Afsláttarkrónur

Fréttir

Viðskipti og efnahagsmál

Afsláttarkrónur

Myndin sýnir að gengið sem skráð er í bönkum er um 50 til 100 krónum lægra en „rétt gengi“ að mati forsætisráðherra.

Í 6. tölublaði Vísbendingar er fjallað um það að forsætisráðherra telji að gengi sem almenningur kaupir erlendan gjaldeyri á sé afsláttargengi og að fyrirtæki geti bara tekið lán í útlöndum ef þau séu ekki ánægð hér.

 

Ákvörðun um að flytja Promens úr landi hefur vakið talsverða athygli. Sumir telja að hér sé vindgangur í vatnsglasi, fyrirtækið hafi að mestu starfað erlendis og auk þess hafi það nýlega verið selt úr landi. Aðrir hafa bent á að höftin hafi haft bein áhrif á flutninginn og gagnstætt því sem var fyrir hrun felist útrásin í flótta frá Íslandi.

Athygli vekur að forsætisráðherra gerir lítið úr málinu: „Ég ræddi málið við seðla­bankastjóra í morgun. Svo virðist sem ekki sé allt sem sýnist í þessu tilviki. Þetta fyrirtæki hefur fengið undanþágur frá gjaldeyrishöft­um á undanförnum árum. Sú höfnun sem vísað er til kom til fyrir allmörgum mánuð­um og snerist um beiðni til að kaupa hér erlendan gjaldeyri á afslætti, sem svo mætti kalla vegna þess að skráð gengi Seðlabankans er auðvitað allt annað en aflandsgengið, til að nýta það fjármagn í fjárfestingar erlendis. Þetta fyrirtæki hefði vel getað tekið lán fyrir þessum fjárfestingum í útlöndum.“

Í fyrsta lagi kemur hér fram sjónarmiðið að þetta fyrirtæki búi ekki við aðrar aðstæð­ur en önnur íslensk félög sem eiga undir embættismönnum hvort þau fá gjaldeyri til fjárfestinga erlendis. Þó að reglur af því tagi sem hér gilda séu afleitar er þó enn verra, að sum fyrirtæki virðast fá undanþágur meðan önnur verða að hlíta reglunum. Sum fyrir­tæki eru sem sé jafnari en önnur.

Næst kemur fram að auðvitað sé hið opinbera gengi sem er á erlendum gjaldmiðlum afsláttargengi. Almenningur fær sem sagt sérstaka ívilnun frá hinu rétta gengi. Kerfisbundinn afsláttur leiðir til slæmra fjárfestinga, því að menn borga ekki raunvirði.

Í þriðja lagi bendir ráðherrann á að fyrirtækinu hafi verið í lófa lagið að taka lán í útlöndum. Þetta er auðvitað kjarni málsins. Fyrirtæki flytja til útlanda vegna þess að þar er hægt að taka lán til fjárfestinga og ekki þarf að fara á hnjánum til embættismanna til þess að fá undanþágur til fjárfestinga. Þeir sem hæðast að flutningunum eru einfaldlega búnir að gefast upp í baráttunni fyrir því að aðstæður til fyrirtækjarekstrar.

Vísbending er vikurit um viðskipti og efnahagsmál.

 

Tags

More News