Viðtal við Vigdísi Finnbogadóttur

Fréttir

Viðtöl

Viðtal við Vigdísi Finnbogadóttur

Vorið 2012 birtist í Skýjum viðtal við Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, um tungumál og tengsl við umheiminn: 

Íslendingar eru ekki vanir því að hafa fyrrverandi forseta sín á meðal. Sveinn Björnsson dó í embætti og þeir Ásgeir Ásgeirsson og Kristján Eldjárn lifðu ekki lengi eftir að þeir fluttu frá Bessastöðum. Vigdís gat auðvitað sest í steininn helga og enginn hefði láð henni það. Hún valdi hins vegar að láta til sín taka á öðru sviði. Vigdís er eini velgjörðarsendiherra tungumála heimsins hjá menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, og hefur starfað þar að varðveislu tungumála sem eru í útrýmingarhættu.  Hún hefur líka ljáð Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur nafn sitt og aðstoðað hana við uppbyggingarstarf.

„Margir vilja tala við mig þessa dagana,“ sagði Vigdís þegar Ský leituðu eftir viðtali. Vegna hugsanlegra forsetakosninga vilja margir heyra í fyrrverandi forseta um álit á eðli embættisins. Hún var greinilega ekkert sérlega spennt að blanda sér í þá umræðu. Þegar í ljós kom að blaðið vildi fyrst og fremst heyra um störf hennar til þess að styrkja og efla tungumál sagðist hún ræða þau með mikilli ánægju.

Eftir að hafa hringsólað um háskólasvæðið í leit að bílastæði í mesta vetrarríkinu og að lokum lagt við Norræna húsið kom blaðamaður að opnum dyrum hjá Vigdísi í orðsins fyllstu merkingu. „Ég lenti í símanum og hafði opið til þess að láta þig vita að ég væri inni, þó að ég kæmi ekki strax til dyra.“

Hún bauð til stofu og upp á kaffi eða ávaxtasafa. „Hér var franskur blaðamaður í morgun,“ sagði Vigdís um leið og hún fékk sér sæti. Það er greinilega ekkert ofsagt um eftirspurnina eftir þessum frægasta Íslendingi seinni ára, kannski að Björk einni undanskilinni.

Tungumálin eru aðgangurinn að heiminum

Talið leiðist strax að því að nútímamenn þurfi bæði að kunna erlend tungumál til þess að skilja heiminn sem við erum hluti af en jafnframt að læra vel eigin tungu.

„Íslendingar hafa alltaf þurft að kunna erlend tungumál. Við sjáum það þegar við skoðum söguna hve vel Íslendingar fylgdust með erlendis. Allt frá upphafi Íslandssögunnar fóru Íslendingar víða og hafa auðvitað lært tungumál þeirra þjóða sem þeir heimsóttu og kynntust. Þannig að þó að tungumálakunnátta sé að sjálfsögðu mjög mikilvæg í nútímanum þá er það ekkert nýtt.“

Þá vaknar spurningin um hvað það sé sem gerir þjóð að þjóð?

„Tungumálið öðru fremur sameinar okkur Íslendinga sem þjóð. Við eigum að rækta tunguna sem best við getum og leggja rækt við íslenska menningu. Þannig öðlumst við sameiginlega arfleifð. Með sameiginlegum minningum verðum við að einni heild. Þær minningar sem Íslendingar eiga sameiginlegar eru okkar saga, okkar menning, ekki bara það sem við upplifum sjálf heldur það sem við höfum öll lært um lífið og ýmsa minnisverða atburði í landinu sem gerðust fyrir okkar daga.

Aðrar þjóðir öfunda okkur af því að við höfum ræktað fortíðina, – minnið um fortíðina. Vestur-Íslendingur kom með konu sína, af enskum uppruna, til Íslands gagngert til að leita uppi staðinn sem afi hans hafði yfirgefið þegar hann flutti til Vesturheims rétt fyrir aldamótin 1900. Kona hans nefndi það síðan oft hvað Íslendingar ættu gott að muna svona vel ættir sínar og fortíðina. Allt sem hún vissi um sitt fólk, sem flutti vestur um haf, var að það nefndist Smith og kom frá Newcastle í Englandi. Það eru forréttindi að eiga minningar um afa okkar og ömmur og allt þeirra fólk.“

Hingað flytja margir. Verða þeir Íslendingar?

