Um hvað snýst Evrópusambandið?

Fréttir

Evrópa

Um hvað snýst Evrópusambandið?

Í Vísbendingu birtist fyrir fjórum árum umfjöllun um Evrópusambandið og hvað aðild hefur í för með sér fyrir Ísland. Nú á næstu dögum verða birtar hér á vefnum greinar úr þessum flokki. Það er því miður einkennandi fyrir umræðuna að menn beina henni oft á rangar brautir með ósönnum yfirlýsingum, stundum viljandi en oftar af vanþekkingu. Hér er leitast við að setja fram staðreyndir um málið þannig að umræðan snúist um það sem raunverlulega felst í aðild.

Hefjum leikinn:

Íslendingar eiga nú í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Sýnilegt er að umsóknarferlið er flókið og tímafrekt. Einmitt þess vegna er mikilvægt að allir leggist á eitt um að vanda vinnubrögð, þannig að þegar upp verður staðið hafi Ísland náð sem allra bestum samningi og það ekki skiptir minna máli, að Íslendingar nýti sér aðildina sem allra best.

Hvar standa Íslendingar ef þeir ganga inn í sambandið og hvar eru þeir, ef þeir kjósa að standa utan þess? Síðari hluti spurningarinnar á að vísu ekki vel við á Íslandi, því að landið er þegar aukaaðili að Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Menn deila um það hve stór hluti af reglum Evrópusambandsins gildi á Íslandi, en sú umræða skilar litlu. Rétt væri að segja að landið er í sambandinu á ákveðnum sviðum en ekki öðrum. Oft er tekið á móti íslenskum stjórnmálamönnum í Brussel með þeim orðum að þeir séu non-voting members, félagar án atkvæðisréttar.

Aukaaðild gefur hvorki full réttindi né fullar skyldur. Aðild er ekki varnarhjúpur sem ver lönd gegn öllu illu. Hún er heldur ekki innganga í nýtt Sovétsamband. Hér á eftir er farið yfir nokkur af þeim málefnum sem helst hefur verið talað um í sambandi við Evrópusambandið. Rétt er að minnast þess að nánast alltaf þegar Íslendingar hafa gengið í alþjóðleg samtök hafa andstæðingar aðildar talað um hve hræðileg örlög biðu þjóðarinnar. Engir af þessum spádómum hafa ræst.

 

Hvaða atriði þurfa Íslendingar að horfa á?

Nokkur atriði öðrum fremur munu hafa áhrif á afstöðu Íslendinga til Evrópusambandsins. Þau eru sjávarútvegsmál, landbúnaður, fullveldið, evran og vextir. Öll eru tekin fyrir í sérstökum greinum hér í blaðinu. Miklu máli skiptir að skoða hvaða áhrif innganga gæti haft á allt þetta. Það sem líklegast er til þess að hafa áhrif á daglegt líf flests fólks er gjaldmiðillinn, lægri vextir og meira úrval af landbúnaðarvörum á lægra verði en nú. Sjávarútvegur skiptir svo miklu í íslenska hagkerfinu að þar verður að semja þannig að allir hnútar séu tryggilega hnýttir. Sennilegt er að fjárfestingar útlendinga í íslenskum sjávarútvegi verði leyfðar, en hægt verði að setja ákveðnar hindranir til þess að tryggja að sem stærstur hluti virðisaukans verði eftir á Íslandi. Það sást til dæmis á umsögn þýska þingsins um umsókn Íslands að mikil áhersla er lögð á friðun hvala af hálfu sambandsins. Um önnur atriði er trúlegt að Íslendingar nái ásættanlegri niðurstöðu.

Styrkjakerfi Evrópusambandsins er með allt öðrum hætti en það íslenska, en reynsla Finna bendir til þess að landbúnaðarstyrkir í norðurhluta landsins séu álíka miklir og á Íslandi. Hins vegar mun samkomulag á vegum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, Doha-samkomulagið, væntanlega draga úr landbúnaðarvernd um heim allan.

Áhrif þess samnings á landbúnað yrðu miklu meiri en innganga í Evrópusambandið. Áhrif samningsins á fullveldið kæmu fram með þeim hætti að Evrópudómstóllinn hefði hér dómsvald (það er þegar fyrir hendi á ákveðnum sviðum), sambandið myndi gera viðskiptasamninga við utanaðkomandi lönd (í því geta falist betri kjör og lakari frá því sem nú er) og stofnanir sambandsins gætu sett reglur á ákveðnum sviðum sem giltu hér á landi. Á móti kemur að Íslendingar hefðu meiri tækifæri en áður til þess að hafa bein áhrif með setu á Evrópuþinginu, í framkvæmdastjórn og í ráðherraráðinu. Öll þessi atriði eru tekin fyrir í sérstökum greinum.

