Hvernig eru Grikkir?

Fréttir

Viðskipti og efnahagsmál

Hvernig eru Grikkir?

Mynd: Benedikt Jóhannesson

Ein meginástæðan fyrir því hve illa samningaviðræður Grikkja við evruríkin hafa gengið er að traust milli samningsaðila er ekkert. Kannski héldu forsætis- og fjármálaráðherrar Grikkja í alvöru að þeir væru miklu snjall­ari en viðsemjendurnir og að gætu snúið á þá. Þjóðaratkvæðagreiðslan var af mörg­um talin mikill sigur fyrir Tsipras for­sætisráðherra, en sá sigur hefur nú snúist upp í andhverfu sína enda kölluðu margir það strax Pyrrusar sigur Syriza. Varoufakis fjármálaráðherra sagði að nei tryggði miklu betri samning innan tuttugu og fjögra tíma. Það var auðvitað ekki skyn­samleg yfirlýsing því að menn sáu degi síðar að hún gekk ekki upp.

Allt of mikill tími og kraftur hefur farið í að finna út hverjum kreppan sé að kenna, í stað þess að leita lausna á vand­anum og innleiða þær hið snarasta. Fyrri loforð Grikkja um umbætur hafa reynst haldlítil.

Fyrir fjórum árum var í Vísbendingu fjallað um bók sem sagði frá því hvernig Gikkir komu sér í vandræði. Í bókinni sem nefnist Greece’s ‘Odious’ Debt rek­ur höfundurinn, Jason Manolopoulos, það hvernig Grikkir hafa markvisst reynt að bjóða efnahagslögmálunum birginn í áratugi. Bókin sem kom út í maí 2011 er ágæt lýsing á erfiðleikum Grikkja og skýrir það vel hvernig þeir komust í þann vanda sem þeir eiga nú við að etja og virðist nánast óyfirstíganlegur. Skattsvik, svört atvinnustarfsemi, undanlátssemi við þrýstihópa og fjölmörg önnur atriði eru nánast lífstíll í Grikklandi.

Samanburðarfræði

Meginatriði í málflutningi höfundar er að Grikkir (og margir aðrir) hafi lifað í stöðugri sjálfsblekkingu. Þeim hafi verið hleypti inn í evrusamstarfið á sínum tíma þegar öllum hefði mátt ljóst vera að þeir uppfylltu ekki Maastricht-skilyrðin. Þeir komust upp með blekkingar vegna þess að stóru löndin, Þýskaland og Frakkland, þurftu sjálf á fölsunum að halda á þessum tíma til þess að standast inntökuprófið. Strax eftir að efnahagskreppan varð sýni­leg á Vesturlöndum árið 2008 kepptust ráðamenn í Grikklandi og annars staðar við að afneita vandanum. Efnahagsstjóri Evrópusambandsins, Joaquin Almunia, sagði árið 2009 að Grikkir stæðu betur en aðrar þjóðir á evrusvæðinu. Margir aðrir töluðu með líkum hætti.

Meginatriði í undanfara kreppunnar var að ódýrt fjármagn flæddi inn í Grikk­land í upphafi 21. aldarinnar. Þetta gerðist líka á Íslandi, Írlandi og víðar. Það er þó athyglisvert að það voru ekki öll lönd sem tóku þessum ódýru peningum með opn­um örmum. Aðrir hefðu getað dælt pen­ingum til fyrirtækja og fólks en gerðu það ekki. Þess vegna er það ekki út í hött að bankar og eftirlitsaðilar beri hluta af sök­inni við hrunið, þó að ekki sé horft á þá þætti þar sem lög voru beinlínis brotin.

Stórum alþjóðlegum bönkum mátti vera það vel ljóst að skuldir Grikkja voru allt of miklar og engar líkur voru á því að þeir gætu greitt þær, hvað þá ef bætt var við þær. Miðað við lýsingar Manolopou­losar þurfa menn ekki að fylgjast lengi með mannlífinu í Grikklandi til þess að finna út að þar er margt rotið.

Grískt þjóðlíf

Hagtölur voru ekki hagstæðar í Grikklandi fyrir hrun. Halli á ríkisrekstri var um 5% af þjóðartekjum ár eftir ár. Viðskiptajöfn­uður var neikvæður og skuldir hins opin­bera um 100% af vergri landsframleiðslu. Þar var þó búið að fela stóran hluta vand­ans. Hagvöxtur var hins vegar ágætur eða 2 til 6% á ári.

Ellilaunaaldur var 61 árs og menn gátu farið á full eftirlaun 58 ára ef þeir höfðu unnið 37 ár. Eftirlaun voru um 95% af tekjum en í flestum löndum er stefnt að því að þau séu um 60%. Það er skiljanlegt að Þjóðverjar hafa haft lítinn áhuga á því að borga brúsann og hækka sinn eftir­launaaldur til þess eins að Grikkir geti átt langt ævikvöld á eftirlaunum.