„Nú eru víða í heiminum miklir þjóðflutningar. Sagan endurtekur sig. Innan Evrópu voru gríðarlegir þjóðflutningar fyrr á öldum. Þjóðirnar blönduðust og breyttust. Við eigum að taka þeim sem flytja hingað opnum örmum, en það er mikilvægt að við kennum þeim sem best tungumálið okkar, íslenskuna, ef þeir kjósa að búa hér með okkur og margir þeirra, sem ég þekki til, tala reyndar ágæta íslensku. Við ætlumst ekki til þess að aðrir skilji okkar mál í útlöndum og lærum þess vegna tungu innfæddra þegar við flytjum þangað. Sömu kröfur getum við gert til þeirra sem flytja hingað. Börnin læra tungumálið strax og þau verða Íslendingar frá fyrstu stundu. Ég ber einnig mikla virðingu fyrir því að þau geymi vel með foreldrum sínum tungumál heimahaganna – eins og við Íslendingar reynum alltaf að halda í íslenskuna, þegar við förum til langdvalar með börnin okkar í erlent umhverfi.“

Getur maður verið af fleiri en einni þjóð?

Vigdís hugsar sig um: „Nei, en maður getur tengst öðrum þjóðum sterkum böndum. Manni fer að þykja vænt um umhverfið og fólkið sem maður kynnist þar. Stundum fer maður jafnvel að hugsa á erlendum málum þegar maður kann þau vel, til dæmis um bækur sem maður les á frummálinu. Samt held ég að við þurfum að muna að á íslensku getum við sagt eða hugsað allt sem við viljum, á útlendum málum bara það sem við höfum lært.“

En hvaða tungumál talar þú?

„Norðurlandamálin, ensku og frönsku. Auk þess get ég vel sagt sitthvað á þýsku ef ég kemst í gang.“

Þú reynir að tala Norðurlandamálin, ekki bara einhverja skandinavísku?

„Já, ég bjó í Svíþjóð og lærði auðvitað dönsku og hef búið líka þeim megin við sundið. Íslendingar eiga ætíð að reyna að tala dönsku þegar þeir eru í Danmörku. Þá er miklu meira mark tekið á þeim. Danir eru samt auðvitað, eins og við, of fljótir til að skipta yfir í ensku þegar þeir heyra hreim. Við eigum ekkert að láta það á okkur fá.“

Ítölsku eða spænsku?

Hún gerir lítið úr því. „Eiginlega ekki, en ef ég er nógu lengi í því málumhverfi fer ég að skilja þó nokkuð út frá latínu og frönskunni, en finnst ég tjá mig eins og ómálga barn.“

Vigdís heldur áfram: „Stundum spyr ég ungt fólk hvað sé lykillinn að heiminum. Þau svara ýmsu, sum eru fljót til að segja: „peningar“. Síðan eru þau fljót að átta sig á að maður getur ekki þegjandi og hljóðalaust beitt bara fyrir sig peningum. Þeim verða að fylgja einhver orð í viðskiptum. Við megum aldrei gleyma því að aðgangurinn að heiminum er í gegnum tungumálin. Þess vegna verðum við að geta skilið fleiri en eitt tungumál.“ Svo bætir hún við: „Fyrir utan ensku.“

Verndari deyjandi tungumála

Þó að Íslendingar hafi þekkt tungumálakunnáttu Vigdísar, hún varð landsfræg sem frönskukennari í sjónvarpinu, hvernig datt útlendingum í hug að fá hana til starfa sem velgjörðarsendiherra tungumála?

„Federico Mayor, framkvæmdastjóri UNESCO, sagði oft við mig þegar ég var forseti og við hittumst: „Komið þér til okkar þegar þér hættið sem forseti.“ Ég held að það hafi verið af því að ég vitnaði svo oft í íslenska menningararfinn, ljóð og sögur, þegar ég var að halda fyrirlestra eða ræður og hann var viðstaddur. Svo fór að ég varð svonefndur velgjörðarsendiherra tungumála fyrir UNESCO, sá eini sem verið hefur.“

„Meginhlutverkið hefur verið að finna tungumál sem eru í vörn og gætu dáið út. Við höfum unnið mikla vinnu við að kortleggja öll tungumál í heiminum. Þau eru nú talin vera um 6.800 en menn telja hættu á því að helmingurinn verði horfinn fyrir árið 2100.“

