Þingmenn á þeysingi - ODDNÝ G. HARÐARDÓTTIR

Fréttir

Stjórnmál

Þingmenn á þeysingi - ODDNÝ G. HARÐARDÓTTIR

Oddný Harðardóttir á hjólinu.

Á hjóli frá Garði og um nágrenni Garda

Oddný G. Harðardóttir, sjötti þingmaður Suðurkjördæmis og fyrrverandi fjármálaráðherra, hefur á undanförnum árum ferðast mikið um á hjólhesti – um Suðurnesin, Þingvelli og víðar um landið, ásamt því að fara í tvær hjólaferðir til Ítalíu og hjólað eftir Dónárbökkum frá Vín til Búdapest, með viðkomu í Bratislava. „Ég og maðurinn minn [Eiríkur Hermannsson, fræðslustjóri í Reykjanesbæ] féllum algjörlega fyrir hjólreiðum og höfum hjólað í kringum landið,“ sagði Oddný.

Hjólreiðar hafa verið helsta áhugamál Oddnýjar síðustu ár eða frá árinu 2006 er hún keypti sér 21 gíra hjól. „Ég festi kaup á hjólinu þegar ég varð bæjarstjóri í Garði. Þá ákvað ég að ferðast um á hjóli um bæinn til að skynja umhverfið betur heldur en að ferðast um í bíl og þá gat ég stokkið af hjólinu hvar sem var og rætt við íbúa bæjarins. Ég upplifði bæinn okkar á nýjan og skemmtilegan hátt – kynntist íbúum betur, bæði ungum sem gömlum.“

Oddný sagðist ekki hafa hjólað síðan hún var krakki. „Þá voru tuttugu og eins gíra hjól ekki til. Það tók mig smátíma að nýta gírana, sem hjálpa mikið þegar hjólað er til dæmis í brekkum og mótvindi. Þá er gott að nýta sér gírana til að létta á fótum. Ég er ánægð með hjólið, sem hefur reynst mér vel - það eina sem ég hef þurft að gera er að láta skipta um dekk, sem spænast fljótt upp,“ sagði Oddný, sem hjólar þegar tækifæri gest. „Ég er lítið á hjóli yfir vetrartímann, en tek það strax fram með hækkandi sólu á vorin og nýti það fram á haustið.“

Oddný sagði að hjólreiðar væru góð líkamsrækt og einnig góð skemmtun. „Við fórum fljótlega að víkka sjóndeildarhringinn – hjóla stærri hringi út frá Garðinum og síðan um öll Suðurnesin.

Nú er það svo að alltaf þegar við förum í ferðalög um landið tökum við hjólin með. Við eigum fellihýsi – hjólum út frá áningarstöðum.

Undanfarin ár höfum við alltaf farið á Þingvelli og hjólað um þjóðgarðinn og í kringum vatnið. Við fórum og gistum í Atlavík við Lagarfljót 2013 og hjóluðum þar um sveitir.

Í sumar höfum við tekið stefnuna á Suðurland. Þá get ég sameinað vinnuna og áhugamálið - stoppað í bæjum og kynnst og rætt við fólk í kjördæminu mínu. Við ætlum að ferðast um svæðin í kringum Hveragerði, Selfoss, Eyrarbakka, Stokkseyri, og Þorlákshöfn. Það er boðið upp á góðar hjólaleiðir þar,“ sagði Oddný, en þau Eiríkur eru byrjuð að renna augunum til Vestfjarða – Strandir og Djúpið kalla.

„Þar eru engar brekkur“

Oddný sagði að tíu manna vinahópur hefði farið saman í þrjár afar skemmtilegar hjólaferðir um Evrópu. 2008 var fyrsta ferðin farin og hjólað frá Suður-Þýskalandi, yfir Austurríki og niður á Ítalíu – um Garda og endað í Feneyjum. 2012 var hjólað um Piedmont-svæðið fyrir norðan Tórínó og 2014 var hjólað eftir Dónárbökkum um sögufrægar slóðir frá Vín í Austurríki til Bratislava í Slóvakíu og síðan meðfram Dónárbugðunum í Ungverjalandi til Búdapest.

„Allar ferðirnar voru afar skemmtilegar ferðir, sem voru farnar í júlí og við heppin með veður. Ferðin um Piedmont var erfið – mikið af erfiðum brekkum. Við vorum með leiðsögumann með okkur í þessum ferðum, sem skipulagði alla daga.

Hópurinn er byrjaður að spá í næstu reisu árið 2016 og þá án leiðsögumanns, Móseldalurinn kemur sterklega til greina. Þar eru engar brekkur – þegar hjólað er eftir árbökkum Mósel,“ sagði Oddný og glotti.

Vegir liggja til allra átta

Oddný hefur annað áhugamál sem hún getur einbeitt sér að þegar ekki er hægt að bregða sér á hjólhestinn yfir vetrarmánuðina - þá sest hún niður við píanóið. Hún byrjaði að læra á píanó átta ára gömul og síðan aftur er hún var fimmtán ára. „Ég lærði þá klassíska músík og spilaði eingöngu eftir nótum,“ sagði Oddný, sem segist eingöngu vera heimaspilari. „Ég spila alltaf um jólin. Þá sest fjölskyldan í kringum píanóið – ég spila og við syngjum jólalög.

Núna er ég að æfa mig að spila lög eftir Sigfús Halldórsson, sem er mjög skemmtilegt viðfangsefni  –  lög eins og Lítill fugl, Við Vatnsmýrina, Dagný, Tondeleyó, Litla flugan og Vegir liggja til allra átta.

Þetta eru algjörar perlur,“ sagði Oddný, sem hefur alltaf þótt skemmtilegt að taka sér bók í hönd og lesa. „Eftir að ég settist á Alþingi þá hef ég lesið færri skáldsögur en áður – því miður er minni tími til þess.“

Litlir fuglar

Oddný segir að Lítill fugl eftir Sigfús hafi ekki orðið til þess að hún hafi fallið fyrir íslenskum fuglum – gerðum úr tré og gifsi. „Það eru margir handverksmenn um allt land sem eru að búa til litla íslenska fugla, sem eru á boðstólum fyrir ferðamenn. Fuglagerð er skemmtilegt handverk sem ég hef heillast af – hef keypt mér fugla á ferðum um Suðurland og Austfirði og mun líta eftir þeim á ferðum mínum til annarra landshluta í framtíðinni.

Ég lít samt ekki á mig sem safnara, þó að ég komi heim með fugla í farteskinu.“

Tags

More News