Samfélags hvað?

Fréttir

Stjórnmál

Samfélags hvað?

Vilhjálmur Bjarnason. Mynd: Hringbraut.

Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður fjallar um samfélagsbanka, stofnun sem framsóknarmenn telja nauðsynlega.

Það var eitt sinn sagt í bók: „Eftirspurnin eftir heimabökuðum sannleika fer síþverrandi”. Það er öðru nær á vorum dögum því nú er mikil eftirspurn eftir nýjum heimabökuðum sannleika, sá heitir „samfélagsbanki“. Í hinum nýja sannleika felst það að fjármálastofnunin á ekki að hafa ágóða að leiðarljósi. Það er ekki alveg ljóst hvernig útlánastarfsemi verður háttað; væntanlega á að lána til verkefna sem lánastofnanir sem hafa ágóða að markmiði lána ekki til.

Til hvers er fyrirtæki?

Fyrirtæki hafa ávallt einhvern tilgang. Meðal markmiða fyrirtækisins er að hámarka hagnað, eða öllu heldur að hafa viðunandi afkomu. Hámörkun hagnaðar byggist á tveimur grundvallarskilyrðum; hámörkun tekna og lágmörkun kostnaðar. Þessi hámörkun og lágmörkun skapar hagnað, og býr við ýmis hliðarskilyrði. Þar ber að nefna lagaramma og samfélagssáttmála og ekki síður samkeppni annarra fyrirtækja á sama markaði. Ekkert fyrirtæki  lifir af með því að hafa aðeins það takmark að hámarka hagnað. Það er jafnframt hægt að fullyrða að ekkert fyrirtæki lifar af með því að hafa tilganginn einan að markmiði. Ein tegund fyrirtækja bjó við mjög óvenjuleg skilyrði; það voru kaupfélög sem höfðu það að markmiði að hámarka afurðaverð til bænda og lágmarka verð til neytenda. Það þarf ekki að rifja upp endalok samvinnuhugsjónarinnar. Það er best að samvinnumenn segi þá sögu sjálfir.

Til hvers er banki?

Bankar og fjármálastofnanir eru til þess að miðla fé milli þeirra sem hafa aflögu og þeirra sem eiga afgang. Sá afgangur getur verið tímabundinn og því þarf fé að vera til reiðu þegar sá er á þarf á því að halda.  Lán þarf að greiða til baka, í raunverðmætum en ekki aðeins í nafnverði. Lífeyrissjóðir eru stofnanir sem miðla fé milli tímabila í starfsævi hins vinnandi manns. Bankar og fjármálastofnanir miðla ekki lífsgæðum og eru ekki félagsmálastofnanir. Það versta sem kemur fyrir á fjármálamarkaði er þegar nýfundnir snillingar finna nýjungar á fjármálamarkaði. Sér í lagi er það hættulegt þegar hinir nýfundnu snillingar finna nýja viðskiptavini, sem gamlar lánastofnanir með gömlum snillingum vilja ekki lána. Því ber að fara varlega þegar nýr sannleikur finnst.

Hvar er samkeppni?

Ýmsum kann að þykja nóg um háa vexti og mikinn kostnað í lánaviðskiptum. Víst er að vaxtamunur í bankakerfinu á Íslandi er nokkuð mikill. Ástæður fyrir miklum vaxtamun eru margar. Ein þeirra er skattlagning á skuldir banka, en meðal skulda eru innlán. Bankar greiða ekki þá skatta heldur viðskiptavinirnir . Við eðlilegar aðstæður eiga þeir þess kost, sem geta kosið með fótunum, að eiga viðskipti við erlenda banka. Íslenskar fjármálastofnanir, sem hafa starfað í vernduðu umhverfi fjármagnshafta, þar sem almenningur á engra kosta, hafa verið leiðandi í launaskriði. Það launaskrið hafa viðskiptavinir þurft að borga. Nú þegar hyllir undir lok fjármagnshafta er áleitin spurning hví kröfuhafar í slitabúum íslenskra bana vilja ekki eiga hina nýju banka, þessa miklu „gróðalind“ sem þeir hafa verið á liðnum árum. Ef til vill hugsa þeir eins og Steinn Elliði;“ Hvaða erindi á ég framar meðal þessara sveitamannaþjóðar, innan um ruddalega búra og auðsjúka útvegsbændur, í þessu landi alþýðuspekinnar, þar sem fánasveit menníngarinnar er skipuð flökkurum, ömmum og spákellíngum og uppgjafahreppstjórum.“

Hvað sagði Adam Smith?

Eitt af því sem Adam Smith segir í riti sínu um Auðlegð þjóðanna er að atvinnurekendur komi aldrei saman til annars en að leggja á ráðin gegn viðskiptavinum sínum. Þessi lýsing finnst mér oftar en ekki eiga við þegar fyrirtæki á fákeppnismarkaði eins og íslenskum fjármálamarkaði. Því er spurt; hví fá Samtök fjármálafyrirtækja að starfa?

Hvað er til bóta?

Það eru nokkrir samverkandi þættir sem einir geta orðið til bóta á íslenskum fjármálamarkaði. Með því er ekki átt við hagsbætur fyrir eigendur og starfsfólkheldur fyrir neytendur og þá áhættu sem samfélagið ber af fjármálastarfsemi. Lausnarorðið er samkeppni. Líklega er stóra samkeppnishindrunin gjaldmiðillinn. Það hefur sýnt sig að erlendar fjármálastofnanir hafa aðeins áhuga á íslenskum gjaldmiðli til spákaupmennsku í vaxtamunaviðskiptum.

Á meðan, hvað?

Þegar ekki er samkeppni á fjármálamarkaði hagar þjóðin sér um margt eins og í drykkjumannsórum þar sem ber mest á mikilmennskubrjálsemi flækingsins, sem ofmetur þjóðerni sitt í útlöndum en reynslu sína og veraldarvisku þegar heim er komið. Slík hegðan verður aðeins til eyðileggingar í bráð og lengd. 

Vilhjálmur Bjarnason

Tags

More News