Leiguíbúðir ekki góð leið til að leysa vandann

Fréttir

Leiguíbúðir ekki góð leið til að leysa vandann

Ragnar Árnason

Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og fastur álitsgjafi í Frjálsri verslun.Mynd: Geir Ólafsson

Ragnar Árnason,  prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og fastur álitsgjafi Frjálsrar verslunar, segir í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar, Sprotablaðinu, að það sé ekki góð leið til að leysa húsnæðisvandann að byggja leiguíbúðir í stórum stíl. Pistill hans hljóðar svo:

„Ef marka má fjölmiðla, sem raunar eru um flest ótraustar heimildir, ríkir húsnæðiskreppa í landinu. Þessi kreppa felst, að sögn fjölmiðla, í því að leiguverð sé hátt og hópar, sennilega einkum ungt fólk, hafi ekki efni á sómasamlegu húsnæði.

Ýmsar hugmyndir hafa verið settar fram til að vinna bug á þessu meinta vandamáli, flestar vanhugsaðar og sumar svo að þær myndu gera illt verra ef þær kæmust til framkvæmda. Ein hugmynd sem margir þrýsta á er að fjárstuðningur við leigjendur sé aukinn og byggðar séu leiguíbúðir í stórum stíl í því skyni að lækka leiguverð.“

Ragnar Árnason segir að þetta sé ekki góð leið til að leysa húsnæðisvandann og að fyrir því séu margar veigamiklar ástæður.„Í fyrsta lagi ber að hafa í huga að leiga er hagfræðilega miklu óheppilegra fyrirkomulag en eign. Þetta er vegna þess að leigjandinn hefur eðli málsins samkvæmt tiltölulega lítinn áhuga á að ganga vel um leiguhúsnæðið, sinna viðhaldi og endurbótum og freista þess að gera hið leigða verðmeira. Þetta þýðir annars vegar að meðferð húsnæðisins verður lakari en æskilegast væri og hins vegar að leigusali verður að grípa til kostnaðarsams eftirlits og eftirrekstrar til að takmarka skaðann. Þær upphæðir sem hér færu í súginn ef hlutfall leiguhúsnæðis vex að marki eru örugglega mjög verulegar á þjóðhagslegan mælikvarða og skipta hæglega milljörðum króna árlega.“

Ragnar segir að í öðru lagi sé rétt að hafa í huga að leigugreiðslurnar mynda ekki eign hjá leigutaka þótt þær geri það e.t.v. hjá leigusala. „Það þýðir að leigjendur verða miklu síður eignafólk. Afleiðing þess er að svigrúm þeirra til fjárfestinga og hvers lags annarra athafna sem kosta fjárútlát verður miklu minna en ella væri – fjármálastofnanir lána fyrst og fremst eignafólki.

Leigutakar falla því í fjárhagslega gildru og lokast inni í eignaleysi. Þar við bætist að vegna eðlis leigusamninga býr leigutaki ætíð við visst óöryggi um húsnæðið miðað við þann sem á sitt eigið. Sú stefna að auka leiguhúsnæði er því til þess fallin að gera allt fólk að efnahagslegu undirmálsfólki og í rauninni fanga leigusala hvort sem hann er einkaaðili eða hið opinbera.“

Ragnar segir að miklu affarasælla sé að greiða fyrir því að ungt fólk sem og allir aðrir geti eignast sitt eigið húsnæði og segir hann að margar leiðir séu til í því skyni.

„Ein er t.d. sú að hið opinbera leggi fram t.d. fjórðung af kostnaðarverði fyrstu íbúðar. Þetta framlag yrði hlutur hins opinbera í íbúðinni án frekari kvaða og greiddur til baka þegar hún væri seld eða fyrr ef eigandinn kysi. Sú heildarupphæð sem hér yrði um að ræða er veruleg í upphafi, nokkrir milljarðar á ári, en ekki ýkja mikil miðað við núverandi vaxta- og leigubætur svo ekki sé minnst á þann gríðarlega viðbótarkostnað sem stafa myndi af stórfelldri byggingu og rekstri leiguhúsnæðis á vegum hins opinbera.

Þegar til lengri tíma er litið myndi þetta nauðsynlega framlag fjara að mestu út því innkomnar tekjur af seldum íbúðum myndu að verulegu leyti mæta framlögum til nýs húsnæðis.“