„Ég er mikið feginn að ég lenti þar“ Viðtal við Svavar Gestsson

Fréttir

„Ég er mikið feginn að ég lenti þar“ Viðtal við Svavar Gestsson

Svavar kemur víða við í vðtali við Vísbendingu.Mynd: Geir Ólafsson

Á Íslandi hefur aldrei geisað stríð í hefðbundinni merkingu orðsins. Vopnaburður er óþekktur, heragi framandi og sagt um innbyggjara að þeim sé fyrirmunað að ganga í takt. Frá því snemma á  20.öld var samt barist á Íslandi. Stéttaátök teygðu sig um allan hinn vestræna heim og víglínan hlykkjaðist um samfélögin, þræddi kjallaratröppur og breiðstræti og skipti fólki í fylkingar. Framan af notuðu menn heiti eins og verkalýður eða öreigar annars vegar og valdastétt eða borgarastétt hinsvegar til þess að greina fylkingar að.
Svo kom alvörustríð í formi seinni heimsstyrjaldarinnar og eftir það kólnaði stríðið og það sem eftir lifði 20. aldar geisaði kalt stríð á Íslandi. Þá voru notuð heiti eins og kommar, hægrimenn, sósíalistar, borgarastétt eða fasistar til þess að merkja menn eftir stöðu þeirra á vígvellinum. Það var barist á síðum dagblaðanna, á öldum ljósvakans og það var barist á fundum verkalýðsfélaga, flokka og almennra félagasamtaka og í verkföllum. Það var barist um hylli fólks, fylgi þess við ólíka hugmyndafræði. Alræði öreiganna gegn kapítalistum. Vinstri gegn hægri. Þjóðviljinn gegn Morgunblaðinu. MÍR gegn Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna. Sósíalistaflokkurinn/Alþýðubandalagið gegn Sjálfstæðisflokknum. Samtök herstöðvaandstæðinga gegn Varðbergi og Vörðu landi og NATO. Moskvits gegn Chevrolet. Almenna bókafélagið gegn Máli og menningu. Ólafur Thors gegn Einar Olgeirssyni. Rautt eða blátt. Austur eða vestur.
Afskaplega margir börðust í þessu kalda stríði. Þeir tóku sér stöðu og vörðu sína menn, sínar hugsjónir og sinn heimshluta án þess að hvika. Þeir skráðu niður nöfn, fylgdust með athæfi manna, skipuðu sína menn og konur í stöður innan félaga, fyrirtækja, stofnana og komu þeim í embætti þar sem þau gátu staðið sína vakt fyrir sitt fólk og sinn málstað.
Allt þetta breyttist þegar Berlínarmúrinn féll og hin risavöxnu Sovétríki liðu undir lok. Þá fannst mörgum sem hinu kalda stríði væri lokið og kapítalisminn, frelsið og kóka kóla hefði farið með sigur af hólmi. Á leiðinni til hins hrunda múrs voru margir áfangar sem reyndu á trúfestu og þolgæði þeirra sem stóðu sinn vörð vinstra megin hryggjarins. Margir lögðu tregir niður vopn og fannst allt þeirra stríð undir einum grjótkletti hafa verið fyrir gýg unnið meðan aðrir kættust.
Síðan hafa aðrir straumar annars konar frelsis skolast yfir land míns föður og margir misst fótanna í brimlöðri hins frjálsa markaðar og fáir eftir lengur sem sjá heiminn í tveimur litum.

Sveitastrákur og sendiherra

Einn þeirra sem tók virkan þátt í stríðinu kalda heitir Svavar Gestsson. Hann var blaðamaður 1964 og síðar ritstjóri á Þjóðviljanum frá 1971 til 1978. Hann starfaði fyrir Alþýðubandalagið og Samtök hernámsandstæðinga 1966-67. Hann var fyrst kjörinn á þing fyrir Alþýðubandalagið 1978 og sat þar til 1995, síðan fyrir Alþýðubandalag og óháða frá 1995 til 1999. Þegar flokkar á vinstri vængnum sameinuðust undir nafni Samfylkingarinnar náði Svavar skammri þingsetu – í eina viku! - fyrir þann flokk en hvarf síðan til starfa í utanríkisþjónustunni og var sendiherra Íslands fyrst sem aðalræðismaður í Winnipeg í Kanada, síðar í Svíþjóð 2001 til 2005  og Danmörku 2005 til 2009 þegar hann kom heim og settist í helgan stein að mestu.
Svavar var ráðherra í alls fjórum ríkisstjórnum á árunum 1978 til 1991.
Sjálfsævisaga Svavars, Hreint út sagt, kom út hjá JPV forlagi 2012 og þar rekur Svavar ævi sína, mótunarár og stjórnmálastarf af kostgæfni og talsverðri stílsnilld.

