Erlend hlutabréf: Hækkunar- leggurinn frá 2009 á enda?

Fréttir

Erlend hlutabréf: Hækkunar- leggurinn frá 2009 á enda?

Lengsti hækkunarleggurinn stóð yfir frá 1987 til ársins 2000.

​Sigurður B. Stefánsson segir að hækkunarleggurinn langi á alþjóðlegum markaði hlutabréfa frá haustinu 2011 eða jafnvel frá vorinu 2009 sé nú í hættu eftir harkalega verðlækkun frá miðjum ágúst 2015.

„Millistefna sneri til lækkunar í maí sl. og frá þeim tíma sveifluðust hlutabréf um flatan ás þar til um miðjan ágúst sl. þegar botninn tók úr þeim göngum. Lækkun síðan er 8% á mælikvarða heimsvísitölu en 12% frá hágildi um miðjan maí sl. Víða er að finna meiri lækkun og má nefna 13,5% lækkun flutningafyrirtækja í Bandaríkjunum, 33% lækkun orkufyrirtækja þar frá júlí 2014, 18% lækkun DAX-vísitölunnar í Frankfurt frá apríl sl. eða 25% lækkun vísitölu hlutabréfa á nýmarkaði (e. emerging markets).“

Sigurður segir að í fréttum sé efst á baugi verðlækkun hlutabréfa í Shanghai í Kína. „Shanghai-vísitalan hefur vissulega lækkað um 38% frá hágildi í júní sl. Gleymum þó ekki að sama vísitala hækkaði um 160% (2,6-földun) frá miðju ári 2014 til júlí 2015 eða frá gildinu 2.000 til 5.200. Lækkun síðustu mánuði staðnæmdist fyrst við helming þeirrar hækkunar en hefur nú tekið tvo þriðju hluta hennar aftur. Bæði hlutföllin eru kunn Fibonacci-hlutföll í viðskiptum með hlutabréf. Gildi Shanghai-vísitölunnar er um 3.200 um miðjan september 2015 og 60% hærra en fyrir 15 mánuðum.“

Sigurður segir að enginn viti hvað sé fram undan. „Flökt á markaði hefur verið mikið síðustu vikur og veit ekki á gott. Október er iðulega sá mánuður þegar hlutabréf ná lággildi eftir lækkun sumarmánaðanna. Framundan eru nóvember til apríl, bestu mánuðirnir sex. Líkur á því að framundan sé meiriháttar lækkun eins og árin 2008 eða 2002 eru litlar þótt fjárfestar þurfi að venju að vera við öllu búnir.“