Enginn vildi hjálpa litlu gulu hænunni

Fréttir

Enginn vildi hjálpa litlu gulu hænunni

​Árni Þór Árnason. „Eitt stendur samt óhaggað eftir sem ég lærði í Ísaksskóla: Það vildi enginn hjálpa litlu gulu hænunni að baka brauðið en allir vildu éta það með henni.“Mynd: Geir Ólafsson

„​Fyrir allmörgum árum fjárfesti íslenskur sjóður í skoska fyrirtækinu Optos en gafst upp á leiðinni og seldi sig út með tapi. Núna, tuttugu og tveimur árum eftir stofnun, var verið að selja fyrirtækið til NIKON í Japan fyrir fjögur hundruð milljónir dollara. Er þetta ekki bara lítið dæmi um að okkur skortir þolinmæði, sem er dyggð í nýsköpunarveröldinni?

Árni Þór Árnason, frumkvöðull og framkvæmdastjóri Oxymap ehf., skrifar einkar athyglisverða grein í nýjasta tölublað Frjálsrar verslunar, Sprotablaðið.​ Hér kemur greinin:

„Nýsköpun og nýjar lausnir hafa alltaf heillað mig. Þegar við rákum heildverslunina Austurbakka gafst tækifæri til að efla nýjar íþróttagreinar af því við vorum tengdir sportvörum og það var gaman að fylgjast með mikilli þróun á lækninga- og lyfjasviði sem við vorum líka starfandi á. Ég hef frá 2006 að mestu helgað mig nýsköpun, starfað í geiranum og tekið þátt í umræðum og vinnu um hvernig megi gera ennþá betur.“

Árni Þór Árnason segir að þrennt þurfi að vera í lagi til að Íslendingar geti náð ennþá lengra:

1. Menntakerfið hvetji.

2. Atvinnulífið bjóði tækifæri.

3. Ríkisvaldið skapi umgjörð.

„Það var ekki fyrr en í neyðinni eftir hrun að nýsköpun komst verulega á kortið og stjórnmálamenn fóru jafnvel að tala um að það væri eitthvert vit í þessu öllu. Samt létu menn fjölda tækifæra fara fram hjá sér. Tryggingagjald var stórhækkað, sem er fyrst og fremst refsing fyrir að ráða fólk í vinnu. Við höngum ennþá í 7% þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi stórminnkað.

Auðlegðarskattur eða ekknaskattur lagður á í þrjú ár. Í þessum hópi sem greiddi hann mátti helst reikna með svokölluðum englafjárfestum.

Skattafsláttur vegna kaupa á hlutafé í nýsköpunarfyrirtækjum er ekki ennþá orðinn að veruleika þrátt fyrir „jákvæðan vilja“ og búinn að þvælast í fjármálaráðuneytinu í fimm ár.

Lífeyrissjóðir eru í vandræðum með að fjárfesta 130 milljarða á ári og nýsköpun er ekki hátt skrifuð þarna. Þeir eru bara í pottþéttum fjárfestingum eins og reynslan sýnir.

Mörg fyrirtæki hafa flúið land þangað sem betur er hlúð að nýsköpun og hvetjandi stuðningsumhverfi er fyrir hendi. Þetta á sérstaklega við þegar glöggir menn sjá að það er eitthvert vit í verkefninu og fjárfesting á Íslandi nær sjaldnast fram yfir markaðsátak sem venjulega fylgir nýrri vöru.“

Skortir þolinmæði?

„Fyrst er að geta þess að árið 2011 tók við ný aðalnámskrá fyrir grunn- og framhaldsskóla. Þar er getið um „sköpun“ sem einn af grunnþáttum menntastefnu. Það felst í að móta viðfangsefni og miðla þeim, búa til og gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi hefur gert áður. Þetta er plús fyrir skólakerfið en hvernig er þessu framfylgt? Nemendur geta valið sig í og úr listgreinum og nemendur hafa frekar sóst eftir bóknámi en verknámi á undanförnum árum. Hvað veldur? Er það aðstöðuleysi í skólunum, utanaðkomandi þrýstingur um að sækjast frekar eftir bóknámi frá foreldrum, félögum og samfélaginu?

Ástæða þess að ég velti þessu upp er að stór hluti nýsköpunarfyrirtækja einskorðast við upplýsingatækni, tölvunarfræði og verkfræði.

Mikið af góðum og nýjum verkefnum tengist sjávarútvegi og áliðnaðinum. Landbúnaðurinn er ekki að skora mörk. Ef menn telja sér trú um að framleiða ætti meiri mjólk á Íslandi til skyrframleiðslu í stað þess að flytja út þekkinguna eru þeir

á rangri leið. Fóðurbætiskostnaður fyrir kýr getur ekki réttlætt útflutningi á skyri. Þegar við settum þetta verkefni í gang átti ekki að fjölga beljum. Þetta var þekkingarverkefni. Ferðamannaiðnaðurinn hefur verið í mikilli þróun og fjöldi nýjunga litið dagsins ljós, hvort sem það er varðandi gistingu eða afþreyingu á landinu.

Iðnaðurinn situr með hina eiginlegu nýsköpun og að berja á stjórnvöldum að „vakna“. Alveg eins og bóndinn gerir – hann gefur kálfunum nýmjólk til að þeir stækki hratt og verði annaðhvort mjólkurkýr eða holdanaut.

Þegar Steingrímur J. rann á rassinn með skattafsláttinn vegna fjárfestingar í nýsköpun tókst að troða inn endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarstyrk fyrirtækja. Þetta er ekki gjöf heldur endurgreiðsla og mætti vera mun hærri en þessi 15% sem hún er í dag og miðuð við meiri sveigjanleika í stærð nýsköpunarfyrirtækisins.

Það má líka bjóða lífeyrissjóðum sem hungrar aftur að fara að fjárfesta erlendis að taka fyrir íslensk gjaldeyrisskapandi fyrirtæki og lyfta þeim upp á næsta pall. Fyrir allmörgum árum fjárfesti íslenskur sjóður í skoska fyrirtækinu Optos en gafst upp á leiðinni og seldi sig út með tapi. Núna, tuttugu og tveimur árum eftir stofnun, var verið að selja fyrirtækið til NIKON í Japan fyrir fjögur hundruð milljónir dollara. Er þetta ekki bara lítið dæmi um að okkur skortir þolinmæði, sem er dyggð í nýsköpunarveröldinni?

Eitt stendur samt óhaggað eftir sem ég lærði í Ísaksskóla: Það vildi enginn hjálpa litlu gulu hænunni að baka brauðið en allir vildu éta það með henni.“