 Gæti gengið betur næst

Vísbending sótti Svavar heim í Mávahlíð síðla hausts og með kaffi og kleinum var skrafað um fortíðina sem manni getur vel þótt áhugaverðari en nútíminn. Hann segist reyndar aldrei hafa fundið þennan helga stein sem nefndur var í innganginum. Um þessar mundir er Svavar á kafi í alls konar félagslegum verkefnum, fararstjórn og ritstjórn Breiðfirðings. Ég byrjaði á því að vísa til endurtekinna orða ónefnds fræðimanns sem oft kallar til íslenskra vinstri manna að þeir eigi eftir að „gera upp“ fortíð sína. Hvað finnst honum um þessháttar kröfur?
„Ég virði rétt hans til þess að segja þetta sem mér finnst þetta samt óttaleg vitleysa og veit ekki almennilega hvað átt er við. Mér finnst að þeir  eigi að gera upp sína fortíð og frjálshyggjuna sem setti Ísland á hausinn fyrir fáeinum árum.
Þessi fræðimaður sem þú vilt ekki nefna er Hannes Hólmsteinn Gissurarson og hann er kannski einn mesti áhrifavaldur í íslenskum stjórnmálum síðari áratuga þegar allt kemur til alls gegnum áhrifin sem hann hafði í gegnum Davíð Oddsson,“ segir Svavar við mig í Mávahlíð þetta síðdegi og rennir hönd gegnum grátt hárið sem er jafn úfið og það var jafnan meðan það var svart.
-Kannski er verið að kalla eftir því að menn geri upp afstöðu sína til þeirrar samfélagstilraunar um sósíalisma sem mörgum fannst líða undir lok og hafa mistekist með endalokum kalda stríðsins.
„Þessi samfélagstilraun um sósíalisma hefur ekkert mistekist. Það sem hrundi var valdakerfi Sovétríkjanna, kerfið sem átti að bera uppi heimsvaldastefnu Rússlands. Ég tel ekki að hugsjón sósíalismans hafi beðið skipbrot. Þótt það hafi tekist illa til þarna þá getur vel verið að það takist einfaldlega betur til næst- á öðrum stað og tíma.
Ég hef oft sagt að ef þessi tilraun hefði verið gerð annars staðar- t.d. í Þýskalandi þá hefði eflaust farið á annan veg. Rússland var afar vanþróað ríki og vonlítið að koma þar á lýðræðislegu þjóðskipulagi.
Þýskaland var hinsvegar tiltölulega þróað land um það leyti sem sovéska byltingin var gerð og studdist við ýmsar hugmyndir sem lýðræðislegar geta talist og lýðræðislegt stjórnkerfi að nokkru leyti. Þar voru sósíaldemókratar mjög sterkir og þótt kommúnistar væru erfiðir í samstarfi mætti vel hugsa sér að hefðu þeir náð saman með krötum eftir fyrri heimsstyrjöldina þá hefði mátt halda Hitler og félögum hans frá völdum.
Þess má geta að þetta var ein af eftirlætiskenningum Einars Olgeirssonar og hann hélt þessu oft fram en ég er ekki alveg viss um að það sé rétt. “

Vil ekki láta kalla mig kommúnista

-Þú segir í ævisögu þinni að þú viljir ekki láta kalla þig kommúnista.
„Ég hef ekki mikinn áhuga á því. Samt líður varla sá dagur að ég sé ekki kallaður kommúnisti eða kommi og mér er í sjálfu sér sama um þann merkimiða. En ég vil ekki láta samsama mig með stjórnkerfi Sovétríkjanna og því sem þar viðgekkst. Lýðræðisleysið og alger miðstýring  í efnahagsmálum sem að lokum varð þeim að falli. Ég kalla mig sósíalista og hika hvergi við að halda því fram.“
-Voru félagar þínir í Alþýðubandalaginu sáttir við að vera kallaðir kommúnistar?
„Við kölluðum okkur sósíalista en komma í góðlátlegum tón. En bæði Æskulýðsfylkingin og Þjóðviljinn kenndu sig við sósíalisma og það var sú kenning sem menn aðhylltust.  Þjóðviljinn var „málgagn sósíalisma, verkalýðshreyfingar og þjóðfrelsis“ eins og stóð í haus blaðsins í 23 ár.“

Átökin um Ólaf Ragnar Grímsson

-Voru þá átökin í Alþýðubandalaginu ekki milli fylkinga gamalla kommúnista og sósíalista?
„Þau átök sem þú vísar til á seinni árum Alþýðubandalagsins snerust ekki um stjórnmálastefnur. Þau snerust í tíu ár um Ólaf Ragnar Grímsson og ekkert annað. Hann notaði þau mál sem hentaði til þess að lyfta sjálfum sér. Það var aldrei málefnalegur ágreiningur milli okkar- aldrei nokkurn tímann.
Hann kallaði þetta átakakenninguna og ég man vel eftir því þegar ég heyrði þetta fyrst. Við vorum að ganga niður stiga á Hverfisgötu eftir fund með Öddu Báru Sigfúsdóttur og henni brá svo að hún var nærri dottin þegar Ólafur Ragnar notaði þetta orð eins og átökin væru sjálfstæð stefna eða einhver sérstakur happafengur.
Ég og margir aðrir voru aldir upp við það að vinstrihreyfingin þyrfti umfram allt að standa saman og gera lítið úr innri ágreiningi út á við en Ólafur var á annarri skoðun.“

Prinsípfast barn og undarlegt

-Ég undirbjó mig undir þetta viðtal meðal annars með því að lesa sjálfsævisögu þína. Þar sést glöggt að þú mótast ungur af sveitalífinu og lífsbaráttunni þar. Svo kemur þú til borgarinnar til náms en rekst ekki reglulega vel í fyrstu í hinum borgaralega MR. Mér fannst hálfpartinn á henni að þú hefðir allt eins getað orðið Framsóknarmaður. Getur það verið rétt?
„Ég hefði getað orðið hvað sem var. Ég var ákafur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins á aldrinum 9-12 ára. Ég neitaði að borða með föður mínum af því að hann kaus ekki Friðjón Þórðarson árið 1956. Svona var ég prinsípfast barn og undarlegt. Það tók að vísu enginn eftir þessum mótmælum mínum en mér var alveg sama.Ég var undir miklum áhrifum frá Steinunni á Breiðabólsstað þar sem ég gekk í einskonar skóla og lærði undirstöðufög. Ef ég hefði haldið áfram hjá henni er ekki að vita hvar ég hefði lent.
Mér heyrist þú vera að gera að því skóna að ég sé einskonar vinstri landsbyggðar Framsóknarmaður og rétt að gangast við því að á sínum tíma gekk ég í félag ungra Framsóknarmanna hér í Reykjavík og skrifaði meira að segja blaðagrein sem átti að birtast í Tímanum. Ég finn hana hinsvegar ekki á timarit.is en hún var til stuðnings flokknum í kjördæmamálinu 1959.

