Fallega fólkið

Fréttir

Smásögur

Fallega fólkið

eftir Benedikt Jóhannesson


I.


Jennifer: Finnst þér ég vera rangeyg?


Brad: Ha?


J: Joey sagði alltaf að ég væri rangeyg.


B: Fyrirgefðu, ég var að plokka á mér augabrúnirnar.


J: Veistu hvaða ættarnafn ég hafði?


B: Aniston?


J: Nei, ég meina í Friends?


B: Varstu með ættarnafn?


J: Auðvitað, hélstu að það væri bara  Joey?


B: Var hann með ættarnafn?


J: Tribbiani, það var aðalbrandarinn.


B: Rachel Tribbiani. Ég hafði ekki hugmynd um það.


J: Nei, Joey Tribbiani, auli.


B: Var það ekki aðalbrandarinn hvað hann var mikill auli?


J: Þú ert vonlaus.


B: Segirðu það vegna þess að ég er með hrukku?


J: Hrukkur?


B: Hvað segirðu? Eru þær fleiri en ein?


J: Bíddu, leyfðu mér að sjá. Jú, þú ert með hrukkur.


B: Fleiri en eina. Ég verð aldrei aftur valinn kynþokkafyllsti maður í heimi.


J: Varstu kosinn kynþokkafyllsti maður í heimi? Hugsaðu þér og svo giftist þú mér, aðalstjörnunni í vinsælustu sjónvarpsþáttaröð allra tíma.


B: Ég skil það ekki. Ég var kosinn kynþokkafyllstur 1995 og 2000. Af hverju ekki 1996, 1997, 1998 og 1999? Ég var lifandi allan þennan tíma. Heldur þú að ég hafi verið of feitur á þessum árum?


J: Aldrei var ég valin kynþokkafyllst. Ég er líka alltaf of feit. Feit og rangeyg.


B: Finnst þér að ég ætti alltaf að vera með kúrekahatt?


J: Til þess að fela hrukkurnar?


B: Guð, ég er þá með fleiri en eina.


J: Þá sést minna af andlitinu.


B: Þegar ég var með kúrekahatt og ber að ofan fannst öllum konum ég ofboðslega sexí.


J: Þegar þú segir öllum konum áttu þá við þessa ógeðslegu Gweneth Paltrow?


B: Hún skiptir engu máli. Ég man varla eftir henni lengur. Nema …


J: Nema hvað?


B: Mamma er stundum að tala um hana.


J: En ekki mig.


B: Jú hún talar stundum um þig líka. Sérstaklega augun.


J: Finnst henni ég rangeyg?


B: Hefurðu tekið eftir hvað ég er orðheppinn?


J: Nei.


B: Einu sinni sagði ég við blaðamann: Ég hætti í skóla vegna þess að allir vinir mínir ætluðu að fara að vinna. En ég flutti til Kaliforníu til þess að þurfa aldrei að vinna. Ef tækifærin leituðu mig ekki uppi varð ég að fara að leita þeirra.


J: Rosalega er þetta flott. Samdirðu þetta alveg sjálfur?


B: Nei, umboðsmaðurinn hjálpaði mér svolítið. En ég lærði textann sjálfur. Það er svo gott við að vera leikari.


J: Fannst þér hinar stelpurnar í Friends jafnsætar og ég?


B: Voru aðrar stelpur í Friends?


J: Þú ert svo sætur. Sérstaklega ef þú ert með kúrekahatt og ber að ofan.


B: Heyrðu. Ættum við að eignast börn?


J: Þú veist að maður fær ör á maganum þegar maður eignast börn.


B: Ég vil ekki fá ör á magann.


J: Green.


B: Ha?


J: Rachel Green.


II.


Angelina: Viltu biðja þjónustufólkið að taka saman börnin? Við þurfum að komast heim.


Brad: Já. Er ekki rétt að telja þau til öryggis. Hvað eru þau aftur mörg?


A: Ég er búin að panta þyrluna, en það komast bara sex í hana þannig að þriðja heims börnin þurfa að fara á bílpallinn.