Ekki má gleyma því að í Grikklandi var herforingjastjórn til 1974. Stjórn­málamenn lærðu það fljótt eftir að lýð­ræði komst á, að það var vænlegt að kaupa kjósendur til fylgis við sig og láta ríkið borga brúsann. Bændur fá vænar fúlgur frá gríska ríkinu og Evrópusambandinu. Grískir bændur fá styrk upp á 570 evrur á hektara meðan ES-meðaltal er 250 € og í Lettlandi eru greiddar 70 € á hektara.

Grikkir borga ýmiss konar gjöld sem annars staðar væru kölluð mútur. Bæði fakelaki sem greitt er til þess að fá lipurri þjónustu og miza sem er eins konar gjald til þess að koma á viðskiptum, t.d. með því að afhenda tösku fulla af peningum. Spilling er svo umfangsmikil að menn hafa haldið því fram að halli á fjárlögum myndi minnka um 4% af VLF ef menn næðu að hefta hana. Hæstiréttur Grikklands kvað upp dóm árið 2003 um að mútur væru ekki ólöglegar ef þær væru greiddar eftirá.

Ólympíuleikarnir árið 2004 urðu tvöfalt dýrari en ráð var fyrir gert, en það virðist reyndar fremur vera regla en undantekning um slíka leika. Hins vegar telja menn að slælega hafi verið haldið á kynningarmálum vegna þeirra og ferða­mannastraumur til Grikklands hafi ekki aukist eins og vonast var til.

Samkvæmt skattaskýrslum eiga 324 húseigendur í norðurhluta Aþenu sund­laug, en á loftmynd sáust 16.974 laugar. Alls unnu 30 manns við að sjá um stöðu­vatn sem þornaði upp fyrir 53 árum. Lög­reglubúningar kostuðu 4.000 € (650 þúsund krónur). Það hefði verið ódýrara að fata lögregluna upp hjá Sævari Karli. Fjöl­margir fá ellilífeyri löngu eftir dauðann.

Höfundur vitnar í skipakónginn Onass­is sem sagði: „Til þess að ná árangri áttu að vera sólbrúnn, búa í glæsilegu húsi (jafn­vel þó að þú búir í kjallaranum), láta sjá þig á flottum veitingastöðum (jafnvel þó að þú fáir þér aðeins einn drykk) og ef þú færð lán, taktu þá mikla peninga að láni.“ Kannast einhver við þessa lýsingu?

Niðurstöður

Bókin gefur ágæta mynd af aðdraganda hrunsins í Grikklandi og á því er enginn vafi að það er fyrst og fremst vegna þess að hagstjórn var léleg, stjórnmálamenn spillt­ir og þjóðin vildi ekki vita sannleikann. Hagkerfið er einhæft og útflutningur til­tölulega lítill. Um 13% landsmanna vinna við landbúnað. Gengisfelling (ef möguleg væri) myndi lítið glæða útflutning heldur fyrst og fremst draga úr innflutningi.

Grikkir hafa lagt hart að sér við að fara framhjá reglum. Alþjóðlegir bankar hjálp­uðu þeim, til dæmis með því að veita er­lend lán á hagstæðu gengi en hækka vexti á móti. Evrópusambandið kaus að loka aug­unum fyrir því sem var að gerast.

Meðan peningar fengust að láni þurfti ekki að hafa áhyggjur eða bæta ágöllum sem alltaf voru augljósir.

Í lokin spyr Manolopoulos hvort þörf sé á Evrópusambandinu eða evrunni. Hann telur svarið við fyrri spurningunni vera ótvírætt já. Sameiginlegur markað­ur og sterk stjórnmálaeining skipti mjög miklu máli fyrir álfuna. Hins vegar telur hann að evran hafi verið illa undirbú­in og eigi sér litla möguleika á því að lifa af óbreytt miðað við núverandi ástand. Evrusvæðið gæti minnkað, því að við sameiginlegan gjaldmiðil séu margir kost­ir. Manolopoulos segir að frasar eins og hraðlest evrunnar eigi ekki við því að bæði vanti tímaáætlun og lestarspor. Það væru mikil mistök ef allir tækju aftur upp sinn eigin gjaldmiðil. Hins vegar krefjist evr­an samræmis og aga í hagstjórn sem sum löndin hafi alls ekki verið tilbúin í.

Það er einkennilegt að fjórum árum seinna hefur enn ekki náðst jafnvægi í ríkisbúskap Grikkja. Þeir hafa aukið skuldir ríkisins þrátt fyrir talsverða lækkun lána þegar til stóð að leysa þá úr skuldafjötrum árið 2012. Ekki er líklegt að landið breytist á skammri stundu og þess vegna er ljóst að þeir eiga mjög marga erfiða daga í vændum.

Tags