Feginn að ég lenti hjá Einari

Svo fór ég í Menntaskólann í Reykjavík og þar átti ég stóran vinahóp. Þar var Atli Magnússon þýðandi og stórsnillingur, María Kristjánsdóttir leikstjóri og Ólafur Einarsson Olgeirssonar sem varð einn af mínum nánustu vinum. Ég var dreifbýlisstrákur bjó hjá frænku minni og fannst það ekki alltaf gaman. Þar vildi ég ekki vera alltaf  og dvaldi því langdvölum í Tjarnargötu 20 þar sem Einar Olgeirsson uppfræddi ungt fólk. Þar tók ég þátt í leshringjum og mín pólitísku örlög voru ráðin. Ég er mikið feginn svo ég bregði fyrir mig sunnlensku að ég lenti þar. Hér á ég heima.“
-Í ævisögu Svavars er því fagurlega lýst hvernig ungt fólk sat við fótskör Einars sem talaði án afláts í hálfan annan tíma í senn á leshringjum, greip leiftursnöggt bækur úr hillum og opnaði þær á réttum stað máli sínu til stuðnings þegar hann var heimsóttur. Þarna var Einar um sextugt og eyddi laugardögum í að tala við börn um pólitík „tággrannur með ótrúlega langar neglur sem beygðust fram yfir fingurgómana“ svo vitnað sé til bókar.
Þarna voru auk þeirra sem þegar hafa verið nefndir: Guðrún Hallgrímsdóttir verkfræðingur, Ingibjörg Haraldsdóttir skáld, Hafsteinn Einarsson lögfræðingur, Jón Sigurðsson sem síðar leiddi Framsóknarflokkinn, Pétur Guðgeirsson síðar dómari og Einar Már Jónsson sem seinna átti eftir að kenna við Svartaskóla í Frans og skrifa merkar bækur. Þarna komu einnig Vésteinn Lúðvíksson rithöfundur, Valdimar Briem, Kristján Linnet, Guðmundur Hinriksson auk Svavars, Atla og Maríu. Allt þetta unga fólk var við nám í Menntaskólanum í Reykjavík.

Áhrifaríkasti leiðtogi vinstri manna á 20. öld.

„Einar var óvenjulega glæsilegur pólitískur leiðtogi, fæddur kennari, snjall skipuleggjari.. Hann hafði mikla pólitíska útgeislun. Kommúnistaflokkurinn hafði yfir 30 % atkvæða á Akureyri upp úr 1930 undir forystu Einars meðan flokkurinn fékk langt innan við tíu prósent í Reykjavík. Einar var afskaplega hlýr maður í persónulegum samskiptum og hafði mikil áhrif á marga, þar á meðal mig. Ég hygg að ekki sé ofsagt að hann hafi verið sterkasti og áhrifaríkasti leiðtogi vinstri manna á síðustu öld.
Ég tók þátt í fundi um Einar og minningu hans á dögunum hjá félagi sem starfar hér í Reykjavík og heitir Eldri Vinstri Græn og er hinn merkasti félagsskapur.
Þessi hugmynd um annað og betra þjóðfélag sem byggði á jöfnuði og lýðræði átti afar greiða leið að hjarta mínu á þessum tíma. Ég var alinn upp við misjöfn kjör og þekkti bæði líf í bragga og fátækt sveitalíf. Andúðin á fátæktinni og þeirri niðurlægingu sem henni fylgir var rótgróin í manni. Löngunin eftir samfélagi sem byggði á öðru en auðsöfnun fárra á kostnað margra var því sterk og fullkomlega einlæg.
Svo kom ég nestaður að heiman sterkri andstöðu gegn hersetunni og með þau þjóðernisviðhorf og bjarma sem lýsir frá Íslandssögu Jónasar frá Hriflu og allir sveitakrakkar lásu. Baráttan gegn hernum var lituð sterkri þjóðerniskennd og var í hugum margra í reynd sjálfstæðisbarátta. Þjóðin var nýlega sjálfstæð eftir erlenda áþján.
Faðir minn var  rómantíker. Hann stóð í sömu sporum og margir af hans kynslóð hér í Reykjavík, var í ágætri vinnu, byggði sína eigin íbúð og hlóð niður börnum en hugurinn var alltaf fyrir vestan og að lokum seldi hann íbúðina og flutti aftur í sveitina þar hann byggði upp að nýju.“
Í ævisögu Svavars er því lýst hvernig barátta fjölskyldunnar í sveitinni var um leið baráttan við fátækt og skuldasöfnun og erfiði var hlutskipti hennar.
„Þessi sama rómantík er í mér. Við eigum bústað vestur í Reykhólasveit  þar sem við sitjum stundum með tárvot augu og horfum á Skarðsströndina og Snæfellsjökul. Þarna er einhver taug sem aldrei rofnar.“

