Þrír í Hollywood

Fréttir

Kvikmyndir

Þrír í Hollywood

Eftir Hilmar Karlsson
Ólafur Darri Walk among tombstones

Hvergi er samkeppnin meðal leikara jafn hörð og í Hollywood, það þykja því tíðindi þegar íslenskir leikarar ná að skapa sér nafn á sama tíma innan um þann aragrúa leikara sem þar reyna fyrir sér, en staðreyndin er að Ólafur Darri Ólafsson, Darri Ingólfsson og Þorvaldur Davíð Kristjánsson hafa allir verið í sviðsljósinu undanfarin misseri.

Stjarna Ólafs Darra skín hvað hæst og hefur frammistaða hans í A Walk Among the Tombstones, sem sýnd hefur verið hér á landi að undanförnu, vakið verðskuldaða athygli og mörgum þykir hann þar standa upp úr fríðum flokki leikara þó hlutverkið sé ekki stórt. Einnig má sjá Ólaf Darra um þessar mundir í íslenskri kvikmynd, Harry og Heimir: Morð eru til alls fyrst, sem frumsýnd var fyrr á þessu ári.

Þekktur bandarískur gagnrýnandi komst að þeirri niðurstöðu í gagnrýni sinni um A Walk Among the Tompstones að það væri alltaf tilhlökkunarefni að sjá Ólaf Darra og það þykir okkur hér heima einnig. Hefur það verið svo frá því hann lék eftirminnilega í Djúpinu. Næsta stórverkefni hans er kvikmyndin The Last Witch Hunter þar sem meðleikarar hans eru Vin Diesel, Elijah Wood og Michael Caine. Áður en sú kvikmynd kemur fyrir sjónir almennings þá verður sýnd sjónvarpsmyndin We Hate Paul Revere þar sem Ólafur Darri leikur eitt aðalhlutverkið. Má geta að meðal vinsælla sjónvarpsería sem hann hefur leikið í eru True Detective og Banshee.

Darri Ingólfsson sem leikur aðalhlutverkið í Borgríki II, kvikmynd sem hefur fengið góðar viðtökur gagnrýnanda og góða aðsókn, hefur aðallega leikið í sjónvarpsseríum vestanhafs og hver man ekki eftir honum í hinni vinsælu sjónvarpsseríu Dexter þar sem hann var fínn í hlutverki raðmorðingja í áttundu og síðustu þáttaröðinni. Má segja að frammistaða hans þar hafi verið vendipunktur á ferli hans. Áður hafði hann meðal annars leikið í sjónvarpsseríunum Last Resort og Convassing. Einnig mátti sjá honum bregða fyrir í litlu hlutverki í kvikmynd Clint Eastwoods, Flags of Our Father. Frá því hann lék í Dexter hefur hann auk Borgríkis II, leikið í sjónvarpsseríunum, NCIS: Los Angeles og Haven og Stalker, sem sýnd er um þessar mundirá Stöð 2.

Þorvaldur Davíð Kristjánsson sem vestanhafs hefur tekið sér leikaranafnið Thor Kristjansson hefur að mestu leyti leikið hér heima í kvikmyndum og má þar nefna eitt aðalhlutverkið í Vonarstræti, sem hefur fengið frábærar viðtökur og er enn í sýningum í kvikmyndahúsum og stór hlutverk í Svartur á leik og Reykjavik Whale Watching Massacre. Það er aftur á móti stórmyndin Dracula Untold, sem á eftir að auðvelda fyrir honum í Hollywood, en sú kvikmynd fór í efsta sæti vinsældalistans vestan hafs og er ein vinsælasta kvikmynd ársins og má sjá frammistöðu Þorvalds í Dracula Untold í kvikmyndahúsum í Reykjavík.

Hvað varðar framtíðina hjá þessum ágætu íslensku leikurum í Hollywood þá er leiðin á þeim bænum oft þyrnum stráð í miskunnarlausri samkeppni. Ólafur Darri virðist vera búinn að tryggja sér sess meðal góðra karakterleikara og ætti ekki að vera í vandræðum með að finna sér góð hlutverk. Meiri óvissa ríkir um Darra og Þorvald, allt getur gerst en víst er að þeir verða að hafa mikið fyrir hlutunum.

Hilmar Karlsson 

More News

Pages