Fiskimið og aðrar auðlindir í samningum við Evrópusambandið

Fréttir

Evrópa

Fiskimið og aðrar auðlindir í samningum við Evrópusambandið

Íslendingar hefðu einir rétt til þess að veiða við Ísland og ráða fiskveiðstjórnarkerfinu sjálfir.

Eitt af því sem mestu máli skiptir varð andi aðildarumræðuna er eignarhald á auðlindum. Hér er rétt að átta sig á því að almennt gilda ekki sérreglur um auð- lindir þannig að lönd missi yfir þeim yfirráð við það að ganga í Evrópusambandið. Þannig ráða Pólverjar og Þjóðverjar einir yfir sínum kolanámum og Bretar eiga sínar olíulindir á Norðursjó. Það er því afar villandi að tala um sameiginlega auðlindastefnu. Orðalagið á aðeins við um sjávarútveginn.

Satt að segja eru Evrópureglurnar um orkulindir þegar komnar inn í íslenska löggjöf að langmestu leyti. Ekki er að efa að mörgu mislíkar það að útlendingar geti keypt yfirráð yfir raforku- eða jarðvarma. Engu að síður er það staðreynd að það er hægt nú þegar vegna EES-samningsins og útlendingar gátu keypt hlut í jarðhita á Suðurnesjum.

Hér á eftir verður eingöngu fjallað um sjávarútveg og fiskimið, vegna þess að Íslendingar hafa tekið upp reglur um aðrar auðlindir.

 

Sjávarútvegur

Ástæðan fyrir því að sjávarútvegsstefnan er sameiginleg er sú að fiskurinn syndir um og er því hreyfanleg auðlind. Strandlengja Evrópuríkjanna er sameiginleg en fiskarnir vita ekki vel hvort þeir eru staddir í danskri eða hollenskri lögsögu. Ef önnur þjóðin ákvæði að veiða botnlaust sín megin við línuna meðan hin vildi hlífa fiskimiðum er ljóst að það leiddi fljótlega til ófarnaðar. Þess vegna hafa ríkin mótað sameiginlega stefnu í því skyni að vernda fiskistofna.

Skemmst er frá því að segja að þetta hefur ekki tekist vel. Vegna þess að stjórnmálamenn hafa haft endanlegt vald yfir málaflokknum hefur ekki verið farið að ráðum fiskifræðinga og ofveiði hefur gengið nærri mörgum stofnum. Hér er því sami vandi á ferðinni og Íslendingar kannast við frá fyrri árum, horft er til skammtímasjónarmiða í stað þess að líta til lengri tíma uppbyggingar. Auk þess er litið á fiskveiðar sem atvinnubótavinnu og þær njóta víða ríkisstyrkja.

Nú stendur yfir endurskoðun á fiskveiðistefnu sambandsins og margir fulltrúar þess hafa komið til Íslands, því að þeir telja að Íslendingum hafi tekist mun betur til við um verndina. Ef Íslendingar ganga í Evrópusambandið yrðu þeir langstærsta fiskveiðiþjóðin innan þess með um 30% hlutdeild í heildarafla þess. Spánverjar yrðu aðeins hálfdrættingar á við Íslendinga. Auk þess er staða fiskveiða á Íslandi mjög óvenjuleg að því leyti, að hér er sjávarfang um 40% af útflutningi og greinin er rekin sem arðbær atvinnuvegur án styrkja. Því er það eðlilegt að Íslendingar séu varir um sig gagnvart breytingum á þessu sviði.

En á sama tíma var uppi sú þverstæðukennda staða að Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra, sem mest sagðist vera á móti Evrópusambandinu, vildi breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu í átt að því sem verst hefur farið með evrópska fiskistofna.

Þær fréttir hafa nú borist að sambandið vilji auka sjálfstjórn á einstökum veiðisvæðum. Þetta ákvæði er greinilega skraddarasaumað fyrir Ísland sem er fjarri öðrum Evrópulöndum. Á þetta þarf auðvitað að láta reyna í samningaviðræðum. Hugsanlegt er að Evrópusambandsandstæðingar óttist að í slíkum viðræðum kæmi fram að Íslendingar fengju sínum kröfum framgengt og þess vegna vilji þeir ekki láta á þær reyna.