Að bila í Ungó

Kalda stríðið skipti þjóðfélaginu í fylkingar og menn tóku sér stöðu og héldu með sínu liði gegnum þykkt og þunnt. Baráttan var háð með skipulegum hætti á margvíslegum stöðum í samfélaginu. Tryggð vinstri manna við sinn málstað var rómuð ekki síður en hægrimanna en í hópi sovétvina var sagt: Hann bilaði í Ungó. Þá er átt við að viðkomandi hefði snúið baki við sínum málstað þegar uppreisnin í Ungverjalandi var gerð 1956 þegar Sovétmenn beittu hervaldi til þess að bæla niður uppreisnalþýðu manna. Margir létu af trúnni á alræði öreiganna við þessi tíðindi. Kannast Svavar við þetta orðalag?
„Ég hef aldrei skrifað upp á það sem var kallað alræði öreiganna en þetta var mjög algengt orðalag fannst mér um það leyti sem ég gekk til liðs við Æskulýðsfylkinguna 1960.  En þessi átök birtust með margvíslegum hætti. Margir vildu gera upp við þá afstöðu sem Kommúnistaflokkurinn eða Sósíalistaflokkurinn höfðu haft á sinni tíð. Ég var alltaf gagnrýnin á afstöðu þeirra til Sovétríkjanna en ég vildi aldrei ráðast að einstaklingum. Ég vildi t.d. aldrei dæma út í ystu myrkur þá félaga Einar Olgeirsson og Brynjólf Bjarnason eins og stundum heyrðist í Alþýðubandalaginu. Þeir voru að berjast við aðstæður síns tíma og ég vildi votta þeim mína virðingu fyrir þar. Samt var margt í afstöðu þeirra, sérstaklega Brynjólfs sem ég átti afar erfitt með að sætta mig við og það sama á við um Einar. Hann var á síðustu árum ósáttur við afstöðu mína til Sovétríkjanna og þess að við vildum ekki hafa flokksleg samskipti við valdaflokkana í Austur-Evrópu en það breytti engu um persónulega vináttu okkar. 
En ég hafði samt alltaf hálfgerða andúð á þeim sem vildu upphefja sjálfa sig í núinu með því að benda á syndir forfeðranna. Mér fannst það allt að því ógeðfellt.
Ég var alltaf heillaður af hugmyndinni um samfylkingu með litlum staf. Ef við viljum breyta samfélaginu þá verðum við að standa saman. Breið samstaða er eitt mikilvægasta aflið til breytinga og þá er brýnt að enginn hlaupist undan merkjum.
Svo við komum aðeins nær samtímanum þá horfði maður á harkalegar árásir á Jóhönnu og Steingrím, Svandísi og Katrínu á tímabili síðustu ríkisstjórnar. Þetta var samt fólkið sem var þó að reyna að gera jákvæða og mikilvæga hluti og mér fundust árásir frá svonefndum samherjum þeirra alveg sérstaklega ódrengilegar.“

Aldrei vandamál fyrir Alþýðubandalagið

-Hvernig hreinsaði Alþýðubandalagið sig af sinni kommúnísku fortíð þegar þú varst í forystusveit flokksins?
„Veit ekki alveg hvað þú átt við en þetta var aldrei vandamál fyrir Alþýðubandalagið, en var það vafalaust að einhverju leyti fyrir Sósíalistaflokkinn sem var lagður niður 1968. Þegar Sovétríkin réðust inn í Tékkóslóvakíu 1968 þá slitum við – Alþýðubandalagið - öll formleg tengsl við stjórnmálaflokka innrásarríkjanna  og lögðum niður Sósíalistaflokkinn og breyttum Alþýðubandalaginu úr kosningabandalagi í stjórnmálaflokk. Við sem unnum á Þjóðviljanum vorum algerlega grjóthörð á því að halda þeirri línu og ég tel að þessi afstaða hafi í raun orðið lífæð Alþýðubandalagsins og gert því kleift að verða að því afli sem það varð.“

Gömlu mennirnir voru ósáttir

Voru gömlu mennirnir sáttir við þessa afstöðu?
„Nei þeir voru það ekki. Ég hygg að Kjartan Ólafsson hafi verið ákveðnastur talsmanna þessarar stefnu og við fylgdum honum eindregið og hiklaust og flokkurinn líka mæstum hver einasti maður. Lúðvík Jósepsson var reyndar alltaf ósammála okkur  en talaði ekki um það út á við og það voru líka Einar Olgeirsson og fleiri af hans kynslóð. Ég sá árið 2010 í skjalasafni frá Austur-Þýskalandi afrit af viðtölum sem Einar Olgeirsson átti þar við austur-þýska stjórnarerindreka. Þar hvetur Einar til þess að reynt sé að nálgast menn í okkar flokki á „persónulegum grundvelli“ til þess að efla á ný tengsl austur- þýska valdaflokksins við Alþýðubandalagið. Hann telur upp lista af flokksmönnum sem hann telur að séu móttækilegir fyrir þessháttar samtölum.  Hann nefnir t.d. Öddu Báru Sigfúsdóttur, Ólaf Jónsson, Eðvarð Sigurðsson, Soffíu Guðmundsdóttur,Garðar Sigurðsson, Ólaf Einarsson, Svavar Gestsson og Svövu Jakobsdóttur og lætur fylgja að þetta fólk vilji náin tengsl bræðraflokka sósíalísku landanna. Þetta vardraumur Einars en alls ekki veruleiki. Á svipuðum nótum talaði Lúðvík Jósepsson við þýska erindreka allt til 1978 og talar þá meðal annars um það hve honum blöskri málflutningur minn sérstaklega um Sovétríkin og þeirra þjóðskipulag.
Við héldum hins vegar þessari línu alla tíð.

