Dómar um fjórar bækur um konur

Fréttir

Bókardómar

Gagnrýni

Dómar um fjórar bækur um konur

Cheryl Strayed: Villt, þýðandi Elísa Jóhannsdóttir, Salka 2014.

Ófeigur Sigurðsson: Öræfi, Mál og menning 2014.

Steinar Bragi: Kata, Mál og menning 2014

Steinunn Sigurðardóttir: Gæðakonur, Bjartur 2014.

 

Nokkrar af vinsælustu og mest lesnu bókum síðasta árs fjölluðu um konur sem stefna hátt upp á jökla og fjallgarða og þær þrá að skrifa, rannsaka, skrá og kynnast sjálfum sér. Þær lenda í háska og vilja hefna óhæfuverka og sumar láta verða af því og allar ná sáttum við sjálfar sig og finna fegurð og kraft.

Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson er svolítið í Heljarslóðarorrustustíl, grátlega fyndin og óvenjuleg. Sagan sækir efnisþræði í ferðabækur og landkostalýsingar en vísar í nútímann og náttúruna sem við búum í og meðhöndlum óvarlega. Öræfi eru hættuslóð, ekki síst sögukonunnar í fyrsta hluta bókarinnar, Dr. Lassi, en um leið frábær skemmtun.

María Hólm í Gæðakonum Steinunnar Sigurðardóttur er vísindakona sem rannsakar ekki aðeins hæstu og heitustu eldstöð landsins heldur glímir við sprungur og háhitasvæði mannlegra samskipta í klofnu og öfgafullu samferðafólki. Hún leitar að sjálfri sér rétt eins og Cheryl Strayed í Villt, sjálfsævisögulegri göngulýsingu ungrar amerískrar konu um fjallshrygginn háa, Kambaslóð, sem liggur upp af Kyrrahafsströnd N-Ameríku. Og allar burðast með gríðarlegan farangur í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.

Kata Steinars Braga er ægileg aflestrar, sálfræðileg glæpasaga og umfjöllunarefnið er ofbeldi og viðbrögð við dauða. Fléttan er ekki reyfarakennd heldur víðfeðm og nær djúpt inn í sálarlíf móður sem missir dóttur. Ef til vill langar lesandann ekki að vita þetta allt en Steinar Bragi togar hann áfram og höfðar til réttlætiskenndar og siðferðisvitundar hans og leiðir hann örugglega áfram við lesturinn.

Brýnar spurningar vakna. Af hverju eru konur í þessum bókum í svo mikilli hættu staddar? Hvernig getum við búið í mannfélagi sem hlýtur svo harða en um leið sanngjarna gagnrýni? Sálarháski og lífsháski persónanna endurspeglar samfélagið; þeim og heiminum nánast öllum er voðinn vís. Hvernig komumst við af? Hvar týnum við sjálfum okkur og hvar finnumst við á ný? Hvernig er hægt að sætta sig við sorg og missi án þess að farast sjálf?

Sumt er dregið sterkum litum, annað skissað hratt; ef einhver er góður eða bara hlutlaus er hann ekki í liðinu, hugur hans til persónanna telst varla gildur og hann verður grunsamlegur eins og eiginmaður Kötu eða nær ekki að kalla fram góðar kenndir eins og eiginmaður Cheryl í Villt, þeir hrinda konunum frekar frá sér önugir eins og maður Maríu Hólm eða stendur bara dauf í bakgrunni eins og kona dr. Lassi. 

Nokkrir góðir menn og konur standa hjá og hafast ekki að og myrku öflin leika lausum hala meðan nær væri að vinna að sameiginlegum réttlætismálum.Illmennin í bókunum skynja sig varla sem illmenni. Þau upplifa rétt sinn til langana sinna og finna styrk gegn minnimáttar og ógna og hóta ófeimnir. Og svo verður dauðans alvara úr öllu saman. Fálæti, kauðska, klaufska, fautaskapur og voðaverk. Vald og misbeiting þess eru meðal viðfangsefna allra bókanna fjögurra og við bætist svo sinnuleysi og uppgjöf þeirra sem gætu rétt hjálparhönd.

Og hvert stefnir þetta allt saman? Er gott að leita svölunar og lausna í að skrifa um allt, bjarga öllu, skýra allt, sætta allt sárt og súrt með góðu og illu í stóru alheimsmyndinni eins og dr. Lassi? Eða þræða hæstu tinda Kyrrahafsstrandar, Kambaslóðina, þar sem verstu hætturnar eru í mannsmynd og sleppa svo kannski bara fyrir heppni? Er hægt að kanna dýpstu rök jarðar og lifa í einhvers konar sátt eða þarf að rífa og slíta allt af sér og uppræta illskuna með berum höndum eins og Kata gerir. Verður konum þá óhætt og eiga þær frjálsa för þangað sem hugurinn stefnir?

Í lok Villt er  Cheryl Strayed heil á ný eftir 1770 km göngu um fjöll og firnindi með ómanneskjulega þungan farangur í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Hún er sterk og heil eftir samvistir við sjálfa sig, fjöllin, náttúruna og samferðafólkið. Áreiti og ofbeldishótanir ókræsilegra karla sem á vegi hennar verða eru í skýrum hlutföllum í heimsmynd hennar, bara brot af öllu, annað er stórt og gott og fagurt.

Kynbundið ofbeldi er stærsta vandamál okkar tíma segir Kata, hún vill vernd, refsingu og systralag. Og konur rísa upp og nefna samtök eftir henni og taka til örþrifaráða í samfélagi sem veitir þeim ekki sjálfsagðan rétt til öryggis. Frjókorn réttlátrar reiði dreifast og þau berast um allt með bók eins og Kötu sem er ægileg en um leið gegnheil og gangleg.

 „Sólin var komin hátt á himin í suðaustri yfir friðsælum jöklinum,“ skrifar dr. Lassi, skrifar Ófeigur Sigurðsson í Öræfum, les ég í flugvél hátt yfir Íslandi. Dr. Lassi leggur af stað út í nýtt upphaf og tíðindaleysi hversdagsins. Og hún sér fegurðina í náttúrunni og friðinn og virðist sátt við að hlé sé nú á hamförum mannlegs lífs og manngerðar ógnir við lifandi og dauða náttúru hafa stöðvast um stund.

María Hólm, eldfjallafræðingurinn í Gæðakonum, horfir á jökulinn út um gluggann á Brunasandi og sér með innri augum að ófætt barnið muni vaxa og dafna og skoða dýrð heimsins sem birtist í ljóma Vatnajökuls. Og hún vill ekki frekar en stöllur hennar í öðrum bókum í þessum pistli gefast upp á ástinni og mannfólkinu og landinu.

Solveig K. Jónsdóttir

Tags

More News