Er aðlögun að Evrópu hættuleg?

Fréttir

Evrópa

Er aðlögun að Evrópu hættuleg?

Winston Churchill kallaði eftir stofnun einskonar Bandaríkja Evrópu árið 1946 til þess að tryggja frið í álfunni til frambúðar.

Eitt af því sem talað er um vegna aðildarviðræðna Íslendinga við Evrópusambandið er að krafist sé aðlögunar Íslands að reglum þess. Ekki þarf að efast um að Íslendingar munu þurfa að laga sig að Evrópusambandinu ef samningar nást. Það gleymist hins vegar í umræðunni að þjóðin hefur verið í aðlögun að Evrópusambandinu í tuttugu ár, eftir að ákveðið var að ganga inn í Evrópska efnahagssvæðið.

Á sínum tíma upplýsti Davíð Oddsson að Íslendingar hefðu að meðaltali tekið upp eina reglugerð, lög eða tilkynningu frá Evrópusambandinu frá því að þjóðin gekk í EES. Aðlögunin er stöðug, bókstaflega á hverjum degi.

Enginn spyr um það í hverju aðlögunin nú er fólgin. Ásmundur Einar Daðason sagði í sjónvarpinu í nóvember 2010 að mestur hluti af þessari aðlögun væri ágætur. Hann nefndi reyndar engin dæmi um hið gagnstæða. En hann vildi ekki hrinda breytingunum í framkvæmd vegna þess að þær kæmu frá Evrópu. Hann mun hafa lagt til að Íslendingar tækju upp fríverslun við Bandaríkin.

 

Allt er betra en Evrópa

Á sínum tíma var annar vinstri maður, Halldór Laxness, óhræddur við að Íslendingar löguðu sig að ákveðnum siðum útlendinga. Hann vildi sem sé að þeir tækju upp á því að þvo sér og bursta tennurnar. Sem betur fer löguðum við okkur flest að þessum evrópsku siðum áður en baráttan gegn útlendum venjum komst í tísku á ný.

Joe Borg, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins, var spurður um það þegar hann kom til Íslands fyrir skömmu hvort Maltverjar hefðu ekki þurft að fara í aðlögun áður en þeir gengu í Evrópusambandið. Borg kvað það satt vera. Sérstaklega hefði margt þurft að laga í landbúnaði. Þeir hefðu ákveðið að skoða vandlega hvað það væri sem helst væri að og byrjað á breytingum sem blasti við að þeir þyrftu að gera hvort sem þeir færi í ES eða ekki. Það voru býsna mörg atriði.

„Landbúnaður er lítill hjá okkur,“ sagði Borg, „eitthvað milli eitt og tvö prósent af vergri landsframleiðslu, en það var mjög margt að. Þess vegna var þetta kærkomið tækifæri til þess að breyta hlutunum, hvernig sem aðildarumsóknin færi.“ Á Íslandi vita starfsmenn Landbúnaðarráðuneytisins ekki um hvað aðlögunin snýst, því að ráðherrann bannaði þeim að kynna sér það. Það hefur verið gagnrýnt harðlega af Bændasamtökunum að ráðuneytið beiti sér ekki af krafti í samningaviðræðunum og tefli fram færustu sérfræðingum.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er talað um að nauðsynlegt sé að bæta stjórnkerfið á Íslandi. Stjórnsýslan sé ein af meinsemdum þjóðfélagsins og nauðsynlegt sé að bæta hana. Evrópusambandið bauðst til þess að gefa okkur fjóra til fimm milljarða króna til þess að sníða ýmsa ágalla af. Einmitt það sem við þurfum að gera. Við megum velja hvað við lögum fyrst. En margir láta eins og á Íslandi er besti heimur allra heima og engu megi breyta, þó að það sé til bóta.

Landbúnaðarforystan segist ekki vilja breyta stjórnkerfi landbúnaðarins. Kannski er það vegna þess að þá missir hún spón úr aski sínum. Starfsmenn Bændasamtakanna eru um 60, miklu fleiri en hjá sambærilegum hagsmunasamtökum sem vinna fyrir mun stærri stéttir.

Íslendingum buðust styrkir frá Evrópusambandinu til þess að gera umbætur á stjórnkerfi sínu. Jafnvel umbætur sem falla undir EES-samninginn. Þegar utanríkisráðherra lýsti því yfir sumarið 2013 að hann hygðist ekki halda áfram viðræðunum hættu þessir styrkir sem námu um einum og hálfum milljarði króna.

Sumir þeir sem hæst tala um hve dýrt umsóknarferlið sé eru jafnframt harðastir á því að þiggja ekki styrki til þess að gera það sem yrði þjóðinni til framdráttar. Í raun eru menn að hafna fundnu fé, því að flestar breytingarnar verða eflaust gerðar hvort sem er, því að íslenska stjórnsýslan er gölluð um svo margt eins og menn urðu áþreifanlega varir við í hruninu. Þess vegna væri rétt að fagna aðlögunarferlinu sem umbótaferli.

Úr jólablaði Vísbendingar árið 2010, örlítið breytt.

Tags

More News