Sovéskir ráðamenn úti á túni

Ég hitti síðast fulltrúa sovéska kommúnistaflokksins í Moskvu árið 1988. Þá fór ég þangað sem ráðherra íþróttamála sem heyrðu undir menntamálaráðuneytið og hitti alla ráðherra íþróttamála í heiminum. Þú getur ímyndað þér hversu skemmtileg sú samkoma var.
Þar hitti ég menn úr flokknum sem ég hafði beðið um fund með og vildi fá þá til þess að útskýra fyrir mér hvernig þeir nálguðust kapítalisma. Þá kemur í ljós að þeir halda enn í nóvember 1988 að þeir séu að tala fyrir sigrandi heimshreyfingu sovétkommúnismans og spurðu mig hvort Alþýðubandalagið vilji ekki taka upp flokkspólitísk tengsl við sovéska kommúnistaflokkinn. Ég nefni þetta sem dæmi um hvernig menn voru í raun algerlega úti á túni til þess dags er múrinn hrundi yfir þá og allt þetta skipulag.
Ég tel að við innan Alþýðubandalagsins höfum ekki þaggað niður gagnrýni á fortíðina heldur þvert á móti leyft henni að blómstra og gert hana að flokksstefnu. Við reyndum að halda umræðunni málefnalegri, fara í málefnið en ekki manninn. Hinsvegar var alveg ljóst að nokkrir menn eins og Lúðvík og Einar voru á andstæðri skoðun við flokkslínuna og við þögguðum þaðniður af algeru miskunnarleysi.
Við Kjartan lásum yfir hvert einasta orð sem birtist í Þjóðviljanum á þessum árum – meira að segja minningargreinar en það kom aldrei svo langt að við fengjum greinar þar sem því var haldið  fram að flokkurinn ætti aftur að taka upp samstarf við flokka austan tjalds.  Þú mátt kalla þetta bæði ritskoðun og skoðanakúgun ef þú vilt..“
Í ævisögu þinni segir þú að ýmsir forystumenn Alþýðubandalagsins hafi „geipað um menn og málefni“ við austur þýska erindreka. Ég býst við að þessi samtöl Einars og Lúðvíks séu það sem þú ert að vísa til?
„Það er svo já. Ég er enn agndofa yfir sumu sem þeir létu sér um munn fara í þessum viðtölum. Ég fór með öll skjöl úr minni eigu á Þjóðskjalasafnið haustið 2013. Þar á meðal er diskur með öllum skjölum sem ég tók afrit af á þýska skjalasafninu og þar geta menn lesið vild sína.“

Menn sem stóðu á verði fyrir ásælni að austan

-Þú nefnir í ævisögu þinni að Hjörleifur Guttormsson, Kjartan Ólafsson og Hjalti Kristgeirsson hafi alltaf verið sérstaklega á verði gagnvart auknum samskiptum við austurblokkina. Hvernig stóðu þeir þann vörð?
„Sovéska fréttastofan APN var lengi vel inni á gafli á íslenskum blöðum. Við hentum þeim út.. Hjalti varð stundum var við „draugagang“ sem bent gæti til þess að austanmenn vildu taka aftur upp samskipti við flokkinn. Þá skrifaði hann ávallt greinar í Þjóðviljann gegn slíkum áformum. Austurland var kjördæmi Hjörleifs og sterkasta vígi flokksins á landsbyggðinni. Þar var Neskaupstaður höfuðborgin og þar réðu menn sem skildu ekkert í andúð okkar á tengslum við Sovétríkin og vildu gjarnan taka upp nánara samstarf. Hjörleifur stóð alltaf gegn því.
Þessir menn eru allir um 10 árum eldri en ég. Þeir sáu kommúnistaflokka í Evrópu rísa hátt eftir að hafa tekið þátt í að frelsa álfuna undan oki nasismans. Sá tími vakti víða von í hugum ungs fólks víða um álfur og þess vegna hefur þetta eflaust horft við þeim en öðrum hætti en mér. Ég sá aldrei heimskommúnismann sem eitthvert takmark og átti erfitt með að taka slíkar umræður alvarlega.
Ég var tólf ára Framsóknarmaður vestur í Dölum þegar byltingin í Ungverjalandi varð og þegar ég fór til Austur-Þýskalands til náms þá datt mér aldrei í hug að ég væri að fara þangað til að kynnast einhverju sérstöku sæluríki.“

Gramsað í skjalasöfnum Stasi og víðar

Svavar var við nám í Austur –Þýskalandi 1967-68 og fetaði þar í fótspor allmargra annarra íslenskra sósíalista sem sóttu þangað í nám. Honum varð fljótlega ljóst að námið var í sjálfu sér gagnslaust og margt sem við blasti í samfélaginu í Austur-Þýskalandi ekki honum að skapi.
Löngu seinna þegar múrinn var hruninn og samfélagsgerðin með lá leið hans austur til Berlínar til þess að rannsaka skjalasöfn STASI, hinnar alræmdu leyniþjónustu sem vakti yfir hverju skrefi samborgaranna þar austur frá. Hverju varstu að leita að?
„Mig langaði til þess að vita hvort til væru einhver skjöl um mig og svarið var já,það fannst lítill miði. Ég fór í Stasi safnið og þar reyndust hafa verið skjöl um svokölluð umferðarmál sem þýðir á mannamáli að haldin var skýrsla um ferðir mínar aðallega til Vestur-Berlínar. Svo var þarna spjald með ýmsum táknum og skammstöfunum. Þegar lesið var úr því kom meðal annars fram að menn töldu að ég hefði verið að vinna fyrir bandarísku leyniþjónustuna sem mér finnst enn dálítið skemmtilegt. Svo fór ég á þýska skjalasafnið DBA eða Deutsches Bundesarkiv og þar var talsvert að bréfum og bréfaskiptum milli íslenskra aðila og þýskra um marga ólíka hluti meðal annars málefni íslenskra námsmanna fyrir austan.
Íslenskir námsmenn þar eystra voru ýmist sendir af flokknum eða Alþýðusambandinu og þarna voru t.d. mikil samskipti milli Hannibals Valdimarssonar og þýskra embættismanna út af einhverjum sem Alþýðusambandið hafði sent. Undir lokin átti menntamálaráðuneytið meira að segja rétt á einhverjum plássum.
Þetta eru aðallega bréf um einstök persónuleg mál. Einhvern vantar húsnæði, annar borgar ekki það sem hann á að borga, einhver hefur tapað persónulegum eigum sínum í hendur óheiðarlegra manna. Svona uppáfallandi vandamál er rakin með bréfaskiptum milli ábyrgðarmanna heima, þýskra embættismanna, tengiliðar þýskra í hópi námsmanna, allt rakið af þýskri nákvæmni og samviskusemi og satt að segja alveg voðalega ómerkilegur tittlingaskítur.  Til dæmis man ég eftir bunka tengdan málarekstri vegna þess að ung kona íslensk við nám í Þýskalandi tapaði ýmsum „kvenlegum vörum“ sem ófáanlegar voru austan við tjald og taldi að þeim hefði verið stolið. Þarna var verið að þrasa um sokkabandabelti, nælonsokka og sitthvað fleira.
Ég man að ég sótti um marga skóla áður en þetta varð, meðal í Manchester og naut við það atbeina Ólafs Ragnars Grímssonar sem var við nám þar og vildi endilega að við kæmum. Við Nína, fyrri kona mín vorum komin með eitt barn þegar þetta var. Ég fékk já frá öllum skólum sem ég sótti um en svo fór ég að telja í veskinu og það var óttalega þunnt að vanda. Þá datt okkur í hug að reyna að komast austur og ég fór og talaði við Einar Olgeirsson. Hann hristi höfuðið og sagði að þetta væri heldur seint því það var liðið talsvert á sumarið 1967. En þetta gekk nú samt aðallega vegna þess að Einar skrifaði bréf um mig þangað austur og þvílíka lofrollu hef ég aldrei séð og roðna enn þegar ég hugsa um þetta. En þetta bréf fann ég meðal annarra í skjalasafninu góða.
Þarna voru auðvitað líka afrit af öllum bréfum varðandi praktísk atriði þessa máls um ferðir, húsnæði, styrki og þessháttar sem send voru út um allt í kerfinu og kalkipappírsafritin hlaðast upp af þýskri nákvæmni.