 

Útlendingar fá ekki aðgang að fiskimiðunum

Mörgum finnst réttilega að Íslendingar hafi til lítils lagt á sig erfiði við útfærslu landhelginnar og umdeilt kvótakerfi með víðtækum takmörkunum ef fiskimiðin verða svo afhent útlendingum á silfurbakka. Sem betur fer mun enginn útlendur togari fá rétt til þess að veiða á Íslandsmiðum þó að Ísland gengi í Evrópusambandið. Svonefnd regla um hlutfallslegan stöðugleika byggir á því að miðað er við reynslu undangenginna ára þegar kvótum á einstökum svæðum er úthlutað. Vegna þess að Íslendingar hafa veitt nánast einir innan 200 mílna undanfarin þrjátíu ár fengju þeir allan kvótann samkvæmt þessari reglu.

Þetta kemur mörgum á óvart en er engu að síður staðreynd. Þá vaknar spurningin um það hvort þessi regla haldi eða hvort Evrópusambandið gæti breytt henni einhliða. Ekkert dæmi er um að slíkar meginbreytingar hafi verið gerðar innan Evrópusambandsins nema í sátt við þau aðildarríki sem hafa verulegra hagsmuna að gæta. Vegna þess hve mikilvæg reglan er ættu Íslendingar engu að síður að leggja megináherslu á að festa hana í aðildarsamningi sínum. Vegna þess að samningurinn er svo lagður fyrir þjóðþing allra 28 landanna hefur hann sama gildi og stofnsamningurinn, þegar hann hefur verið samþykktur í þeim öllum.

 

Evrópa ræður ekki úthlutunarkerfinu

Það hefur verið mörgum þyrnir í augum að ráðherraráð Evrópusambandsins tekur ákvörðun um leyfilegan hámarksafla aðildarríkjanna á grundvelli tillagna frá framkvæmdastjórninni. Hún byggir sínar tillögur á ráðleggingum nefndar sem í sitja vísindamenn aðildarríkjanna. Framkvæmdastjórnin getur einnig leitað eftir ráðgjöf frá sérstökum svæðisbundnum ráðgjafaráðum.

Hættan við pólitíska úthlutun af þessu tagi er að farið sé fram úr tillögum vísindamanna, aðallega á grundvelli félags- og efnahagslegra ástæðna. Íslendingar þekkja það af eigin raun að pólitískir sjávarútvegsráðherrar hafa sumir látið skammtímasjónarmið lita afstöðu sína. Eðlilegt er að Íslendingar geri kröfu um að notuð verði ákveðin úthlutunarregla sem styðst m.a. við ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar eins og sjávarútvegsráðherra gerir nú.

Nefnt hefur verið að fiskveiðiárið á Íslandi er frá 1. september til 31. ágúst meðan Evrópuþjóðir hafa miðað við almanaksárið, sem geti hentað okkur síður. Einnig hefur verið á það bent að stundum er fiskveiðiheimildum úthlutað með skömmum fyrirvara, til dæmis á loðnuvertíðum. Þetta eru tæknileg atriði sem ættu ekki að vefjast fyrir samningamönnum, en þarf auðvitað að gæta að.

 

Fjárfestingar útlendinga

Til skamms tíma töldu margir að útlendingar mættu ekki eiga hlut í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Nýlegt mál varð til þess að upplýst hefur verið að 49% hlutdeild útlendinga er leyfileg. Spurningin snýst því ekki lengur um hvort útlendingar megi fjárfesta í sjávarútvegi á Íslandi heldur hvort þeir megi eiga meirihluta í útgerðarfyrirtækjum.

Ólíklegt virðist að hægt yrði að viðhalda banni við eign útlendinga á sjávarútvegsfyrirtækjum ef Ísland gengi í Evrópusambandið, en hugsanlega væri þó hægt að halda þeim tímabundið, auk þess sem hægt væri að setja ákveðin skilyrði um efnahagsleg tengsl við Ísland.

