Ræða mín við útnefningu Árna Odds sem manns ársins

Fréttir

Ræða mín við útnefningu Árna Odds sem manns ársins

Eftir Jón G. Hauksson

Hér kemur ræða Jóns G. Haukssonar, fyrir hönd dómnefndar, við útnefningu Árna Odds Þórðarsonar sem manns ársins 2015 í atvinnulífinu á Íslandi.

Maður ársins í íslensku atvinnulífi árið 2015, Árni Oddur Þórðarson.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir,

starfsmenn Marels,

góðir gestir.

Í skýrri framtíðarsýn felst kraftmikil orka.

Skýr framtíðarsýn gefur starfi leiðtogans bæði tilgang og er honum mikilvægur leiðarvísir við að taka ákvarðanir.

Í bókinni Leading Change eftir John P. Kotter um sýn leiðtogans kemur m.a. fram að 
– sýnin þarf að vera myndræn og öllum skiljanleg.

– hún þarf að vera eftirsóknarverð og höfða bæði til starfsmanna og viðskiptavina.

– hún þarf að vera sveigjanleg og framkvæmanleg.

Því nefni ég þetta að maður ársins í íslensku atvinnulífi árið 2015 hefur sýnt og sannað að hann er leiðtogi og langflestir hafa á orði hversu skýra framtíðarsýn hann hafi. Hann er þekktur fyrir úthugsaða leiki og hæfileika til að sjá stóru myndina og halda sig við hana.

MAT DÓMNEFNDAR

Veislugestir góðir!

Það er með mikilli ánægju sem Frjáls verslun útnefnir Árna Odd Þórðarson, forstjóra Marels, mann ársins í atvinnulífinu á Íslandi árið 2015.

Þetta er í 28. sinn sem Frjáls verslun stendur að þessari útnefningu og eru þetta elstu verðlaun í viðskiptalífinu á Íslandi.

Í mati sínu lagði dómnefndin til grundvallar stórhug, áræði, útsjónarsemi, framúrskarandi hæfileika í stjórnun og framsæknar fjárfestingar sem gert hafa Marel að eftirsóknarverðum kosti á hlutabréfamarkaði og fært það í fremstu röð fyrirtækja í heiminum á sínu sviði.

Það vó þungt hversu kaup Marels á hollenska fyrirtækinu MPS í nóvember sl. undir stjórn Árna Odds voru vel útfærð og hversu vel honum hefur tekist að endurskipuleggja Marel eftir að hann varð forstjóri þess í nóvember árið 2013.

Undir stjórn Árna hefur reksturinn verið einfaldaður, verksmiðjum fækkað, markaðssókn gerð markvissari, vöruframboð einfaldað og framleiðsla félagsins gerð skilvirkari.

Í dómnefnd Frjálsrar verslunar sitja auk mín: Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Heims og útgefandi Frjálsrar verslunar, en hann er formaður nefndarinnar, Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi, Sigurður Helgason, stjórnarformaður Icelandair Group, og dr. Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður nýsköpunar og frumkvöðlakennslu í MBA-námi Viðskiptaháskólans í Kaupmannahöfn.

Í STJÓRN MARELS ÁRIÐ 2005

Árni Oddur settist í stjórn Marels árið 2005 í krafti eignarhluta fjárfestingarfélags þeirra feðga; Eyris Investment. Árni varð síðar sama ár stjórnarformaður Marels.

Árið eftir, 2006, lagði stjórn Marels undir stjórn Árna Odds mjög metnaðarfulla vaxtarstefnu sem kynnt var til sögunnar á aðalfundi félagsins. Í ágúst sama ár var tilkynnt um kaup Marels á danska fyrirtækinu Scanvaegt en umsvif Marels tvöfölduðust við þau kaup.

Árið 2008 keypti Marel hollenska fyrirtækið Stork með góðum árangri, en það voru þau kaup sem lögðu grunninn að stórstígum vexti og góðum árangri Marels.

Í nóvember sl. keypti Marel hollenska fyrirtækið MPS á 55 milljarða króna og eftir samrunann er áætlað að velta Marels verði yfir einn milljarður evra – eða yfir 140 milljarðar króna – og að EBITDA, þ.e. hagnaður fyrir vexti, afskriftir og skatta, verði um 25 milljarðar króna.

