Alltaf að græða

Fréttir

Viðskipti og efnahagsmál

Alltaf að græða

Myndin tengist ekki efni greinarinnar beint. Mynd: Páll Stefánsson

Í Vísbendingu birtist ýmiss konar fróðleikur. Nýlega komu fram upplýsingar um hve miklu lengur Íslendingar lifa en áður og hvað ævi lengist hratt. 

Á Íslandi hefur Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga (FÍT) reiknað nýjar töflur um lífslíkur um árabil. Í hvert skipti sem nýjar töflur liggja fyrir kemur í ljós að meðalævin hefur lengst og að skuldbindingar lífeyrissjóðanna hafa aukist. Töflurnar sýna að meðalævi karla hefur lengst um:

  • Tvo og hálfan mánuð á ári eða
  • 11 vikur á ári eða
  • 77 daga á ári eða
  • sex daga á mánuði eða
  • fimm klukkustundir á viku eða
  • 44 mínútur á dag eða
  • eina mínútu og 50 sekúndur á klukkustund

Fáir hafa líklega áttað sig á hve geysihröð þessi þróun er, þrátt fyrir að allir viti að meðalævin lengist stöðugt. Til þess að fá betri mynd af því hvernig þróunin verður næstu áratugi hefur FÍT nú lagt fram nýja tegund af lífslíkum sem byggir ekki aðeins á reynslu liðinna ára heldur spáir því einnig hvernig ævin muni halda áfram að lengjast næstu ár og áratugi. Þetta þýðir í raun að hver fæðingarárgangur hefur sína lífslíkutöflu og þær batna ár frá ári.

Með þessu móti fæst miklu betra mat en áður á því hvernig skuldbindingar lífeyrissjóða og annarra munu þróast á næstu árum og áratugum. Um leið og töflurnar verða teknar í notkun munu skuldbindingar lífeyrissjóða aukast um sem nemur 8 til 15% (mismunandi eftir meðalaldri sjóðfélaga og kynjaskiptingu). Kosturinn er sá að í framtíðinni verða tiltölulega litlar breytingar á skuldbindingum í hvert skipti sem nýjar töflur liggja fyrir. 

Fjölmiðlar hafa sagt að börn fædd eftir aldamótin 2000-2001 geti almennt búist við að verða 100 ára. Talsvert er þó í það að meðalævilengd Íslendinga nái þessu marki, sem deila má um hversu eftirsóknarvert er. Á myndinni má sjá vænta ævilengd við fæðingu eftir árgöngum samkvæmt nýju töflunum. Hún sýnir að hjá nýfæddum drengjum er meðalævilengd reiknuð rúmlega 88 ár, sem er átta árum lengra en hjá langöfum þeirra sem fæddir voru árið 1932. 

Ef gert er ráð fyrir sambærilegri bætingu við þá sem er nú milli ára ættu íslenskir piltar fæddir árið 2129 að ná þessum áfanga og íslenskar stúlkur fæddar árið 2122. Árið 2160 gætu karlar búist við að verða jafngamlir og konur eða 103 ára! Auðvitað er þetta lítils virði nema bætt heilsa fylgi með og reynsla undangengin ár bendir til þess að svo geti vel orðið. 

Tags

More News