„Sem dæmi má nefna tungumál Kalmykiu sem er hérað í Rússlandi. Stalín taldi að þjóðin hefði gengið á mála hjá Þjóðverjum á árum heimsstyrjaldarinnar og flutti hana til Síberíu, nánast í heilu lagi. Þegar Khrustsjev komst til valda leyfði hann þeim að flytja til baka, en þá voru Rússar komnir í þeirra borgir. Rússneskan var opinbert mál og börn töpuðu máli foreldra sinna. Allt í einu sjá menn að ef tungan tapast þá tapast heill menningarheimur, sögur og kvæði, en líka ýmiss konar sérþekking sem fylgir þeim sem kunna tunguna. Nú er verið að skrá mikið af sögum og söngvum þannig að þetta sé til, en jafnframt er reynt að festa tungumálið í sessi hjá ungu fólki með því að kenna þeim mál feðranna. Og ekki skaðar að geta þess, til að lyfta héraðinu, að Anatoly Karpov skákmeistari er frá Kalmykíu. Það var gaman að vinna að þessu verkefni með UNESCO.“

Vigdís heldur áfram að tala um tungumálin og greinilegt að þau eru hennar hjartans mál:

„Annað dæmi er bananablaðaþjóðin í Tælandi. Hún talar mál sem nefnist Mlabri. Nú læra börn allt á opinberu tungumáli Tælands og þegar þau fara í skóla frá heimahögum tapa þau gamla tungumálinu. Þannig getur menntun eyðilagt tungumál. Málið hefur nú verið skráð skipulega, en það er í raun dautt.“

Nú hverfum við aftur heim til Íslands.

„Veistu hvers vegna íslenskan lifði af?“ Hún bíður ekki eftir svari og heldur áfram:

„Íslendingar áttu ekkert sem þeir gátu smíðað úr. Hér var ekki smíðaviður eða málmar. Ekki hægt að gera höggmyndir úr hraungrýti. Þess vegna urðu Íslendingar að yrkja, orðið varð efniviður til listsköpunar. Þeir gátu smíðað stökur. Þannig varð orðið sérstök listgrein á Íslandi. Svo skipti það auðvitað afar miklu máli að biblían var þýdd á íslensku á 16. öldinni. Oddur Gottskálksson vann þrekvirki þegar hann kom biblíunni á móðurmálið þar sem hann sat við skriftir úti í fjósi í Skálholti.“

Hún tekur sér smáhlé og bætir kaffi í bollann úr hitabrúsa.

„Þá þýðir hann biblíuna vegna þess að það var í takt við nýjustu strauma þess tíma. Þannig hefur það alltaf verið, að allar helstu stefnur samtímans hafa komið hingað. Það er mikill misskilningur að Íslendingar hafi fyrr á öldum verið einangraðir í menningarmálum.

Við eigum ekki að vera feimin við að rækta það sem er íslenskt. Því miður er það ekki lengur talið rétt að sýna þjóðrækni. Það vill henda að menn rugli því saman við þjóðrembu eftir misnotkun nasista á þjóðlegum gildum.“

Erlend tungumál og íslensk fræði í nábýli

En er starfsemi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur eitthvað tengd starfinu hjá UNESCO?

„Sá mikilvægi áfangi hefur unnist að stofnunin er nýverið komin undir verndarvæng UNESCO, líkt og Reykjavík er ein af örfáum bókmenntaborgum UNESCO og Þingvellir eru á heimsminjaskránni. Þessi stofnun við Háskóla Íslands er talin einstæð að því leyti að hvergi eru til slíkar stofnanir sem einbeita sér einvörðungu að tungumálum og miða að því að safna þeim saman á einn stað, eins mörgum og tök eru á, og kynna þau með nútímatækni í sérstökum sýningarsölum. Markmið Stofnunarinnar er að verða víðtæk tungumálamiðstöð í framtíðinni. Slík miðstöð vekur forvitni okkar allra um heimsmenninguna, innan lands sem utan, og ekkert út í bláinn að hún sé staðsett á Íslandi, sem er eins og stikla milli heimsálfanna í vestri og austri. Við Háskóla Íslands hafa verið kennd mörg tungumál og fyrir nokkrum árum var ég spurð hvort ég vildi styðja stofnun sem hefði það að markmiði að efla tungumálakennslu og -rannsóknir á Íslandi. Það var mér afar ljúft að ljá þeim lið, en ég er þar ekki í neinu stjórnunarhlutverki. Ég hef stutt stofnunina með ýmsum hætti og nýtt þau tengsl sem ég hef í þágu hennar þegar ég hef getað. Á sínum tíma fór ég til dæmis til Japans og fékk stuðning stjórnvalda við kennslu í japönsku við Háskólann. Svo hef ég einnig farið til margra Evrópulanda og tekið þátt í að kynna okkur með lærðum sérfræðingum í Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur.