Marel hefur um árabil verið eitt af stærstu og vinsælustu fyrirtækjum landsins. Velta þess á síðasta ári, 2014, var um 111 milljarðar króna, hagnaður um 2,6 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall um 50%. 

Marel er annað stærsta fyrirtæki landsins á eftir Icelandair Group; mælt í veltu.

Marel er 155. verðmætasta fyrirtæki í kauphöllum á Norðurlöndum. Markaðsvirðið núna er um 182 milljarðar króna en var 102 milljarðar í upphafi ársins. Virði Marels hefur því aukist um 80 milljarða króna á árinu 2015.

ÍMYND  ÁRNA ODDS

Góðir gestir!

Ímynd Árna Odds er sterk. Hann þykir íhugull með rólegt yfirbragð og er þægilegur í samskiptum.

Hann á mjög auðvelt með að taka ákvarðanir og þorir að taka af skarið. Hann er sagður kjarkaður, áræðinn og komi auga á beitta leiki í skák viðskiptanna.

Hann kemur sumum fyrir sjónir sem svolítið utan við sig – en það er fjarri lagi; hann er einmitt þá að rýna í næstu leiki og hugsa málin.

Þegar rætt er við kunna menn í viðskiptalífinu sem þekkja til Árna kemur fljótt sú lýsing á honum að hann sé hugsuður sem horfi á stóru myndina – og hann taki engar ákvarðanir nema hafa hugsað þær í þaula. Í menntaskóla var hann raunar ágætur skákmaður.

Frjáls verslun gerði í fyrra úttekt á forstjórum tíu stærstu fyrirtækjanna á Íslandi og hvað einkenndi þá sem stjórnendur.

Rætt var við sex kunna einstaklinga í viðskiptalífinu til að lýsa stjórnendunum.

Á meðal þess sem sagt var um Árna Odd var að styrkleiki hans lægi í mikilli þekkingu á markaði Marels.

Hann hefði reynst fundvís á rétta fólkið. Hann hefði þurft að fækka fólki en jafnframt ráðið inn nýtt hæft fólk.

Fram kom að hann væri harðjaxl þegar það ætti við.

Hann nýtur virðingar í atvinnulífinu.

Veislugestir góðir!

En hvað er Marel? Í upphafi fyrirtæki ættað úr háskólanum; mar og el; sjór og elektróník. Síðar og núna: tölvur, hátækni, stálsmiðjur, elektróník, forrit, framleiðslulínur og háþróuð tæki fyrir matvælaframleiðendur í sjávarútvegi og kjötframleiðslu.

Ef þið ert að baksa í eldhúsinu og þurfið að úrbeina, flaka, roðfletta, skera kjúklingana og svínakjötið í alls kyns bita og sneiðar, þá kemur Marel til sögunnar og bjargar málunum – að vísu eru tækin aðeins of stór fyrir eldhúsið heima hjá mér.

FJÖLSKYLDAN

Eiginkona Árna Odds er Eyrún Lind Magnúsdóttir og eiga þau tvö börn, Elínu Maríu og Þórð. Fjölgunar er að vænta í fjölskyldunni innan skamms, þar sem þau Árni og Eyrún Lind eiga von á stúlkubarni í byrjun janúar.

Í viðamiklu viðtali við Árna Odd í áramótablaði Frjálsrar verslunar kemur fram að hann hyggst taka sér barneignafrí eftir áramótin og fara í fæðingarorlof.

Ég vil óska Eyrúnu Lind, börnunum og 4.700 starfsmönnum Marels til hamingju með daginn.

Ég vil þakka Birni Vigni Sigurpálssyni blaðamanni fyrir samstarfið við hið viðamikla viðtal við Árna.

Ágætu gestir:

Lyftum glösum.

Hér fer góður maður sem við heiðrum.

Matur er fyrir öllu.

Eða öðruvísi orðað:

Matur er mannsins megin – með hjálp Marels.

Með auðmýkt og virðingu segi ég:

Árni Oddur Þórðarson, þína skál.