Sex aðferðir við að segja nei

Fréttir

Sex aðferðir við að segja nei

Gísli Kristjánsson, fréttamaður í Noregi: Það er ekki sama hvernig maður segir nei.

Fá orð eru túlkuð á eins marga vegu og þetta litla einfalda þriggja stafa orð. Þýðir nei-ið þitt: „Æ, ég nenni því ekki!“ eða: „Því miður en ég bara kemst ekki.“

Gísla Kristjánsson, fréttamaður í Noregi, er einn fastra álitsgjafa í Frjálsri verslun og kemur með stjórnunarmola sem hann hann tínir til hér og þar. Hér er sá sem er í Sprotablaðinu:

„Nei er ekki bara nei. Nei er mjög viðkvæmt orð og ber að umgangast með varúð, sérstaklega á vinnustað. Ekki er óalgengt að fólk, sem er ofhlaðið vinnu, fái boð um að gera enn meira og þá er um tvennt að velja: Segja nei á réttan hátt eða drukkna í vinnu.

Nei er í eðli sínu frekar ókurteist orð. Það felur í sér höfnun. Nei getur líka afhjúpað duldar meiningar. Fá orð eru túlkuð á eins marga vegu og þetta litla einfalda þriggja stafa orð. Þýðir nei-ið þitt: „Æ, ég nenni því ekki!“ eða: „Því miður en ég bara kemst ekki.“

Á vinnustað getur verið gott að kunna að segja nei án þess að afhjúpa um leið að nei-ið var bara yfirvarp: Í stað þess að taka að sér meiri vinnu var ætlunin að slappa af og skreppa í bústaðinn. Nei er í þessu samhengi mjög tæknilegt orð og krefst þess að ekki sé aðeins hugað að hljómfalli og tónhæð heldur líka samhenginu sem orðið er sett í.

Ef menn hópa uppyfir sig NEI þýðir það: „Farðu í rass og rófu bévítans frekjuhundurinn þinn!“ Þetta er ekki skynsamlegt. Langdregið neeeiii er yfirleitt túlkað sem leti.

Best væri að sleppa því að nota þetta orð. Samt kemur oft upp sú staða að nauðsynlegt er að segja nei og þá kemur tæknin til skjalanna.

Hér eru sex aðferðir við að segja nei án þess að það hljómi sem nei.

1. Nei, Guð hvað ég vildi geta gert þetta en núna verð ég bara að ljúka við það sem ég er að berjast við að klára. Þetta hljómar mjög heiðarlega og einfalt, sérstaklega ef það er satt líka.

2. Nei, þetta verðum við að ræða betur síðar. Þetta er nei sem sýnir áhuga og er ekki augljós höfnun. Svona svar má jafnvel skilja sem já þangað til annað kemur í ljós.

3. Nei, en spennandi. Ég veit um náunga sem bókstaflega iðar í skinninu að fá að fást við þetta. Þarna er á ferðinni jákvætt nei sem í raun þýðir að þú flytur vandamálið yfir á einhvern annan. Er það nei?

4. Nei, ég get svarað þér í næstu viku. Láttu mig endilega vita hvort það passar þér ennþá. Þetta er ekki algert nei en nærri því. Þú lætur þó í ljós einhvern áhuga.

5. Nei, ég bara hef alls ekki tíma núna þótt þetta virðist spennandi. Þetta er eiginlega bara hreint og klárt nei án þess að vera ókurteisi.

6. Nei, ég hef verið að spá í þetta. Getur þú ekki sent mér tölvupóst? Þetta er yfirleitt túlkað sem fremur dónalegt nei án þess þó að líta út fyrir að vera það.