Þá hef ég líka reynt að liðsinna söfnunarátaki meðal fyrirtækja og einstaklinga fyrir húsnæði utan um stofnunina. Nú er svo komið að í sjóði eru til peningar sem hafa safnast bæði hér heima á Íslandi og ekki síst erlendis, sem eiga að nægja fyrir húsi sem verður reist á lóð vestan við Suðurgötu, rétt hjá gömlu loftskeytastöðinni. Það er vel við hæfi að stofnun um erlendar tungur sé í nágrenni við það hús sem lengi var tengiliður Íslands við umheiminn.

Þarna verða tungumálin í nágrenni við stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sem einnig reisir byggingu á þessu svæði. Það fer vel á því.“

Allt í einu vaknar spurning:

Finnst þér ekkert skrítið að heil stofnun beri þitt nafn, sem ert hér sprelllifandi, sé við hlið stofnunar sem er kennd við fræðimann sem hefur verið horfinn í næstum þrjúhundruð ár? Þú verður ekkert feimin við þetta?

Það er greinilegt að Vigdís hefur ekki velt þessu fyrir sér. Henni vefst aðeins tunga um tönn, en segir svo:

„Ég er auðvitað ekki fræðimaður. Þegar ég var beðin um þetta vildi ég gjarnan styðja þetta áhugamál mitt ef ég gæti. Það er enginn vafi á því að þegar ég varð forseti voru margir útlendingar forvitnir að sjá þessa konu sem var allt í einu orðin forseti. Ég kynntist mörgum og ég hef haldið áfram að rækta mörg þau sambönd sem ég tengdist meðan ég var forseti. Þess vegna fannst mér sjálfsagt að koma að þessu ef mitt nafn gæti orðið til þess að opna einhverjar dyr.“

Nú hallar á strákana

Það er óhugsandi að ræða við Vigdísi án þess að tala um hve mikilvægur áfangi í forsetakjör hennar var í kvennabaráttunni.

Þú hefur verið mörgum konum fyrirmynd. Hvað ráðleggur þú konum sem vilja fara í nám? Eiga konur og karla að fara í sams konar nám?

„Svo sannarlega. Nú orðið hef ég reyndar orðið áhyggjur af því hvað hallar á strákana í háskólanáminu. Stelpur eru núna um tveir þriðju hlutar af háskólanemendum. En þær eiga auðvitað ekki að láta neitt stoppa sig.

Ég man þegar pabbi, sem var prófessor í verkfræði, kom heim og sagði að nú væri fyrsta stelpan innrituð í verkfræði. Hann var óskaplega kátur. Þetta var Brynja Benediktsdóttir sem fór svo reyndar í leiklistina, en hún hafði ætlað í verkfræði – eða kannski sá hún þarna leið inn í arkitektúr. Nú er mikill kvennablómi í raunvísindadeildum í háskólunum á Íslandi.“

Það er sigið á seinni hluta samtalsins og við ræðum aðeins um það hvernig Vigdís varð forseti:

„Augu umheimsins staðnæmdust tvisvar við Ísland á þessum árum. Fyrst við kvennafrídaginn 1975 og svo þegar kona var kosin árið 1980. Við megum ekki gleyma því að ég kom ekki úr pólitíkinni og steig ekki fram að eigin frumkvæði á þeim tíma. Aðrir báru framboðið upp. Á þeim tíma höfðum við náð svo langt að mörgum þótti ófært að engin kona keppti um þetta embætti. Ræturnar lágu í kvennafrídeginum. Það er enginn vafi.