Manni leið eins og í fangelsi

Síðan þegar ég gafst upp á þessu námi ef nám skyldi kalla og fór að leggja drög að því um áramót að fara heim um vorið.
Mér fannst ekki gott að vera þarna og hafði reyndar ekki gert ráð fyrir því. Múrinn með sínum 60 varðturnum, vopnuðu hermönnum með hunda fyllti svo algerlega mælinn. Manni leið eins og í fangelsi. Ég sagði einu sinni eins og í tilraunaskyni á einhverjum bar að Walter Ulbricht væri idjót. Ég var kallaður á fund með eftirlitsmanni mínum strax daginn eftir og spurður hvað ég hefði átt við með þessum orðum á þessum stað klukkan þetta. Þetta lögregluríki þoldi ég ekki.
Mér fannst margt sem kennt var þarna t.d. í hagfræði vera botnlaus della en ég velti því aðeins fyrir mér að skipta um námsgrein og læra eitthvað annað. En þetta var vorið 1968, vorið í Prag og ég var á sífelldum þvælingi yfir til Vestur-Berlínar og tók þátt í mótmælum þar milli þess sem ég las prófarkir fyrir Kristinn E. Andrésson að úrvalsritum Marx og Lenín og gerði í rauninni ekkert annað. Svo kom ég heim um vorið og fór að vinna á Þjóðviljanum og var þar þegar innrásin var gerð í Tékkóslóvakíu um sumarið.“

Stjórnmálamenn til framtíðar

-Einar Olgeirsson taldi alltaf að hann væri að mennta framtíðarstjórnmálamenn með því að senda þá austur til náms var ekki svo?
„Jú það er alveg rétt. Þeir sem fóru þarna austur voru sumir dúxar úr sínum skólum eins og Þór Vigfússon, Hjalti Kristgeirsson og Árni Bergmann. Stundum voru þeir að sækja í nám sem erfitt var að komast í hér heima eins og þeir sem sóttu í listnám á sviði kvikmyndagerðar austur til Póllands og Tékkó. Þetta var fólk eins og Magnús Jónsson, Þrándur Thoroddsen og Þorgeir Þorgeirsson og Ingibjörg Haraldsdóttir.
Þarna má ekki gleyma því að þetta var ókeypis háskólanám og menn fengu að auki styrk eða stipendium sem var ekki sérlega hátt þá var hægt að skrimta á því.
Hjörleifur Guttormsson sagði að eina vitið væri að læra einhverjar greinar þar sem ekki væri svigrúm fyrir pólitík.  Hann lærði náttúrufræði og margir sem fóru austur fóru að þessu og lærðu verkfræði eða skyldar greinar og fengu þannig ágæta menntun fyrir lítinn pening. Þetta segir líka Angela Merkel sem ólst upp í Austur-Þýskalandi og lærði efnafræði. “

Þú átt að vera bestur þar sem þú ert

-Þegar maður lítur til baka til ára hins kalda stríðs þá sér maður tvískipt samfélag, svart og hvítt, blátt og rautt, heitt og kalt. Einn hinna dugmiklu baráttumanna sem var virkur í Fylkingunni í lok sjötta  áratugarins sagði mér einu sinni að menn hefðu talið að hin raunverulega barátta um fylgi alþýðunnar færi fram í grasrótinni, meðal fólks í félögum en síður í stjórnmálaflokkum. Hann sagði að félagar úr Fylkingunni hefðu í anda þessarar hugmyndafræði dreift sér skipulega um samfélagið, hver hefði tekið að sér eitt félag þar sem áhugi hans lá og reynt að vinna málstað sínum gagn þar. Kannast þú við þessa verklýsingu?
„Þetta voru viðtekin vinnubrögð á þessum árum. Við- í merkingunni Alþýðubandalagið eða Æskulýðsfylkingin - vildum að sjálfsögðu eiga fólk eða fulltrúa alls staðar þar sem því yrði við komið. Meginstefnan var að maður átti að standa sig vel í sínu stykki og sinna af trúmennsku því sem manni var falið. Þú átt að vera bestur í þínu félagi og skara þar fram úr öðrum á forsendum þess félags.
Þetta var auðvitað okkar leið til þess að sækja fram en ekki síður vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn var með alla Íslendinga á skrá og við vildum gera allt til þess að verjast þeim og vernda okkar fólk.  Þegar t.d. var stofnað fyrirbæri sem hét Æskulýðssamband Íslands í kringum 1960. Þar áttu að vera aðilar öll félög ungs fólks þar á meðal ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka nema hvað Æskulýðsfylkingunni var ekki ætlað sæti þar. Við gerðum það að okkar keppikefli að komast þar inn. Við komumst þangað inn fyrst Gísli B. Björnsson og svo ég. Þá einsettum við okkur að standa okkur betur en allir aðrir. Þetta hefur alltaf fylgt okkar félögum. Ef þú horfir yfir völlinn og sérð hvar íslenskir vinstrimenn hafa haslað sér völl í ýmsum félögum þá sérðu þá víða skara fram úr. Ekki bara til þess að breiða út málstaðinn heldur til þess að vera trúverðug og trausts verð.“

