Þrjár tengingar við Ísland

Fréttir

Kvikmyndir

Þrjár tengingar við Ísland

Monika Z

monica_z

Edda Magnason og Sverrir Guðnason í hlutverkum sínum í Monica Z.

Hvað skyldu sænska myndin Monica Z, bandaríska stórmyndin Noah og íslenska kvikmyndin Vonarstræti eiga sameiginlegt fyrir utan að hægt er að sjá þær allar í kvikmyndahúsum höfuðborgarinnar um þessar mundir? Jú þær tengjast Íslandi á jafn mismunandi hátt og þær eru ólíkar.

Monica Z er áhrifamikil mynd sem fjallar um hina frábæru söngkonu Monicu Zetterlund sem á sínum tíma var ein besta djassöngkona heimsins. Þeir sem hlustað hafa á plötuna Waltz For Debby sem er samstarf hennarog Bill Evans eru örugglega í engum vafa um hversu góð söngkona hún var. Einkalíf hennar var enginn dans á rósum og hún lést í eldsvoða á heimili sínu í Stokkhólmi 1999 – þá orðin illa farin vegna veikinda. Monica Zetterlund lék í tuttugu kvikmyndum.

Tengingin við Ísland er að Edda Magnason sem leikur Monicu er af íslenskum ættum og mótleikari hennar, Sverrir Guðnason, er íslenskur leikari búsettur í Svíþjóð og er barnabarn Sverris Hermannssonar, fyrrum ráðherra og bankastjóra. Bæði hlutu fyrr á árinu sænsku kvikmyndaverðlaunin, Gullbjölluna, fyrir leik sinn.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hvernig Noah tengist Íslandi. Aldrei hefur verið fjallað jafn oft um erlenda kvikmynd í íslenskum fjölmiðlum. Allt fór á annan endann þegar verið var að kvikmynda hér á landi og nánast daglegar fréttir. Þá hefur myndin verið mjög umdeild vegna boðskaparins og gyðingar sem og Kínverjar hafa verið duglegir að mótmæla henni og nýjast er að hún hefur verið bönnuð í Kína. Noah er í raun sýn eins manns, Darren Aronofsky, á biblíusöguna um Nóa og örkina hans og sem kvikmynd ekkert sérstök og á ég erfitt með að skilja lætin í kringum hana.

Vonarstræti er nýjasta íslenska kvikmyndin, spennandi drama og satt að segja mun betri en ég bjóst við. Baldvin Z er greinilega á réttri leið í kvikmyndasköpun sinni. Vonarstræti segir frá þremur ólíkum persónum sem eru fóta sig í íslensku samfélagi á árunum rétt fyrir hrun og því hvernig örlög þeirra fléttast saman á áhrifaríkan máta. Móri (Þorsteinn Bachmann) er rithöfundur sem finnur hvergi frið fyrir óbærilegum minningum annars staðar en á botni flöskunnar.

Eik (Hera Hilmarsdóttir) er leikskólakennari sem neyðist til að grípa til örþrifaráða til að framfleyta sér og dóttur sinni. Sölvi (Þorvaldur Davíð Kristjánsson) er fyrrum fótboltastjarna sem varð að hætta vegna meiðsla og er nú á hraðri uppleið í vafasömum banka. Sagt er að kvikmyndin sé byggð á sönnum atburðum og hægt sé að þekkja fyrirmyndirnar úr raunveruleikanum, sem sjálfsagt er rétt. Hvað um það, Vonarstræti er góð skemmtun.

Nú er bara að sjá hvort einhver íslensk kvikmynd sem kemur til sýningar síðar á þessu ári nái að fylgja henni eftir, en líkast til verður það ekki fyrr en í september þegar Afinn verður frumsýnd að viðmiðunin kemur.

Hilmar Karlsson

More News

Pages