Bretar hafa sett eftirfarandi reglur gegn því sem nefnt er „kvótahopp“ eða tilflutningur á aflaheimildum milli ríkja:

1. Landa þarf a.m.k. 50% aflans í Bretlandi.

2. Að minnsta kosti 50% áhafnar þurfa venjulega að vera búsett á bresku strandsvæði.

3. Verulegur hluti útgjalda útgerðar skips þarf að eiga sér stað á bresku strandsvæði.

4. Sýna þarf fram á efnahagsleg tengsl með öðrum hætti (m.a. með samsetningu framangreindra þátta), til hagsbóta fyrir íbúa sem háðir eru fiskveiðum og tengdum greinum.

Þessar reglur hafa verið samþykktar af Evrópusambandinu og má því ætla að sambærilegar reglur væri hægt að setja hér á landi til þess að hindra flutning kvótans til annarra ríkja.

Einnig hefur verið bent á að Danir hafa sett skilyrði um a.m.k. eins árs búsetu í Danmörku áður en menn mega kaupa.

Þess ber þó að geta að útgerðarmenn eru ekki endilega allir sammála um að bann við meirihlutaeigu útlendinga eigi áfram að gilda. Ef útlendingar mega kaupa hlutabréf í íslenskum útgerðum er fleiri kaupendum til að dreifa.

Vegna þess að á Íslandi er útgerð alvöruatvinnugrein en ekki félagsleg starfsemi gætu Íslendingar sett fram það skilyrði í samningaviðræðum að fyrirtæki frá þjóðum þar sem ríkið styrkir sjávarútveginn mættu ekki fjárfesta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Að hinu ber þó að huga að vegna þess að íslenskur sjávarútvegur hefur verið rekinn með arðsemissjónarmið í huga er miklu líklegra að íslensk fyrirtæki vilji og geti keypt fyrirtæki í öðrum löndum Evrópu en öfugt. Um það eru reyndar mörg dæmi og ekki er kunnugt um að íslenskir eigendur kveinki sér undan vistinni innan Evrópusambandsins.

 

Deili- og flökkustofnar

Makríll er dæmi um fisk sem nýlega hefur vanið komur sínar á Íslandsmið. Íslendingar hafa veitt hann af miklum móð til þess að öðlast veiðireynslu í samningaviðræðum við Evrópumenn, Norðmenn og Færeyinga. Sumir hafa talið að þessir nágrannar okkar hafi sýnt mikla óbilgirni í samningum. Samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland er þegar aðili að hefur landið skuldbundið sig til þess að semja um veiði úr stofnum sem flakka eða skiptast milli fleiri en einnar lögsögu. Það gildir bæði um makríl, kolmunna og aðrar tegundir. Reyndin varð hins vegar sú að þegar framangreindir þrír aðilar gerðu með sér samning um skiptingu kvótans síðastliðið vor voru Íslendingar hafðir útundan. Íslenski ráðherrann þorði ekki að semja og sat á endanum eftir einn án samnings.

Engin ástæða er til þess að ætla að breytingar hætti í sjávarríkinu þó að Íslendingar gangi í Evrópusambandið. Um fiskistofna verða því áfram deilur. En vegna þess að lífríki sjávar er síkvikt er mikil ástæða til þess að Íslendingar styrki stöðu sína og tryggi, því að hvað gera Íslendingar t.d. ef þorskurinn færir sig til? Að öllu þessu þarf að hyggja í samningaviðræðunum við Evrópusambandið. Inni í sambandinu hefði samningsstaða Íslendinga hins vegar styrkst gagnvart Norðmönnum sem hafa jafnan þótt afar harðir í horn að taka í samningum.

Loks er rétt að víkja að hvalveiðum. Bann við hvalveiðum virðist vera það sem mörgum Evrópumönnum er heilagast, þó að Íslendingar viti flestir vel að margir hvalastofnar eru svo sterkir að þeim er engin hætta búin af þeim litlu veiðum sem héðan eru stundaðar. Þetta kann að verða erfiðasta málið gagnvart Evrópusambandinu og það sem flestir búast við að árangur verði lítill.

Þessi grein birtist að stofni til í jólablaði Vísbendingar fyrir fjórum árum. Er yfirfarin í ljósi þess sem síðar hefur gerst.

Tags