 

Grunngildin

Í bók sem tímaritið Economist hefur gefið út um Evrópusambandið er sagt að meginástæðan fyrir stofnun sambandsins sé Adolf Hitler. Þjóðir Austur-Evrópu flykktust í sambandið til þess að tryggja betur sjálfstæði sitt frá Rússum. Það er því af og frá sem margir andstæðingar Evrópusambandsins segja að það sé birtingarmynd alræðis í einhverri mynd.

Hugmyndin um að meginhlutverk Evrópusambandsins sé að búa til reglur um allt milli himins og jarðar er líka röng þó að vinsælt sé að tala um hinn andlitslausa skrifstofumann. Tilgangurinn er að samræma reglur og staðla, þannig að einungis þurfi að laga sig að einni reglugerð en ekki 27 eða 30 ef EES-löndin eru meðtalin.

Í raun er ES stofnað af hugsjón. Með margvíslegum hætti eru grunnstoðir sambandsins gildi sem samrýmast hugsun flestra Íslendinga afar vel og fer saman við grunngildi þeirra.

Friður. Tvisvar á tuttugustu öld hófust í Evrópu styrjaldir sem höfðu hræðilegri afleiðingar en öll þau tíðu stríð sem á undan höfðu gengið. Hugmyndin var sú að tengja fyrrum óvinaþjóðir saman slíkum böndum að stríð milli þeirra væri óhugsandi. Ekki hefur komið til vopnaskipta milli ríkja innan sambandsins á þeirri liðlega hálfu öld sem liðin er frá stofnun þess.

Frelsi. Grundvallarhugsun ES á viðskiptasviðinu er fjórfrelsið um frjálsan flutning fólks, fjármagns, vöru og þjónustu um svæðið. Með því hafa viðskipti aukist og vöruverð lækkað, öllum til hagsbóta.

Mannréttindi. Íslendingar telja flest mannréttindi svo sjálfsögð að við leiðum ekki hugann að þeim lengur. Ýmsar réttarbætur hafa þó komið til Íslands í gegnum alþjóðasamstarf en ekki að okkar eigin frumkvæði. Þessi þáttur vegur þó miklu þyngra í ýmsum ríkjum Austur-Evrópu þar sem frelsi þegnanna til orðs og æðis var lítið þangað til kommúnistastjórnirnar féllu fyrir innan við tuttugu árum. ES hefur flýtt för þessara ríkja inn í samfélag frjálsra einstaklinga.

Jafnrétti. Allir þegnar innan Evrópusambandsins eiga að hafa jafnan rétt. Þess vegna er gagnkvæm viðurkenning á menntun og starfsréttindum mjög mikilvæg og kallar auðvitað á samræmingu á grunnkröfum til margra stétta. Þetta jafnrétti sem flestir Íslendingar aðhyllast innanlands veitist þeim þó erfiðara að kyngja þegar kemur að útlendingum. Sumir Íslendingar telja sjálfsagt að þeir hafi sjálfkrafa full réttindi erlendis þó að útlendingar hafi engan rétt hér. Íslendingar mega til dæmis eiga útlend sjávarútvegsfyrirtæki en vilja ekki sjá útlenda eigendur að íslenskum fyrirtækjum.

Samræmi. Flestir þekkja það af eigin raun hve pirrandi það er að koma til útlanda og geta ekki stungið hleðslutækinu sínu í samband vegna þess að innstungur eru ekki eins og við eigum að venjast. Bandaríkjamenn nota mílur og fet í stað metrakerfisins sem við vitum að er miklu betra. Staðlar verða til þess að skilningur manna á milli eykst, þeir stuðla að hagkvæmni og auka öryggi neytenda.

Umhverfisvernd. Evrópusambandið leggur mikla áherslu á sjálfbærni og náttúruvernd. Þetta hefur haft mikið að segja í Austur-Evrópu þar sem mengun var víða mjög mikil eftir áratuga ánauð kommúnismans.

Einna lengst hefur sambandið náð með því að nota sameiginlegan gjaldmiðil, evruna. Viðskipti milli landa eru jafneinföld og milli staða innanlands. Kostnaður við gjaldmiðlaskipti hverfur og verðsamanburður er auðveldur. Gengisfellingar hafa ekki áhrif á viðskipti innan svæðisins.

Þó að mörg praktísk rök mæli með aðild Íslendinga að Evrópusambandinu eru meginrökin þau að með þátttöku er þjóðin hluti af alþjóðlegri baráttu fyrir sömu hugsjón og flestir Íslendingar berjast fyrir hér á landi.

Tags

More News