, djók!”


Borgþór: „Ætli ég myndi ekki kenna ensku.”


Keli: „Ég væri örugglega frægur leikari!”


Arnór: „Ég ætla mér að verða besti þrifastarfsmaður í heiminum! Djók. En án tónlistar myndi ég deyja!”


Aðspurðir hversu mikilvægt sé að sigra í Músíktilraunum segja þeir að sigurinn sé „frábær viðurkenning og flott verðlaun, m.a. upptökutímar í upptökuveri Sigur Rósar. Svo, fyrir utan verðlaunin sjálf, þá hefur fólkið í Hinu Húsinu verið ákaflega hjálplegt með undirbúning fyrir komandi tíma og upptökur á demóum. Við elskum þau voða mikið með hjörtunum okkar.”Hafið þið alltaf haft áhuga á tónlist?


„Já, við fæddumst með heyrnartólin í eyrunum nema Keli, hann þolir ekki tónlist!” (Þegar hér er komið sögu þurfti Hrafnkell að hverfa frá vegna flensu. Hinir strákarnir grípa því tækifærið að svara fyrir hans hönd!)


Eins og fyrr sagði stunda allir strákarnir nám við F.Í.H.; tónlistarmennirnir á djass- og rokkbraut og söngvarinn Arnór á klassískri braut. Arnór er að klára þriðja stig í klassískum söng en lærði einnig söng þegar hann bjó í Danmörku, þó að þar hafi hann lært meira í söngleikjatónlist og rokki. Þeir segjast eiga frábærar fjölskyldur sem hafi staðið þétt við bakið á þeim fyrir úrslitin. Þeir koma alls staðar að; Arnór er fluttur til Íslands frá Danmörku, Tóti er frá Blönduósi og Keli og Borgþór eru úr Reykjavík.


Þegar ég spyr þá hvort þeir hafi búist við að vinna er svarið á þessa leið: „Okkur var nú eiginlega slétt sama. Okkar takmark var að komast á úrslitakvöldið svo við gætum spilað öll lögin okkar fyrir sem flest fólk.”


Aðspurðir hvað sé skemmtilegast við að vera í vinsælli hljómsveit og eins hvort eitthvað sé leiðinlegt við það svara þeir: „Það er frábær tilfinning að vita til þess að fólki líkar við tónlistina sem okkur þykir skemmtilegast að spila. Það eina sem er leiðinlegt  við þetta er að hafa ekki tíma til að semja eða æfa vegna annríkis. En það fer nú allt á fullt í sumar þegar skóla lýkur.”Hvernig er verkaskiptingin þegar kemur að því að semja lög og texta?


Borgþór: „Hingað til hefur Tóti verið langduglegastur að semja ný lög. Hann semur þau og tekur upp þannig að við hinir getum lært þau og hjálpað til við útfærslurnar. Arnór semur alltaf textana sína sjálfur og á laglínurnar.”Kemur aldrei upp ósætti þegar verið er að semja lög og texta?


„Við erum ekki komnir á það stig ennþá en við hlökkum mikið til!”Eruð þið vinir utan hljómsveitarinnar? Eigið þið einhver önnur áhugamál sem þið sinnið saman?


„Ja, þetta er örlítið eins og byrjunin á sambandi. Við erum ennþá að þreifa fyrir okkur. Arnór er ennþá að jafna sig á því að tveir okkar eru rauðhærðir. Við erum allir með sama húmorinn nema Keli, hann þolir ekki húmor. Tóti og Arnór ætla svo að taka grimma rimmu saman í fótboltanum í sumar.”Þegar ég spyr þá hvort þeir séu orðnir þekktir á götum úti svara þeir:


„Ef fólk snýr sér við á Laugaveginum er það frekar vegna látanna í Arnóri og hársins hans Kela!”


Þá vitið þið það. Ef þið byrjið að stara á meðlimi Agent Fresco á götum úti mun athyglin ekki stíga þeim til höfuðs heldur munu þeir vera með á hreinu að lætin í Arnóri eða hárið á Kela hafi vakið athygli ykkar.

More News

Pages