Við vorum í vörn- þeir höfðu lyklavöldin

-Þetta skipulag sem þú lýsir kom skýrt fram í ævisögu Gunnars Thoroddsen þar sem mjög vel skipulögðu kerfi Sjálfstæðisflokksins er lýst. Vissuð þið á þessum árum hve vel uppbyggt þetta kerfi var?
„Já við töldum okkur vita það og gerðum ráð fyrir því. Svo fannst mér þetta endanlega vera staðfest í þessari skrýtnu bók Styrmis Gunnarssonar sem kom út á síðasta ári þar sem hann segir frá njósnastarfi sínu. Mér fannst þetta reyndar svo barnalegt að það tekur engu tali; eiginlega fyndið. Að menn skyldu stunda njósnir í samfélagi sem var svo fámennt að það var engin leið að snúa sér við án þess að allir vissu það er algerlega kostulegt.
Munurinn á okkur og þeim var sá að Sjálfstæðisflokkurinn hafði á þessum árum öll völd í íslensku samfélagi og ofurvald flokksins á íslensku samfélagi allar götur frá 1930 til aldamóta er með hreinum ólíkindum.  Flokkurinn átti alla sýslumenn, forystumenn allra samtaka atvinnulífsins svo fátt eitt sé nefnt og það var gegn þessu kerfi sem við vorum af veikum mætti að berjast. Við vorum í vörn; þeir höfðu lyklavöldin, þeirra múr var að vísu ósýnilegur sem veggur en þeir reyndu að loka okkur af.
Á vefsíðu sem birtir gögn úr fórum Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra er m.a. að finna snifsi þar sem rithöfundar eru flokkaðir eftir stjórnmálaskoðunum. Svo víðtækt var þetta kerfi og við vissum vel hvernig þetta var og reiknuðum með því. Við nýttum okkur stundum þetta kerfi því við vorum þeir hættulegu og því mjög mikilvægt að við kæmumst hvergi í valdastöður eða forystu. Þess vegna var það að ef okkar fólk var að skipuleggja eitthvað sem hafði ekkert með pólitík að gera þá var þess gætt að fá einhverja úr þeirra röðum  til þess að leiða verkefnið svo ekkert yrði gert tortryggilegt. Ég held að t.d. Samtök um byggingu tónlistarhúss sé ágætt dæmi. Þar voru duglegir vinstri menn sem skipulögðu og unnu starfið en voru lítt sjáanlegir í forystunni.
Þegar ég var í félagi róttækra stúdenta í Háskólanum í kringum 1960 þá fengum við eftir langa baráttu ráðið því hver væri ræðumaður á 1. des samkomu stúdenta. Okkar maður var Sigurður Líndal sem átti að tala um varðveislu þjóðernis. . Með þessu og fleiru rugluðum við raðirnar hjá íhaldinu því allir vissu um skoðanir hans. Þetta var algeng taktík á þessum árum.“
-Þegar þú svo lest það í bók Styrmis að hann hafi átt flugumann í röðum Alþýðubandalagsmana

sem hafi reglulega gefið honum skýrslur gegn greiðslu, kom þér það á óvart?
„Það er misjafnt hvað menn taka sig hátíðlega. Stundum heyrðum við brak og smelli í símanum og þá gerðum við grín að því að verið væri að hlera. Ég átti persónulega erfitt með að taka slíkt alvarlega en margir félaga minna gerðu það og hegðuðu sér eftir því.

Neðanjarðarhugsunarháttur

Svona neðanjarðarhugsunarháttur var þekktur meðal gömlu kommúnistanna. Fólk af kynslóð foreldra minna fór til náms austur til Moskvu undir dulnefni. Ótti við valdastéttina var útbreiddur á Íslandi og allar götur til okkar daga. Einar Olgeirsson talaði oft um að hitt eða þetta þyrfti að geyma vel og fáir mættu sjá af því að hann óttaðist andstæðingana og að þeir kæmu höggi á okkar fólk, rækju fólk úr vinnu eða neituðu því um vinnu og svo framvegis. Það var eðlilegt miðað við það umsátursástand sem ríkti á kaldastríðs tímanum.
Morgunblaðið og Styrmir fengu upplýsingar um það sem var að gerast í Alþýðubandalaginu meðan átökin við Hannibal voru hvað hörðust og hann skrifar greinar sem blaðamaður um það sem var að gerast.  Við töldum þá að hann hefði þetta innan úr fjölskyldunni, frá tengdafólki sínu, en hann hefur neitað því.
Svo eftir að þessum kafla er lokið og Hannibal farinn úr Alþýðubandalaginu og Ólafur Ragnar fer að breiða út átakakenningu sína um innanflokksmál Alþýðubandalagsins þá fara mál aftur að leka inn í Morgunblaðið. Stundum birtust í blaðinu ótrúlega nákvæmar upplýsingar um það sem hafði verið rætt á fámennum fundum í útgáfufélagi Þjóðviljans. Fyrir vikið held ég því fram að Styrmir Gunnarsson hafi verið einn af mestu áhrifamönnum Alþýðubandalagsins um árabil og stend við það. Þar var fólk sem nýtti sér tengslin við Styrmi til þess að slást við okkur og þannig voru búnar til kenningar um flokkeigendafélag og bandamenn Einars Olgeirssonar og Moskvu. Áður en við varð litið vorum við orðnir hluti af einhverjum veruleika með orðaleppum sem íhaldið bjó til og notaði í sínu stríði. Það var sárt að sjá félaga nota slíka umræðu til að koma höggi á okkur.