B: Eigum við þessa kínversku?


A: Hún er frá Víetnam.


B: Hugsaðu þér hvað við höfum gert mörg börn hamingjusöm. Börn sem höfðu ekkert við sig ...


A: Þú veist ég vel aldrei nema falleg börn.


B:  En þau kom úr ömurlegu umhverfi og fá heimsfræga foreldra.


A: Það skiptir engu máli að eiga fræga foreldra. Þú veist ekkert um það. Pabbi var frægur.


B: Og þú meikaðir það.


A: Pabbi er asni.


B: Hvers vegna segirðu það?


A: Hann sagði að ég væri geðveik. Bara af því að ég sagðist vera ástfangin af bróður mínum. Og er með fimmtíu tattó.


B: Hverjum dettur í hug að svona falleg kona eins og þú sé geðveik? Þú ert svo góð. Ættleiðir eitt barn á ári. Það hefur enginn verið svona góður síðan Mia Farrow hætti að ættleiða.


A: Hvernig heldur þú að manni líði þegar pabbi manns er frægastur fyrir að leika mann sem ætlaði að vinna fyrir sér með því að sofa hjá ríkum kellingum?


B: En það er ekkert leiðinlegt. Það geri ég.


A: Það er svo gaman að vera fallegur og góður. Veistu hvað við gefum mikið til góðgerðarmála?


B: Ég er svo ánægður að hafa kynnst þér. Áður en við hittumst vissi ég ekki að botex getur eytt hrukkum.


A: Vel á minnst. Það er kominn tími á vorviðgerðirnar. Þú þarft að láta fjarlægja pokana undir augunum.


B: Ég var tvisvar kosinn kynþokkafyllsti maður í heimi.


A: Svo væri voða gott að þú hættir að ganga um ber að ofan. Þú ert kominn á þann aldur að það gengur ekki lengur.


B: En myndirnar af okkur sem ég var búinn að selja Hello?


A: Það er allt í lagi með þær. Ég lét fótasjoppa andlitið á þér að búkinn á Mario. Þú veist ég er kynþokkafyllsta kona í heimi. Núna. Ekki einhvern tíma í gamla daga.


B: OK.


A: Vel á minnst. Við erum orðin svolítið blönk. Ég ætla að ættleiða barn frá Borneó. OK! kaupir myndirnar af þeim á þrjár milljónir dollara.


B: En það er minna en síðast.


A: Skilurðu þetta aldrei? Ég er búinn að fara yfir þetta með þér. Fjórtán milljónir fyrir tvíbura sem við eigum sjálf, sjö milljónir á stykkið. Fimm milljónir á Afríkukrakka, þrjár á Asíubarn og hundrað þúsund dalir á fatlað amerískt. Það er enginn bisness.


B: Jennifer sagði mér að maður fengi ör á magann af því að eignast börn. En ég fékk engin ör á magann.


A: Þarftu alltaf að vera tala um þessa rangeygu kellingu.


B: Nei. Bara við mömmu.


A: Ég var búin að banna þér að tala við mömmu þína eftir að hún bauð henni heim.


B: Við vorum gift í mörg ár svo ...


A: Mamma þín sagði að ég væri lesbía, bara vegna þess að ég sagði að það væri allt í lagi að kyssa og snerta konur sem maður væri ástfangin af.


B: Er það ekki svolítið lessulegt að segja það?


A: Ætlar þú að fara að tala eins og gamla skassið?


B: Ég sá það aftan á kornflexpakka að maður getur ættleitt apa. Hvað fáum við mikið út úr því?


A: Manstu hvar ég setti óskarinn minn?

More News

Smásögur

Bréf frá himnum

eftir Benedikt Jóhannesson Það voru margir á ferli í Bankastrætinu og Jesús þurfti að skáskjóta sér...

Smásögur

Forleikur

Engin smá saga eftir Benedikt Jóhannesson. Ég vil ekki eyða miklu plássi í smáatriði en ég held að...