Í sannleika sagt

Fréttir

Stjórnmál

Í sannleika sagt

Fyrir sex árum birtist greinin hér á eftir í Vísbendingu. Þá var stutt í kosningar og markmiðið var að hvetja menn til þess að hafa vara á sér gagnvart stjórnmálamönnum á þessum tíma. Það er ágætt að rifja hana upp öðru hvoru:

Innan fárra daga gengur þjóðin að kjörborðinu. Flestir búast við því að nú fari í hönd þeir dagar þar sem margir tiltölulega heiðarlegir menn fara vísvitandi með ósannindi. Því miður er tiltrú almennings á stjórnmálamönnum afar lítil og ekki að ástæðulausu. Þeir segja að sjálfsögðu ekki alltaf ósatt, en þegar menn eru ósammála um flestar staðreyndir, jafnvel í einföldum málum er ljóst að þeir geta ekki allir sagt satt. Lygina er hægt að gera að vísindagrein eins og svo margt annað. Jósep Göbbels áróðursmálaráðherra Hitlers náði afburðatökum á henni. Hér er þó fjallað um lygina fyrst og fremst til þess að lesendur geti varast hana.

Hinar ýmsu myndir blekkinga

Áður hefur verið fjallað í Vísbendingu um bókina Liar’s Pardise eftir Graham Edmonds. (Sjá 9. tbl. 2007). Nú verða skoðaðar sérstaklega hinar ýmsu tegundir lyginnar sem kynntar eru í bókinni.

Hvít lygi. Sett fram til þess að hlífa viðmælandanum. „Mikið ertu vel klipptur.“ „Þetta var skemmtileg saga.“

Skrök. Smálygi. Til dæmis þegar fólk sem er með stúdentspróf segist tala dönsku vel eða skrifa frönsku reiprennandi..

Gróf lygi. Oft sett fram í örvæntingu eða til þess að fela mistök, annað hvort hjá sjálfum sér eða vini sínum. „Ég man ekki eftir því að hann hafi dottið í laugina í jakkafötunum.“ Eða: „Ég veit ekki hver borgaði fyrir þessa veiðiferð.“

Þvaður. Blanda af ósannindunum hér á undan þar sem bætt er við blekkingum til þess að gefa fegraða mynd. Þeim hefur oft verið beitt í bókhaldi fyrirtækja til þess að láta hlutina líta betur út en þeir gera í raun og veru.

Pólitísk sjónhverfing. Af sama toga og þvaðrið, en bætt við ákveðinni fágun sem menn í viðskiptum hafa oft ekki. Tvöfalt siðgæði er talið sjálfsagt og hiklaust logið að trúgjörnum fjölmiðlamönnum.

Glæpsamleg lygi. Undir þetta falla falsanir og svindl og tilraunir til þess að fela slóðina. Watergate-hneykslið er eitt frægasta dæmið þar sem lygasamsærið eftir glæpinn varð mönnum að falli.

Stóra lygin. Þetta var sérgrein Dr. Göbbels á sínum tíma. Með því að endurtaka stóru lygina nógu oft varð hún sannleikur vegna þess að enginn treysti sér til þess að efast um hana. Af svipuðu tagi var trúin á útrásina á Íslandi. Hver á fætur öðrum dásamaði útrásarvíkingana, sem voru stórkostlegir vegna þess að allir trúðu því að þeir væru það.

Hvers vegna er svona auðvelt að ljúga?

Aðstæður skipta lygarann miklu. Stundum vilja menn láta ljúga að sér. Til dæmis þegar sögð er gamansaga eða mönnum er hrósað af litlu tilefni. En stundum eru aðstæður betri til ósanninda en venjulega. Tökum dæmi:

Umhverfið. Ef áheyrendur þekkja ekki þann sem talar, til dæmis ef hann er útlendingur, er líklegt að hann eigi auðveldara með að halda fram einhverju fjarstæðukenndu en sá sem menn þekkja vel. Menn eiga flestir erfiðara með að ljúga að vinum sínum en ókunnugu fólki. Góðir lygarar eru oft fólk sem á ekki marga nána vini.

Samsæri. Stundum vill heill hópur af einhverjum ástæðum viðhalda ósannindum. Frægt dæmi er Enron þar sem stjórnendur virðast hafa áttað sig á því að fyrirtækið var byggt upp úr froðu en enginn sagði neitt. Íslenskir stjórnmálamenn og seðlabankastjóri vörðu bankakerfið fyrir ári. Nú segjast þeir hafa vitað vel að í óefni stefndi (þó að þeim komi ekki saman um hve vel þeir hafi verið upplýstir um málin).

Leti. Ekki eru allir lygarar mjög metnaðarfullir. Á Íslandi komst bankamaður upp með það árum saman að setja inn á yfirlit viðskiptavina gjald sem rann beint í hans vasa. Enginn hafði fyrir því að kanna hvaða gjald þetta væri árum saman og ekki komst upp um kauða fyrr en hann fór loks í sumarfrí. Vanræksla. Hér getur lygin leitt til mjög alvarlegrar niðurstöðu. Ef öryggisvörður kannar ekki hvort brunaútgangur virkar getur það haft mjög alvarleg áhrif.

Venjur. Lygin getur komist upp í vana. Ef maður skrökvar því að hann sé með einhverja prófgráður verður honum það léttara eftir því sem hann segir það oftar.

Endurtekning. Auglýsendur, stjórnmálamenn, og prestar halda áfram að boða sama „sannleik“ dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Með því að hamra á því sama fara áheyrendur og jafnvel þeir sem flytja fagnaðarerindið að trúa því sem sagt er.

Hneykslun. Allir kannast við setningar eins og: „Heldurðu virkilega að ég myndi gera annað eins?“ Margir trúa manni sem horfir bláeygur í sjónvarpsmyndavélarnar og lítur út eins fermingardrengur. Þetta er ein áhrifamesta aðferðin til þess að segja ósatt þangað til upp um menn kemst.

Sem betur fer er ekki allt sem menn segja lygi. Hvorki í viðskiptum né stjórnmálum. Jafnvel menn sem hafa það að atvinnu að vera heiðarlegir, eins og prestar eða löggiltir endurskoðendur eru þó ekki alltaf barnanna bestir.

Þess vegna ættu allir að búast við því að það geti verið logið að þeim. Menn eiga að láta sér detta í hug að ekki sé allt sé satt og rétt sem þeim er sagt.

Tags

More News