Af því að ég var fyrst tungumálakennari með leiklistarsögu í bakgrunni og fór svo alfarið yfir í leiklistina sem leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur var áhugi minn alltaf mikill á listum og menningu. Ronald Reagan spurði mig einu sinni hvernig ég hefði orðið forseti, manneskja með enga reynslu í pólitík. Ég svaraði því að í leikhúsinu þyrftu menn að fást svo mikið við tilfinningar fólks, skilja þær og túlka og um leið oft að skilgreina það samfélag sem það býr í. Það væri ekki til neinn háskóli í heiminum sem kenndi manni að verða forseti, en leikhúsið væri góður undirbúningur því um hvað snýst forsetastarf? Um fólk, þegar til kastanna kemur, tilfinningar þess, aðstæður þess og sýn á umhverfið. Þetta fannst honum, sem sjálfur var leikari, ágætt svar og okkur kom alltaf mjög vel saman.“

Eru margir sem nýta tímann að loknu starfi sem þjóðhöfðingjar til þess að vinna menningarstörf eins og Vigdís hefur gert?

„Nei.“ Hún þarf að hugsa sig um. „Auðvitað Vaclav Havel Tékklandsforseti, hann einbeitti sér að eflingu lýðræðis. Við vorum alltaf góðir vinir.“ Það er greinilegt að tilhugsunin um Havel hlýjar Vigdísi um hjartarætur.

„Martti Ahtisaari Finnlandsforseti og Mary Robinson, forseti Írlands, hafa líka unnið að friðarmálum. Það sama má reyndar segja um Thorvald Stoltenberg, sem varð reyndar aldrei forsætisráðherra en var utanríkisráðherra Noregs.“

Vigdís talar um allt þetta fólk eins og gamla félaga.

Hvernig er það almennt? Kynnast þjóðarleiðtogar í alvöru hver öðrum?

„Já, það gera þeir, en auðvitað er starfið oft formlegt og þar eru menn í ákveðnu hlutverki. Einu sinni hitti ég Margréti Thatcher og nefndi á opinberum fundi okkar að Ísland væri orkuframleiðsluland og það gæti komið til greina að leggja rafmagnskapal til Skotlands. Þá hvessti hún á mig augun og spurði: Are you saying you are against nuclear energy? Ég hafði ekki átt von á þessum svörum en Carrington lávarður sem var utanríkisráðherra Breta sat á móti mér og deplaði augum til þess að ég áttaði mig á því að svona væri hún bara.

Síðar þegar við vorum tvær einar var hún hins vegar mjög elskuleg og spurði hvað ég gerði á kvöldin. Hún sagðist sjálf helst vilja setja fæturna upp á koll og lesa The Times.“

Vigdís tekur sér smáhlé og hugsar til Thatcher: „Ég sá myndina um hana um daginn. Þetta er fín mynd en mér fannst svolítið leiðinlegt að það er horft út frá veikindum hennar núna.“

Við förum um víðan völl og þegar talið berst að samstarfsmönnum hennar úr stjórnmálunum þegar hún var forseti talar hún um þá af vinsemd og virðingu. Hugurinn hvarflar til þeirra sem Vigdís þekkti áður en hún varð forseti.

Forsetaembættið opnar margar dyr. Lokar það öðrum? Misstir þú samband við einhverja vini eða félaga þegar þú varst forseti?

„Nei það gerði ég ekki. Ég bauð alltaf gömlum félögum til mín á Bessastaði í mánudags-ýsuna sem ég kallaði svo. Mánudagarnir hentuðu vel því að þá er frí í leikhúsunum. Ég var í alvöru með ýsu. Þetta voru góðar stundir.“

Hér sláum við botninn í samtalið og Vigdís fylgir mér til dyra. Að skilnaði segi ég henni frá því að þegar við undirbjuggum viðtalið, ritstjórar Skýja, hafi talið leiðst að forsetakosningunum 1980 þegar hvorugur okkar kaus hana. Við vorum sammála um það núna að hún hafi verið langbesti kosturinn. Hún verður hálffeimin við þessa yfirlýsingu en þykir greinilega vænt um hana. Svo kveðjumst við með handabandi og hún stendur í dyrunum og horfir á eftir mér niður stéttina til þess að vera viss um að mér verði ekki hált á svellinu.

 

More News

Pages