Loftárásirnar halda áfram

Fréttir

Stjórnmál

Loftárásirnar halda áfram

Forsætisráðherra hefur sætt slíkum árásum í fjölmiðlum að nánast verður jafnað við einelti. Hann sagði sjálfur í grein fljótlega eftir að hann réðst á atvinnuleysisvandann með því að ráða sér aðstoðarmenn: „Í öllum vangaveltum síðasta kjörtímabils um muninn á umfjöllun um S-V-stjórn eða B-D-stjórn hvarflaði varla að nokkrum manni hversu mikill og augljós sá munur yrði eða hversu fljótt hann myndi birtast. Hér er auðvitað rétt að geta þess að í þessu eins og öðru eru fjölmiðlar og fjölmiðlamenn jafn ólíkir og þeir eru margir og alls ekki ætlunin að gagnrýna fjölmiðla almennt. Stundum er byggt á upphrópunum og dylgjum stjórnarandstöðunnar, stundum á gömlu góðu álitsgjöfunum og stundum á meintum sérfræðingum.“

Nú hefur mbl.is bæst í hóp þeirra sem ráðast að þeim góða dreng sem ekki má bregða sér út fyrir landsteinana til þess að halda upp á afmæli konu sinnar án þess að allt ætli vitlaust að verða. Vefmiðillinn sagði: „Athygli hefur hins vegar vakið að forsætisráðherrar allra landa á Norðurlöndum utan Íslands hafa mætt til Parísar til að taka þátt í athöfninni.“

Hvað með það? Nú er ráðherrann heima og allt verður vitlaust. Hvernig á að gera mönnum til hæfis? Jafnvel þegar hann reyndi að vera hvorki á Íslandi né erlendis og eyddi heilum degi í flugvél Landhelgisgæslunnar reyndu menn að gera það tortryggilegt. Á miðlinum segir:

„Í svari við fyrirspurn mbl.is segir Jóhannes Þór Skúlason að síðla föstudags hafi forsætisráðuneytinu borist boð frá frönskum yfirvöldum um þátttöku í samstöðugöngunni, en að ráðherranum hafi ekki verið unnt að þekkjast boðið. Jóhannes sagðist ekki geta gefið nánari skýringu á því hvers vegna forsætisráðherra sá sér ekki fært að vera viðstaddur.

Þá bendir Jóhannes á að Ísland skorti þó ekki fulltrúa í París, en það mun vera Nína Björk Jónsdóttir, staðgengill sendiherra Íslands í Frakklandi, sem er opinber fulltrúi Íslands við athöfnina sem nú fer fram.“

Eru Frakkar ekki fullsæmdir af staðgengli sendiherra frá Íslandi meðan Þjóðverjar senda kerlingu sem hefur ekkert þarfara að gera en fljúga landa á milli?

Úr 2. tbl. Vísbendingar

Tags

More News