Kjaraviðræður 80 árum á eftir

Fréttir

Kjaraviðræður 80 árum á eftir

Ásta Bjarnadóttir. Mynd: Geir Ólafsson

Ásta Bjarnadóttir, ráðgjafi hjá Capacent, segir að þrátt fyrir mikla framþróun í mannauðsstjórnun hjá íslenskum fyrirtækjum og stofnunum sé eins og okkur sé kippt 80 ár aftur í tímann þegar kjarasamningar eru lausir. Hún bendir á að löggjöfin, sem kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði byggir á, sé frá árinu 1938.

„Þetta miðlæga kjarasamningamódel er gamaldags að því leyti að forsendan virðist vera að allir séu eins; að allir launamenn séu eins og allir vinnuveitendur séu eins. Mannauðsstjórnun hins vegar byggir á því að fólk sé ólíkt og að hópar séu ólíkir og að samstarf vinnuveitenda og launamanna skuli vera á forsendum hvers vinnustaðar.

Niðurstaða miðlægra kjaraviðræðna getur því orðið sú hversu mikið verst stadda fyrirtækið í landinu er tilbúið til að hækka kannski slakasta eða reynsluminnsta starfsmanninn sinn í launum; það er lægsti samnefnarinn. Veruleikinn er síðan allt annar. Starfsmenn líta oft svo á að miðlægt umsamda hækkunin sé ekki hækkun; svo vilja þeir fá launahækkunina. Þarna kemur launaskriðið inn og víða er verið að hækka laun einhverra í hverjum einasta mánuði. Ég tel að það þurfi að færa ákvarðanir um laun og launasetningu nær vettvangi og nær raunveruleikanum og hætta að hugsa þetta út frá lægsta samnefnara og hækkanastökkum sem allir taka í einu.

Ef launasetning byggist á lögmálum mannauðsstjórnunar þá skiptir máli hvaða einstaklingur á í hlut og hvernig fyrirtækinu gengur. Ef þetta væri nálgunin þá myndu myndu sum fyrirtæki og jafnvel heilu atvinnugreinarnar stundum ekkert hækka laun þar sem tekjuöflun gengur illa, samkeppni er grimm eða skuldsetning há. Til að tryggja starfsmönnum þeirra vinnuveitenda sanngjarna launaþróun til lengri tíma mætti hugsa sér að stéttarfélögin boðuðu til verkfalla í þeim fyrirtækjum eða atvinnugreinum einum. Það þyrfti kannski ekki að lama allan vinnumarkaðinn.“

Í opinbera geiranum gilda auðvitað önnur lögmál því að þar liggja bæði tekjuöflun og skuldir hjá sameiginlegum sjóðum en ekki hjá hverjum vinnuveitanda. Þar þyrftum við að sjá aðrar breytingar, til dæmis í þá veru að taka meira mið af horfum hvers vinnustaðar varðandi aðlöðun nýrra starfsmanna í tilteknum hópum til framtíðar. Á mörgum stöðum í opinbera geiranum þarf að taka meira tillit til markaðslauna lykilhópa, líka í útlöndum ef um er að ræða alþjóðlega færanlega hópa. Loks þarf að gefa stjórnendum í opinbera geiranum fleiri tæki til að stýra launum, svo þeir geti náð auknum árangri og framleiðni í sinni starfsemi. 

Tags

More News