Gengisstefna eftir höft

Fréttir

Gengisstefna eftir höft

Ragnar Árnason

Ragnar Árnason, prófessor við HÍ og fastur álitsgjafi Frjálsrar verslunar.Mynd: Geir Ólafsson

Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og fastur álitsgjafi við Frjálsa verslun, fjallar í nýjasta tölublaðinu um líklega gengisstefnu eftir að höftin verða afnumin. Hann segir að ef marka megi loforð stjórnvalda þá líði nú að afnámi gjaldeyrishafta og eðlilegt sé að spurt sé hvert fyrirkomulag gengismála eigi að vera þegar þau eru horfin.

„Eftir afnám gjaldeyrishafta eru í rauninni aðeins þrjár gegnisstefnur hugsanlegar. Í fyrsta lagi er það fast gengi þar sem Seðlabankinn eða annar opinber aðili ákvarðar gengið. Í öðru lagi er það fljótandi gengi þar sem gengi krónunnar ákvarðast af markaðnum á hverjum tíma og í þriðja lagi er það seigfljótandi gengi þar sem gengið ákvarðast í megindráttum af markaðnum en Seðlabankinn freistar þess að draga úr flökti þess með viðskiptum á gjaldeyrismarkaði.“

Ragnar segir að vert sé að veita því eftirtekt að þessar þrjár gengisstefnur eru í rauninni mismunandi staðsetning á ási opinberra afskipta af gengi krónunnar.

„Stefnan varðandi fast gengi er það jaðartilfelli þar sem hið opinbera freistar þess að ákvarða gengið í eitt skipti fyrir öll. Stefna fljótandi gengis er hitt jaðartilfellið þar sem ekki er um nein opinber afskipti að ræða. Stefna varðandi seigfljótandi gengi er allt þar á milli.“

Ragnar segir að ekki þurfi langa umhugsun til að sjá að stefna fasts gengis er ekki möguleg í reynd. „Aðstæður í hagkerfinu eru síbreytilegar. Til að endurspegla þá staðreynd þarf gengið eins og annað verð að vera breytilegt. Ef ekki, myndast umframframboð eða -eftirspurn eftir gjaldeyri sem er bæði skaðlegt og kallar fyrr eða síðar á gengisleiðréttingu sem oftar en ekki er þá veruleg.

Stefna varðandi fljótandi gengi er mögulegt í reynd en myndi við íslenskar aðstæður, þar sem myntin er smá og mörg gjaldmiðilsviðskipti stór að tiltölu, þýða verulegt gengisflökt. Slíkt flökt eykur óvissu innflytjenda og útflytjenda og er því skaðlegt.

Þriðja leiðin, seigfljótandi gengi, er því sú gengisstefna sem vænlegust er. Sá böggull fylgir hins vegar skammrifi að stefna seigfljótandi gengis er ekki auðveld í framkvæmd. Vandinn tengist því að draga úr flökti án þess að hafa áhrif á leitni. Bæði er þetta erfitt tæknilegt viðfangsefni og svo er ástæða til að óttast að sá opinberi aðili sem þetta verkefni fær freistist til að reyna að hafa áhrif á leitni gengisins og þróast þannig í átt að stefnu fasts gengis sem ekki getur gengið upp til lengdar.“