Friðsamt Íslandsmót í skrafli

Fréttir

afþreying

Friðsamt Íslandsmót í skrafli

Gísli Ásgeirsson

Gísli málbein: Samþykkirðu getnað? Mynd: Benedikt Jóhannesson

Loftið var lævi blandið í Friðarhúsinu. Úti fyrir stóðu tveir keppendur og reyktu. Þegar blaðamann bar að garði með myndavél höfðu þeir á orði að þeir hefðu gleymt að farða sig í morgun. Það var greinilega þverfótað fyrir blaðamönnum á þessu Íslandsmóti í skrafli.

Inni fyrir skiluðu þeir sem þaulsetnastir voru í sjöttu umferð inn skorblöðum til dómara. Allmargir gamlir kunningjar frá mótinu í fyrra höfðu snúið aftur, meðal annarra Íslandsmeistarinn Reynir Hjálmarsson. Eftir sex umferðir var ljóst að það yrði á brattann á sækja að verja titilinn. Gísli málbein Ásgeirsson var ósigraður í efsta sæti og hafði náð nærri 600 stigum meira en andstæðingarnir í umferðunum sex. Það er mikið, ekki síst þar sem þarna var landsliðið á ferð.

Reynir var í 3.-8. sæti með fjóra vinninga. En það bar vel í veiði, því að þessir tveir áttust einmitt við innbyrðis í sjöundu umferð. Það var spenna í lofti.

Þjóðin fylgdist spennt með erjunum í félaginu fyrir mótið. Samsettu orðin höfðu valdið sundrungu innan stjórnar. Var hætta á klofningi? Ungverska ríkisútvarpið birti meðal annarra frétt um málið. En nú var hvorki það né íslenska systurútvarp þess á staðnum. Allir stjórnarmenn voru á staðnum, fyrrverandi og núverandi, þannig að allt virtist hafa fallið í ljúfa löð á ný.

Keppendur tíndust inn að sínum borðum, tveir og tveir. Notuð er skákklukka þar sem hvor keppandi hefur hálftíma á leikinn. (Taka lesendur eftir því að í orðinu skákklukka eru fimm k? Það eru ekki einu sinni svo mörg k í skraflsettinu. - Tölvan segir að ég eigi að skrifa skrafls-settinu, en hér er ég kominn út í samsett orð og hætti mér ekki lengra).

Reynir var seinn að borðinu og virtist órótt þegar tilkynnt var um að eftir umferðina yrðu sigurvegarar lyfjaprófaðir. Gísli málbein lagði ost á borðið og Reynir varð hugsi. Osturinn gaf 20 stig.

Einn keppandi sat hjá því að fjöldinn stóð á stöku. Sem betur fer var orðagáta Morgunblaðsins með í för en reyndist skammgóður vermir, því að fljótlega var hún leyst. Það stendur ekkert í þessu fólki.

Hnífar í friðarsetri

Á vegg Friðarsetursins er skemmtilegt vopnabúr sem Hells Angels gætu verið fullsæmdir af; hnífar, söx, skálmar, sveðjur, breddur, kutar og rýtingar. Fátt virtist þó benda til þess að grípa þyrfti til þeirra þar til skyndilega var kallað: „Dómari!“

Jóhannes Benediktsson og Guðmundur Svansson

Einum keppanda hafði orðið á að leggja niður orðið VER. Að vísu ágætt orð með margar merkingar, en verra var að með því móti var skapað orðið LE, sem ekki er á tveggja orða lista félagsins. (Eða tveggjaorðalista?) Sá brotlegi fékk makleg málagjöld, þurfti að sitja yfir og fékk engin stig.

Enn var enginn fjölmiðlamaður á staðnum annar en fulltrúi Heims. Er ekki Íslandsmótið í skrafli upplagt efni fyrir Ríkissjónvarpið? Hallur Hallsson gæti staðið bakvið keppendur og talað lágum rómi: „Reynir getur bætti kái framan við ostinn, sem væri kostur, en gæti reyndar líka nýtt exið og koxað.“

Á öðru borði leikur Sigríður Hjálmarsdóttir. Hún er bara einum vinningi á eftir málbeininu, en nú fékk hún þrjú eð, tvö há, enn og té. Allt útlit er því fyrir að henni gæti orðið orða vant.

Skrafl

Keppendur talast kurteislega við og fá leyfi hjá andstæðingnum fyrir óvenjulegum orðum. Gísli segist alltaf vera í vandræðum með há og Reynir segir hluttekningarfullur að ekki séu þornin skemmtilegri. Sigurður Arent kallar þá af næsta borði: „Mér finnst nánast allt stafrófið til vandræða.“

Þessi yfirlýsing kallar fram bros á keppendum, sem er þó greinilega ekki hlátur í hug. Einbeitingin skín af hverri brá.

Allt í einu heyrist samtal af háborðinu.

Gísli: „Samþykkirðu ekki orðið GETNAÐ?“

Reynir: „Jújú.“

Hildur af næsta borði: „Er það ekki einmitt sérstakt áhugamál þitt, Reynir? (Hann á fjögur börn)

Reynir: „Jújú, það hefur einhvern veginn æxlast þannig.“

Svona spjalla menn saman.

Vilhjálmur Þorsteinsson

Vilhjálmur Þorsteinsson hefur spennt greipar. Fyrst ekki má nota orðabók er þetta líklegast eina bjargráðið. (Árnastofnun gefur líka myndina spenna greipum, en það er lítil hjálp í henni núna). Máttur bænarinnar er mikill, en Hildur Lilliendahl vann samt með 152 stiga mun. Hér eru engir amatörar.

Reynir nýtir tímann vel og siglir framúr. Á móti getnaði Gísla fær Reynir að leggja niður orðið VETNAÐ (vel þekkt í samsetningum eins og tvívetna). Þeir láta eðin í hornið þessir karlar þannig að enginn annar getur notið góðs af þeim. Til þess að sýna að honum kippi í kynið leggur Reynir niður munka. (Pabbi hans er dómkirkjuprestur).

Gísli Ásgeirsson og Reynir Hjálmarsson

Gísli spyr hvort Reynir kannist ekki við orðið ferna, sem er vel þekkt í þessum kreðsum, en fernaður fær hins vegar enga miskunn hjá Reyni, sem sér að Gísli er hársbreidd frá örvæntingu. Það er alltaf gaman þegar andstæðingurinn kvelst.

„Jæja,“ segir Gísli og það er uppgjöf í rómnum. „Minn veslingur, verður þá að láta sér þetta nægja.“ Svona tala menn á skraflmótum (skraflsmótum?).

Svo lagði hann niður stafina hvern á fætur öðrum. E, F,N,A,Ð, U, R. Bingó! Fimmtíu aukastig fyrir það. Teningunum er kastað (þó að engir teningar séu í skrafli) og málbeinið hefur tekið afgerandi forystu.

Á endanum féll Reynir á tíma og fær tíu refsistig fyrir það. Baráttan var orðin vonlaus hvort eð er. Gísli vinnur með ríflega 80 stiga mun.

Það er greinilegt að nýr Íslandsmeistari mun hampa orðabókinni í ár.

PS Það fór svo að Gísli vann alla sína leiki og sat yfir í síðustu umferð enda úrslitin ljós. Hildur Lilliendahl Viggósdóttir hreppti annað sætið með átta vinninga af tíu og Sigríður Hjálmarsdóttir varð þriðja á pall með sjö sigra. Lausleg talning bendir til þess að flestir hnífar friðarhreyfingarinnar séu enn á sínum stað.

Tags

More News