Brýnt að vextir banka lækki

Fréttir

Viðskipti og efnahagsmál

Brýnt að vextir banka lækki

Eftir Jón G. Hauksson

Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu og framkvæmdastjóri hjá Deloitte.

Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu og framkvæmdastjóri hjá Deloitte, er bjartsýn á horfurnar í atvinnulífinu á árinu. Hún telur hins vegar brýnt að vextir banka lækki. Líkt og margir aðrir óttast hún afleiðingarnar komi til harðra verkfalla á næstunni. Í áramótablaði Frjálsrar verslunar sagðist hún jafnframt bjartsýn á að fjármagnshöftin verði afnumin í áföngum og að fyrstu alvöru skrefin í þeim efnum verði tekin á árinu.

Hugmyndir eru uppi um að setja á svonefndan útgönguskatt í tengslum við afnám hafta – hvernig líst þér á þá leið?

– Mikilvægast er að sátt náist við kröfuhafana um framkvæmdina.

Hvað heppnaðist best á árinu 2014 og hverjar eru horfurnar á árinu 2015.

– Sem formaður Samtaka verslunar og þjónustu get ég ekki annað en nefnt niðurfellingu á almennum vörugjöldum, sem er gríðarlegt framfaraspor til einföldunar á kerfinu, og fríverslunarsamninginn við Kína, sem þarfnast þó aðeins lagfæringar. Sáttin á vinnumarkaði á milli ASÍ og SA sem leiddi til mun meiri hagvaxtar en áætlanir gerðu ráð fyrir sem koma öllum til góða. Það er ekki hægt annað en að nefna einnig skuldaleiðréttinguna, hvaða skoðun sem menn hafa á henni, þá gekk framkvæmdin ótrúlega vel. Horfurnar eru góðar en ég hef þó áhyggjur af kjarasamningum miðað við yfirlýsingar. Ef afnám hafta gengur vel er ég virkilega bjartsýn.

Hvaða mistök voru gerð í efnahagsstjórninni á árinu 2014?

- Mistök er ansi sterkt orð en það sem ég hefði viljað sjá á síðasta ári er lækkun á álögum á atvinnulífið s.s. að lækkun tryggingargjalds haldist í hendur við lækkun á atvinnuleysi. Vextir þurfa að lækka mun meira til hagsbóta fyrir heimilin og fyrirtækin.

 

More News

Pages