Gunnar Bjarnason (d. 2002)

Fréttir

Minningargreinar

Gunnar Bjarnason (d. 2002)

Það gefur lífinu gildi að til eru menn eins og Gunnar Bjarnason. Gunnar varð bráðkvaddur þann 7. september langt um aldur fram. Starfsvettvangur hans var lengst af Þjóðleikhúsið og ég efast um að á nokkurn sé hallað ef sagt er að hann hafi verið með skemmtilegustu mönnum í þeirri stofnun fyrr og síðar. Gunnar var þó ekki leikari að atvinnu heldur leikmyndamálari og –smiður, en hann var leikari af guðs náð. Hann átti sér fáa sína líka í frásagnarlist og eftirhermum. Með næmu auga fyrir því spaugilega í orðum og fasi samferðamanna sinna gat hann sagt þannig frá að þeir sem á hlýddu gátu ekki ímyndað sér annað en líf hans væri samfelld gleðisaga.


Hann er fæddur á Álfadal á Ingjaldssandi haustið 1932, fimmta barn þeirra Bjarna Ívarssonar og Jónu Guðmundsdóttur. Hann var því föðurbróðir Vigdísar, konu minnar. Gunnar hefði orðið sjötíu ára í nóvember ef honum hefði enst aldur.  Öll fengu börnin mikla hæfileika sem þau unnu vel úr. Listrænir hæfileikar komu fram hjá þeim öllum; ljóðlist, frásagnarsnilld, fagur söngur og myndlistargáfa prýddu systkinin, en auðvitað mismikið. Gunnar var barnungur þegar fjölskyldan brá búi og flutti frá Ingjaldssandi að Elliðakoti sem er skammt frá Lækjarbotnum. Þar bættist lítil uppeldissystir í hópinn nokkrum árum síðar. Eins og nærri má geta hefur það ekki verið af búsæld sem fjölskyldan brá búi og ekki var búreksturinn miklu auðveldari þótt komið væri suður fyrir heiðar. En stríðið breytti miklu. Eldri bræðurnir fengu vinnu hjá hernum og skömmu eftir stríð byggði fjölskyldan sér hús við Langholtsveg. Gunnar var þá sextán ára og óx á þessum árum öðrum fjölskyldumeðlimum yfir höfuð, varð tæplega tveir metrar á hæð. Vakti hann æ síðan athygli sem stæðilegur maður hvar sem hann fór. Gunnar var mikill íþróttamaður og var snjall handbolta og körfuknattleiksmaður. Auk þess stundaði hann frjálsar íþróttir. Enn í dag minnast margir þessa hávaxna afreksmanns frá sjötta áratugnum.


Strax á barnsaldri gætti mikillar listgáfu Gunnars. Hann átti auðvelt með að herma eftir en ekki var teiknihæfileikinn síðri. Hann velti því alvarlega fyrir sé að verða listmálari að atvinnu, en sá fljótlega að hér á landi gætu menn varla framfleytt sér og fjölskyldu á myndlistinni einni. Hann lagði því stund á leiktjaldamálun og réðst til Þjóðleikhússins að námi loknu. Í leikhúsinu og síðar við uppsetningu á stórum sýningum varð hans aðal lífsstarf. Engu að síður tel ég að síðar meir verði hans einkum minnst sem listmálara. Hann hélt allmargar sýningar á verkum sínum. Hann sagðist oft hafa velt því fyrir sér hvort það hafi ekki verið mistök hjá honum að kalla sig ekki Gunnar Rósinkrans (en hann hét Rósinkrans að millinafni) fremur en Gunnar Bjarnason, sem væri allt of venjulegt nafn á listamanni. Ekki er gott um það að segja, en vissulega eru umbúðirnar stundum mikilvægar til þess að vekja athygli á innihaldinu.


Gunnar var gæfumaður í einkalífi. Hann kvæntist Hrönn Aðalsteinsdóttur árið 1959 og gekk Sigurjóni syni hennar í föður stað, en Hrönn var ekkja. Saman eignuðust Gunnar og Hrönn svo Jórunni og Gunnar Snorra. Öll bera þau góðu upplagi fagurt vitni. Hrönn lést haustið 2000 og varð fráfall hennar Gunnari erfitt því þau voru mjög samrýnd. Nú í vor þurfti Gunnar að fara í hnjáuppskurð og fannst  hann væri mun lengur að jafna sig en hann hafði vænst. Engu að síður var því fjarri að hann legði árar í bát. Hann var búinn að ákveða það með sjálfum sér að hann myndi enn breyta um áherslur í myndlistinni og á síðasta skeiði sínu ætlaði hann að einbeita sér að olíumálverkum.


Gunnar var vinsæll hjá samstarfsmönnum sínum enda afar trúr sinni stofnun. Og þó að hann segði frá atvikum með glettni þá var hann aldrei illskeyttur í garð samferðafólks síns. Þvert á móti var hann fljótur til varnar þeim ef hann taldi á þá hallað.


Nú er Gunnar allur. Þó að við hefðum öll viljað njóta hans miklu lengur er það þó huggun harmi gegn að hann var bjartsýnn og glaður fram á síðasta dag og kallið kom snöggt og óvænt. Þannig vildum við eflaust flest kveðja þennan heim. Einu sinni var sagt í dómi um myndlistarsýningu Gunnars að þaðan gengju menn glaðir í bragði. Og þannig var Gunnar eins og list hans. Menn gengu frá honum glaðari í bragði en þeir komu. Afkomendum Gunnars og öðrum ættingjum votta ég samúð á þessari stund. Með þeim og öllum sem kynntust Gunnari lifir minning um einstakan mann.


Benedikt Jóhannesson

More News

Pages