Ameríska heimsveldið gerandi í íslenskum stjórnmálum

Hér var háð stríð þar sem ameríska heimsveldið var gerandi í íslenskum stjórnmálum með óbeinum og beinum hætti. Þeir reyndu að halda því fram að við Alþýðubandalagsmenn værum með peninga frá Rússunum sem var náttúrulega lýgi og hreint kjaftæði. Ef einhver fékk pening frá Rússlandi þá voru það Bifreiðar og landbúnaðarvélar sem voru einn af máttarstólpum fjármálaráðs Sjálfstæðisflokksins. Völd Sjálfstæðisflokksins voru alls staðar og líka þarna. Þegar ég varð viðskiptaráðherra 34 ára gamall skrifaði ég grein um átökin og árásina á lýðræðið í Tékkóslóvakíu 1968. Þá komu til mín forustumenn í atvinnurekendasamtökunum sem jafnframt voru í Sjálfstæðisflokknum og ráðlögðu barninu í fullri vinsemd að skrifa ekki svona. Þeir voru að gæta hagsmuna þeirra fyrirtækja sem voru í viðskiptum við Sovétríkin.
Margir töldu að þróunin í Tékkóslóvakíu myndi á endanum leiða til sósíalísks ríkis þar sem lýðræði væri í raun við völd. Þegar sú hreyfing var á bak aftur brotin með vopnavaldi þá urðu það fyrir mörgum ekki aðeins vonbrigði heldur ákveðin kaflaskil og þaðan í frá var ekki hægt að gera ráð fyrir því að Sovétríkin eða neitt á þeirra vegum væru liðsmenn í baráttunni fyrir sósíalisma í heiminum.
Fram að því héldu margir að það mætti bæta þetta þjóðskipulag en sú von brást 1968.“

Heimdallur stal ritgerðunum og frumkvæðinu frá okkur

-Nú liggur fyrir að margir sem fóru til náms austur fyrir tjald sáu með eigin augum hve slæmt ástandið var. Samt gengu þeir ekki fram fyrir skjöldu þegar heim kom og vöruðu við þessari þróun. Heldur þú að menn hafi í sumum tilvikum verið klemmdir milli tryggðar við flokkshreyfinguna heima og þess sem þeir höfðu upplifað á eigin skinni og þess vegna þagað í þágu flokksins?
„Ég held að þetta hafi verið þannig að menn hafi viljað að hreyfingin leysti þetta með þeim. Ég held að menn hafi frekar viljað að flokkurinn breytti sínum áherslum og stefnumálum frekar en þeir persónulega. Mér virðist sem að það hafi að nokkru leyti tekist með því að slíta tryggðabönd við Sovétríkin en á sama tíma halda í þá von sem menn sáu í þessari stjórnmálastefnu. Allt gerðist þetta í raun og veru 1968 og gerði sumum þessara manna og okkur líka kleift að starfa fyrir Alþýðubandalagið.
Sín á milli skrifuðu margir námsmanna austan við tjald algerlega frábærar greinar og gagnrýni á þjóðskipulagið sem við blasti. Þessum bréfum og skýrslum lét Heimdallur stela og gaf út á bók sem hét Rauða bókin og er hið merkasta plagg og analýsa á ástandinu fyrir austan. Það er haft eftir Einari Olgeirssyni að hann vildi að þessum skýrslum yrði brennt og það var notað í auglýsingum. Ég held að Einari hafi fallið þyngra sú staðreynd að þessi bréf kæmust í hendur íhaldsins en sú gagnrýni sem í þeim fólst.“
-Hefði ekki verið betra að þessi mál hefðu komið upp á yfirborðið með öðrum hætti en sem skotfæri í þessum skotgrafahernaði kalda stríðsins?
„Sennilega hefði það verið betra. En svona er þetta stundum: Heimdallur stal ritgerðunum og frumkvæðinu frá okkur!

Kerfið hrundi innan frá

   Horfandi yfir þetta svið er ljóst: Sovétríkin og þeirra kerfi hrundi aðallega af því að stefna þeirra í efnahagsmálum gekk ekki upp. Allsherjarmiðstýring leiðir til hruns. Þetta hafa þeir séð í Kína þar sem komið hefur verið á eins konar kapítalísku flokkseinræði þar sem flokkurinn ræður öllu en efnahagslífið hefur þróast á kapítalískum forsendum. Undir  það síðasta var austur-þýska stjórnin svo illa haldin efnahagslega að hún bauðst til að rífa niður múrinn gegn lánveitingum að vestan. Kerfið var hrunið innan frá. En hugsjónin um betra þjóðfélag sósíalisma, jafnréttis, lýðræðis og sjálfbærrar stefnu í efnahagsmálum, grænt þjóðfélag er enn á sínum stað og verður alltaf. Og baráttan heldur áfram því stéttabaráttan er í fullu gildi þar sem eru átök þeirra ríku og þeirra fátæku. Og svo ég leyfi mér nútíð í þessu fortíðarsamtali: Jöfnuður fer minnkandi – þar liggja ástæður þess að það er ófriðvænlegra í heiminum núna en lengi áður. Barátta fyrir jöfnuði er því barátta fyrir friði.“

 

 

Tags

More News