Tugmilljarða ávöxtun Framtakssjóðsins

Fréttir

Viðskipti og efnahagsmál

Tugmilljarða ávöxtun Framtakssjóðsins

Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands.Mynd: Geir Ólafsson

Nýtt og stórglæsilegt tölublað Frjálsrar verslunar er komið út. Forsíðuefnið er umfangsmikið viðtal við Herdísi Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóra Framtakssjóðs Íslands, en sjóðurinn hefur tvöfaldað eignir sínar á síðustu fimm árum. Um er að ræða næstum 40 milljarða króna ávöxtun á um fimm árum. Herdís svarar mörgum áleitnum spurningum um sjóðinn og meðal annars hvort hann hafi fengið eignir á sínum tíma á brunaútsölu. Lífeyrissjóðirnir eru helstu eigendur Framtakssjóðsins.

Rætt er við Thomas Ivarson, sænska fjárfestirinn sem er stjórnarformaður Advania og fer fyrir fyrirtækinu Adinvest sem keypt hefur eignarhlut Framtakssjóðsins í Advania og eignast þar með 89% í fyrirtækinu. Thomas segist hafa verið ákveðinn í að ná í Advania.

Leiðari Jóns G. Haukssonar ber yfirskriftina: Ég vil hafa það verra! Jón G. fjallar þar um ófriðinn á vinnumarkaðnum og að allt stefni í verkföll og verðbólgubál í kjölfar óraunhæfra kjarasamninga.

Rætt er við Jón Axel Ólafsson sem stefnir á að EDDA USA verði einn af stærstu leyfishöfum Disney á sínu sviði.

Steinunn Þórðardóttir byggir upp fjármálafyrirtæki í Noregi. 

Ragnar Árnason hagfræðingur segir að gera verði kröfu um að Landsnet hagi starfi sínu í samræmi við þjóðarhag.

Í umfjöllun Sigurðar B. Stefánssonar kemur fram að núverandi hækkunarleggur á Wall Street sé sá annar mesti í sögunni - en sá fyrri var á tímabilinu 1987 til 2000.

Már Wolfgang Mixa fjallar um hlutabréfaviðskipti að venju og segir að virði Icelandair Group hafi tífaldast á síðustu fimm árum.

Margt fleira er í blaðinu eins og blaðaukar um nýju iðnbyltinguna og markaðsmál - en sérstök umfjöllun er um efnismarkaðssetningu - content marketing - sem gengur út á að selja og kynna vöruna á óbeinan hátt. Jafnvel er búin til afþreying eða skemmtiefni þar sem kynning á viðkomandi vöru og þjónustu blandast inn í.

Fjölbreytt blað að venju. Frjáls verslun fæst á næsta blaðsölustað. Tryggið ykkur eintak.

 

 

 

 

 

 

More News

Pages