Sjómenn sigla fram úr forstjórum

Fréttir

Frjáls Verslun

Sjómenn sigla fram úr forstjórum

fv_tekjublad_2013Sjómenn eru hinir eiginlegu forstjórar landsins, samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út snemma í morgun. Þeir hafa siglt fram úr forstjórum í launum. Sú framúrsigling hófst raunar í Tekjublaðinu í fyrra. 

Tvö hundruð efstu sjómennirnir eru með 2,5 milljónir kr. að jafnaði á mánuði en forstjórarnir 2,3 á milljónir á mánuði. Báðar þessar stéttir hækkuðu í launum um 100 þúsund kr. á mánuði í fyrra. Tekjur um 3.500 einstaklinga eru birtar og þeirra á meðal eru stjórnendur allra helstu fyrirtækja landsins.

Tekjublaðið er veigamikið upplýsingarit um vinnumarkaðinn; þ.e. hvernig kaupin gerast á eyrinni á meðal helstu starfsstétta landsins ekki síst á meðal stjórnenda. Það mælir launatekjur en getur á engan hátt um fjármagnstekjur. Ýmsir hafa verulegar fjármagnstekjur en engar launatekjur.

Blaðið birtir engar launavísitölur eða prósentur, heldur snúast upplýsingarnar um krónur í veskið. Krónurnar eru látnar tala sínu máli. Prósentusamanburður gefur oft ekki sömu myndina. Dæmi: 5% hækkun á 5 milljóna kr. mánaðarlaun er 250 þús. kr. á meðan 5% hækkun á 400 þús. kr. mánaðarlaun er 20 þús .kr.

Helsta niðurstaðan úr Tekjublaðinu er að það er launaskrið í gangi á meðal forstjóra, bankamanna og sjómanna. Þetta er þó ekki raunin hjá millistjórnendum því tvö hundruð efstu á meðal næstráðenda í fyrirtækjum hafa lækkað í launum þótt launin séu engu að síður um 1,6 milljónir króna að jafnði á mánuði.

Athyglisverð hreyfing er þó á meðal millistjórnenda því þeim hefur fjölgað verulega sem eru með yfir 1 milljón kr. á mánuði. Margir hafa hækkað úr 800 til 900 þús. kr. á mánuði í 1,0 til 1,1 milljón á meðan þeir efstu virðst hafa togast niður. Millistjórnendur hafa yfirleitt ákveðið hlutfall af launum forstjóranna.

Ekki fer á milli mála að sjómenn njóta mjög góðs af þeim stórauknu útflutningstekjum sem orðið hafa í sjávarútvegi eftir að gengi krónunnar féll haustið 2008. Þess utan hefur sjávarútvegurinn stóraukið verðmæti sín með öflugu markaðsstarfi.

Launatekjur Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, voru 222 þús. kr. hærri á mánuði í fyrra en árið áður. Hækkuðu úr 1.241 þús. kr í 1.463 þús. kr. á mánuði.

Fráfarandi ríkisstjórn setti í lög þá reglu um laun opinberra starfsmanna að við ákvörðun sína skyldi kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands, yrðu ekki hærri en föst laun forsætisráðhera.

Samkvæmt Tekjublaðinu voru 125 opinberir starfsmenn með hærri laun en Jóhanna. Munar þar mestu að innan heilbrigðisgeirans eru 110 fyrir ofan hana, en margir læknar eru að vísu hálfopinberir starfsmenn þar sem þeir eru einnig með einkastofur. Sjö skólamenn voru með hærri launatekjur en forsætisráðherra á síðasta ári.

Núna virðist auðveldara fyrir kjararáð að hækka opinbera embættismenn og forstjóra ríkisstofnana í ljósi þess að launatekjur forsætisráðherra hafa hækkað um rúm tvö hundruð þúsund kr. á mánuði.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hækkaði um rúm 400 þús. kr. á mánuði í fyrra. Launatekjur hans á mánuði fóru úr 1.613 þús. kr. í 2.052 þús. kr.

Í flokki forstjóra eru fimmtán efstu með yfir 4 milljónir kr. á mánuði. Finnur Árnason, forstjóri Haga, er efstur með 8,4 milljónir kr. á mánuði.

Kjartan Gunnar Gunnarsson, frkvstj. Lykils, er með hæstar launatekjur á meðal starfsmanna fjármálafyrirtækja eða um 3,7 milljónir kr. á mánuði. Kristján Óskarsson, fv. starfsmaður í skilanefnd Glitnis, er í öðru sæti með 3,5 milljónir kr. á mánuði.

Kristinn Björnsson, einn eigenda Líflands, er hæstur í flokki ýmissa manna í þjóðlífinu með 6,7 milljónir kr. í launatekjur á mánuði.

Ásmundur Friðriksson er hæstur í flokki alþingismanna með um 2,3 milljónir kr. á mánuði. Ásmundur var kjörinn á þing sl. vor.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, er efstur á meðal sveitarstjórnarmanna með tæpar 1,9 milljónir króna á mánuði.

Daði Þorsteinsson, skipstjóri á Aðalsteini Jónssyni frá Eskifirði, er tekjuhæsti sjómaðurinn með tæpar 6 milljónir kr. á mánuði á síðasta ári.

Tvö hundruð efstu í hverjum flokki:
Launatekjur á mánuði.

Tekjublað             2012       2013
Sjómenn                         2,4 mkr.        2,5 mkr.
Forstjórar                         2,2 mkr.        2,3 mkr.
Starfsmenn fjármf.             1,6 mkr.        1,7 mkr.
Næstráðendur                  2,0 mkr.        1,6 mkr.
Skólamenn (100 efstu)       0,9 mkr.        1,0 mkr.
Heilbrigðisgeiri                    1,5 mkr.        1,4 mkr.

More News

Pages