Bjarni um ESB í Frjálsri verslun

Fréttir

Bjarni um ESB í Frjálsri verslun

Bjarni Benediktsson ræðir um ríkisstjórnarsamstarfið, ESB, stöðu Sjálfstæðisflokksins, afnám fjármagnshaftanna, Hönnu Birnu og fjölmörg önnur mál í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar. Mynd: Geir Ólafsson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er spurður út í Evrópusambandið í hinu efnismikla forsíðuviðtali í Frjálsri verslun. Mikil umræða hefur verið um Evrópusambandið í þessari viku. Það var meðal annars rætt á aðalfundi Samtaka iðnaðarins og þá hefur Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, verið í eldlínunni vegna þess.

Spurning FV til Bjarna: 

Síðasta ríkisstjórn gerði hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið skömmu fyrir kosningar 2013 og þær hafa legið í salti síðan. Ísland er ekki á lista Evrópusambandsins yfir ríki sem tekin verði inn á næstu fimm árum. Þið hafið boðað að umsóknin verði formlega dregin til baka. Er skynsamlegt af ykkur að efna á ný til óvinafagnaðar um þetta mál – ekki síst vegna orða ykkar sjálfstæðismanna sem féllu í kosningabaráttunni um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðilarviðræðnanna?

Stefna ríkisstjórnarinnar hvað varðar aðild að Evrópusambandinu er skýr. Stjórnarflokkarnir eru á móti aðild að sambandinu. Það lá fyrir í kosningabaráttunni og duldist engum kjósanda. Það á að vera hægt að taka af skarið í jafnstóru máli þegar báðir flokkarnir eru algerlega sammála um stefnuna.

Ríkisstjórnin hefur unnið þetta mál faglega. Hún ákvað að gefa sér tíma til að gera úttekt á stöðunni og gangi samningaviðræðnanna; eins og samningsmarkmiðum og á hverju hefði steytt í viðræðunum. Þess vegna var óskað eftir því að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands ynni skýrslu. Í henni kemur fram að t.d. sjávarútvegskaflinn var aldrei opnaður og þrátt fyrir ósk þar um árið 2011 lagði Evrópusambandið ekki fram samningsmarkmið sín – enda liggja þau í sjálfu sér þegar fyrir og um þau er ekki samið. Hvernig getur staðið á því að þetta stórmál síðustu ríkisstjónar var ekki komið lengra eftir næstum fjögurra ára viðræður við Evrópusambandið?

Mér finnst margt standast illa í umræðunni um að við ætlum að draga umsóknina til baka. Í fyrsta lagi er því haldið fram að við höfum ákveðnar skyldur, m.a. í ljósi þess sem ég hafði sagt í aðdraganda síðustu kosninga um að ég væri opinn fyrir því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Þeir sem halda þessu fram eru fyrst og fremst þeir sem eru ákafastir í því að ganga í Evrópusambandið. Margir í þessum hópi nefna sig reyndar viðræðusinna. Svo eru þeir til sem einfaldlega vilja gera ríkisstjórninni erfitt fyrir og kannski í leiðinni að reyna að finna höggstað á mér. Þeir horfa fram hjá því sem ég hef sagt á öllum landsfundum Sjálfstæðisflokksins frá því að ég var fyrst kjörinn á þing og á flokksráðsfundum, nú síðast í haust. Þeir horfa algjörlega fram hjá því sem ég sagði um tengsl Íslands og Evrópusambandsins fyrir síðustu kosningar og líka hvað ég gerði þegar tillagan um að ganga í Evrópusambandið kom fram á þingi, en ég greiddi atkvæði gegn henni. Við lögðum þá til að hin stóra ákvörðun um umsókn yrði borin undir þjóðina. Það var ekki gert.

EES-samingurinn hefur reynst okkur farsæll þótt við getum eflaust gert betur í framkvæmd hans. Hann veitir okkur aðgang að stórum innri markaði og því fjórfrelsi í atvinnulífi og viðskiptum á efnahagssvæðinu sem þar er. Út á það gengur EES-samningurinn. Það er sá kjarni í utanríkisstefnunni sem við viljum halda í. Mikill meirihluti þjóðarinnar er þessari stefnu sammála og andvígur því að ganga í Evrópusambandið og kemur það fram í hverri könnuninni af annarri.

Mér finnst málið tiltölulega einfalt. Ef gera á meiriháttar breytingu á utanríkisstefnunni gagnvart Evrópusambandinu, t.d. að byggja þetta samband ekki á EES-samningnum lengur, heldur ganga í Evrópusambandið, þarf að leita til þjóðarinnar. Þegar ekki er vilji hjá ríkisstjórninni til að gera þá breytingu á utanríkisstefnunni heldur að byggja áfram á EES-samningnum finnst mér þörfin á að bera þá ákvörðun undir þjóðina ekki fyrir hendi.

Ekkert af þessu breytir samt því að ég hef haft áhuga á að fylgja eftir þeirri þróun sem kannski fór fyrst af stað á sveitarstjórnarstiginu og síðan á grundvelli 26. greinar stjórnarskrárinnar um þróun á beinu lýðræði á Íslandi. Þar vegur þyngst að mér finnst óviðunandi að forseti Íslands hafi það í hendi sér að ákveða hvenær lög frá þinginu ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu og hvenær ekki. Að það sé á valdi eins manns að ákveða hvenær lögum sé skotið til þjóðarinnar. Þá ákvörðun vil ég færa út til fjöldans. Ég er þannig almennt hlynntur því að styrkja beint lýðræði en í tilfelli framhalds á ESB-viðræðum, sem við erum á móti, eru hvorki nægileg rök fyrir því út frá markmiðinu um óbreytta utanríkisstefnu né vilji til þess – og hvað þá að okkur beri skylda til þess.

Síðasta ríkisstjórn, sem hóf ESB-málið og sótti um aðild, gerði sjálf hlé á viðræðum í byrjun ársins 2013 skömmu áður en kosningabaráttan hófst þótt þetta hefði verið eitt helsta mál hennar allt kjörtímabilið. Segir það ekki talsvert um árangurinn í viðræðunum? Frá þeim tíma hefur það gerst að samninganefndir hafa verið leystar upp, lög beggja samningsaðila hafa tekið breytingum og Evrópusambandið sjálft hefur tekið miklum breytingum. Komi fram vilji til að halda viðræðunum áfram erum við hvort sem er á byrjunarreit. Það að draga umsókina til baka er því ekki jafnstór ákvörðun og menn láta í veðri vaka. Það er miklu frekar formsatriði og afdráttarlaus yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um stöðu málsins; að við séum ekki lengur umsóknarríki.

Óttastu að Sjálfstæðisflokkurinn skaðist af málinu í næstu þingkosningum ef þið dragið aðildarumsóknina formlega til baka?

Það er stefna flokksins að halda sig utan Evrópusambandsins. Ég fæ ekki séð hvernig það að fylgja stefnunni á að koma okkur í koll.