Hin blinda peningastefna Seðlabankans

Fréttir

Frjáls Verslun

Hin blinda peningastefna Seðlabankans

Eftir Jón G. Hauksson

ragnar_arnasonRagnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, er fastur álitsgjafi í Frjálsri verslun um efnahagsmál. Í nýjasta tölublaðinu, áramótablaðinu, fjallar hann um peningastefnu Seðlabankans og nefnir hana hina blindu peningastefnu og kemur skoðun hans hér í heild sinni:

„Seðlabankinn fylgir afar einfaldri peningastefnu. Stefnan er í megindráttum að vextir skuli vera yfir verðbólgu en önnur stjórntæki bankans eins og t.d. bindiskylda og hagstjórn með verðbréfaviðskiptum látin lönd og leið. Stefnan er blind vegna þess að hún tekur ekki tillit til stöðu eða stefnu efnahagslífsins að öðru leyti.

Á árunum fyrir hrun fjármálakerfisins voru vextir hækkaðir jafnt og þétt í samræmi við hina blindu forskrift. Þessar vaxtahækkanir slógu ekki teljandi á eftirspurn. Erlent lánsfé á miklu lægri vöxtum kom einfaldlega í stað innlends. Innflæði hins erlenda gjaldeyris hækkaði hins vegar gengi krónunnar sem lækkaði verð innflutnings og sló þannig á verðbólguna. Gallinn var að viðskiptajöfnuður þjóðarinnar fór á hliðina og erlendar skuldir heimila og fyrirtækja hrúguðust upp. Þessi peningastefna var því efnahagslega ósjálfbær og hlaut að enda með ósköpum. Við erum enn að súpa seyðið af þeim ósköpum og þar á meðal svokölluðum jöklabéfum sem voru bein afurð af vaxtastefnu Seðlabankans.

Flestir hefðu auðvitað lært af þessum gríðarlegu mistökum. Því miður eru núverandi stjórnendur Seðlabankans ekki gefnir fyrir slík sinnaskipti. Blóðblettirnir voru einfaldlega þerraðir af gömlu peningastefnunni og hún aftur leidd til vegs og virðingar eins og ekkert hefði í skorist.“

Ragnar segir að nú séu aðrar aðstæður í efnahagslífinu. „Því birtast þverbrestir hinnar blindu peningastefnu öðruvísi en áður. Vextir eru sem fyrr miklu hærri en í hinu alþjóðlega efnahagsumhverfi. M.a. vegna gjaldeyrishaftanna er afleiðingin hins vegar ekki innflæði fjármagns. Afleiðing peningastefnunnar nú er að draga úr framtaki og fjárfestingum og framlengja þar með kreppuna og atvinnuleysið.“

More News

Pages