Það sem Churchill kenndi okkur

Fréttir

Það sem Churchill kenndi okkur

Víða um heim er nú haldið upp á hálfrar aldar ártíð Winstons Churchills en hann lést 24. janúar 1965.

Thomas Möller, framkvæmdastjóri Rýmis og fastur álitsgjafi í Frjálsri verslun, fjallar um það í nýjasta tölublaðinu hvað Churchill kenndi okkur. Víða um heim er nú haldið upp á hálfrar aldar ártíð Winstons Churchills en hann lést 24. janúar 1965. Hann er af mörgum talinn öflugasti leiðtogi síðustu aldar og sá stjórnmálamaður sem hafði hvað mest áhrif á gang mála á öldinni.

Thomas bendir á fróðlega grein á netinun sem heitir „7 Leadership Lessons from the Life of Winston Churchill“ og hvetur hann alla stjórnendur til að „gúgla“ og lesa þessa góðu grein.

„Stjórnendur í dag geta dregið margvíslegan lærdóm af leiðtoganum Winston, meðal annars í tengslum við hvað hann lagði mikla áherslu á persónuleg samskipti og maður-á-mann-fundi. Hann ferðaðist um heiminn allan til að hitta bandamenn sína, líka á stríðstímum þegar ferðalög voru mjög hættuleg. Sem dæmi þá ferðaðist hann með flugvél í þrjá daga til að komast til Moskvu, gegnum Afríku, til að fá nokkurra klukkustunda fund með Stalín. Winston lagði einnig ríka áherslu á að hitta undirmenn í herfylkjum til að fá sem heiðarlegastar, gleggstar og óbrenglaðar upplýsingar um stöðu mála. Þetta heitir í dag „management by walking around.

„Winston lagði líka áherslu á að öguð vinnubrögð, góð stjórnunarhæfni og skýr persónuleg gildi einkenndu góðan stjórnanda. Hann refsaði aldrei fyrir rangar ákvarðanir heldur leit á þær sem lærdóm. Og hann vildi athafnamenn sem stjórnendur. Hann sagði: „I never worry about action, but only inaction.“ Mikilvæg minnisblöð með fyrirmælum voru merkt með rauðum miða sem hann heftaði á forsíðuna með skilaboðunum: ACTION THIS DAY! Hann lagði áherslu á skýran fókus og góðan undirbúning allra ákvarðana og síðan skjóta og fumlausa framkvæmd þeirra. Winston hafði mikla sjálfstjórn og lagði áherslu á að halda vel utan um alla samninga sem hann gerði og fylgja þeim eftir þannig að við þá væri staðið,“ segir Thomas Möller.