Færeyingar eru höfðingjar heim að sækja - Vestnorden haldin í 30. sinn

Fréttir

Færeyingar eru höfðingjar heim að sækja - Vestnorden haldin í 30. sinn

Mynd: Sverrir H. Geirmundsson

Vestnorden ferðakaupstefnan var haldin í Færeyjum dagana 22. - 23. september og var þetta í 30. skiptið sem ráðstefnan er haldin. Fjöldi íslenskra fyrirtækja áttu fulltrúa á kaupstefnunni sem er samvinnuverkefni vinaþjóðanna Íslands, Grænlands og Færeyja. Markmiðið er að efla ferðamannaiðnað á svæðinu og koma á tengslum milli fyrirtækja. Einnig voru fulltrúar frá ýmsum öðrum þjóðum svo sem Danmörku og Kanada, en mörg ferðaþjónustufyrirtæki í þessum löndum selja ferðir til landanna þriggja.  

Það var gaman að sjá hversu mörg og öflug ferðaþjónustufyrirtæki eru starfandi á Íslandi og fagmennskan virtist alls staðar vera í fyrirrúmi. Eins og undanfarin ár gaf Útgáfufélagið Heimur út sérstakan blaðauka um Vestnorden í ár og dreifði til fyrirtækja á kaupstefnunni. Í blaðaukanum voru kynningar frá ferðaþjónustufyrirtækjum í löndunum þremur ásamt efni og myndum um Færeyjar.

Færeyjar eru heillandi staður heim að sækja og er Þórshöfn, þar sem ráðstefnan var haldin með fallegri höfuðstöðum sem greinarhöfundur hefur heimsótt. Færeyingar eru um 50 þúsund talsins og af þeim fjölda búa um 20 þúsund manns í Þórshöfn eða ríflega 40% íbúa. Bærinn er einn af minnstu höfuðstöðum í heimi, en þrátt fyrir það er öll helsta þjónusta til staðar svo sem skólar, háskóli, íþróttamannvirki, sjúkrahús o.fl. Það kom sérstaklega á óvart hversu margir góðir gististaðir og veitingahús eru í bænum. Færeyingar eru einnig þekktir fyrir að eiga marga góða tónlistarmenn og eyjarnar virðast iða af tónlist. Höfnin í Þórshöfn er einstaklega falleg og setur mikinn svip á bæinn.

Óhætt er að segja að Vestnorden kaupstefnan hafi heppnast vel í ár og eiga Færeyingar þakkir skildar fyrir frábærar móttökur. Vestnorden verður haldin í 31. sinn á Íslandi dagana 4.- 6. október á næsta ári. 

Hér að neðan eru nokkrar ljósmyndir sem greinarhöfundur tók á kaupstefnunni.