Áhrif stjórnunar á starfsánægju og kulnun

Fréttir

Áhrif stjórnunar á starfsánægju og kulnun

Ingrid Kuhlman, stjórnunarráðgjafi og fastur álitsgjafi í Frjálsri verslun.

Kulnun í starfi er viðvarandi neikvætt vinnutengt ástand hjá eðlilegum einstaklingum. Ingrid Kuhlman segir að kulnun í starfi einkennist fyrst og fremst af örþreytu og þeirri tilfinningu að vera úrvinda. Vinnufærni viðkomandi minnkar og hann finnur fyrir streitueinkennum og firringu með tilliti til vinnu og starfslöngunar.

„Ástæðan er oft einföld; óljósar væntingar um frammistöðu, ósamræmi milli vinnuálags, árangurs, viðurkenningar og umbunar og slæm samskipti milli starfsmanna og við stjórnendur eða viðskiptavini.“

Ingrid segir að góð stjórnun geti komið í veg fyrir kulnun en niðurstöður rannsókna hafa sýnt að lélegir stjórnendur draga oft úr starfsánægju og auka líkurnar á kulnun.

„Mayo Clinic, sem framkvæmir reglulega rannsóknir á leiðtogahæfileikum, birti niðurstöður rannsóknar sem tengjast nokkrum spurningum eða þáttum varðandi það hvernig starfsmenn meta stjórnendur. Þetta voru atriði eins og t.d. „næsti stjórnandi ræðir við mig um starfsþróun, hvetur mig til að gera mitt besta, veitir mér ábyrgð, hefur áhuga á hvað mér finnst, kemur fram við mig af virðingu, veitir gagnlega endurgjöf á frammistöðu, veitir viðurkenningu fyrir vel unnin störf, heldur mér upplýstum varðandi breytingar á vinnustaðnum og hvetur mig til að þróa hæfileika mína og færni“.

Niðurstöðurnar sýndu í stuttu máli að því hærri einkunn sem stjórnendur fengu þeim mun minni líkur voru á kulnum starfsmanna og þeim mun meiri líkur á starfsánægju. Það er vitað að meiri starfsánægja þýðir einnig minni starfsmannavelta og meiri ánægja viðskiptavina þýðir færri mistök. Það er þess vegna mikilvægt að stjórnendur séu upplýstir um áhrif kulnunar á vinnustaðinn og tileinki sér góða stjórnarhætti. Það er svo mikið sem þeir geta gert til að skapa gott starfsumhverfi þar sem fólk langar til að mæta og blómstra.“